Skerfur Íslendinga

34011447_10156141567047420_2496130487290953728_n.jpgÍsland er fámennt, hrjóstrugt lítið land á hjara veraldar. Líklega var fyrsta byggðin hér eins konar flóttamannabúðir, eftir að Haraldur hárfagri og aðrir ráðamenn hröktu sjóræningja út af Norðursjó. Engu að síður hafa Íslendingar í sinni ellefu hundruð ára sögu lagt skerf til heimsmenningarinnar og hann jafnvel fimmfaldan, eins og ég benti á í fyrirlestri í Kaupmannahöfn á dögunum.

Eitt er Þjóðveldið frá 930 til 1262. Íslendingar lutu lögum, en bjuggu ekki við ríkisvald, svo að réttarvarsla var í höndum einstaklinga. Mörg verkefni, sem nú eru ætluð ríkinu, voru þá leyst hugvitssamlega.

Annað er Íslendinga sögur. Bókmenntagildi þeirra hefur líklega verið ofmetið, en þær eru engu að síður stórkostlegar heimildir um leit þjóðar að jafnvægi, úrlausn átaka í ríkisvaldslausu landi.

Hið þriðja er fundur Ameríku, þótt Óskar Wilde hafi raunar sagt, að Íslendingar hafi verið svo skynsamir að týna henni aftur.

Hið fjórða er kvótakerfið í sjávarútvegi, en það er í senn arðbært og sjálfbært. Aðrar þjóðir búa margar við offjárfestingu í sjávarútvegi og ofveiði. Þar eru fiskveiðar reknar með tapi og njóta opinberra styrkja. Nú er verið að taka upp kvótakerfi eins og hið íslenska um heim allan.

Hið fimmta er að gera innstæður að forgangskröfum í bú banka, eins og hér var gert með neyðarlögunum 6. október 2008. Með slíkri reglu minnka stórlega líkur á áhlaupum á banka og upphlaupum á götum úti, svo að ríkisábyrgð á innstæðum í því skyni að róa sparifjáreigendur verður óþörf. Evrópusambandið tók regluna upp árið 2014, sex árum á eftir Íslandi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júní 2018.)


Bloggfærslur 2. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband