Óvönduð vinnubrögð Marinós G. Njálssonar

Marinó G. Njálsson hefur birt athugasemdir við skýrslu mína um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, þótt hann viðurkenni, að hann hafi ekki lesið hana, aðeins íslenskan útdrátt úr henni. Furða ég mig á því, hvað mönnum gengur til, sem taka til máls opinberlega og hinir hróðugustu án þess að hafa kynnt sér umræðuefnið. Hér mun ég leiðrétta Marínó lið fyrir lið. Áhugasamir lesendur geta borið staðhæfingar Marinós og svör mín saman og flett upp í skýrslu minni:

  1. Marinó bendir á, að beiting hryðjuverkalaganna sé ekki áhrifaþáttur í falli Glitnis og Landsbanks, því að þeir bankar hafi verið fallnir, áður en þau voru sett að morgni 8. október. Það er alveg rétt, enda segi ég það hvergi, sem hann leggur mér í munn. Af hverju gerir hann mér upp skoðanir? Hér hefði Marino betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó segir: „Bretar sökuðu Kaupþing ekki um ólöglega flutninga fjármagns frá Bretlandi til Íslands, heldur flutninga sem voru á skjön við fyrirheit.“ Þetta er rangt hjá Marinó. Þeir Alistair Darling og Gordon Brown sökuðu báðir Kaupþing um ólöglega flutninga fjármagns til Íslands. Margar tilvísanir eru í skýrslu minni og raunar líka í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Darling segist til dæmis sjálfur hafa sagt Geir H. Haarde þetta í símtali þeirra 3. október 2008. „I told the Icelandic prime minister that it appeared that large sums of money had been taken out of the UK from the Kaupthing branches, which was a serious breach of FSA regulations. The FSA had to find out by the end of the afternoon whether or not that breach had taken place. If it had, they would close the bank.“ (Sjá 77. bls. í skýrslu minni.) Brown sagði Geir í símtali þeirra 5. október, að svo virtist sem ólöglegir fjármagnsflutningar frá KSF til Kaupþings næmu ekki 600 milljónum punda, heldur 1,6 milljónum punda. (Sjá 80. bls. í skýrslu minni.) Á blaðamannafundi 12. nóvember sagði Brown: „There was an issue about money that had been taken out of London and returned to Iceland and we wanted back in London.“ (Sjá 92. bls. í skýrslu minni.) Í skýrslu minni er vitnað í skýrslu RNA um allt þetta, en jafnframt ræddi ég margoft um þetta við þá Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen, sem tóku við símtölunum frá breskum ráðamönnum. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Marinó heldur því fram, að bankarnir hafi verið löngu fallnir, svo að neitun Danske Bank á fyrirgreiðslu í sambandi við sölu á norska Glitni hafi ekki skipt neinu máli. Hann má hafa þessa skoðun, og eðli málsins samkvæmt er erfitt að sanna hana eða hrekja. En hann fullyrðir allt of mikið, þegar hann talar um „svikamyllu“ í kringum Kaupþing í Bretlandi. Bankinn sætti rækilegri rannsókn árum saman í Bretlandi, en ekkert misjafnt fannst um KSF, dótturfélag Kaupþings. Ég vitna einmitt í skýrslu minni í ummæli breskra blaðamanna, eftir að stjórnvöld urðu að gefast upp á rannsókn sinni, og töldu þeir þetta mikla sneypuför. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó heldur því fram, að sú staðreynd, að KSF var gjaldfær og traustur banki, þótt Bretar hafi lokað honum, skipti engu máli um bankahrunið. En lokun KSF felldi einmitt Kaupþing! Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar. Marinó er ekki fyrsti maðurinn, sem vill, að ég skrifi um eitthvað annað en ég hef áhuga á að skrifa um.
  1. Ég er út af fyrir sig sammála Marinó um, að vogunarsjóðir réðu ekki úrslitum. En Marinó virðist ekki vera kunnugt um skýrslu, sem Deloitte gerði að ósk slitastjórnar Landsbankans, en hún sýndi, að Icesave-féð var að langmestu leyti notað í Bretlandi, fyrst í fjárfestingar og síðan í endurfjármögnun þessara fjárfestinga. Það var ekki notað í ný lán til eigenda stærsta hlutarins í bankanum. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó virðist gleyma því, að hagur UBS, stærsta banka Sviss, var svo bágborinn, að honum varð að bjarga tvisvar, einu sinni fyrir fjármálakreppuna og í henni sjálfri. Spurningin er, hvers vegna Sviss fékk aðstoð, en ekki Ísland. Bandaríkjamenn munaði ekki um veita Íslandi aðstoð, sem um munaði. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Marinó hefur rangt fyrir sér, að Rússalánið hefði ekki skipt máli um bankahrunið. Tilboðið um það kom, áður en Kaupþing féll. Hugsanlega hefði Kaupþing bjargast, hefði lánið verið veitt. Áhlaupið á það hefði stöðvast og stjórnvöld sefast. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína og kynnt sér tímalínu atburða.
  1. Hér hefur Marinó rangt fyrir sér. Auðvitað hafði það áhrif á stærð gjaldþrota bankanna, umfang bankahrunsins, að eignir voru sums staðar hirtar á smánarverði. Ég hefði raunar einmitt verið beðinn sérstaklega að kanna þetta mál.
  1. Hér hefur Marinó rangt fyrir sér. Brunaútsölur voru engin söguleg nauðsyn, enda fóru þær ekki fram í Svíþjóð og Bretlandi, svo að dæmi séu tekin. Brunaútsölurnar fóru fram í Noregi, Finnlandi og Danmörku, af því að stjórnvöld þar knúðu þær fram, eins og fram kemur í skýrslu minni. Hér hefði Marinó betur lesið hana.
  1. Ég treysti mér ekki til að hafa eindregna skoðun á því, hvort íslenska bankakerfið hafi átt fyrir skuldum, hefði það fengið lausafjárfyrirgreiðslu, eins og fram kemur í skýrslu minni. Ég er hins vegar sammála fjármálafræðingunum Ásgeiri Jónssyni og Hersi Sigurgeirssyni í þeirra vönduð bók um það, að eignasöfn íslensku bankanna voru líklega hvorki verri né betri en eignasöfn erlendra banka almennt séð.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Marinó hefur rangt fyrir sér. Gögn er að finna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um tillögur seðlabankastjóranna, og vitna ég í þau í skýrslu minni á 183. bls. Þau eru í 6. bindi, 19. kafla: um flutning Kaupþings, bls. 122 og 124, um færslu Icesave-reikninga úr útbúi í dótturfélag, bls. 124; um sölu norska Glitnis, bls. 256–7. Eins og oft hefur komið fram, varaði Davíð Oddsson líka opinberlega við útþenslu bankanna í ræðu sinni á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007. Í skýrslu minni er einnig sagt frá fjölda funda, þar sem seðlabankastjórarnir vöruðu við, allt frá nóvember 2005. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó hefur rangt fyrir sér. UBS, RBS og Danske Bank hefðu allir fallið, hefðu þeir ekki fengið lausafjárfyrirgreiðslu frá seðlabönkum landa sinna, og þeir seðlabankar hefðu ekki getað veitt þessa lausafjárfyrirgreiðslu, hefðu þeir ekki getað gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann. Þetta eru alkunnar staðreyndir. Ég vitna í skýrslu minni í ótal gögn um þetta, en bendi Marinó um Danske Bank meðal annars á bókina Andre folks penge: Historien om den danske finanskrise eftir Niels Sandøe og Thomas Svaneborg. Það er hins vegar rétt, að Ísland hefði þurft hlutfallslega miklu meiri lausafjárfyrirgreiðslu en flest önnur ríki (ef til vill að Skotlandi undanteknu, ef horft er á það sem ríki).
  1. Marinó er hér að andmæla niðurstöðu þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, sem ég vitna í. Hann vissi þetta auðvitað ekki, af því að hann hafði ekki lesið skýrslu mína. Hefði hann betur gert það.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband