Jordan Peterson

Eftir komuna til Íslands í júní 2018 getur kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson tekið sér í munn orð Sesars: Ég kom, sá og sigraði. Hann fyllti stóran samkomusal í Hörpu tvisvar, þótt aðgangseyrir væri hár, og bók hans rokselst, Tólf lífsreglur: Mótefni við glundroða, sem Almenna bókafélagið gaf út í tilefni heimsóknarinnar. Boðskapur Petersons er svipaður og í tveimur kverum, sem framgjarnir íslenskir unglingar lásu á nítjándu öld, Auðnuveginum eftir William Mathews og Hjálpaðu þér sjálfur eftir Samuel Smiles: Menn verða að herða upp hugann og leggja á brattann. Minna máli skiptir, að þeir hrasi, en að þeir standi á fætur aftur. Þeir mega ekki hugsa um sjálfa sig sem fórnarlömb, heldur smiði eigin gæfu. Öfund er löstur, en hugrekki og vinnusemi dygðir.

Hvað veldur hinum ótrúlega áhuga á boðskap Petersons? Ein ástæðan er, að hann nýtir sér út í hörgul nýja miðla, Youtube og Twitter. Hann er gagnorður og sléttmáll, og honum fipast hvergi, er harðskeyttir viðmælendur sækja að. Í öðru lagi deila miklu fleiri með honum skoðunum en mæla fyrir þeim opinberlega. Langflestir menntamenn eru vinstri sinnaðir: Gáfaðir hægri menn gerast verkfræðingar, læknar eða atvinnurekendur, gáfaðir vinstri menn kennarar eða blaðamenn.

Þriðja ástæðan er, að vinstri sinnaðir menntamenn hafa nú miklu meiri völd í skólum og fjölmiðlum en áður, og þeir nota þau til að þagga niður í raunverulegri gagnrýni. Í huga þeirra eru vísindin ekki frjáls samkeppni hugmynda, heldur barátta, aðallega gegn kapítalismanum, en líka gegn „karlaveldinu“. Eins og Peterson bendir á, eru til dæmis eðlilegar skýringar til á því, að tekjumunur mælist milli kynjanna. Fólk hefur tilhneigingu til að raða sér í ólík störf eftir framtíðaráætlunum sínum, og það er niðurstaðan úr þessari röðun, þessu vali kynjanna, sem mælist í kjarakönnunum. En á Íslandi og annars staðar hefur risið upp jafnréttisiðnaður, sem kennir „karlaveldinu“ um þessa mælinganiðurstöðu. Jafnframt hefur skólakerfið verið lagað að áhugamálum róttækra kvenfrelsissinna, svo að tápmiklir piltar finna þar litla fótfestu. Nú er aðeins þriðjungur þeirra, sem brautskrást úr Háskóla Íslands, karlkyns.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. júní 2018.)


Bloggfærslur 9. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband