Höfn, apríl 2023

HHG.ofl.15.04.2023Næststærsta borg Portúgals, sem Fjölnismenn kölluðu Hafnarland, er Porto, Höfn. Miðbærinn við sjóinn er fallegur og notalegur. Hér var ég beðinn að segja nokkur orð 15. apríl um æskilegustu þróun Evrópusambandsins. Ég kvað stofnun þess hafa verið af hinu góðu. Frakkar og Þjóðverjar smíðuðu plóga úr sverðum og eins auðvelt varð að fara yfir landamæri og fyrir 1914, þegar ekki þurfti vegabréf til að komast leiðar sinnar um Norðurálfuna, nema ferðinni væri heitið til afturhaldsríkjanna, Tyrkjaveldis soldánsins eða Rússaveldis keisarans. En síðustu áratugi hefði Evrópusambandið smám saman verið að breytast úr ríkjasambandi (confederation) í sambandsríki (federation). Aðildarríkin væru að færa sífellt meira vald í hendur umboðslausra skriffinna í blekiðjubákninu í Brüssel. Þessari þróun þyrfti að snúa við. Færa þyrfti fullveldið, yfirráð eigin mála, aftur frá Brüssel til einstakra ríkja.

Nú sagði helsti postuli Evrópusambandshugsjónarinnar, Luigi Einaudi, að Þjóðabandalagið hefði misheppnast, því að það hefði ekki haft neitt framkvæmdarvald og engan her. En Atlantshafsbandalagið gegnir með prýði því hlutverki að verja Evrópu. Ég benti hins vegar á fordæmi um eðlilegt samstarf ríkja. Norðurlönd hefðu viðurkennt rétt til aðskilnaðar, þegar Norðmenn sögðu skilið við Svía 1905, Finnar við Rússa 1917 og Íslendingar við Dani 1918. Landamæri hefðu verið færð til milli Danmerkur og Þýskalands eftir atkvæðagreiðslur í umdeildum landamærahéruðum 1920. Sérstökum hópum hefði verið tryggð sjálfstjórn, Álandseyingum í Finnlandi og Færeyingum í Danmörku. Og Norðurlandaráð hefði verið vettvangur samráðs og menningarsamvinnu, jafnframt því sem vegabréfa væri ekki lengur krafist milli norrænu ríkjanna og vinnumarkaður væri sameiginlegur, án þess þó að fullveldi einstakra ríkja hefði verið skert að ráði. Ekki mætti heldur gleyma því, að Norðurlönd voru í vel heppnuðu myntbandalagi frá 1873 til 1914.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. apríl 2023.)


Ný sýn á gamalt mál

Gustaf_af_Wetterstedt_av_NordgrenHér hef ég tvisvar vikið að því, þegar fulltrúi Svía í friðarsamningum við Dani í Kíl í janúar 1814, Wetterstedt barón, virtist hafa trúa því, sem danski fulltrúinn, Edmund Bourke, sagði honum, að Grænland, Ísland og Færeyjar hefðu aldrei tilheyrt Noregi. Þessar Atlantshafseyjar hefðu þess vegna verið undanskildar, þegar Danir létu Noreg af hendi við Svíþjóð. Fræðimenn hafa efast um þessa skýringu, því að hún sé með ólíkindum. Þeir hafa sumir talið (þó án nokkurra heimilda), að Bretar hafi ráðið úrslitum. Þeir hafi ekki viljað hafa öflugt ríki nálægt sér í Norður-Atlantshafi.

Nýlega rakst ég á bréf til danska utanríkisráðherrans frá sendiherra Dana í Stokkhólmi, Hans Krabbe-Carisius, 16. febrúar 1819. Þar var skýrt frá samtali sænska utanríkisráðherrans, Engeströms greifa, og breska sendiherrans, Strangfords lávarðar. Engeström sagði, að auðvitað hefðu þessar eyjar upphaflega tilheyrt Noregi, en Wetterstedt hefði látið blekkjast af Bourke. Þá mælti Strangford: „Það er svo! En á hverju reisið þér kröfu yðar um, að þessum eyjum verði skilað?“ Engeström svaraði: „Á mótmælum norska Stórþingsins við því, að þær skyldu hafa verið undanskildar.“

Þessi heimild sýnir, að Wetterstedt lét blekkjast. En var Bourke að blekkja hann? Ef til vill átti hann við það, að Ísland hefði að minnsta kosti aldrei tilheyrt Noregi, heldur hefðu Íslendingar gengið á hönd Hákoni Noregskonungi árið 1262, ekki Norðmönnum. Hinir réttu erfingjar þess konungs sætu í Kaupmannahöfn, ekki Stokkhólmi. Það kann síðan að vera rétt, að Bretar hafi ekki haft áhuga á að fá Svía inn á Norður-Atlantshaf. En aðalatriðið var, að Svíar sjálfir höfðu ekki áhuga á því, enda áttu þeir fullt í fangi með að tryggja hagsmuni sína við Eystrasalt. Saman fór fernt, hálfur sannleikur úr munni Bourkes, vanþekking Wetterstedts, áhugaleysi Breta og Svía um Ísland og vanmáttur Noregs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.)


Bloggfærslur 23. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband