Bláa hagkerfið í Gdansk

HHG.Gdynia.22.03.2019Á fyrra helmingi ársins 2019 flutti ég átta fyrirlestra opinberlega, sex þeirra erlendis. Hinn fyrsti þeirra var á ráðstefnu í Gdansk í Póllandi 22. mars um „bláa hagkerfið“, en Anna Fotyga, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, boðaði til ráðstefnunnar. Ég lýsti þar stuttlega kvótakerfinu íslenska, sem ég hef skrifað um tvær bækur á ensku, Overfishing: The Icelandic Solution, sem Institute of Economic Affairs gaf út í Lundúnum 2000, og The Icelandic fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út í Reykjavík 2015. Eru bæði ritin aðgengileg ókeypis á Netinu.

Eftir því sem árin hafa liðið, hef ég áttað mig betur á tveimur aðalatriðum kvótakerfisins, og reyndi ég að koma þeim til skila í þessum fyrirlestri. Annað er, hvaða munur er á ókeypis úthlutun seljanlegra aflaheimilda í upphafi eins og þeirri, sem framkvæmd var á Íslandi í áföngum 1979–1990, og opinberum leigumarkaði með aflaheimildir, eins og sumir hagfræðingar börðust fyrir á sínum tíma. Munurinn er, að fyrri aðferðin er hagfræðilega réttari, því að hún er Pareto-hagkvæm, sem kallað er. Breyting er Pareto-hagkvæm, ef enginn tapar og allir eða að minnsta kosti sumir græða á henni. Við ókeypis úthlutun græddi ríkið á hagkvæmari fiskveiðum. Þeir, sem héldu í aflaheimildir sínar og keyptu nýjar, græddu. Þeir, sem seldu aflaheimildir og hættu veiðum, græddu líka. En hefði fiskimiðunum verið lokað og aflaheimildir verið leigðar hæstbjóðendum, þá hefði ríkið að vísu grætt leigutekjurnar. Þeir, sem hefðu haft fjárhagslegt bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu hvorki grætt né tapað, því að þeir hefðu notað það fé í að leigja aflaheimildir, sem þeir sóuðu áður í offjárfestingar. En þeir, sem hefðu ekki haft bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu tapað, því að allar þeirra fjárfestingar hefðu í einni svipan orðið verðlausar.

Hitt aðalatriðið er, að enginn verðmætur réttur var tekinn af öðrum, þegar fiskimiðunum var lokað. Eini rétturinn, sem aðrir en kvótahafar voru þá sviptir, var rétturinn til að gera út á núlli, en fiskihagfræðin kennir okkur, að sú verður niðurstaðan, ef fiskimiðin eru opin öllum, því að þá aukast fiskveiðar að því marki, að kostnaður verður jafnmikill ávinningi. Þessi réttur er því eðli málsins samkvæmt verðlaus.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2019.)


Grænn kapítalismi í Las Vegas

HHG.Lecture.LasVegas.17.07.2019Árlega halda frjálslyndir menn og íhaldssamir í Bandaríkjunum, andstæðingar vinstri stefnu, eins konar uppskeruhátíð, bera saman bækur sínar og sýna kvikmyndir, í Las Vegas undir heitinu „Freedomfest“, frelsisveisla. Er hún mjög fjölmenn og fjölbreytni mikil í vali fyrirlesara og umræðuefna. Mér var boðið að halda þar fyrirlestur 17. júlí 2019 um „grænan kapítalisma“, en um hann skrifaði ég bókarlanga skýrslu á ensku fyrir hugveituna New Direction í Brüssel 2017.

Í fyrirlestrinum gerði ég greinarmun á hófsamri umhverfisverndarstefnu (wise use environmentalism), þar sem stefnt er að sjálfbærri og arðbærri nýtingu náttúruauðlinda, og öfgaumhverfisstefnu (ecofundamentalism), þar sem náttúran er gerð að sjálfstæðum rétthafa æðri venjulegu fólki og stefnt að friðun frekar en verndun. Benti ég á, að öfgaumhverfisstefna bæri svip af ofsatrú og ætti sínar heilögu kýr eins og hindúasiður.

Ef markmiðið er hins vegar verndun, þá krefst hún raunverulegra verndara. Til dæmis er unnt að breyta veiðiþjófum í Afríku í veiðiverði með einu pennastriki: með því að gera þá að eigendum dýrastofna í útrýmingarhættu, svo sem fíla og nashyrninga, en bein fílanna og horn nashyrninganna eru eftirsótt. Raunhæfasta ráðið til að tryggja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda er að skilgreina eigna- eða afnotaréttindi á þeim, koma þeim í umsjá. Í því sambandi lýsti ég stuttlega kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi, en við Íslendingar búum ólíkt flestum öðrum þjóðum við sjálfbært og arðbært kerfi í fiskveiðum.

Úr því að ég var í Bandaríkjunum, gat ég ekki stillt mig um að gera hvalveiðar að umtalsefni, en Bandaríkjamenn hafa lengi krafist þess með nokkrum þjósti, að við hættum hvalveiðum. Virðast hvalir vera umhverfisöfgamönnum sem heilagar kýr. Ég minnti á, að á Íslandsmiðum veiðum við árlega um og yfir einni milljón lesta (tonna) af fiski, en hvalir éta á sama tíma um sex milljónir lesta af sjávarfangi og fiski. Krafa öfgaumhverfissinna er með öðrum orðum, að við fóðrum hvalina á eigin kostnað, en fáum ekki að veiða þá. Þeir verða þá eins og freki bóndinn, sem rekur sauði sína í bithaga annarra, en harðneitar grönnum sínum um nytjar af þeim.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júlí 2019.)


Ekki er allt sem sýnist

JThorl1927Eitt meginhlutverk vísindanna er að gera greinarmun á sýnd og reynd, skynveruleika og raunveruleika. Það er að endurskoða og leiðrétta þá mynd af veruleikanum, sem við fáum fyrir tilstilli skynfæranna. Jörðin sýnist til dæmis flöt, en er í raun hnöttótt. Annað dæmi er munurinn á nafnvöxtum og raunvöxtum: Ef maður tekur lán á 5% vöxtum í 3% verðbólgu, þá eru raunvextir 2%, þótt nafnvextir séu 5%.

Mér varð hugsað til þessa greinarmunar á sýnd og reynd, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð níræður á dögunum. Það er alveg rétt, sem jafnan er sagt, að hann varð til, þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 25. maí 1929. Síðan er iðulega sagt með skírskotun til þess, að í flokknum takist á frjálslynd öfl og íhaldssöm.

Menn mega þó ekki láta nöfnin blekkja sig. Íhaldsflokkurinn var í raun frjálslyndur flokkur, en Frjálslyndi flokkurinn íhaldssamur. Þetta má sjá með því að kynna sér stefnuskrár flokkanna, starfsemi og verk. Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn 24. febrúar 1924, vegna þess að hann vildi halda í fengið frelsi, eins og hann skýrði út í snjallri grein í Eimreiðinni 1926. Hann vildi verja þetta frelsi gegn nýstofnuðum stéttarflokkum, Framsóknarflokki bænda og Alþýðuflokki verkalýðsrekenda. Ólíkt frjálslyndishugtakinu er íhaldshugtakið afstætt frekar en sjálfstætt: Öllu máli skiptir, í hvað er haldið. Þegar Jón var fjármálaráðherra 1924–1927, jók hann atvinnufrelsi með því að leggja niður ríkisfyrirtæki og lækka skuldir hins opinbera. Sigurður Eggerz, leiðtogi Frjálslynda flokksins, hafði hins vegar verið örlátur á almannafé, á meðan hann var fjármálaráðherra 1917–1920, og safnað skuldum.

Frjálslyndi flokkurinn, sem var að vísu losaralegur sína stuttu starfstíð, lagði megináherslu á ramma þjóðernisstefnu, en hún er auðvitað af ætt íhaldsstefnu frekar en frjálshyggju. Einn aðalmaður Frjálslynda flokksins, Bjarni Jónsson frá Vogi, hafði einmitt sett það skilyrði fyrir stuðningi við stjórn Íhaldsflokksins, að ný ættarnöfn yrðu bönnuð með lögum, því að hann taldi þau óíslenskuleg. Annar forystumaður Frjálslynda flokksins, Benedikt Sveinsson, hafði verið andvígur sambandslagasáttmálanum 1918, því að hann vildi ekki veita Dönum þau réttindi á Íslandi, sem kveðið var á um í sáttmálanum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2019.)


Ásgeir Pétursson

Andlát_Ásgeir-Pétursson-sýslumaðurÞótt furðulegt sé, átti Josíf Stalín marga vini í Norðurálfunni um miðja tuttugustu öld. Hér á landi voru þeir raunar fleiri en víðast annars staðar. Flokkur þeirra, sem hafði kastað kommúnistanafninu og kenndi sig við sósíalisma, fékk nær fimmtung atkvæða í þingkosningum 1946 og 1949. Naut hann rausnarlegra, en leynilegra framlaga frá Moskvu, sem auðveldaði honum að reka voldug útgáfufyrirtæki og kosta verkföll í stjórnmálaskyni. Andstæðingarnir sættu ofsóknum og útskúfun, ef og þegar til þeirra náðist, ekki síst rithöfundar. Eins og Þór Whitehead prófessor lýsir í smáatriðum í bókinni Sovét-Íslandi, óskalandinu, beittu kommúnistar ekki aðeins ofbeldi í vinnudeilum, heldur reyndu líka með öllum ráðum að koma í veg fyrir Keflavíkursamninginn 1946. Þeir létu svívirðingar ekki duga, heldur veittust að ráðamönnum á götum úti og fóru að heimilum þeirra.

Það þurfti kjarkmenn til að skora þetta illvíga lið á hólm. Ásgeir Pétursson, sem lést í hárri elli 24. júní 2019, var slíkur kjarkmaður. Hann var laganemi, þegar hann birti árið 1948 tímamótagrein þess efnis, að lýðræðissinnar yrðu að sameinast um að tryggja lög og reglu í landinu. Það féll síðan í hlut hans að skipuleggja varalið til stuðnings lögreglu, þegar kommúnistar gerðu sig líklega til að ráðast á Alþingishúsið 30. mars 1949 og hindra afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Tókst að hrinda þeirri árás, en ein áreiðanlegasta heimildin um atburðarásina þann örlagadag er rækilegur hæstaréttardómur frá 1950.

Sennilega er annað framtak Ásgeir síður kunnugt. Hann var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar í menntamálaráðuneytinu 1953–1956, og er óhætt að segja, að þeir hafi í sameiningu skipulagt gagnsókn lýðræðissinna í menningarmálum. Þeir Guðmundur G. Hagalín og Kristmann Guðmundsson, sem kommúnistar höfðu lagt í einelti, fengu til dæmis störf, þar sem hæfileikar þeirra fengu að njóta sín, og Almenna bókafélagið var stofnað 17. júní 1955 til að búa borgaralegum rithöfundum skjól. Rek ég stuttlega þá sögu í formála bókarinnar Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958, sem Almenna bókafélagið gaf út 1. desember 2018 á 100 ára afmæli fullveldisins. Ásgeir Pétursson var einn þeirra manna, sem stóðu vörð um fullveldi Íslands, þegar á reyndi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband