Sá á Hrein, sem elur

Undanfarin misseri hefur Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður gefið út DV. Það blað hefur helst unnið sér til frægðar að kaupa stolin tölvugögn af seytján ára brotamanni og notað þau til að birta óhróður um íslenska íþróttakappa. Hefur sjaldan verið lotið lægra í íslenskri blaðamennsku. Daglega birtast í DV níðgreinar um Davíð Oddsson og stuðningsmenn hans, sem blaðið kallar „Náhirðina“, en það orð gerði Hreinn.

Hreinn hefur dagleg afskipti af ritstjórninni og skrifar margt af því, sem birtist nafnlaust í blaðinu. Ég hef ekki fyrir því lakari heimild en fyrrverandi ritstjóra blaðsins,  Sigurjón M. Egilsson. Bað hann mig síður en svo fyrir það. Efist einhver um orð Sigurjóns, sem ég hef raunar ekki heyrt neinn gera, þá mun hann geta lagt fram fjöldann allan af tölvuskeytum frá Hreini þeim til staðfestingar.

Sú var tíð, að Hreinn Loftsson var samstarfsmaður okkar Davíðs. Það var fyrir mín orð, að Davíð réð hann aðstoðarmann sinn sumarið 1991. Reyndist Hreinn vel í því starfi, enda séður, lögfróður, vinnusamur og í eðli sínu húsbóndahollur. Bárum við Davíð fullt traust til hans þrátt fyrir varnaðarorð sumra, sem töldu hann blendinn í skapi og fégjarnan úr hófi fram.

Hvers vegna hefur Hreinn eytt síðustu misserum og jafnvel árum í að sannfæra lesendur DV og aðra þá, sem hirða um að hlusta á hann, um, að Davíð Oddsson hafi verið duttlungafullur harðstjóri, sem hafi iðulega grætt mig og aðra vini sína, en sigað lögreglunni á óvini sína? Það er vegna þess, að Hreinn þarf að smíða sögu því til réttlætingar, að hann gekk árið 2002 til liðs við þá menn, sem barist hafa hvað harðast gegn Davíð, Baugsfeðga. Hann getur ekki sagt sjálfum sér eða öðrum hina raunverulegu ástæðu, sem er, að hann lét glepjast af blikandi Baugsgulli.

Í upphafi vonaði Hreinn eflaust, að hann gæti leitt Davíð og Baugsfeðga saman. Til þess hafa þeir sennilega ráðið hann í þjónustu sína. Gerðist hann stjórnarformaður Baugs á háum launum og ráðgjafi Baugsfeðga um stjórnmál og fjölmiðla. En Davíð skynjaði fljótlega, að eitthvað var bogið við Baug. Þeir feðgar höfðu vissulega hafist upp af sjálfum sér, eins og lofsvert er, en þeir fóru fram af hörku og hófleysi. Þess vegna hafði Davíð ólíkt sumum öðrum stjórnmálamönnum vara á sér gagnvart þeim. Hreinn gerðist hins vegar handgenginn þeim feðgum og fjarlægðist Davíð að sama skapi.

Mér er það minnisstætt, þegar Hreinn rakti fyrir mér snemma árs 2002, hversu hagkvæmt væri fyrir Baug að kaupa fyrirtækið Arcadia í Bretlandi. Fyrirtækið ætti vanmetnar fasteignir, sem mætti selja fyrir kaupverðinu. Kaupandinn ætti þá fyrirtækið eftir skuldlaust. Hið eina, sem þyrfti, væri frekari lánafyrirgreiðsla frá íslensku bönkunum (sem þá voru enn að mestu leyti í eigu ríkisins), en hún væri ófáanleg vegna tortryggni Davíðs í garð Baugsfeðga, sem letti stjórnendur bankanna. „Ég get gert þig að ríkum manni,“ sagði Hreinn ákafur, og augun ljómuðu. „Þú þarft ekki að leggja fram nema eitthvert smáræði, en eftir eitt ár áttu hundrað milljónir.“

Eflaust hefur hugsunin verið sú, að ég reyndi að hafa áhrif á Davíð, þótt ekki væri beinlínis um það talað. Ég vildi hins vegar ekki flækjast í einhver ævintýri og vissi raunar líka, að málið var flóknara. Landsbankamenn höfðu þegar ákveðið án þess að bera það undir kóng og prest að veita Baugi ekki lán í þetta ævintýri. Búnaðarbankamenn höfðu að eigin frumkvæði samband við forystumenn í stjórnmálum og fengu þau eðlilegu skilaboð að fara sér hægt, á meðan verið væri að selja bankana. Þess vegna áttu Baugsfeðgar erfitt með að útvega sér fé úr íslensku bönkunum í Arcadia-kaupin, en ekki vegna einhverrar vonsku Davíðs Oddssonar í þeirra garð.

Eftirleikurinn er í meginatriðum kunnur, þótt ýmsu fróðlegu megi bæta við. Baugur græddi vel á Arcadia-ævintýrinu og varð voldugur auðhringur, sem rak í krafti fjölmiðla sinna hatursherferð gegn Davíð og öðrum þeim, sem þorðu að andæfa. Þótt Hreinn Loftsson tvístigi um skeið, gerðist hann dyggur þjónn Baugsfeðga í þessari herferð og hefur verið það síðan. Rættist þá eftirlætismálsháttur hans á honum sjálfum: Sá á hund, sem elur. Hreinn er sem fyrr starfsmaður góður, séður, lögfróður, vinnusamur og húsbóndahollur. En hann er ekki hamingjusamur. Hann situr vansæll við tölvu sína heima í Garðabænum á hverju kvöldi og semur óhróður um Davíð og „Náhirðina“. Sagan af Hreini er hin gamalkunna saga um mann, sem fórnar sannfæringu sinni og vinum fyrir gull. Líklega hefur Hreinn þó komist að hinu fornkveðna síðustu vikur, að auður er fallvaltastur vina.   


Sannleikurinn í málinu

Hreinn Loftsson, útgefandi DV, spinnur á Netinu upp fáránlega sögu, sem á að sýna, að ég hafi verið eitt versta fórnarlamb „þöggunar“ Davíðs Oddssonar.

Sannleikurinn í málinu er einfaldur. Von var á Kínaforseta til landsins í júní 2002. Davíð Oddsson var forsætisráðherra, og það féll í hlut forsætisráðuneytisins að sjá um heimsóknina. Falun Gong-hreyfingin vildi efna til mótmælaaðgerða. Lögreglan tók því illa og reyndi að torvelda aðgerðir hreyfingarinnar. Margir töldu, að lögreglan færi offari. Illugi og Hrafn Jökulssynir skipulögðu undirskriftasöfnun til að biðja mótmælendur afsökunar á því, hversu langt lögreglan gengi.

Við vinirnir Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson ræddum þetta okkar í milli. Allir höfðum við samúð með andstæðingum Kínastjórnar. (Um stjórnarfar í Kína má fræðast í bókinni Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kom út haustið 2009.) En skoðanir voru skiptar um annað í okkar hópi. Birni fannst tekið of hart á mótmælendum, Kjartani fundust báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls, og Gunnlaugur Sævar studdi Davíð. Ég var sömu skoðunar og Björn.

Þegar Hrafn Jökulsson hringdi í mig og bað mig um að skrifa undir, ákvað ég að gera það, ekki síst til að sýna andstöðu við Kínastjórn. Þegar Davíð sá nafn mitt á undirskriftalistanum, hringdi hann í mig. Hann var mér sár, en ekki reiður. Hann skýrði út, að Ísland væri bundið af alþjóðlegum samningum um vernd þjóðhöfðingja í opinberum heimsóknum þeirra. Falun Gong-hreyfingin virtist hafa ákveðið að láta reyna á það, hversu vel þetta litla ríki á hjara veraldar gæti varið hinn mikilvæga gest. Nú sæti hann sem forsætisráðherra undir harðri og ómaklegri gagnrýni fyrir það eitt að gegna skyldu sinni. Hann lauk samtalinu á þessum kjarnmiklu og eftirminnilegu orðum: „Ég hef aldrei beðið afsökunar á Hannesi Hólmsteini. En nú biður Hannes Hólmsteinn afsökunar á mér.“

Mér þótti þetta miður. Ég sagði Gunnlaugi Sævari strax frá þessu samtali, og hann ráðlagði mér að skýra afstöðu mína betur út fyrir Davíð. Ég settist niður og skrifaði Davíð stutt bréf, þar sem ég gerði þetta, en kvaðst skilja sjónarmið hans mjög vel. Þegar öll spjót stæðu á honum (eins og vissulega var í þessu Kínamáli), ættu vinir hans auðvitað ekki að gera neitt það, sem skilja mætti opinberlega sem árás á hann. Þeir ættu frekar að láta gagnrýni sína í ljós við hann beint og milliliðalaust. Sá er vinur, sem til vamms segir, en máli skiptir, hvar það er gert og undir hvaða formerkjum.

Strax og Davíð fékk þetta bréf, hringdi hann aftur í mig. Hann sagði, að þetta væri gott bréf. Við værum ekki sammála um allt í þessu Kínamáli, en vinátta okkar hefði ekki haggast. Ég kvaðst sem satt er skilja hans sjónarmið betur við nánari umhugsun. Ísland verður að geta verndað erlenda þjóðhöfðingja fyrir mótmælendum, þótt sjálfsagt sé um leið að leyfa friðsamleg mótmæli gegn þeim. Ég tók nafn mitt þess vegna ekki út af undirskriftalista þeirra Jökulssona: Ég vildi eftir sem áður mótmæla harðstjórninni í Kína.

Davíð Oddsson verður hins vegar ekki vændur um þjónkun við Kínastjórn. Hann tók til dæmis á móti varaforseta Taívan á Þingvöllum 1997 þrátt fyrir harkaleg mótmæli stjórnarinnar í Beijing. Ólafur Ragnar Grímsson og ráðherrar vinstristjórnarinnar vildu hins vegar ekki hitta Dalai Lama, þegar hann var hér á ferð vorið 2009.

Hreinn Loftsson kom hvergi nærri þessu Kínamáli, þótt vel geti verið, að ég hafi síðar sagt honum frá því, enda vorum við málkunnugir fram á vorið 2004, þegar hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum með þeim orðum, að hér á landi væri „ógnarstjórn“. En hvers vegna spinnur Hreinn nú upp hina fáránlegu sögu sína, sem enginn trúir raunar, eins og sjá má í umræðum á Netinu? Og rægir sífellt í blaði sínu gamlan vin og samverkamann, Davíð Oddsson? Það er efni í aðra grein á morgun að skýra það.


Bloggfærslur 22. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband