Eins einfalt og það lítur út fyrir að vera

Eittaegsamt-scaledÍ heimsfaraldrinum hef ég haldið mig heima við, og þá hefur gefist tími til að lesa ýmsar ágætar bækur. Ein þeirra er sjálfsævisaga Árna Bergmanns, Eitt á ég samt, sem kom út fyrir nokkrum árum. Hún er lipurlega skrifuð eins og vænta mátti.

Árni fór ásamt Arnóri Hannibalssyni til náms í Moskvu 1954. Í sjálfsævisögunni segir hann frá því (bls. 110), að á útmánuðum 1956 hafi tveir römmustu stalínistar Íslands, Kristinn E. Andrésson, forstjóri bókafélagsins Máls og menningar, og Eggert Þorbjarnarson, framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, komið til Moskvu í því skyni að sitja þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Þeir Árni og Arnór hafi heimsótt þá á gistihús og talið borist að ömurlegu hlutskipti Eystrasaltsþjóðanna þriggja, Eistlendinga, Letta og Litháa. Kremlverjar höfðu hertekið lönd þeirra, barið niður alla andstöðu og flutt marga frammámenn í gripavögnum til Síberíu. Eggert hafi neitað að trúa frásögnum íslensku stúdentanna um ástandið í Eystrasaltslöndum, en Kristinn tekið þeim betur, enda hafi hann fengið svipaðar upplýsingar frá íslenskum sjómanni, sem siglt hafi á Ventspils í Lettlandi. „Já, ég veit, að þetta er rétt hjá strákunum,“ sagði Kristinn.

Árni bætir við: „Ég segi frá þessu hér, m. a. vegna þess að ekkert er eins einfalt og það lítur út fyrir að vera í skrifum manna eins og Hannesar H. Gissurarsonar og Þórs Whitehead.“ En hvað er Árni í rauninni að segja með þessari sögu? Hann er að segja, að Kristinn hafi gert sér að minnsta kosti nokkra grein fyrir kúguninni í Ráðstjórnarríkjunum. Samt barðist Kristinn ótrauður alla ævi fyrir því að koma á svipuðu kerfi á Íslandi og stóð þar eystra. Skoðun hans breyttist ekki hið minnsta eftir þetta samtal. Yrði Sovét-Ísland, óskalandið, ekki til með góðu, þá með illu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júlí 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband