Söguleg epli

65614923_10156496034193247_6449133732723949568_nÁ dögunum rakst ég á skopteikningu, þar sem þjónn gengur með epli á bakka að borði, og sitja þar ýmsar kunnar söguhetjur. Fyrst skal telja þau Adam, Evu og höggorminn. Þegar höggormurinn hafði vélað Adam og Evu til að eta af skilningstrénu, kallaði Drottinn til Adams: „Hvar ertu?“ Adam varð svo hræddur, að ávöxturinn stóð í honum og Adamseplið myndaðist. Önnur saga er um þrætueplið, sem falla átti í skaut fegurstu gyðjunni grísku, og Paris af Tróju veitti Afrodítu, eftir að honum hafði verið lofuð Helena hin fagra frá Spörtu. Samkvæmt norrænni goðafræði áttu epli Iðunnar að veita goðunum eilífa æsku, þótt ekki væri ásynjan raunar sýnd á skopteikningunni, kveikju þessa mola.

Í þýska miðaldaævintýrinu um Mjallhvíti segir, að hin illa stjúpa hennar hafi eitrað epli og gefið stúpdóttur sinni, og hafi hún þá fallið í dá. Walt Disney gerði fræga teiknimynd eftir ævintýrinu, en eins og ég hef áður bent hér á, var þar fyrirmynd Mjallhvítar íslensk stúlka, Kristín Sölvadóttir. Í svissneskri þjóðsögu er frá því hermt, að árið 1307 hafi fógeti Habsborgara í Uri-fylki reiðst bogaskyttunni Vilhjálmi Tell, sem vildi ekki beygja sig undir stöng með hatti fógetans. Gaf hann Vilhjálmi kost á því að bjarga lífi sínu og sonar síns, ef hann hitti á epli, sem sett var á höfuð drengsins í hundrað skrefa fjarlægð. Vann Vilhjálmur þetta afrek og gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Svisslendinga. Minnir sagan á þátt af Hemingi Áslákssyni, sem þreytti skotfimi við Harald harðráða. Þegar hann varð hlutskarpari, reiddist konungur og skipaði Hemingi að skjóta í hnot á höfði bróður hans, og tókst honum það.

Oft hefur verið sögð sagan af Ísaki Newton, þegar epli féll á höfuð hans árið 1666, þar sem hann lá upp við tré í garði móður sinnar í Lincoln-skíri, en eftir það uppgötvaði hann þyngdarlögmálið. Stórborgin Nýja Jórvík, New York, er stundum kölluð Stóra eplið, en uppruninn mun vera í ádeiluriti frá 1909, þar sem sagt var, að þetta stóra epli drægi til sín of mikið af hinum bandaríska þjóðarsafa. Nú þekkja margir epli aðallega af tölvufyrirtækinu Apple. Steve Jobs, stofnandi þess, kveðst hafa valið nafnið, eftir að hann hafði verið nokkurn tíma á ávaxtafæði einu saman. Sér hefði fundist nafnið skemmtilegt, óáleitið og andríkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2010.)


Hvern hefði það skaðað?

grossmanatstalingradVasílíj Grossman var einn snjallasti rithöfundur Rússlands á valdadögum kommúnista, en fátt eitt hefur verið frá honum sagt á Íslandi. Hann var af gyðingaættum, fæddist í Úkraínu 1905 og varð efnaverkfræðingur. Á fjórða áratug tók hann að gefa sig að skrifum, en gat sér fyrst orð, þegar hann gerðist stríðsfréttaritari og lýsti meðal annars aðkomunni að útrýmingarbúðum nasista. Eftir stríð gældi Stalín við gyðingaandúð og bannaði útkomu svartbókar, sem Grossman og Ílja Erenbúrg höfðu tekið saman um gyðingaofsóknir nasista. Grossman fékk ekki heldur að gefa út tvær mestu skáldsögur sínar, Líf og örlög og Allt fram streymir, því að þær þóttu fjandsamlegar kommúnismanum.
Grossman lauk við Líf og örlög 1960, fjórum árum áður en hann féll frá, ekki orðinn sextugur. Sögusviðið er að nokkru leyti Stalínsgarður 1943, þar sem alræðisríkin tvö, Þýskaland Hitlers og Rússland Stalíns, börðust upp á líf og dauða. Höfundur lætur þá skoðun oftar en einu sinni í ljós, að nasismi og kommúnismi séu greinar af sama meiði. Hann veltir mjög fyrir sér því furðulega fyrirbæri tuttugustu aldar, að menn fremja hryllilega glæpi í nafni háleitra hugsjóna. Ein söguhetjan, rússneski stríðsfanginn Pavljúkov, átti sér hins vegar hversdagslegan draum:

„Frá því að ég var krakki, hefur mig langað að reka eigin búð, þar sem menn gætu keypt allt, sem þá vantaði. Með litlum veitingastað. „Jæja, núna hefurðu verslað nóg, nú skaltu fá þér bjór, smávegis af vodka, bita af grilluðu kjöti!“ Ég hefði boðið upp á sveitamat. Og ég hefði ekki sett upp hátt verð. Bakaðar kartöflur! Fitusprengt beikon með hvítlauk! Súrkál! Og veistu, hvað ég hefði látið fólk fá með drykkjunum? Merg úr beinum! Ég hefði látið þau malla í pottinum. „Jæja, nú hefurðu greitt fyrir vodkað þitt. Nú skaltu fá þér svart brauð og beinmerg!“ Og ég hefði verið með leðurstóla, svo að engin lús gæti komist að. „Þú skalt sitja þarna og láta þér líða vel, við sjáum um þig.“ Nú, ef ég hefði sagt eitt einasta orð um þetta, þá hefði ég verið sendur beina leið til Síberíu. En ég fæ ekki séð, hvernig þetta hefði skaðað nokkurn mann.“

Frjálshyggja snýst um að leyfa Pavljúkovum heimsins að reka búðirnar sínar. Hvern hefði það skaðað?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)


Stoltenberg, Hallvarður gullskór og Loðinn Leppur

Smáríki eru notalegar, mannlegar einingar, þar sem gæði eins og samheldni og gagnsæi njóta sín miklu betur en í stærri ríkjum. En smæðin veldur tvenns konar vanda. Í fyrsta lagi er markaðurinn lítill í smáríkjum. Þennan vanda má leysa með alþjóðlegu viðskiptafrelsi. Þá njóta smáríki kosta hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar. Í annan stað eru smáríki auðveld skotmörk stærri ríkja, eins og reynsla áranna milli stríða sýnir best. Þessi vandi var leystur með Atlantshafsbandalaginu undir kjörorðinu: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, heimsótti Ísland á dögunum og hafði mörg orð um það í ræðu í Norræna húsinu 11. júní, hversu vinsamlegur hann væri Íslendingum. Hvernig sýndi hann það, þegar hann var forsætisráðherra Noregs árin 2008–2009? Ólíkt Færeyingum og Pólverjum, sem veittu okkur í bankahruninu aðstoð án skilyrða, neituðu Norðmenn öllum okkar óskum um aðstoð. Stoltenberg, sem er jafnaðarmaður, lagði flokksbræðrum sínum í Bretlandi, Alistair Darling og Gordon Brown, lið á alþjóðavettvangi og beitti sér gegn því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hlypi undir bagga, fyrr en við hefðum gengið að freklegum kröfum Darlings og Browns, sem þá þegar höfðu sett á okkur hryðjuverkalög. (Hryðjuverkalög! Á annað aðildarríki Atlantshafsbandalagsins!)
Norsk stjórnvöld aðstoðuðu síðan norska fjáraflamenn við að sölsa undir sig vænar eignir Glitnis á smánarverði, eins og ég lýsi nákvæmlega í skýrslu minni fyrir fjármálaráðuneytið, sem aðgengileg er á Netinu. Og það var dapurlegt að sjá Stoltenberg skálma um ganga Seðlabankans 27. febrúar 2009 eins og hann væri hér jarl, eftir að undarlegur norskur maður hafði verið ráðinn seðlabankastjóri þvert á stjórnarskrárákvæði um, að allir íslenskir embættismenn skyldu vera íslenskir ríkisborgarar. Það var eins og Hallvarður gullskór og Loðinn Leppur væru aftur komnir til Íslands.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2019.)


Upp koma svik um síðir

Vorið 2003 var stutt í þingkosningar. Helsta kosningamál Samfylkingarinnar var, að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, væri harðstjóri, sem sigaði lögreglunni á óvini sína. Fréttablaðið, sem þá var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, þótt leynt færi, birti frétt 1. mars um, að stjórn Baugs hefði á öndverðu ári 2002 óttast aðgerðir Davíðs, nokkrum mánuðum áður en lögregla gerði húsrannsókn hjá fyrirtækinu vegna kæru starfsmanns (en sannleiksgildi kærunnar var síðar staðfest af dómstólum). Hafði fundargerðum stjórnarinnar verið lekið í Fréttablaðið. Jón Ásgeir, aðaleigandi Baugs, birti þá yfirlýsingu um, að lekinn væri ekki frá sér. Ritstjóri blaðsins, Gunnar Smári Egilsson, staðfesti þá yfirlýsingu opinberlega. En fáir hafa veitt því athygli, að höfundur fréttarinnar hefur upplýst málið. Reynir Traustason segir beinlínis í bók sinni, Afhjúpun, sem kom út árið 2014, að þessi yfirlýsing sé ósönn (97. bls.). Það merkir auðvitað á mannamáli, að lekinn var frá Jóni Ásgeiri.
Vorið 2009 var aftur stutt í þingkosningar. Þá birti Stöð tvö, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, frétt um það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við 30 milljón króna styrk frá FL Group árið 2006, en það var síðasta ár án takmarkana á styrkjum til stjórnmálaflokka. Allir flokkar flýttu sér þá að upplýsa um styrki frá fyrirtækjum það ár. Samfylkingin sagðist (í Fréttablaðinu 11. apríl) hafa fengið 36 milljónir í styrki yfir 500 þúsund krónur frá fyrirtækjum, en Sjálfstæðisflokkurinn kvaðst hafa fengið 81 milljón í styrki yfir eina milljón. Kjósendur gengu með þessar upplýsingar inn í kjörklefann og veittu Sjálfstæðisflokknum ráðningu. En í janúar 2010 birtist skýrsla Ríkisendurskoðunar um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka árið 2006. Í ljós kom, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði þetta ár fengið samtals 104 milljónir króna, sem er í góðu samræmi við veittar upplýsingar, því að munurinn fólst í smærri styrkjum en einni milljón. En Samfylkingin, hafði þá fengið samtals 102 milljónir króna frá fyrirtækjum. Aldrei hefur verið veitt nein skýring á þessu hróplega misræmi. Í Morgunblaðinu 12. janúar 2006 hafði einn samkennari minn, Margrét S. Björnsdóttir, einmitt skrifað: „Það getur verið hætta á að orðtakið; æ sér gjöf til gjalda, eigi við í einhverjum tilvikum og því mikilvægt að öll stærri framlög séu opinber.“

Æ sér gjöf til gjalda, sagði Margrét. Upp koma svik um síðir, segjum við hin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2019.)


Talnameðferð Pikettys

Screenshot 2019-06-08 at 12.49.39Hið nýja átrúnaðargoð jafnaðarmanna, franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, telur fjármagn hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að leggja verði á alþjóðlega ofurskatta, 80% hátekjuskatt og 5% stóreignaskatt. Máli sínu til stuðnings þylur hann í bókinni Fjármagni á 21. öld tölur um þróun eigna- og tekjudreifingar í mörgum vestrænum löndum, þar á meðal Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Að baki þeim liggja að hans sögn margra ára rannsóknir.
En sýna gögn, að eigna- og tekjudreifing hafi orðið miklu ójafnari síðustu áratugi? Um það má efast. Sumar tölur Pikettys virðast vera mælingaskekkjur frekar en niðurstöður áreiðanlegra mælinga. Til dæmis er eina ástæðan til þess, að eignadreifing mælist nú ójafnari í Frakklandi og víðar en áður, að fasteignaverð hefur rokið upp. Því veldur aðallega tvennt: Ríkið hefur haldið vöxtum óeðlilega langt niðri, og einstök bæjarfélög hafa skapað lóðaskort á margvíslegan hátt, meðal annars með ströngu bæjarskipulagi. (Við Íslendingar þekkjum þetta hvort tveggja.) Ef hins vegar er litið á arð af því fjármagni, sem bundið er í fasteignum, þá hefur hann ekki aukist að ráði síðustu áratugi. Þess vegna er hæpið að tala um, að eignadreifing hafi orðið til muna ójafnari.
Tölur Pikettys um ójafnari tekjudreifingu í Bandaríkjunum vegna skattalækkana Ronalds Reagans virðast líka helst vera mælingaskekkjur. Árið 1981 var jaðarskattur á fjármagnstekjur lækkaður úr 70% í 50%. Þá brugðust fjármagnseigendur við með því að selja skattfrjáls verðbréf á lágum vöxtum, til dæmis skuldabréf bæjarfélaga, og kaupa þess í stað arðbærari verðbréf og aðrar eignir. En þótt tekjudreifingin hefði því ekki breyst, svo að heitið gæti, mældist hún ójafnari. Árið 1986 var jaðarskattur á tekjur síðan lækkaður úr 50% í 28%. Þetta hvatti hátekjufólk eins og lækna og lögfræðinga til að vinna meira og greiða sér frekar laun beint í stað þess að taka tekjurnar út í fríðindum eins og kaupréttar- og lífeyrissamningum. Enn þarf ekki að vera, að tekjudreifingin hefði breyst verulega, þótt hún mældist ójafnari. Piketty notaði líka tölur um tekjur fyrir skatt, en tekjudreifingin var vitanlega miklu jafnari eftir skatt.
Margar fróðlegar greinar um gallana á talnameðferð Pikettys birtast í bókinni Anti-Piketty, sem Cato Institute í Washington gaf út árið 2017.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband