Piketty: Er velmegun af hinu illa?

ThomasPikettyUm þessar mundir er Tómas Piketty helsti spámaður jafnaðarmanna. Boðskapur hans í bókinni Fjármagni á 21. öld vakti mikla athygli árið 2014: Þar eð arður af fjármagni vex oftast hraðar en atvinnulífið í heild, verða hinir ríku sífellt ríkari og öðlast óeðlileg ítök. Óheftur kapítalismi leiðir til ójafnari dreifingar tekna og eigna en góðu hófi gegnir. Vitnar Piketty í rækilegar rannsóknir á tekju- og eignaþróun víða á Vesturlöndum. Hann vill bregðast við með alþjóðlegum ofursköttum, 80% hátekjuskatti og 5% auðlegðarskatti.

Piketty virðist hafa miklu meiri áhyggjur af auðlegð en fátækt, þótt flest teljum við fátækt böl og velmegun blessun. Og einn galli á kenningu Pikettys blasir þegar við. Hann undanskilur það fjármagn, sem ef til vill er mikilvægast, en það er mannauður (human capital). Það felst í þekkingu manna, kunnáttu, þjálfun og leikni. Þótt menn eigi misjafnlega mikið af mannauði, dreifist hann eflaust jafnar um atvinnulífið en annað fjármagn.

Enn fremur verður að minna á, að nú á dögum er verulegt fjármagn í höndum lífeyrissjóða frekar en einkaaðila. Eignir lífeyrissjóða námu árið 2017 til dæmis 183% af landsframleiðslu í Hollandi og 152% á Íslandi.

Þegar Piketty fullyrðir, að óheftur kapítalismi leiði til ójafnrar tekjudreifingar, horfir hann líka fram hjá þeim ríkisafskiptum, sem auka beinlínis á hana. Eitt dæmi er tollar og framleiðslukvótar, sem gagnast fámennum hópum, en bitna á neytendum. Þá má nefna ýmsar opinberar takmarkanir á framboði vinnuafls, sem gera til dæmis læknum, endurskoðendum, hárgreiðslumeisturum og pípulagningamönnum kleift að hirða einokunarhagnað. Þriðja dæmið er skráning einkaleyfa og vernd höfundarréttar: Auður Bills Gates myndaðist ekki síst vegna einkaleyfa, og Agatha Christie og J.K. Rowling urðu ríkar af höfundarrétti. Minna má og á niðurgreidda þjónustu við efnað fólk, sem umfram aðra sækir tónleika og sendir börn sín í háskóla. Tekjudreifingin verður líka ójafnari við það, er eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja fá að hirða gróðann, þegar vel gengur, en senda skattgreiðendum reikninginn, þá er illa fer, eins og sást erlendis í síðustu fjármálakreppu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. apríl 2019.)


Sósíalismi í einu landi

Ayn.RandTveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru sem kunnugt er John Rawls og Thomas Piketty. Ég hef bent hér á nokkra galla á kenningu Rawls og mun á næstunni snúa mér að boðskap Pikettys. En um báða gildir, að þeir verða að gera ráð fyrir lokuðu hagkerfi, „sósíalisma í einu landi“.

Rawls getur ekki látið þá stórfelldu endurdreifingu tekna, sem hann hugsar sér til hinna verst settu, ná til allra jarðarbúa. Slík endurdreifing yrði sérhverju vestrænu ríki um megn. Til dæmis bjó árið 2017 einn milljarður manna á fátækasta svæði heims, í sólarlöndum Afríku (sunnan Sahara). Meðaltekjur þar voru 1.574 dalir. Í Bandaríkjunum bjuggu hins vegar 325 milljónir manna, og námu meðaltekjur þeirra 59.531 dal. Þess vegna takmarkar Rawls endurdreifinguna við vel stætt vestrænt ríki. Hann lokar augunum, reynir að hugsa sér réttláta niðurstöðu án sérhagsmuna, en þegar hann opnar augun aftur blasir við skipulag, sem líkist helst Cambridge í Massachusetts, þar sem hann bjó sjálfur: frjálst markaðskerfi í bjargálna ríki með nokkurri endurdreifingu fjármuna. Örsnauðir íbúar Haítí og Kongó koma ekki til álita.

Piketty verður að hafa þá ofurskatta á miklar eignir og háar tekjur, sem hann leggur til, alþjóðlega eða banna fjármagnsflutninga milli landa. Annars flytjast eignafólk og hátekjumenn frá háskattalöndum til lágskattalanda. Það er þessi hópur, sem greiðir mestalla skatta og stendur undir endurdreifingu. Til dæmis greiddi tekjuhæsti fimmtungurinn í Bandaríkjunum að meðaltali 57.700 dölum meira í skatta árið 2013 en hann fékk til baka frá ríkinu, næsttekjuhæsti fimmtungurinn 2.600 dölum meira, en hinir þrír fimmtungarnir fengu meira frá ríkinu en þeir lögðu til þess.

Þetta er kjarninn í skáldsögu Ayns Rands, Undirstöðunni, sem komið hefur út á íslensku: Hvað gerist, ef þeir, sem skapa verðmæti, til dæmis frumkvöðlar og afburðamenn, þreytast á að deila afrakstrinum með öðrum, sem ekkert skapa, og ákveða að hafa sig þegjandi og hljóðalaust á brott? Gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, kunna að vera fleygar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2019. Myndin er af Rand.)


Haldið til haga: Skrif Gunnars Smára

Ég var að taka til í fartölvunni minni og rakst þá á úrklippur, sem ég hafði tekið og geymt, en gleymt. Hér skrifar Gunnar Smári Egilsson um mig á Facebook. Hugsanlega geta einhverjir spekingar notað þessi ótrúlegu dæmi í umræðum um hatursorðræðu:

GunnarSmE.1GunnarSmE.2AthugasemdirGunnarSmaE


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband