23. ágúst 1939

stalinsign-58b975373df78c353cdcad44-1Í gær voru rétt 80 ár liðin frá því, að Stalín og Hitler gerðu griðasáttmála. Þar skiptu þeir með sér Mið- og Austur-Evrópu. Stalín fékk í sinn hlut Eystrasaltsríkin, Finnland og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst inn í Pólland að vestan 1. september 1939, sögðu Bretar og Frakkar honum stríð á hendur, en þegar Stalín réðst inn í Pólland að austan 17. september, höfðust ríkin tvö ekki að. Eystrasaltslöndin töldu sig ekki hafa afl til að hafna kröfu Stalíns um herstöðvar. En þegar hann krafðist hins sama af Finnum, neituðu þeir og börðust hetjulega í Vetrarstríðinu svokallaða fram á vor 1940, en urðu þá að lúta ofureflinu.

Griðasáttmálinn vakti hvarvetna uppnám í röðum ráðstjórnarvina, sem höfðu löngum talið nasista höfuðandstæðinga sína. Þetta átti líka við í Sósíalistaflokknum íslenska, sem stofnaður hafði verið haustið áður við samruna vinstri sósíalista og kommúnista. Vinstri sósíalistar kröfðust þess, að flokkurinn fordæmdi landvinninga Stalíns, en kommúnistar harðneituðu. Skömmu eftir árás Hitlers á Póllandi hitti Þórbergur Þórðarson Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg. Þá sagðist Þórbergur skyldu hengja sig, ef Stalín réðist á Póllandi. Eftir árás Stalíns birti hann ámátlega varnargrein, þar sem hann sagðist hafa sagt það eitt, að hann skyldi hengja sig, ef Stalín hæfi þátttöku í stríðinu við hlið Hitlers. Halldór Kiljan Laxness skrifaði í Þjóðviljann, að það ætti að vera fagnaðarefni, ef íbúar „Vestur-Úkraínu“ eins og hann kallaði Austur-Pólland, yrðu þegnar Stalíns.

Griðasáttmálinn er til marks um, að Heimsstyrjöldin síðari var í rauninni tvö stríð. Frá hausti 1939 til sumars 1941 áttu Bretar og Frakkar í höggi við Hitler, sem var í eins konar bandalagi við Stalín. Frá sumri 1941, þegar Hitler rauf griðasáttmálann og réðst á Stalín, börðust Bretar og Rússar við Þjóðverja, en Frakkar voru úr leik. Í árslok 1941 gengu Bandaríkjamenn í lið með Bretum og Rússum, en Japanir með Þjóðverjum, og voru þá úrslitin ráðin: Enginn stenst Bandaríkin, ef þau beita sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2019.)


Bloggfærslur 24. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband