Nýfrjálshyggjan og tekjudreifingin

Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin. En minna verður á, að þetta tímabil er eitthvert mesta framfaraskeið mannkynssögunnar: Fátækt hefur minnkað stórkostlega, hungurvofunni verið bægt frá þrátt fyrir ótal hrakspár um hið gagnstæða, barnadauði minnkað og margvísleg önnur stórvirki unnin í læknavísindum (nú síðast með hinni ótrúlega öru gerð bóluefna gegn kórónuveirunni frá Kína). Ólafur hafði gott af að lesa tvær bækur, sem komið hafa út um þetta á íslensku síðustu árin, Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley og Framfarir eftir Johan Norberg.

Hver er þá vandinn? Að sögn Ólafs er hann ójafnari dreifing auðs og tekna. Nú er það raunar rangt á heimsvísu. Alþjóðleg tekjudreifing (til dæmis mæld á kvarða Ginis) hefur orðið jafnari af þeirri einföldu ástæðu, að mörg hundruð milljón manna hafa brotist úr fátækt í bjargálnir í suðrænum löndum. En hitt er rétt, að þessi dreifing hefur orðið ójafnari á Vesturlöndum. En það er ekki vegna þess, að hinir fátæku hafi orðið fátækari, heldur vegna hins að teygst hefur á tekjukvarðanum upp á við. Lífskjör allra tekjuhópa hafa batnað, en tekjur tekjuhæsta hópsins í flestum löndum hafa hækkað miklu meira og hraðar en tekjur sumra hópanna fyrir neðan hann. Ein skýringin er hnattvæðingin. Einstaklingar með sérstaka og einstæða hæfileika, til dæmis söngvarar, leikarar, íþróttahetjur, uppfinningamenn og frumkvöðlar, hafa nú aðgang að miklu fjölmennari markaði en áður. Mikil breyting hefur líka orðið á hinum ríku. Fyrir fjörutíu árum höfðu um tveir þriðju milljarðamæringanna í heiminum erft auðæfi sín samkvæmt upplýsingum Forbes. Nú hefur þetta snúist við: um tveir þriðju þeirra hafa skapað auðæfi sín sjálfir.

Berum saman tvö lönd, sem við getum kallað Svíþjóð og Minnesota. Kjör hinna verst settu eru svipuð í löndunum tveimur, en munurinn sá, að hinir tekjuhæstu eru miklu tekjuhærri í Minnesota en Svíþjóð. Tekjukvarðinn teygist þar miklu lengra upp á við. Í hvoru landinu myndi duglegt og áræðið fólk vilja búa?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. febrúar 2021.)


Bloggfærslur 13. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband