11. nóvember 1918

Á sunnudag eru hundrað ár liðin frá því að fulltrúar Þýskalands, Frakklands og Bretlands undirrituðu samning um vopnahlé í Compiègne-skógi í Norður-Frakklandi. Norðurálfuófriðnum mikla, sem staðið hafði frá hausti 1914, var lokið eftir óskaplegar mannfórnir. Áður en stríðið skall á, hafði verið friður í álfunni í heila öld. Menn gátu ferðast án vegabréfa um álfuna þvera og endilanga nema til Rússaveldis og Tyrkjaveldis. Ríkisvaldið virtist þá vera lítið annað en vingjarnlegur lögregluþjónn á næsta götuhorni. Allt þetta breyttist í ófriðnum. Mannkynið virtist heillum horfið. „Mér blæddi inn,“ sagði ungur, íslenskur rithöfundur, sem getið hafði sér orð í Danmörku, Gunnar Gunnarsson.

Segja má, að til séu tvær hugmyndir um söguna. Hún sé eins og drukkin könguló, sem flækist milli þráða í neti sínu, eða eins og járnbrautarlest, sem renni á teinum frá einum stað á annan. Fyrri hugmyndin virðist eiga vel við um Norðurálfuófriðinn mikla. Hann var stórslys, alls ekki óhjákvæmilegur. Kveikjan að honum var, að 28. júní 1914 myrtu serbneskir þjóðernissinnar ríkisarfa Austurríkis og konu hans í Sarajevo, sennilega að undirlagi serbnesku leyniþjónustunnar. Banatilræðið hefði ekki þurft að takast. Margt hefði getað komið í veg fyrir það.

Vissulega þráðu Frakkar hefnd eftir ósigur sinn fyrir Þjóðverjum 1871 og stukku á fyrsta tækifærið. Ef til vill voru Rússar líka svo skuldbundnir Serbum, að þeir urðu að liðsinna þeim, þegar Austurríki og bandamenn þess vildu hefna morðsins á ríkisarfanum. En hvers vegna í ósköpunum fór Stóra-Bretland í stríðið? Það voru reginmistök. Ef einhver svarar því til, að Bretar hafi verið skuldbundnir Belgíu (sem Þjóðverjar réðust á í sókn sinni til Frakklands), þá má benda á, að Bretar voru líka skuldbundnir Póllandi 1939 og sögðu Ráðstjórnarríkjunum þó ekki stríð á hendur, þegar Rauði herinn réðst inn í Pólland 17. september. Hefðu Bretar ekki farið í stríðið 1914, þá hefðu miðveldin, Austurríki og bandamenn þess, ekki verið lengi að sigra Frakka og Rússa. Stríðið hefði orðið stutt. Þess í stað var það ekki til lykta leitt, fyrr en Bandaríkjamenn gerðu sömu mistök og Bretar á undan þeim og fóru í stríðið. Afleiðingarnar urðu alræði kommúnista og nasista í Rússlandi og Þýskalandi. Vorið 1940 voru aðeins sex lýðræðisríki eftir í Norðurálfunni, Stóra-Bretland, Írland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss, og áttu undir högg að sækja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband