Höldum ró okkar

ossur_skarphedinsson_965145.jpgMjög er miður, að einhverjir hafa laumað minnisblöðum íslensku samningamannanna í Icesave-málinu á Netið. Raunar hafa ráðherrar og embættismenn líka verið allt of lausmálir opinberlega. Viðsemjendur okkar erlendis verða að geta treyst því, að þeir séu ekki að tala beint í fjölmiðla, heldur við fulltrúa þjóðarinnar.

En að tveimur aðalfréttum dagsins: Nú segja erlend matsfyrirtæki, að lánshæfismat Íslands muni lækka. Og Hollendingar sjá ekki ástæðu til frekari samningaviðræðna.

Hvorug fréttin á að raska ró okkar. Bretar og Hollendingar reyna að fá okkur til að greiða skuld, sem við stofnuðum ekki til og eigum ekki að greiða. Ef þeir vilja ekki við okkur tala, þá eru það góðar fréttir. Þá hefur látunum linnt, að minnsta kosti í bili.

Lánshæfismat Íslands lækkar eflaust til skamms tíma, vegna þess að deilan við Breta og Hollendinga er óleyst. En það hækkar til langs tíma, ef við komumst hjá því að greiða þessa skuld (sem enginn veit að vísu, hversu há er), því að þá skuldum við minna en ella og erum þess vegna lánshæfari.


Hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslu?

c_users_asdis_pictures_isl_faninn.jpgSpurt er, hvers vegna efna þurfi til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin 6. mars, ef allir stjórnmálaflokkar mæla með því að fella þau, eins og líkur eru á, svo að úrslit séu þegar ráðin. Hvers vegna eru lögin ekki frekar felld úr gildi? Svarið er einfalt: Vegna þess að samningamenn Íslendinga þurfa ótvírætt umboð þjóðarinnar, þegar þeir setjast niður með Bretum og Hollendingum til að ná sáttum í deilu Íslands við tvö grannríki.

Þjóðin verður að segja hátt og snjallt, svo að undir taki á alþjóðavettvangi: Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna. Það er hvergi neinn bókstafur í lögum og alþjóðasamningum um greiðsluskyldu ríkissjóðs, geti Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ekki gegnt lögbundnu hlutverki sínu. Innstæðutryggingakerfi EES var ekki ætlað gegn allsherjarbankahruni, heldur aðeins tímabundnum erfiðleikum einhverra banka af mörgum í hverju landi. Bretar og Hollendingar geta ekki tekið það upp hjá sjálfum sér að leggja þungar og jafnvel óbærilegar skuldabyrðar á fámenna þjóð.

Eitt skýrt fordæmi er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem úrslit voru ráðin, enda mæltu þá allir stjórnmálaflokkar með því að kjósa á annan veginn. Þetta er atkvæðagreiðslan um sambandsslitin við Dani 1944 og stofnun lýðveldis, sem fram fór í maí 1944. Þá var þjóðin einhuga. Þessu fordæmi eigum við að fylgja.

Auðvitað munu Bretar og Hollendingar ekki verða auðveldir viðureignar eftir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. En tíminn vinnur með okkur. „Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast,“ skrifaði Halldór Kiljan Laxness í Íslandsklukkunni. „Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skuli frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.“


Bloggfærslur 27. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband