Hvað sagði ég í Ljubljana?

IMG_9520Ég sótti ráðstefnu í Ljúbljana, höfuðborg Slóveníu, dagana 13.-15. nóvember. Hún hét „Skuggahlið tunglsins“ og var um minningar þeirra þjóða Mið- og Austur-Evrópu, sem lentu undir stjórn kommúnista eftir seinni heimsstyrjöld. Fyrirlestur minn var um, hvernig raddir fórnarlambanna fengju að heyrast. Eins og Elie Wiesel sagði, drepur böðullinn alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni. Ég benti á, að kommúnisminn væri ekki fordæmdur eins skilyrðislaust og nasisminn, þótt til þess væri full ástæða: hungursneyðir af mannavöldum, fjöldamorð, nauðungarflutningar þjóðflokka, rekstur þrælabúða, ógnarstjórn og eymd.

Ég reifaði sex ráð til að rjúfa þögnina. Háskólar, sérstaklega félags- og hugvísindadeildir, hefðu verið herteknir af vinstrimönnum. Þess vegna þyrfti að búa frjálslyndum fræðimönnum athvarf og aðstöðu í sjálfstæðum stofnunum. Í annan stað yrði að tryggja, að nemendur í skólum fengju fræðslu um ódæði allra alræðissinna, ekki síður kommúnista en nasista. Ekki mætti til dæmis þegja um það, að Stalín hefði verið bandamaður Hitlers fyrstu tvö styrjaldarárin. Í þriðja lagi þyrfti að reisa minnismerki og reka söfn eins og hið merkilega safn í Varsjá um uppreisnina 1944. Í fjórða lagi ætti að ógilda alla þá opinberu viðurkenningu, sem valdsmenn úr röðum kommúnista hefðu víða hlotið. Myndastyttur af Bería væru jafnóeðlilegar og af Himmler, svo að ekki sé minnst á götunöfn og heiðursmerki. Í fimmta lagi þyrfti að halda reglulega ráðstefnur til að kynna forvitnilegar rannsóknir. Til dæmis hefði prófessor Frank Dikötter varpað ljósi á ógnarstjórn Maós í Kína í þremur stórfróðlegum bókum, og Svartbók kommúnismans hefði markað tímamót árið 1997.

Í sjötta lagi þyrfti að gera vönduð rit um alræðisstefnuna aðgengileg að nýju, jafnt á prenti og á netinu, eins og Almenna bókafélagið á Íslandi beitti sér fyrir með Safni til sögu kommúnismans, en þegar hafa tíu rit birst í þeirri ritröð. Á þessu ári koma út þrjú rit, Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum 1946-1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir sex rithöfunda, þar á meðal Arthur Koestler, André Gide og Ignazio Silone, og Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950-1958, en höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, séra Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. nóvember 2018.)


Bloggfærslur 21. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband