Tjörvi Schiöth um landsdómsmálið

Þórarinn Hjartarson tók við mig hressilegt viðtal í hlaðvarpi sínu, og er helmingurinn aðgengilegur án endurgjalds, en hinn helmingurinn krefst áskriftar. Þar ber Þórarinn upp ýmis sjónarmið vinstri manna. Þegar hann vakti athygli á þessu á Facebook-vegg sínum, kom fram maður að nafni Tjörvi Schiöth og sagði:

Hver nennir að hlusta á HHG nema hörðustu hægrimenn og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins?

Ég svaraði:

Þetta á ekki að snúast um manninn, heldur um röksemdirnar, sem hann færir fram.

Tjörvi svaraði:

Það hafa allir heyrt þínar röksemdir margoft áður. Þú ert búinn að vera að halda þeim fram í hartnær 30 ár.

Þá svaraði ég:

Þessi bók er ekki um stjórnmálaskoðanir mínar, sem ég hef haldið fram í fimmtíu ár, ekki þrjátíu, heldur um landsdómsmálið, og þar bendi ég á ýmsar áður ókunnar staðreyndir og sjónarmið. Meðal annars held ég því fram, að lögmál réttarríkisins hafi verið brotin: In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn (vafi hafi verið á túlkun stjórnarskrárákvæðis, sem Geir var talinn brjóta); Nullum crimen sine lege, enga sök án laga (lögum var beitt afturvirkt til að geta sakað Geir um vanrækslu); Ne bis in idem, ekki aftur hið sama (rannsóknarnefnd Alþingis hafði rannsakað sum ákæruatriðin og ákveðið að gera þau ekki að ásökunarefnum). Jafnframt leiði ég rök að því, að einn dómandinn í Hæstarétti hafi tvímælalaust verið vanhæfur af mörgum samverkandi ástæðum, en tveir aðrir líklega einnig vanhæfir. Þetta er ekkert, sem ég hef sagt í þrjátíu ár, ekki einu sinni í þrjú ár, heldur í fyrsta skipti í þessari bók.

Í Facebook-síðu sinni segist Tjörvi þessi stunda nám í hugmyndasögu í Háskóla Íslands. En hann virðist ekki hafa neinn áhuga á hugmyndum, heldur búa í einhverjum bergmálsklefa. Með því þrengir hann auðvitað eigin sjóndeildarhring. Um slíka menn orti Steinn Steinarr:

Þá brá ég við

og réði mann til mín

sem múraði upp í gluggann.

Það er greinilega múrað upp í alla glugga í bergmálsklefanum hjá Tjörva.


Lilja Rafney um landsdómsmálið

Lilja Rafney Magnúsdóttir var einn þeirra þingmanna, sem greiddu atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde fyrir landsdómi. Hún vildi ekkert við mig tala, þegar ég skrifaði bók mína um landsdómsmálið, en hún skrifaði nýlega athugasemd í umræðum á Facebook-vegg Stefáns Pálssonar, sem hafði haldið því fram, að ákæran hefði ekki verið neitt sérstakt kappsmál Vinstri grænna:

Góð greining á veruleikanum á þessum tíma Stefán Pálsson Þar sem ég sat með Atla í viðkomandi þingnefnd og öll rök færustu lögspekinga sem komu fyrir nefndina voru skýr að mál viðkomandi ráðherra ættu að fara í réttan farveg sem lög um ráðherraábyrgð gera ráð fyrir það er Landsdóm. Margir hafa lagt lykkju á leið sína til að endurskrifa söguna í pólitískum tilgangi því miður.

Ég svaraði henni:

Það var auðvitað furðulegt, eins og ég bendi á í bók minni, að þið í þingmannanefndinni skylduð bæta við þremur sakarefnum (stjórnarskrárbroti fjögurra ráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu á sakamannabekk og Icesave-málinu hjá Árna M. Mathiesen) án þess að gera neina rannsókn á þeim. Rannsóknarnefnd Alþingis hafði einmitt tekið allt þrennt til athugunar og horfið frá ásökunum um þau. Af hverju bættuð þið þeim við og með hvaða rökum? Og það voru ekki „öll rök færustu lögspekinga“, að það ætti að ákæra. Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, taldi ekki forsendur til að ákæra, og í rauninni staðfesti landsdómur með sýknudómum sínum um öll efnisleg atriði álit hans, en ekki hinna „lögspekinganna“, sem gáfu ykkur ráð. Og það er eins og ekkert ykkar hafið veitt því athygli, að ákúrur eða ásakanir rannsóknarnefndarinnar um vanrækslu voru með skírskotun til laga, sem sett voru EFTIR bankahrunið, með öðrum orðum afturvirkt, sem er brot á lögmálum réttarríkisins.


Þorsteinn Vilhjálmsson um landsdómsmálið

Nokkrar umræður urðu á Facebook-vegg Stefáns Pálssonar, eftir að ég hafði kynnt bók mína um landsdómsmálið í Silfrinu 4. desember. Einn þeirra, sem tók til máls, var Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur (og faðir Vilhjálms Þorsteinssonar fjárfestis og aðaleiganda Kjarnans):

Aðalmistökin í Landsdómsmálinu fólust í atkvæðagreiðslu Alþingis um hverja skyldi ákæra. Að mínu mati hefði líka átt að kæra Árna M. og Björgvin, ekki af því að þeir væru endilega sekir, haldur af því að þannig hefði hlutverk Landsdóms dýpkað og skýrst og úrskurðurinn sömuleiðs. Ég held því miður að það hafi verið þingflokkur xS sem klúðraði þessu en það varð ekki refsilaust heldur galt flokkurinn það dýru verði þegar hann þurrkaðist næstum út í næstu kosningum. Svo finnst mér HHG ekkert erindi eiga inn í málið; afstaða hans er 100% fyrirsjáanleg og sætir engum tíðindum. Hann lítur á málið eingöngu sem venjulegt dómsmál sem það er ekki eins og sést á skipan dómsins og upphafsorðum laganna um Landsóm, og einnig af þeirri niðurstöðu að engin viðurlög fylgdu dómnum. Hannes er ekki lögfræðingur sjálfur og því efnislega vanhæfur skv. eigin skilgreiningu á málinu. Hann telur sig hafa efni á að tala um vanhæfni annarra en er auðvitað vanhæfur sjálfur, bæði efnislega og formlega. Honum finnst skipta máli að ekki hafi verið kært í öðrum tilteknum málum. Vissulega hefði mátt kæra DO og HÁ fyrir valdníðslu í Íraksmálinu, en það skiptir engu í þessu máli..

Ég svaraði Þorsteini:

Þetta er auðvitað ekkert svar við ábendingu minni um, að einn dómari (Eiríkur Tómasson) að minnsta kosti var vanhæfur til að sitja í landsdómi: 1) hann hafði lýst eindreginni afstöðu til sakarefnisins í grein, sem að vísu hvarf af netinu; 2) hann hafði geymt fé STEFs í peningamarkaðssjóði, svo að 30% þess tapaðist vegna neyðarlaganna, sem Geir setti; 3) hann hafði átt hlutabréf í Landsbankanum og Glitni, sem töpuðust vegna neyðarlaganna, sem Geir setti; 4) hann hafði ráðist harkalega á Geir fyrir að hafa ekki veitt sér embætti hæstaréttardómara árið 2004. Ég er alveg reiðubúinn að hlusta á efnislegar athugasemdir við þessar ábendingar mínar. Eru þetta ekki eðlilegar vanhæfisástæður?

Þorsteinn svaraði að bragði:

Lífið er ekki skylmingar og ég hef þegar sagt það sem ég hef að segja um þetta.

Ég svaraði:

Þetta segir þú aðeins, af því að þú getur ekki svarað þessu efnislega. Lífið er ekki einræða þín. Lífið er ekki síst rannsókn og rökræða.

Þorsteinn var auðvitað einn þeirra marxista, sem mörkuðu stefnu Alþýðubandalagsins um og eftir 1970. Hann fór á „æskulýðsmót“ í Austur-Berlín 1973 sem formaður sendinefndar, og eftir heimsóknina birti sendinefndin mikið hól um mótið. Í ljós kom síðar, að allar „frjálsar“ umræður á mótinu voru vandlega sviðsettar af Stasi. Líklega óskar Þorsteinn Vilhjálmsson sér helst, að hann hefði sömu tækifæri til að þagga niður í mér og Stasi hafði forðum í Austur-Berlín.

Það er síðan furðulegt að sjá það, sem Þorsteinn segir um, að ákæra hefði átt fleiri ráðherra en Geir, þótt þeir væru ekki nauðsynlega sekir, því að það hefði „dýpkað“ og „skýrt“ málið. Það var einmitt brýnt fyrir þingmönnum, að aðeins ætti að ákæra, væri talið, að meiri líkur væri á sakfellingu en sýknu. Í vestrænum réttarríkjum eru sakamál ekki einhver sviðsetning til að „dýpka“ og „skýra“ mál, þótt vissulega væru haldin sýndarréttarhöld í ríkjum marxista. Hér kemur Þorsteinn eins og oft áður upp um uppruna hugmynda sinna. Hann fetar ekki aðeins í fótspor föður síns, Vilhjálms Þorsteinssonar, sem tók 1961 við stórfé frá Kremlverjum til að skipuleggja verkföll á Íslandi (eins og lýst er í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998), heldur þeirra Torquemada, Vyshínskíjs og annarra alræmdra rannsóknardómara. 


Stefán Pálsson um landsdómsmálið

Stefán Pálsson sagnfræðingur birti um daginn færslu á Facebook um landsdómsmálið, og er þar eina efnislega athugasemdin, sem ég hef fengið við bók mína um það mál. Þar sagði meðal annars:

Ég kveikti á Silfrinu fyrir rælni í morgun. Þar var Hannes Hólmsteinn að segja frá nýrri bók sinni um Landsdómsmálið. Munið með mér að ég þarf endilega ekki að næla mér í hana. Reifun hans á málinu kom mér þó spánskt fyrir sjónir eftir að hafa fylgst nokkuð náið með störfum vinstri stjórnarinnar bak við tjöldin úr talsvert annarri átt en HHG.
Hannes telur að þróun málsins og þá sérstaklega niðurstaða þingnefndarinanr og í kjölfarið kosningin í þinginu hafi verið afleiðingin af miklum póker Jóhönnu Sigurðardóttur sem hafi verið að reyna að friða ólík öfl og halda saman bæði eigin flokki og ríkisstjórninni. Samkvæmt þessu á t.d. Steingrímur Joð og hans fólk að hafa verið sérstaklega áfram um að Landsdómur skyldi fella dóma yfir Geir Haarde og mögulega fleirum.
Þetta er gjörsamlega á skjön við upplifun mína frá þessum tíma.
 
Karl Th. Birgisson, sem er innanbúðarmaður í Samfylkingunni, skrifaði athugasemd:
 
Þetta er svolítið sérkennileg söguskoðun. Ég fylgdist grannt með þessum atburðum úr annarri átt. Landsdómsmálið var ekkert keppikefli Samfó, nema örfárra einstaklinga sem voru fæstir í þingflokknum.(Ekki gleyma að upphaflega voru tveir fyrrverandi ráðherrar S undir í málinu.) – Þvert á móti var þrýstingurinn hávær frá sumum þingmönnum Vg, einkum þeim sem smám saman urðu stjórnarandstæðingar.
 
Ég skrifaði athugasemd:
 
Það sýndi sig best, hversu mikið keppikefli ákæran gegn Geir var Steingrími og félögum, hvernig þeir brugðust við afturköllunartillögunni. Þegar Ásta Ragnheiður þingforseti ákvað að taka hana á dagskrá, hvæsti Steingrímur á hana, að hún hefði misst traust sitt, og Jóhanna reyndi að setja hana af sem þingforseta. Þá felldi Steingrímur grímuna um, að hann hefði greitt atkvæði með ákæru „með sorg í hjarta“.
 
Mörður Árnason, sem sat þá á þingi fyrir Samfylkinguna, skrifaði:
 
Það var ekkert makk hjá okkur. Þeir sem tengdust gömlu stjórninni sögðu nei á alla fjóra, við hin sögðum mismikið já. Það var reynt að fá þetta einhvernveginn rætt og „samræmt“ í þingflokknum en við neituðum. Á þessa atburðarás alla af mínum sjónarhóli í dagbók, sem þarf kannski einhverntímann að draga fram.
 
Eftir að aðrir höfðu látið í ljós þá skoðun, að ákæra hefði átt fleiri ráðherra en Geir H. Haarde, skrifaði Mörður:
 
Einsogt ég sagði -- „þingflokkur xS“ klúðraði engu því þingflokkurinn tók enga sameiginlega afstöðu. Helmingurinn sagði nei, en hinir sögðu já á suma og nei á aðra. Við áttum, sagði Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari, að taka afstöðu sjálf, hvert um sig , eftir að hafa skoðað málið eins vel og hægt var, og taka afstöðu einsog saksóknari tekur -- miðað við 1) sennilega „sekt“, 2) mögulegan árangur í málsókn. Ég held að við höfum gert það (þ.e. a.m.k. kosti við í já-hópnum). Sammála um Árna og BGS, en mér fannst engin leið að draga línu milli Björgvins viðskiptaráðherra og Ingibjargar Sólrúnar flokksformanns, og ætlaði að segja já á alla fjóra. -- Hvað Hannesi svo kann að finnast um þetta eða þykist hafa fundið út um þetta er náttúrlega bara einsog hver annar brandari.
 
Guðmundur Andri Thorsson, sem situr nú á þingi fyrir Samfylkinguna, skrifaði athugasemd:
 
Ég hafði á tilfinningunni að málið væri ekki síst drifið áfram af Atla Gíslasyni.
 
Þessar umræður eru merkilegar að því leyti, að Samfylkingarmennirnir, sem tóku þátt í þeim, staðfesta það mat mitt í bókinni, að ákæran á hendur Geir H. Haarde hafi verið kappsmál Vinstri grænna. Raunar kom það mjög vel í ljós, eins og ég bendi á, þegar tillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun kom fram. Þá ætluðu Vinstri grænir af göflunum að ganga, eins og Ögmundur Jónasson lýsir í minningabók sinni.

 


Bloggfærslur 19. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband