Hreyfing og flokkur þjóðernissinna

Nazi-march-Reykjavik-IcelandSagnfræðingarnir Ragnheiður Kristjánsdóttir og Pontus Järvstad draga upp ranga mynd af fasisma á Íslandi í framlagi til bókarinnar Anti-Fascism in the Nordic Countries, sem kom út hjá Routledge árið 2019. Þau tala í fyrsta lagi um nasisma, ekki fasisma, en í þágu efnislegrar umræðu er eðlilegast að hafa orðið „nasisma“ aðeins um hið þýska afbrigði fasismans.

Í öðru lagi segja þau Ragnheiður og Pontus, að Þjóðernishreyfing Íslendinga, sem stofnuð var vorið 1933, hafi verið fasistaflokkur. En Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur, sem rannsakað hefur þessa sögu manna mest, segir réttilega í Sögu 1976, að Þjóðernishreyfingin hafi ekki verið hreinræktaður fasistaflokkur, heldur sambland íhalds- og fasistaflokks.

Í þriðja lagi klofnaði einmitt Þjóðernishreyfingin fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík í janúar 1934. Margir félagar hennar töldu Sjálfstæðisflokkinn skárri kost en vinstri flokkana, og tóku tveir þeirra sæti á lista flokksins. Við það vildu hinir eiginlegu fasistar í Þjóðernishreyfingunni ekki sætta sig og stofnuðu Flokk þjóðernissinna, sem bauð fram í bæjarstjórnarkosningum 1934 og 1938 og í alþingiskosningum 1934 og 1937, en hlaut sáralítið fylgi.

Þjóðernishreyfingin var leyst upp vorið 1934, enda hafði hún frekar verið málfundafélag en stjórnmálaflokkur. Hins vegar má vissulega telja Flokk þjóðernissinna fasistaflokk, þótt stækur andkommúnismi sameinaði aðallega félagana. En þau Ragnheiður og Pontus horfa fram hjá því aðalatriði, að Flokkur þjóðernissinna var stofnaður í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Spaugilegt dæmi um viðleitni þeirra til að spyrða Sjálfstæðisflokkinn saman við þennan fylgislitla fasistaflokk er, þegar þau nefna, að fyrsti formaður verkamannafélags sjálfstæðismanna, Óðins, hafi áður verið í Flokki þjóðernissinna. Þau vita líklega ekki, að þessi maður, Sigurður Halldórsson, hafði enn áður verið í kommúnistaflokknum!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júní 2021.)


Í Escorial-höll

Vista_aerea_del_Monasterio_de_El_EscorialIðulega skilja fallnir óvinir frelsisins eftir sig stórhýsi, sem sjálfsagt er að nýta. Eftir fall kommúnismans í Póllandi var kauphöll hýst í fyrrverandi bækistöðvum kommúnistaflokksins. Ég býð stundum til útgáfuhófa í Rúblunni að Laugavegi 18. Og nú á dögunum kenndi ég á sumarskóla tveggja evrópskra frjálshyggjustofnana, sem haldinn var í Escorial-höll nálægt Madrid. Filippus II. lauk við smíði hallarinnar 1584, sama ár og Guðbrandur biskup gaf út biblíu sína. Hún er ekki aðeins konungshöll og raunar stærsta hús heims á sinni tíð, heldur líka klaustur, bókasafn, kirkja og grafhýsi.

Segja má, að ein rótin að þjóðlegri, borgaralegri frjálshyggju í Evrópu liggi í uppreisninni, sem íbúar Niðurlanda hófu 1566 gegn ofríki Filippusar hallarsmiðs, en norðurhluti Niðurlanda (sem við nefnum oftast eftir einu héraðinu, Hollandi) öðlaðist loks viðurkenningu sem sjálfstætt ríki 1648. Spánn hélt um skeið eftir suðurhlutanum, þar sem nú eru Belgía og Lúxemborg.

Í erindi mínu 14. júní kvað ég frjálshyggjumenn og íhaldsmenn eiga margt sameiginlegt, en tvennt skildi: Frjálshyggjumenn tryðu því, að framfarir væru mögulegar (til dæmis bætt lífskjör, hreinna umhverfi, greiðari samgöngur, minni barnadauði, fátíðari sjúkdómar, auknar lífslíkur). Enn fremur tryðu þeir því, að frelsið gæti að lokum orðið sameign allra jarðarbúa, þótt vissulega yrði hin nauðsynlega gagnkvæma aðlögun borgaranna til í langri sögulegri þróun. Hreinir íhaldsmenn væru hins vegar iðulega hræddir við breytingar og vildu reisa múra milli þjóða.

Í erindi mínu 18. júní sagði ég stuttlega frá nýútkominni bók minni um tuttugu og fjóra stjórnmálahugsuði, allt frá Snorra Sturlusyni og heilögum Tómasi af Akvínas til Miltons Friedmans og Roberts Nozicks. Ég tók boðskap frjálslyndra íhaldsmanna eins og mín saman í þremur orðum: viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti og valddreifingu. Skemmtilegt var að heyra þessi orð hljóma um salarkynnin í Escorial.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júní 2021.)


Styrkjasósíalisminn

Á árum áður mátti gera greinarmun á tveimur tilraunum til að endurskapa skipulagið, rússneskum vinnubúðasósíalisma og sænskum vöggustofusósíalisma. Rússnesku sósíalistarnir vildu breyta þjóðskipulaginu í risastórar vinnubúðir, þar sem þeir segðu sjálfir fyrir verkum. Þeir, sem óhlýðnuðust, voru skotnir eða sveltir til bana. Sænskir sósíalistar sáu hins vegar þjóðskipulagið fyrir sér eins og vöggustofu, þar sem þeir væru hinar umhyggjusömu fóstrur, en borgararnir væru börnin. Þeir beittu ólíkt mannúðlegri ráðum en Rússar, aðallega fortölum, en gerðu líka hiklaust þær konur ófrjóar, sem taldar myndu ala af sér vanhæf afkvæmi. Alls voru framkvæmdar 62.888 ófrjósemisaðgerðir í Svíþjóð árin 1935–1975.

Undirstadan_cover_LQ_1024x1024Báðar tilraunirnar mistókust hrapallega, enda ræður engin ríkisstjórn yfir sömu þekkingu og dreifist á borgarana og nýtist best í frjálsum viðskiptum þeirra. Ráðstjórnarríkin leystust upp í árslok 1991, og um svipað leyti hurfu Svíar þegjandi og hljóðalaust frá vöggustofusósíalisma. En innan kapítalismans hefur orðið til ný tegund sósíalisma, styrkjasósíalisminn. Þeir, sem hann stunda, ætla sér ekki að velta kapítalismanum um koll, heldur reyna að sjúga út úr honum alla þá fæðu, sem þeir geta. Þeir vilja taka án þess að láta. Rússnesk-bandaríska skáldkonan Ayn Rand greindi best styrkjasósíalisminn í skáldsögunni Undirstöðunni, en hún skipti fólki í framleiðendur og þiggjendur og spurði, hvað myndi gerast, ef afburðamennirnir þreyttust á að skapa það, sem afæturnar hirtu jafnóðum.

Á Íslandi lifir styrkjasósíalisminn góðu lífi, sérstaklega í Reykjavík 101. Þar safnast það fólk, sem gerir góðverk sín á kostnað annarra, iðulega saman á kaffihúsum og krám og skálar fyrir því, hversu langt því hefur tekist að seilast í vasa skattgreiðenda. Sérstaklega nýtur þetta fólk sín vel í kosningum, sem eru stundum lítið annað en uppboð á fyrirframstolnum munum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. júní 2021.)


Dr. Valtýr og Kristján konungur

ValtyrGÞað vakti athygli mína, þegar ég las Íslandsdagbækur Kristjáns X., konungs Íslands 1918–1944, var, að hann hitti stundum til skrafs og ráðagerða dr. Valtý Guðmundsson, sem kenndi sögu og bókmenntir Íslands í Kaupmannahafnarháskóla. Kann það að vera ein skýringin á andúð konungs á Hannesi Hafstein, sem skín af dagbókunum, en um skeið öttu þeir Valtýr og Hannes kappi um völd á Íslandi.

Þó voru þeir Valtýr og Hannes í meginatriðum sammála. Þeir vildu eitthvert samband við Dani, á meðan Íslendingar ættu erfitt með að standa á eigin fótum sakir fámennis og fátæktar. Skoðun Valtýs kemur skýrt fram í bréfi til stjúpa hans í Kanada 6. apríl 1916: „Ísland getur ekki staðið eitt sér, og besta sambandið er einmitt við Dani. Það er ekki Dana vegna, að ég er á móti skilnaði, heldur Íslands vegna. Hugsaðu þér. að við lentum í klónum á Þjóðverjum eftir skilnaðinn. Hvílík ævi mundi það vera. Og litlu betra yrði samband við Noreg, því Norðmenn eru voða-ágengir og hafa betri skilyrði til að nota atvinnuvegi okkar og þannig verða hættulegri keppinautar en nokkur önnur þjóð. Skást yrði samband við England, en þó sá hængur á, að íslenskt þjóðerni væri þá útdautt eftir svo sem hálfa til heila öld. Landið yrði enskt.“ (Dr. Valtýr segir frá, bls. 226.)

Áhyggjur Valtýs voru eðlilegar, og í dagbókum sínum lét konungur iðulega í ljós svipaða skoðun. En með hinum öru efnalegu framförum á Íslandi fyrstu áratugi tuttugustu aldar varð hugmyndin um fullvalda ríki raunhæf. Og Danir megnuðu ekki að verja Ísland, þegar í harðbakka sló, eins og sást í báðum heimsstyrjöldum. Örlögin urðu okkur þó hliðholl. Við tókum upp varnarsamstarf við Bandaríkin, sem voru nógu fjarlæg til að skipta sér ekki af innanríkismálum og nógu öflug til að afstýra yfirgangi annarra ríkja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. júní 2021.)


Bloggfærslur 28. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband