Tilboðið sem Sagnfræðingafélagið hafnaði

Til gamans birti ég hér nýleg bréfaskipti mín og Sagnfræðingafélagsins. Það hafði sent út svofellt boð um hádegisfyrirlestra:

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins í Þjóðminjasafninu á vormisseri 2019. Í haust féll merkilegur dómur í Hæstarétti Íslands þegar fimm sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða voru sýknaðir eftir endurupptöku málsins. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er líklega þekktasta dómsmál íslenskrar réttarsögu á 20. öld og hefur ítrekað orðið uppspretta umræðna í íslensku samfélagi um sekt, sakleysi og sannleiksgildi játninga, rannsóknir, fangelsanir og framgang réttvísinnar. Af þessu tilefni verða hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins á vormisseri 2019 helgaðir hinni margslungnu sögu réttarfars og refsinga. Tekið er við tillögum til 1. desember.

Ég sendi 1. nóvember 2018 inn eftirfarandi tillögu um erindi undir heitinu „Þrír dómar yfir mér: Greining og gagnrýni“:

Ég hef hlotið þrjá dóma. Hinn fyrsti var fyrir að reka ólöglega útvarpsstöð í verkfalli opinberra starfsmanna haustið 1984, og höfðaði ríkissaksóknari það mál að áeggjan stjórnar BSRB. Annar var útivistardómur, kveðinn upp í Bretlandi fyrir meiðyrði í garð íslensks fjáraflamanns, sem áttu að hafa fallið á ráðstefnu blaðamanna á Íslandi 1999. Hinn þriðji var dómur fyrir að brjóta gegn höfundarrétti Halldórs Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, sem kom út haustið 2003. Tveir síðari dómarnir voru í einkamálum og refsing í öllum þremur málunum ákveðin sekt, en málareksturinn úti í Bretlandi kostaði mig um 25 milljónir króna, þótt mér tækist að ógilda dóminn yfir mér þar. Allir eru þessir dómar fróðlegir. Eflaust var fyrsti dómurinn eftir bókstaf laganna, en var hann eftir anda þeirra? Var annar dómurinn til marks um það, að auðmenn geti valið sér vettvang fyrir meiðyrðamál í Bretlandi, því að meiðyrðalöggjöf er þar strangari og málarekstur kostnaðarsamari en víðast annars staðar (libel tourism)? Með hvaða rökum breytti Hæstiréttur sýknudómi Héraðsdóms í Laxness-málinu? Var þar einhver skaði fullsannaður? Þótt enginn sé dómari í eigin sök, getur verið gagnlegt að hlusta á röksemdir og gögn í gömlum málum, og hyggst ég leggja fram ýmislegt nýtt um þessa dóma. Íslenskir og breskir dómarar eru ekki fremur óskeikulir en páfinn í Róm.

Ég fékk 12. desember eftirfarandi svar:

Stjórn Sagnfræðingafélagsins hefur farið yfir innsendar tillögur fyrir hádegisfyrirlestraröðina á vormisseri 2019. Færri komast að en vildu og því miður var tillaga þín ekki samþykkt í þetta sinn. Bestu kveðjur, Kristín Svava

Auðvitað verður enginn héraðsbrestur, þótt þessu tilboði hafi verið hafnað. En ég held samt, að erindið hefði getað orðið í senn skemmtilegt og fróðlegt.


Þingmönnum útskúfað 1939

Af sérstöku tilefni var rifjað upp á dögunum að eftir árás Rauða hersins á Finnland í árslok 1939 var þingmönnum Sósíalistaflokksins útskúfað því að þeir neituðu ólíkt öðrum þingmönnum að fordæma árásina og mæltu henni jafnvel bót. Virtu aðrir þingmenn þá ekki viðlits og gengu út þegar þeir héldu ræður. Þorri almennings og þingmanna hafði ríka samúð með smáþjóðinni sem átti hendur sínar að verja. Í leynilegum viðauka við griðasáttmála þeirra Stalíns og Hitlers í ágúst 1939 hafði verið kveðið á um skiptingu Mið- og Austur-Evrópu á milli þeirra og féll Finnland í hlut Stalíns. Í Sósíalistaflokknum höfðu kommúnistar hollir Stalín tögl og hagldir.

Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins og þingmaður hans, andmælti því í leiðara Þjóðviljans 6. febrúar 1940 að Finnar væru frændþjóð okkar Íslendinga. „Finnar eru eins fjarskyldir okkur og Kongo-negrar,“ skrifaði hann.

Brynjólfur Bjarnason, þingmaður Sósíalistaflokksins, smíðaði háðsyrðið „Finnagaldur“ um samúð þorra íslensku þjóðarinnar með Finnum og skrifaði grein í 1. hefti tímaritsins Réttar 1940 undir þeirri fyrirsögn. Þar sagði hann meðal annars: „Flestir munu nú hafa áttað til fulls á því, að þessi styrjöld var ekki stríð milli Finnlands og Rússlands út af fyrir sig, heldur var hér um að ræða styrjöld milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna, sem voru að búa sig undir árás á Rússland og notuðu finnsku hvítliðana sem verkfæri. Atburðirnir hafa síðan sannað, svo sem best verður á kosið, að Sovétlýðveldin áttu í varnarstríði, sem þeim bar skylda til að heyja fyrir land sitt og hinn alþjóðlega sósíalisma.“

Þrátt fyrir þessa frumlegu kenningu Brynjólfs börðust Finnar einir og óstuddir gegn hinu rússneska ofurefli, en urðu loks um miðjan mars 1940 að leita samninga. Eftir að þetta spurðist til Íslands fór Hermann Jónasson forsætisráðherra óvirðulegum orðum um þingmenn Sósíalistaflokksins í einum hliðarsal Alþingis. Vatt Brynjólfur Bjarnason sér þá að honum og kvað hann landsfrægan fyrir heimsku og ósannsögli. Hermann sneri sér hvatskeytlega að Brynjólfi og laust hann kinnhesti með flötum lófa. Þegar Brynjólfur kvartaði við þingforseta, svaraði Hermann því til að það væri íslenskur siður að löðrunga óprúttna orðastráka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. desember 2018.)


Bloggfærslur 15. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband