Skorið úr ritdeilum

1200px-Hammer_and_sickle_red_on_transparent.svgFlestar ritdeilur, sem háðar eru á Íslandi, líða út af, þegar þátttakendurnir þreytast, í stað þess að þeim ljúki með niðurstöðu. Svo er þó ekki um tvær ritdeilur, sem ég þekki til. Aðra háðu þeir Jón Ólafsson heimspekingur og Þór Whitehead sagnfræðingur á síðum tímaritsins Sögu árin 2007–2009. Í Moskvu hafði Jón fundið skjal, sem hann taldi benda til, að stofnun Sósíalistaflokksins haustið 1938 hefði verið andstæð vilja Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista. Þetta var minnisblað frá einum starfsmanni Kominterns til forseta sambandsins, þar sem hann lýsti efasemdum um, að skynsamlegt væri að kljúfa Alþýðuflokkinn. Þór andmælti þessu, enda væri slíkt innanhússplagg ekki nauðsynlega opinber stefna sambandsins, og hvergi hefði komið fram annars staðar, að Kremlverjar hefðu verið mótfallnir stofnun Sósíalistaflokksins. Ég fann síðan í skjalasafni Sósíalistaflokksins bréf frá forseta Alþjóðasambands ungra kommúnista til Æskulýðsfylkingarinnar, sambands ungra sósíalista, þar sem hann lýsti yfir sérstakri ánægju með stofnun sambandsins og stefnuskrá. Óhugsandi er, að þetta bréf hefði verið sent, hefði Komintern verið mótfallið stofnun Sósíalistaflokksins. Ritdeilunni var lokið. Þetta reyndist vera heilaspuni Jóns.

Seinni ritdeiluna háðum við Halldór Guðmundsson, umsjónarmaður Hörpu. Hann hélt því fram, að verk Halldórs Laxness hefðu á sínum tíma hætt að koma út í Bandaríkjunum, vegna þess að íslenskir ráðamenn (Bjarni Benediktsson) og bandarískir erindrekar hefðu unnið gegn því. Ég benti á, að engin skjöl hefðu fundist um þetta, þótt vissulega hefði einn bandarískur stjórnarerindreki velt því fyrir sér í skýrslu, hvort ekki yrði álitshnekkir að því fyrir Laxness að verða uppvís að undanskoti undan skatti af tekjum sínum í Bandaríkjunum og broti á gjaldeyrisskilareglum. Sýndi þetta, hversu lítt bandarískir erindrekar þekktu Íslendinga, sem hefðu flestir gert hið sama í sporum Laxness. Jafnframt gat Laxness þakkað sínum sæla fyrir, að gjaldeyriseftirlit virðist um þær mundir hafa verið mildara en hin síðari ár, þegar Már Guðmundsson seðlabankastjóri sigaði lögreglunni á útflutningsfyrirtæki við hinn minnsta grun um brot á gjaldeyrisskilareglum. En síðan hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur fundið í skjalasafni Alfreds Knopfs, útgefanda Laxness í Bandaríkjunum, álitsgerðir bókmenntaráðunauta hans, sem taka af öll tvímæli um, að ekki var hætt að gefa út bækur Laxness af stjórnmálaástæðum, heldur vegna þess að Knopf og ráðunautar hans töldu, að þær myndu ekki seljast. Ritdeilunni var lokið. Þetta reyndist vera hugarburður Halldórs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. júlí 2021.)


Tvær þrálátar goðsagnir

5249-4001Sumar goðsagnir virðast eiga sér mörg líf. Drengsmálið svokallaða 1921 snerist um það, að Ólafur Friðriksson, leiðtogi vinstri arms Alþýðuflokksins, hafði tekið með sér frá Rússlandi ungling, sem talaði rússnesku og þýsku, en Ólafur ætlaði honum að aðstoða sig við samskipti við hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu. Þegar unglingurinn reyndist vera með smitandi augnveiki, sem valdið getur varanlegri blindu, var hann að læknisráði, en eftir nokkur átök, sendur úr landi. Pilturinn hét Nathan Friedmann og hafði misst föður sinn í rússneska borgarastríðinu. Pétur Gunnarsson segir í bókinni Í fátæktarlandi árið 2007 (bls. 128): „Nathan, sem var gyðingur og hafði sest að í Frakklandi, hvarf sporlaust við innrás Þjóðverja í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari — og hefur nær örugglega liðið upp um skorsteininn í einhverjum úttrýmingarbúðum nasista.“ En Pétur Pétursson (þulur og alþýðufræðimaður) hafði upplýst 21 ári áður í bók um Drengsmálið, að Nathan hafði látist á sóttarsæng 1938.

Eittaegsamt-scaledÍ sjálfsævisögu Árna Bergmanns, Eitt á ég samt, er önnur goðsögn endurtekin í kafla um Halldór Laxness (bls. 248). „Seinna voru dregin fram gögn úr skjalasöfnum vestra sem sýna að bæði amrískir diplómatar og íslenskir stjórnmálaforingjar leituðu allra ráða í köldu stríði til að spilla orðstír og útgáfumöguleikum þess skaðræðismanns sem þeir töldu Halldór vera.“ Engin slík skjöl eru til. Einu skjölin eru um það, eins og ég skýrði frá í bók minni um íslensku kommúnistahreyfinguna fjórum árum áður en Árni gaf út rit sitt, að Halldór hafði ekki talið fram á Íslandi tekjur sínar í Bandaríkjunum, og lauk því máli svo, að skáldið samþykkti að greiða nokkra upphæð í ríkissjóð, en hlaut einnig dóm fyrir brot á gjaldeyrisskilareglum. Í skýrslu taldi bandarískur stjórnarerindreki líklegt, að þetta gæti orðið Halldóri til álitshnekkis á Íslandi, en svo reyndist ekki verða. Nú nýlega hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson birt skjöl frá bandaríska útgefandanum, Alfred Knopf, sem sýna, að ákvörðunin um að hætta útgáfu verka Halldórs réðst af mati bókmenntaráðunauta hans, ekki stjórnmálaástæðum.

Hægri menn á Íslandi bera hvorki ábyrgð á dauða Nathans Friedmanns né gengisleysi Halldórs Laxness í Bandaríkjunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. júlí 2021.)


Eins einfalt og það lítur út fyrir að vera

Eittaegsamt-scaledÍ heimsfaraldrinum hef ég haldið mig heima við, og þá hefur gefist tími til að lesa ýmsar ágætar bækur. Ein þeirra er sjálfsævisaga Árna Bergmanns, Eitt á ég samt, sem kom út fyrir nokkrum árum. Hún er lipurlega skrifuð eins og vænta mátti.

Árni fór ásamt Arnóri Hannibalssyni til náms í Moskvu 1954. Í sjálfsævisögunni segir hann frá því (bls. 110), að á útmánuðum 1956 hafi tveir römmustu stalínistar Íslands, Kristinn E. Andrésson, forstjóri bókafélagsins Máls og menningar, og Eggert Þorbjarnarson, framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, komið til Moskvu í því skyni að sitja þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Þeir Árni og Arnór hafi heimsótt þá á gistihús og talið borist að ömurlegu hlutskipti Eystrasaltsþjóðanna þriggja, Eistlendinga, Letta og Litháa. Kremlverjar höfðu hertekið lönd þeirra, barið niður alla andstöðu og flutt marga frammámenn í gripavögnum til Síberíu. Eggert hafi neitað að trúa frásögnum íslensku stúdentanna um ástandið í Eystrasaltslöndum, en Kristinn tekið þeim betur, enda hafi hann fengið svipaðar upplýsingar frá íslenskum sjómanni, sem siglt hafi á Ventspils í Lettlandi. „Já, ég veit, að þetta er rétt hjá strákunum,“ sagði Kristinn.

Árni bætir við: „Ég segi frá þessu hér, m. a. vegna þess að ekkert er eins einfalt og það lítur út fyrir að vera í skrifum manna eins og Hannesar H. Gissurarsonar og Þórs Whitehead.“ En hvað er Árni í rauninni að segja með þessari sögu? Hann er að segja, að Kristinn hafi gert sér að minnsta kosti nokkra grein fyrir kúguninni í Ráðstjórnarríkjunum. Samt barðist Kristinn ótrauður alla ævi fyrir því að koma á svipuðu kerfi á Íslandi og stóð þar eystra. Skoðun hans breyttist ekki hið minnsta eftir þetta samtal. Yrði Sovét-Ísland, óskalandið, ekki til með góðu, þá með illu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júlí 2021.)


Skammt öfga í milli

Sorensen.MarxtilQuislingUndanfarið hef ég velt fyrir mér tengslum fasisma og annarra stjórnmálastefna, en í nýlegri ritgerð reyna þau Ragnheiður Kristjánsdóttir og Pontus Järvstad að spyrða saman Sjálfstæðisflokkinn og íslenska fasista á fjórða áratug síðustu aldar. Auðvitað voru þjóðernisstefna og andkommúnismi frá öndverðu snarir þættir í stefnu Sjálfstæðisflokksins, svo að sumir forystumenn hans höfðu samúð með Þjóðernishreyfingu Íslendinga, sem stofnuð var 1933. Hún var ekki heldur hreinræktuð fasistahreyfing. En íslenskur fasistaflokkur, sem kallaði sig Flokk þjóðernissinna, spratt einmitt upp í ársbyrjun 1934 í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn, eftir að tveir menn úr Þjóðernishreyfingunni höfðu tekið sæti á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Hlaut Flokkur þjóðernissinna sáralítið fylgi þá og í þingkosningunum eftir það, bauð síðast fram í bæjarstjórnarkosningum 1938 og lognaðist síðan út af.

Fróðleg bók kom fyrir mörgum árum út í Noregi eftir sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen, sem komið hefur hingað til lands og haldið fyrirlestra. Hún heitir Fra Marx til Quisling og er um fimm norska sósíalista og kommúnista, sem gerðust fasistar og gengu í lið með Quisling, Eugène Olaussen, Sverre Krogh, Halvard Olsen, Håkon Meyer og Albin Eines. Voru þeir allir í forystusveit norskra vinstri manna. Sinnaskipti þeirra urðu fyrir hernám Þjóðverja, svo að ekki má skýra þau með hentistefni einni saman. Olaussen var ritstjóri sósíalistablaðsins Klassekampen 1911–1921, og árið 1945 skrifaði hann í endurminningum sínum: „Það er mér ánægja að vita til þess, að margir minna bestu og tryggustu samstarfsmanna í Klassekampen hafa nú fundið hinn eina sanna sósíalisma og að við höfum á þjóðlegum, norskum grundvelli fengið að sjá hið besta í hugmyndum okkar framkvæmt, hreinsað af öllu gyðingagjalli úr marxismanum.“

Í bók sinni gerir Sørensen skilmerkilega grein fyrir því, hvað í fasismanum laðaði þessa gömlu sósíalista að. Þeir trúðu því allir, að borgaralegt frelsi væri týnt og tröllum gefið. Þeir höfnuðu því, sem þeir töldu tvær myndir kapítalismans, ríkiskapítalisma Stalíns og auðræði Vesturlanda. Verkamenn hverrar þjóðar ættu að sameinast, en ekki öreigar allra landa. Viðkvæði þeirra var hið sama og Hitlers: Almannahag ofar einkahag.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júlí 2021.)


Hvað er fasismi?

20.2 Mussolini and HitlerMér varð hugsað til þess, þegar ég las nýlega óvandaða ritgerð þeirra Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Pontusar Järvstads um andfasisma á Íslandi í enskri bók, að brýnt var fyrir mér í heimspekinámi endur fyrir löngu að nota orð nákvæmlega. Fasismi er eitt þeirra orða, sem nú er aðallega merkingarsnautt skammaryrði, en ætti að hafa um sögulegt fyrirbæri (sem kann auðvitað að eiga sér einhverjar nútíma hliðstæður).

Sjálfum finnst mér skilgreining bandaríska sagnfræðingsins Stanleys Paynes á fasisma skýrust. Hann einkennist af þrennu, segir Payne: andstöðu við frjálslyndisstefnu, íhaldsstefnu og kommúnisma; tilraun til að taka stjórn á öllum sviðum þjóðlífsins og beina kröftum að ágengri utanríkisstefnu; rómantískri dýrkun á ofbeldi, karlmennsku, æskufjöri og umfram allt öflugum leiðtogum, sem virkjað gætu fjöldann til samvirkrar framningar. Samkvæmt því voru Mússólíni og Hitler fasistar, þótt nasismi Hitlers hefði að auki ýmis þýsk sérkenni (svo sem stækt gyðingahatur). En langsóttara er að kalla Salazar í Portúgal, Franco á Spáni og Horthy í Ungverjalandi fasista, þótt vissulega styddust þeir allir við fasískar hreyfingar. Þeir voru frekar afturhalds- eða kyrrstöðumenn, en fasismi er í eðli sínu umrótsstefna.

Payne bendir á, að fasismi á ýmislegt sameiginlegt með kommúnisma, þótt hann sé myndaður í andstöðu við hann. Það er greinilegt ættarmót með þessum tveimur alræðisstefnum, enda hafði Mússólíni verið hefðbundinn sósíalisti, áður en hann hafnaði alþjóðahyggju og varð þjóðernissinni. Hið sama er að segja um fasistaleiðtogana Mosley í Bretlandi, Doriot í Frakklandi og Flyg í Svíþjóð. Hitler kallaði sig beinlínis sósíalista, þjóðernissósíalista.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júlí 2021.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband