Piketty: Tómlæti um fátækt

Munurinn á tveimur helstu spámönnum jafnaðarmanna á okkar dögum, John Rawls og Tómasi Piketty, er, að Rawls hefur áhyggjur af fátækt, en Piketty af auðlegð. Mér finnst skoðun Rawls heilbrigðari. Fátækt er böl, en auðlegð blessun. Ég get sofið á næturnar, þótt öðrum gangi vel.

Ef til vill var þess ekki að vænta, að Piketty gerði fátækt að neinu aðalatriði, því að mjög hefur dregið úr henni í heiminum síðustu áratugi. Samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðabankans bjó röskur þriðjungur mannkyns við sára fátækt eða örbirgð árið 1990. En aldarfjórðungi síðar, árið 2015, var þessi tala komin niður í einn tíunda hluta mannkyns.

Hundruð milljóna Kínverja hafa brotist úr fátækt til bjargálna vegna þess, að Kína ákvað upp úr 1980 að tengjast alþjóðakapítalismanum. En hagkerfið á meginlandi Kína er aðeins eitt af fjórum kínverskum hagkerfum. Lífskjarabætur hafa orðið miklu meiri í þeim þremur kínversku hagkerfum, sem reist eru á ómenguðum kapítalisma. Árið 2017 var landsframleiðsla á mann 57.700 Bandaríkjadalir í Singapúr, 46.200 í Hong Kong og 24.300 í Taívan, en aðeins 8.800 í Kína. Og frjálsu kínversku hagkerfin þrjú sluppu við ofsakommúnisma Maós, en í hungursneyðinni vegna „Stóra stökksins“ í Kína 1958–1962 týndu um 44 milljónir manna lífi.

Talnarunur um tekjur mega síðan ekki dylja þá staðreynd, að lífið er almennt orðið miklu þægilegra. Kjör fátæks fólks eru nú jafnvel um margt betri en kjör ríks fólks fyrir tveimur öldum vegna bíla, vatnslagna, húshitunar og húskælingar, ísskápa, síma, netsambands, ódýrra flugferða og ótal annarra lífsgæða. Venjulegur launþegi vann fyrir 186 ljósastundum (Lumen-stundum) um miðja þrettándu öld, en fyrir 8,4 milljónum árið 2018.

Lífið er ekki aðeins orðið betra, heldur lengra. Árið 1751 voru lífslíkur við fæðingu 38 ár í Svíþjóð, en árið 2016 82 ár. Árið 1838 voru lífslíkur við fæðingu 33 ár á Íslandi, en árið 2016 hinar sömu og í Svíþjóð, 82 ár. Heilsa hefur batnað og menntun aukist. Árið 1950 hafði um helmingur mannkyns aldrei gengið í skóla. Árið 2010 var þessi tala komin niður í einn sjöunda hluta mannkyns. Allt skiptir þetta máli í umræðum um auð og eklu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2019.)


Bloggfærslur 3. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband