Sartre og Gerlach á Íslandi

Franski heimspekingurinn Jean-Paul Sartre var í talsverðum metum á Íslandi um og eftir miðja síðustu öld. Eftir hann hafa þrjú rit komið út á íslensku, skáldsagan Teningunum er kastað, minningabókin Orðin og heimspekiritið Tilvistarstefnan er mannhyggja. Í heimspeki Sartres eru heilindi eitt aðalhugtakið. Menn skapa sjálfa sig með gerðum sínum í guðlausum heimi og verða að vera trúir sjálfum sér. Sartre heimsótti Ísland haustið 1951.

Tvö leikrit Sartres voru flutt í Ríkisútvarpinu, Í nafni velsæmisins 1949 og Dauðir án grafar 2003, og þrjú sett á svið, Flekkaðar hendur 1951, Læstar dyr 1961 og Fangarnir í Altona 1964. Síðast nefnda leikritið er um efnaða þýska nasistafjölskyldu, von Gerlach. Annar sonurinn ber nafnið Werner von Gerlach. Það er einkennileg tilviljun, að þessi söguhetja Sartres er alnafni þýska ræðismannsins á Íslandi 1939-1940, hins ákafa nasista Werners Gerlachs, nema hvað „von“ hefur verið skotið á milli fornafns og ættarnafns.

Eða er það engin tilviljun? Eftir að Bretar tóku Gerlach höndum við hernámið vorið 1940 fluttu þeir hann til Manar, þar sem hann var geymdur ásamt öðrum stríðsföngum frá Íslandi. Haustið 1941 komst hann til Þýskalands í fangaskiptum, og árin 1943-1944 var hann menningarfulltrúi í þýska sendiráðinu í París. Sartre bjó þá í París og hefur væntanlega vitað af menningarfulltrúanum.

Sartre hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum 1964, en hafnaði þeim. Það hlýtur hins vegar að vera áhugamönnum um heilindahugtak hans rannsóknarefni og jafnvel ráðgáta, að Sartre hafði 1975 samband við Sænska lærdómslistafélagið, sem úthlutar verðlaununum, til að grennslast fyrir um, hvort hann gæti fengið verðlaunaféð, þótt hann hefði hafnað heiðrinum. Var málaleitan hans hafnað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2018.)


Bloggfærslur 17. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband