Í köldu stríði

Árið 2014 sendi Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, frá sér bókina Í köldu stríði, þar sem hann sagði frá baráttu sinni og Morgunblaðsins í kalda stríðinu, sem hófst, þegar vestræn lýðræðisríki ákváðu að veita kommúnistaríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu viðnám. Íslendingar gengu þá til liðs við aðrar frjálsar þjóðir, sem mynduðu með sér varnarbandalag, Atlantshafsbandalagið. En hér starfaði líka Sósíalistaflokkur, sem þáði verulegt fé frá Moskvu og barðist fyrir hagsmunum Kremlverja. Hélt hann úti dagblaðinu Þjóðviljanum og átti talsverðar húseignir í Reykjavík.

Styrmir hafði njósnara í Sósíalistaflokknum, sem gaf honum skýrslur. Ein skýrslan hefur ekki vakið þá athygli sem skyldi (bls. 123). Hún er frá janúar 1962. Segir þar frá fundi í einni sellu Sósíalistaflokksins, þar sem ónafngreindur námsmaður í Austur-Þýskalandi talaði, og geri ég ráð fyrir, að hann hafi verið Guðmundur Ágústsson, sem seinna varð formaður Alþýðubandalagsfélags Reykjavíkur.

„Skýrði hann frá því að hann stundaði nám við skóla þar sem kennd væri pólitík og njósnir en hann mun hafa annað nám að yfirvarpi. Rétt er að geta þess að áður en [Guðmundur] byrjaði að tala spurði hann deildarformann, hvort ekki væri óhætt að tala opinskátt. Formaður hélt það nú vera. [Guðmundur] skýrði einnig frá því, að í fyrra hefði ekki verið nægilegt fé fyrir hendi til þess að standa straum af kostnaði við þá Íslendinga sem dveldust í Austur-Þýskalandi á vegum flokksins hér og þess vegna hefðu verið tekin inn á fjárlög austurþýska ríkisins (þó ekki þannig, að beinlínis hafi komið fram) 180 þúsund austurþýsk mörk til þess að standa straum af útgjöldum íslenska kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi.“ Enn segir í skýrslunni: „Þá sagði [Guðmundur], að meðal kommúnista í Austur-Evrópu ríki mikil ánægja með Þjóðviljann, sem talið væri eitt besta blað kommúnista á Vesturlöndum.“

Það er merkilegt, að sósíalistarnir á sellufundinum virðast hafa látið sér vel líka uppljóstranir námsmannsins unga. Ekki er síður fróðlegt að kommúnistar í Austur-Evrópu skyldu hafa talið Þjóðviljann „besta blað kommúnista á Vesturlöndum“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. nóvember 2018.)


Bloggfærslur 7. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband