Villan í leiðréttingu Soffíu Auðar

Um síðustu helgi benti ég á tvær yfirsjónir í nýlegri ritgerð Soffíu Auðar Birgisdóttur um kvæðabálk Þórbergs Þórðarsonar, Marsinn til Kreml. Þórbergur hafði sett vísuorð á þýsku inn í bálkinn: „Wenn das Judenblut von Messer spritzt/denn geht uns nochmals so gut.“ Þegar gyðingablóðið spýtist úr hnífnum, þá gengur okkur hálfu betur. Neðanmáls kvað Þórbergur orðin vera úr Horst Wessel-söngnum.

Önnur yfirsjón Soffíu Auðar var smávægileg, að í fyrri vísuorðinu á að vera vom, en ekki von, og sjá þýskumælandi menn það á augabragði. Hin er stærri, að vísuorðin eru ekki úr Horst Wessel-söngnum, heldur úr einu hergöngulagi, „Sturmlied,“ stormsveita nasista, SA. Í næsta tölublaði, 17. september, viðurkenndi Soffía Auður yfirsjónir sínar, en sagði mig sjálfan hafa gert villu. Vísuorðin væru alls ekki úr „Sturmlied“ SA-sveitanna, en það væri eftir Dietrich Eckhard.

Því miður er þessi „leiðrétting“ Soffíu Auðar ekki rétt, og hefði komið sér vel fyrir hana að kunna þýsku. Sturmlied er hér samnafn, ekki sérnafn, og merkir blátt áfram stormsveitarsöng. Það villir eflaust Soffíu Auði sýn, að öll nafnorð eru með stórum staf í þýsku, ekki sérnöfnin ein. Söngurinn, sem vísuorðin eru úr, er í mörgum þýskum heimildum kallaður „Sturmlied“. Til dæmis má nefna bókina Die Weimarer Republik (Hannover: Fackelträger Verlag, 1982), bls. 214, og bækling, sem þýsk gyðingasamtök gáfu út í apríl 1932: „Welch eine Schande, daß es möglich ist, daß junge Menschen Lieder singen, wie es in einem „Sturmlied“ der SA heißt: und wenn das Judenblut vom Messer spritzt, dann geht’s noch mal so gut.“ Það er til skammar, að ungt fólk skuli geta sungið söngva eins og „Sturmlied“ SA: og þegar gyðingablóðið spýtist úr hnífnum, þá gengur okkur hálfu betur.

Soffía Auður hefur líklega flett upp orðinu „Sturmlied“ í Wikipediu á ensku og þá rekið augun í söng Eckhards. En hann kemur málinu ekki við.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. september 2018.)


Bloggfærslur 22. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband