Vinir í raun

Íslenska spakmælið „Sá er vinur, er í raun reynist“ er sömu merkingar og enska spakmælið „A friend in need is a friend indeed“. Hvort tveggja má rekja til orða rómverska skáldsins Quintusar Enniusar, sem uppi var 239–169 f. Kr.: „Amicus certus in re incerta cernitur.“

Þetta á við um þá sjö þingmenn neðri málstofu breska þingsins, sem skrifuðu undir bókun um Ísland frá Austin Mitchell 13. október 2008, fimm dögum eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum og settu þá á sama lista á heimasíðu fjármálaráðuneytis síns og Al-Kaída, Talíbana og Norður-Kóreu. Mitchell var þingmaður Grimsby fyrir Verkamannaflokkinn og kunnur Íslandsvinur.

Ekki virðist hafa verið sagt frá þessari bókun í íslenskum fjölmiðlum, en í henni var harmað, að breska ríkisstjórnin leitaðist ekki við að hjálpa gamalli vinaþjóð í erfiðleikum. Íslendingar væru góðir viðskiptavinir Breta, hefðu fjárfest verulega í Bretlandi og ættu betra skilið.

Þrír aðrir þingmenn Verkamannaflokksins skrifuðu undir bókunina, Ann Cryer, Neil Gerrard og Alan Simpson. Þeir töldust allir til vinstri vængs Verkamannaflokksins og veittu iðulega umdeildum málum stuðning.

Tveir þingmenn Íhaldsflokksins skrifuðu undir, Peter Bottomley og David Wilshire. Þeir voru báðir kunnir fyrir að lúta lítt flokksaga og töldust til hægri vængs flokksins. Eiginkona Bottomleys, Virginia, sat líka á þingi fyrir Íhaldsflokkinn og var um skeið ráðherra.

Enn fremur skrifuðu Elfyn Llwyd frá Velska þjóðarflokknum og Angus MacNeil frá Skoska þjóðarflokknum undir bókunina. Árið 2016 var óspart hneykslast á því í breskum blöðum, að MacNeil hefði nýtt tækifæri, sem þarlendum þingmönnum gefst á að læra erlend mál á kostnað þingsins, til að nema íslensku. Var þetta talinn hinn mesti óþarfi. Kjördæmi MacNeils er Ytri Suðureyjar, eins og þær heita á íslensku (Outer Hebrides), en þar talar meiri hluti íbúa gelísku.  

Sorglegt er til þess að vita, að aðeins skyldu átta breskir þingmenn af 650 standa að bókuninni og sumir ef til vill frekar sakir andófseðlis en vináttu við Ísland. Hvað sem því líður, ætti okkur að vera ljúft ekki síður en skylt að halda nöfnum Mitchells og hinna þingmannanna sjö á lofti.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017.)


Bloggfærslur 26. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband