Rannsóknaskýrsla mín fyrir 2017

Við prófessorar þurfum að skila rannsóknaskýrslu ár hvert og flokkum verk okkar samkvæmt sérstöku kerfi. Hér er skýrsla mín fyrir 2017:

Ritgerðir í viðurkenndum erlendum fræðitímaritum

Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries. Econ Journal Watch. Vol. 14(2), 241– 273.

Anti-Liberal Narratives About Iceland, 1991–2017. Econ Journal Watch, Vol. 14(3), 362–392.

Ritgerðir í tímaritum

Roger Boyes: Meltdown Iceland. Þjóðmál, vorhefti 2017, 66–95.

Marx in a Cold Climate. The Conservative, 3(2017), 42–46.

Why Small Countries are Richer and Happier. The Conservative, 4(2017), 79–82.

Erindi á alþjóðlegum ráðstefnum

The Nordic Models: Prosperity Despite Redistribution. APEE international conference. Session on Alternative Economics. Maui, Hawaii, 12 April 2017.

Foreign Policy: Nordic Perspectives and Beyond. NOPSA, Nordic Political Science Association international conference, Odense, 8 August 2017.

Erindi á málstofum

ITQs in Iceland. Washington Policy Center, Seattle. 14 April 2017.

Ísland sem Janus: Til beggja átta. Ráðstefna Alþjóðamálastofnunar og utanríkisráðuneytisins 19. apríl 2017.

Remembering the Victims of European Totalitarianism. Platform of European Memory and Conscience. Brussels 26 April 2017.

Economic Development of Korea. Mont Pelerin Society Regional Meeting. Seoul, South Korea, 10 May 2017.

Summing Up. European Students for Liberty Regional Meeting. Reykjavik 30 September 2017.

Bankahrunið í sögulegu ljósi. Erindi á hádegisfundi Sagnfræðingafélagsins 17. október 2017.

Europe of the Victims. Platform of European Memory and Conscience. Vilnius 29 November 2017.

Skýrslur fyrir erlendar rannsóknastofnanir

The Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature. Brussels: New Direction, 2017.

Green Capitalism: Protecting the Environment by Defining Private Property Rights. Brussels: New Direction, 2017.

Lessons for Europe from the Icelandic Bank Collapse. Brussels: New Direction, 2017.

Fræðsluefni fyrir almenning: Bækur

The Saga of Gudrun [útdráttur með myndskreytingum úr Laxdælu]. Reykjavík: Almenna bókafélagið 2017.

The Saga of Burnt Njal [útdráttur með myndskreytingum úr Njálu]. Reykjavík: Almenna bókafélagið 2017.

Fræðsluefni fyrir almenning: Ritstjórn bóka

Arthur Koestler. Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki. Almenna bókafélagið, Reykjavík 7. nóvember 2017.

Otto Larsen, Nytsamur sakleysingi. Almenna bókafélagið, Reykjavík 7. nóvember 2017.

Víktor Kravtsjenko, Ég kaus frelsið. Almenna bókafélagið, Reykjavík 7. nóvember 2017. 560 bls.

Fræðsluefni fyrir almenning: Blaðagreinar

Glatað tækifæri. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 7. janúar 2017.

Gæfa Dana og gengi. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 14. janúar 2017.

Róbinson Krúsó og Íslendingar. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 21. janúar 2017.

Lásu ritstjórarnir ekki greinina? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 28. janúar 2017.

Fáfræðingur kynnir landið. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 4. febrúar 2017.

Rógur um Björn Ólafsson. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 11. febrúar 2017.

Hvar eru gögnin um spillingu? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 18. febrúar 2017.

Hirðuleysi háskólakennarans. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 25. febrúar 2017.

Valþröng fanganna. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 4. mars 2017.

Hrunmangarafélagið. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 11. mars 2017.

Rógur og brigsl háskólakennara. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 18. mars 2017.

Víðtæk spilling? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 25. mars 2017.

Fréttirnar í fréttinni. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 1. apríl 2017.

Þrjár ófréttir. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 8. apríl 2017.

Með lögum skal land. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 15. apríl 2017.

Þegar kóngur heimtaði Ísland. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 22. apríl 2017.

Minningin um fórnarlömbin. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 29. apríl 2017.

Listin að tæma banka. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 6. maí 2017.

Í landi morgunkyrrðarinnar. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 13. maí 2017.

Einangrað eins og Norður-Kórea? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 20. maí 2017.

Sagt í Seoul. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 27. maí 2017.

Hæg voru heimatök. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 3. júní 2017.

Átakanleg saga kvenhetju. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 10. júní 2017.

Kammerherrann fær fyrir kampavíni. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 17. júní 2017.

Auðjöfur af íslenskum ættum. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 24. júní 2017.

Íslenska blóðið ólgar. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 1. júlí 2017.

Ábyrgð og samábyrgð. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 8. júlí 2017.

Ábyrgðin á óeirðunum 2008–2009. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 15. júlí 2017.

Samábyrgð Íslendinga eða Breta? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 22. júlí 2017.

Voru Neyðarlögin eignaupptaka? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 29. júlí 2017.

Neyðarlögin og stjórnarskráin. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 5. ágúst 2017.

Ný syndaaflausn. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 12. ágúst 2017.

Bernanke um Ísland. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 19. ágúst 2017.

Vinir í raun. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 26. ágúst 2017.

Fróðlegur bandarískur dómur. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 2. september 2017.

Bloggið sem hvarf. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 9. september 2017.

Lastað þar sem lofa skyldi. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 16. september 2017.

Blefken er víða. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 23. september 2017.

Erindi Davids Friedmans. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 30. september 2017.

Voru bankarnir gjaldþrota? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 7. október 2017.

Þriðja stærsta gjaldþrotið? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 14. október 2017.

Ísland og Púertó Ríkó. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 21. október 2017.

Undur framfaranna. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 28. október 2017.

Voldugur Íslandsvinur. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 4. nóvember 2017.

Banki í glerhúsi. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 11. nóvember 2017.

Fjórði fundurinn. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 18. nóvember 2017.

Landsdómsmálið. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 25. nóvember 2017.

Bakari hengdur fyrir smið. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 2. desember 2017.

Var Laxness gyðingahatari? Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 9. desember 2017.

Svipmynd úr bankahruninu. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 16. desember 2017.

Koestler í bæjarstjórnarkosningum. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 23. desember 2017.

Koestler og tilvistarspekingarnir. Fróðleiksmoli. Morgunblaðið 31. desember 2017.

100 ár – 100 milljónir. Hugleiðingar á aldarafmæli bolsévíkabyltingarinnar. Morgunblaðið 7. nóvember 2017.

 


Hvað sagði ég í Tallinn?

Evrópuþingið hefur gert 23. ágúst að minningardegi um fórnarlömb alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma. Þennan dag árið 1939 gerðu þeir Hitler og Stalín griðasáttmála og skiptu þar á milli sín Evrópu. Næstu tvö árin voru þeir bandamenn, og gekk Stalín jafnvel svo langt að hann afhenti Hitler ýmsa þýska kommúnista sem hann hafði haft í haldi. Hefur frásögn eins þeirra komið út á íslensku, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann. Bandalagið brast ekki, fyrr en Hitler sveik það og réðst á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941.

Mér var í ár boðið til Tallinn í Eistlandi, þar sem vígt var tilkomumikið minnismerki um fórnarlömb kommúnismans og haldin fjölmenn ráðstefna um eðli hans og áhrif. Í tölu minni kvað ég það enga tilviljun, heldur eðlislægt kommúnismanum að hafa alls staðar leitt til alræðis, kúgunar og fátæktar. Höfundar hans, Karl Marx og Friðrik Engels, hefðu verið fullir haturs og mannfyrirlitningar, eins og bréfaskipti þeirra sýndu vel, en þau hef ég stuttlega rakið á þessum vettvangi. Þeir Marx og Engels hefðu enn fremur verið vísindatrúar, talið sig handhafa Stórasannleika, en ekki í leit að bráðabirgðasannleika, sem mætti betrumbæta með tilraunum, eins og venjulegir vísindamenn. Í þriðja lagi væri ætíð hætt við því, þegar tómarúm myndaðist eftir byltingu, að hinir ófyrirleitnustu og samviskulausustu fylltu það.

Tvær ástæður í viðbót væru til þess að kommúnismi leiddi jafnan til alræðis. Í landi þar sem ríkið væri eini vinnuveitandinn ætti stjórnarandstæðingurinn erfitt um vik, en frelsið væri ekki raunverulegt frelsi nema það væri frelsi til að gagnrýna stjórnvöld. Í fimmta lagi hygðust kommúnistar afnema dreifðan eignarrétt einstaklinga og frjáls viðskipti þeirra í milli, en við það fyrirkomulag nýttist dreifð þekking þeirra, eins og Friedrich A. Hayek hefði manna best sýnt fram á. En ef ríkið ræki öll atvinnutækin yrði það að fækka þörfum manna og einfalda þær til þess að allsherjarskipulagning atvinnulífsins yrði framkvæmanleg. Þetta gæti ríkið aðeins gert með því að taka í þjónustu sína öll mótunaröfl mannssálarinnar, fjölmiðla, skóla, dómstóla, listir, vísindi og íþróttir, en það er einmitt slíkt kerfi, sem við köllum alræði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. ágúst 2018.)


Hlátrasköllin voru vart þögnuð

Hulda, Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, kvað 1944, að Ísland væri „langt frá heimsins vígaslóð“. Það var að vísu ekki alls kostar rétt, því að undan ströndum var þá háð stríð. En Íslendingar hafa í sakleysi sínu iðulega vanmetið böl heimsins og veldi mannvonskunnar. Við Arnór Hannibalsson snæddum kvöldverð með hinum víðkunna pólska heimspekingi Leszek Kolakowski í apríl 1979, og þá spurði ég hann, hvort okkar helsti tilvistarvandi væri dauði Guðs. Kolakowski svaraði að bragði, að vandinn væri miklu heldur, að djöfullinn væri dauður í hugum mannanna. Ég rifjaði þá upp þjóðsöguna af púkunum þremur, sem fjandinn sendi til að spilla mannkyni. Eftir ár sneru þeir aftur. Einn sagðist hafa kennt mannkyni að ljúga og annar að stela. Lét andskotinn sér það vel líka. En hinn þriðji, sem minnstur þótti fyrir sér, sagðist hafa kennt öllum heldri mönnum að trúa því, að djöfullinn væri ekki til. Þetta verk þótti yfirmanni hans best.

Nú eru liðin fimmtíu ár, frá því að Kremlverjar sendu her inn í Tékkóslóvakíu til að berja niður umbótatilraunir. Því hefðu heldri menn íslenskir ekki trúað í sakleysi sínu. Röskri viku fyrir innrásina, 15. ágúst 1968, birtu þeir í vikublaðinu Frjálsri þjóð nafnlausa skopstælingu á skrifum Matthíasar Johannessens, skálds og ritstjóra Morgunblaðsins. „Skyldu Rússar vera komnir inn í Tékkóslóvakíu? Áreiðanlega. Þessi níðingar, djöflar. Ég veit, að þeir ráðast inn í Tékkóslóvakíu, eins og ég finn blóðið streyma eftir æðum mér. Évtúsénkó, Évtúsénkó, Tarsis. Ég verð að muna að hlusta á fréttirnar.“ Og aftur: „Ég veit, að þeir ráðast inn í Tékkóslóvakíu og kremja landið fagra undir járnhælum sínum. Kafka, Kafka, mikið varstu heppinn að vera búinn að deyja. Til að lifa. Ef þeir ráðast ekki inn í Tékkóslóvakíu í dag, gera þeir það á morgun.“

Hlátrasköllin voru vart þögnuð á ritstjórnarskrifstofu Frjálsrar þjóðar, þegar rússneskir skriðdrekar sigu inn fyrir landamæri Tékkóslóvakíu. Það fer ósjaldan illa, þegar menn reyna að gera lítið úr böli heimsins og veldi mannvonskunnar. Og sá tími er liðinn, að Ísland sé langt frá heimsins vígaslóð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. ágúst 2018.)


Bréfaskipti vegna skýrslu til fjármálaráðuneytisins

Fréttablaðið hefur með tilvísun til upplýsingalaga beðið um afrit af bréfaskiptum vegna skýrslu minnar fyrir fjármálaráðuneytið. Ég hef ekkert við það að athuga, og hér eru bréfin (ég sleppi stuttum skeytum um, hvenær menn geti náð hver í annan í síma, ávörpum og kveðjuorðum o. sv. frv.).

Heiðar Örn Sigurfinnsson á RÚV sendir bréf til fjármálaráðuneytisins 14. október 2015:

Hefur Félagsvísindastofnun/Hannes Hólmsteinn skilað niðurstöðum sínum um erlenda áhrifaþætti hrunsins? Skv samningi sem við hann var gerður voru verklok áætluð í byrjun september, s. l., og þá átti lokagreiðsla að fara fram. Hvað hefur Félagsvísindastofnun/Hannes Hólmsteinn fengið greitt mikið fram á þennan dag fyrir þessa skýrslu?

Fjármálaráðuneytið framsendi þessa fyrirspurn á Félagsvísindastofnun, sem svaraði sama dag:

Því miður hafa orðið nokkrar tafir á rannsókninni sem unnin er á Rannsóknasetri í stjórnmálum og efnahagsmálum sem er eitt af fimm rannsóknasetrum sem heyra undir Félagsvísindastofnun. Tafirnar skýrast einkum af því að langan tíma hefur tekið að ná viðtölum við nokkra lykilaðila. Gert er ráð fyrir að stutti skýrslu verði skilað fyrir áramót en lokaskýrslu fljótlega eftir áramót. Í samræmi við verksamning og framvindu verksins hefur Félagsvísindastofnun/Rannsóknasetur í stjórnmálum og efnahagsmálum fengið greiddar 7,5 milljónir kr. Gert er ráð fyrir lokagreiðslu 2,5 milljónum króna þegar verkefninum lýkur með skilum á skýrslu.

Ég skrifaði fjármálaráðuneytinu og Félagsvísindastofnunar bréf 2. mars 2017 vegna munnlegra fyrirspurna:

Trúnaðarmál

Þakka þér fyrir símtalið. Það var gott, að við skyldum fá tækifæri til að fara yfir málið. Eins og ég sagði þér áðan, get ég lokið þeirri 40–50 bls. skýrslu, sem kveðið var á um í samningi fjr. og Félagsvísindastofnunar, núna í fyrri hluta mars, eins og beðið var um. En sú skýrsla yrði aldrei annað en útdráttur úr langri skýrslu og rækilegri, sem ég er mjög langt kominn með, og er nú um 600 bls. Það er einmitt gott að gera slíkan útdrátt, því að hann væri góður inngangur að lengri skýrslunni. Ég vil hins vegar, að aðrir aðilar fari yfir skýrslurnar, áður en þær verða birtar. Þar er um að ræða samstarfsmenn mína, Ásgeir Jónsson, Birgi Þór Runólfsson og Eirík Bergmann. Síðan vil ég gefa þeim, sem rætt er um í skýrslunni eða skýrslunum, tækifæri til að koma með athugasemdir og ætla því að minnsta kosti mánuð. Margar ástæður eru til þess, að skýrslan hefur tafist:

1) Efnið reyndist viðameira en ég hélt.

2) Erfitt hefur verið að ná tali af ýmsum erlendis.

3) Ýmislegt efni, þ. á m. fundargerðir Englandsbanka, átti að birtast síðar en nam skýrslulokum, og var sjálfsagt að bíða eftir þeim.

4) Eðlilegt var að bíða eftir því, að þeir Ásgeir Jónsson og Eiríkur Bergmann skiluðu rannsóknaniðurstöðum sínum.

5) Mér var neitað um aðgang að gögnum, sem ég fékk síðan eftir talsvert þóf og raunar íhlutun lögmanna minna.

6) Ekkert lá sérstaklega á skýrslunni, ólíkt t. d. skýrslu RNA.

7) Bið á skilum hafði ekki í för með sér neinn aukakostnað, ólíkt skýrslu RNA og skýrslum um íbúðalánasjóð og sparisjóðakerfið.

8) Nauðsynlegt er að veita ýmsum aðgang að skýrslunni, áður en hún birtist, til að þeir geti gert athugasemdir.

9) Fullt samráð var haft við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um þennan feril, og hann hefur ekki gert neinar athugasemdir við hann. Ætlunin er að hafa tal af núverandi fjármálaráðherra eftir 21. mars, þegar ég kem til landsins.

Núna er tímaáætlun mín þessi eftir símtalið við þig áðan:

10. mars lokið 40–50 bls. skýrslu skv. samningi, sem birta má eftir yfirlestur og athugasemdir (sem ætti að taka 1–2 mánuði)
19. mars lokið útsendingum á efni fyrir ýmsa, sem vilja gera athugasemdir
8. ágúst lokið allri skýrslunni, sem birta má eftir yfirlestur og athugasemdir (sem ætti að taka 2 mánuði)

Styttri skýrsluna mætti þess vegna birta 10. maí, geri ég ráð fyrir, og hina síðari 30. september, svo að nefndar séu dagsetningar.

Ég skrifaði annað bréf til fjármálaráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar 16. mars 2017:

Það gengur ljómandi vel að setja saman stuttu skýrsluna, þótt auðvitað miði mér stundum hægar en ég hefði búist við, því að alltaf er ég að rekast á eitthvað nýtt eða eitthvað, sem ég hef ekki tekið eftir áður og þarf að sannreyna. Ég hygg, að það sé spurning um daga frekar en vikkur, hvenær ég lýk henni á þann hátt, að ég geti sýnt ykkur hana. En við ræðum betur um þetta, þegar ég kem heim. Ég reyni eftir megni að halda henni stuttri, en býst samt við, að hún fari að lokum eitthvað yfir mörkin í samningnum, sem var 40–50 bls. Ég hallast helst að því að fullgera hana og líka athugasemdir um alls konar vitleysu, sem haldið er fram erlendis um Ísland, og skila því, svo að það geti birst. Síðan geng ég frá lengri skýrslunni í sumar og ljúki henni í haust. Það eru aðeins tvö eða þrjú atriði, sem kunna að torvelda þetta, og ræði ég þau atriði betur við ykkur, þegar ég kem heim.

Ég skrifaði fjármálaráðuneytinu tölvuskeyti 23. mars 2017 með afriti til Félagsvísindastofnunar:

Ég er kominn til Íslands, og það er aðeins spurning um nokkra daga, hvenær ég lýk styttri skýrslunni. Viðaukinn var í rauninni tilbúinn fyrir löngu, þótt ég þurfi að fara aftur yfir hann, og lengri skýrslunni lýk ég síðar í sumar. Á ég ekki að hafa samband eftir nokkra daga, og við ræðum þá framhaldið?

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 24. mars 2017:

Það gengur í sjálfu sér ágætlega að ljúka skýrslunni, en alltaf verða einhverjar tafir vegna þess, að sitt hvað nýtt þarf að rannsaka. Hún er því miður orðin 168 bls. og er þó styttri útgáfan, en ég er komin að Conclusions, sem verða um 5 bls. Mjög stutt er í, að ég sendi hana í yfirlestur.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti til sömu aðila 15. maí 2017:

Ég hef í raun lokið skýrslunni, á aðeins eftir um 3 bls. Conclusions. En síðustu kaflarnir voru dálítið erfiðir, því að þeir eru um það, sem er aðalatriðið, lokun breskra banka í höndum Íslendinga og setningu hryðjuverkalaganna. Það efni verður lesið gaumgæfilegar í útlöndum en allt annað. Það er tvennt, sem vefst fyrir mér. Ég vil gjarnan vita, hvernig mannréttindadómstóllinn úrskurðar í máli Geirs Haarde, en ótrúleg bið hefur verið eftir því. Hitt er, að mér finnst eðlilegast að birta skýrsluna 8. október, sama dag og hryðjuverkalögin voru sett. Hugsanlegt er, að RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, hafi þann dag í samráði við aðra aðila ráðstefnu í Reykjavík um Iceland and the International Financial System, þar sem þeir Lord Lamont of Lerwick, fyrrv. fjármálaráðherra Breta, og Leszek Balcerowicz, hagfræðiprófessor og fyrrv. seðlabankastjóri og fjármálaráðherra Póllands, flytji erindi. Þeir hafa báðir tekið því vel við mig að koma til Íslands.
 
Svar til fréttamanna, ef þeir spyrja, gæti hljóðað á þessa leið: Skv. upplýsingum umsjónarmanns verkefnisins, prófessors Hannesar H. Gissurarsonar, er verið að leggja lokahönd á skýrsluna, en ætlunin er að kynna hana 8. október, þegar níu ár verða liðin frá því, að Bretastjórn beitti hryðjuverkalögum á íslenskar stofnanir og fyrirtæki, enda er skýrslan aðallega um þá aðgerð. Skýrslan er á ensku og er um 200 bls. að lengd, en henni fylgja ýmsir viðaukar, sem eru talsvert lengri.
 
Ég hringi á eftir eða á morgun, en ég er að fara utan annað kvöld, ekki síst til að fá næði til að lesa skýrsluna vandlega yfir og skrifa lokaorðin. Félagar mínir, Ásgeir Jónsson, Birgir Þór Runólfsson og Eiríkur Bergmann, eiga eftir að lesa hana yfir, en ég sendi þeim hana á næstu dögum, og síðan ætla ég að bera allt undir þá, sem nefndir eru í skýrslunni.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 21. júní til sömu aðila:

Já, það er skriður á þessu. Ég tók tvo síðustu kaflana til rækilegrar endurskoðunar, af því að þeir voru ekki nógu skýrir og góðir að mínum dómi, en sendi á næstu dögum skýrsluna í yfirlestur. Þetta tafði dálítið verkið. Á meðan hún er í yfirlestri annarra, ætla ég að fara vel yfir tilvitnanir og leita uppi frekari athugasemdir og leiðréttingar. Ég ætla að veita öllum, sem eru nafngreindir, erlendir sem innlendir, kost á að gera athugasemdir, áður en ég set hana á Netið, og ég prenta hana ekki, fyrr en hún hefur verið á Netinu í a. m. k. mánuð, svo að menn geti gert athugasemdir. Það er allt á áætlun.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 26. september til fjármálaráðuneytisins:

Já, alveg sjálfsagt. Ég hef lokið skýrslunni fyrir nokkru, og hún er í yfirlestri og endurbótum. En ég hef fregnað, að von sé á niðurstöðu hjá mannréttindadómstólnum í máli Geirs H. Haarde öðrum hvorum megin við mánaðamótin, og ég vildi gjarnan bíða eftir því og flétta inn í skýrsluna. Þá myndi henni verða skilað (og hún birt á Netinu) frekar í lok október en 8. október, eins og við var miðað. En við skulum taka afstöðu til þess, þegar liðið er á aðra viku október. Skýrslan er 302 bls. og eins og áður hefur komið fram á ensku, en síðan verða ýmis fylgiskjöl tengd efni um Ísland erlendis, þar sem villur eru leiðréttar.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 26. september til fjármálaráðuneytisins:

Já, ég vil gjarnan ganga frá skýrslunni sem fyrst og setja á netið, en það gæti skipt dálitlu máli um niðurstöðurnar hver úrskurður MRD verður. Ég myndi í allra síðasta lagi vilja bíða fram til októberloka. Það er talsverður fjöldi manna að lesa skýrsluna yfir.

Enn skrifaði ég tölvuskeyti 4. nóvember 2017 til fjármálaráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar:

Ég er að reyna að ljúka skýrslunni, svo að setja megi hana á Netið. Það verður eftir nokkra daga. Er ekki eðlilegt, að farið sé eins með þessa skýrslu og allar aðrar, sem ráðuneytinu berast, t. d. skýrslunni frá Sveini Agnarssyni o. fl. um skatta? Það væri síðan gott að fá síðasta reikninginn greiddan strax eftir skilin. Ég vil hins vegar geta breytt ýmsu, ef menn leiðrétta einhverjar missagnir eða hæpnar fullyrðingar, enda er okkur öllum skylt að hafa það, sem sannara reyndist. Ef til vill ætti að vera rými fyrir Comments and Criticisms fyrir aftan skýrsluna. Ég skila ekki heldur alveg strax gagnrýni minni á ýmsar missagnir, sem er eins konar fylgiskjal með skýrslunni.

Ég sendi fjármálaráðuneytinu og Félagsvísindastofnun 10. nóvember 2017 afrit af bréfi, sem fylgdi með til ýmissa aðila:

Dear X

As you may know, I was commissioned by the Icelandic Ministry of Finance and Economic Affairs to write a report in English on the Icelandic bank collapse, mainly aimed at foreigners. I found it necessary to give a brief account of the chain of events leading up to the collapse, as well as of different interpretations and explanations of the crisis, in addition to an analysis of the foreign factors in the collapse. Since in the draft of the report I briefly discuss your contribution to the debate, I think it is only fair that I send the passages where I mention it to you if there is something there which is factually wrong or clearly unfair and which I would of course correct. I want, like Ari the Learned, to maintain what proves to be more true. I would like to receive any suggestions for corrections in the next few days, as the intention is to deliver the report late next week to the Ministry, whereupon it will probably be made available online. I am alone responsible for the content of the report, and neither my collaborators, nor the Institute of Social Science Research, nor the Ministry of Finance and Economic Affairs. Therefore I would like you to direct any suggestions for corrections or comments on this to me, at this email address, and not to the individuals or institutions named above.

Enn skrifaði ég Félagsvísindastofnun 10. nóvember 2017:

Ég vil gjarnan fara að skila skýrslunni. Í dag ætlaði ég að senda út til ýmissa, sem minnst er á í henni, kafla eða klausur um þá og óska eftir leiðréttingum, ef rangt er með farið. Ég geri ráð fyrir, að farið verði nákvæmlega eins með þessa skýrslu og aðrar, sem fjármálaráðuneytið hefur fengið. Ég hef ekkert á móti því, að hún sé sett á Netið strax, en taka þyrfti fram, að menn gætu komið athugasemdum og leiðréttindum á framfæri á sömu netsíðu. Best væri að setja hana á Netið í næstu viku eða um næstu helgi. Síðasti reikninginn fyrir verkið þyrfti líka að senda í fjármálaráðuneytið og greiða sem fyrst.

Fjármálaráðuneytið skrifaði Félagsvísindastofnun bréf 17. nóvember 2017.

Þann 7. júlí 2014 var undirritaður samningur milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar um gerð skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins haustið 2008. Höfundur vinnur nú að lokafrágangi skýrslunnar. Ráðuneytið hefur engin afskipti haft af gerð eða efnistökum skýrslunnar, að öðru leyti en því að undirrita þann samning sem áður er vitgnað til og felur í sér almenna lýsingu á verkefninu. Ráðuneytið hefur ekki kynnt sér skýrsludrögin, hvorki að hluta né í heild, og hyggst ekki hlutast til um eða hafa nokkur afskipti er varða efni eða efnismeðferð. Í aðdraganda verkloka hefur ráðuneytið verið upplýst um að skýrsludrögin, eða hluti þeirra, hafi verið send til umsagnar einstaklinga sem eru til umfjölllunar í skýrslunni. Þeir hafa sett fram eindregnar ábendingar um að efnistök og umfjöllum sem þá varða sé verulega áfátt og uppfylli ekki fræðilegar kröfur eða akademísk viðmið sem gera verður til háskóla eða stofnana þeirra, í þessu tilviki Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Ráðuneytið vill upplýsa Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framangreindar ábendingar til ráðuneytisins. Jafnframt er áréttað að gengið var út frá við gerð samningsins að faglegar og fræðilegar kröfur yrðu í heiðri hafðar. Er þess að lokum vænst að stofnunin annist afhendingu skýrslunnar þegar hún er fullgerð og er vísað til samningsákvæða um tímasetningar þar að lútandi.

Félagsvísindastofnun skrifaði fjármálaráðuneytinu bréf 17. nóvember 2017:

Ég mun hafa samband við Hannes og gera honum grein fyrir því að ég muni skila skýrslunni fyrir hönd stofnunarinnar þegar ég tel hana uppfylla aðferðafræðilegar kröfur Félagsvísindastofnunar. Það er ljóst að afhending skýrslunnar mun tefjast um einhverja mánuði í viðbót.

 


Engin vanræksla

Sárt er að sjá grandvaran embættismann, Ingimund Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóra, sæta ómaklegum árásum fyrir það, að Seðlabankinn hefur fylgt fordæmi norska seðlabankans og falið honum ýmis verkefni, sem hann er manna best fær um að leysa. Stundin segir Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hann og hinir tveir seðlabankastjórarnir fyrir bankahrun hafi gerst sekir um vanrækslu.

Fyrra málið var, að Landsbankinn bað um stórkostlega, leynilega gjaldeyrisfyrirgreiðslu í ágúst 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni, enda voru upphæðirnar stórar og aðgerðin sennilega ólögleg. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að rannsaka betur fjárhag Landsbankans. Bankastjórarnir bentu hins vegar á, að þeir höfðu ekkert vald til þess að rannsaka fjárhag bankans. Fjármálaeftirlitið fór með það vald.

Seinna málið var, að Glitnir bað um stórt gjaldeyrislán í september 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að afla frekari upplýsinga um fjárhag Glitnis. Enn bentu bankastjórarnir á, að þeir höfðu ekkert vald til að rannsaka fjárhag bankans.

Sjálfar ákvarðanirnar, sem seðlabankastjórarnir tóku, voru með öðrum orðum taldar eðlilegar, en Rannsóknarnefndin var þeirrar skoðunar, að þeim hefðu átt að fylgja minnisblöð og útreikningar. Þetta sýnir takmarkað veruleikaskyn. Um allan heim voru seðlabankastjórar og fjármálaráðherrar þessa dagana að taka mikilvægar ákvarðanir, sem þoldu enga bið. Fleiri minnisblöð og frekari útreikningar hefðu hvort sem engu breytt um bankahrunið.

Málsvörn seðlabankastjóranna hlaut óvæntan stuðning eins nefndarmannsins, Sigríðar Benediktsdóttur, þegar hún hafði frumkvæði að því árið 2013, á meðan hún sinnti fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, að Alþingi samþykkti lög um auknar heimildir Seðlabankans til að óska upplýsinga frá fjármálastofnunum.

Danska Rangvad-nefndin, sem rannsakaði fjármálakreppuna þar, komst að þeirri niðurstöðu, að danska seðlabankann hefði skort valdheimildir til að stöðva vöxt bankanna þar í landi. Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna í fjármálakreppunni, kvartaði undan því í endurminningum sínum, að hann hefði ekki haft nægar heimildir til að óska eftir upplýsingum um fjármálastofnanir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. ágúst 2018.)


Félagi nr. 3.401.317. í Nasistaflokknum

Ég birti fyrir nokkrum árum ritgerð í Þjóðmálum um nokkrar örlagasögur, þar á meðal um Bruno Kress, félaga nr. 3.401.317 í Nasistaflokknum þýska.

Eftir stríð gerðist gamli nasistinn kommúnisti og komst til metorða í Austur-Þýskalandi. Hann varð heiðursdoktor frá Háskóla Íslands 1986. Hér á hann sér ötula stuðningsmenn, eins og sjá má.

Screen Shot 2018-08-04 at 23.15.24


Fyrir réttum tíu árum

Hús Seðlabankans við Kalkofnsveg er líkt og hús flestra annarra seðlabanka heims smíðað eins og virki, og sést þaðan vítt um sjó og land. Mikið var um að vera í þessu virki í sumarblíðunni fimmtudaginn 31. júlí 2008. Seðlabankastjórarnir þrír, Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson, hittu tvo fulltrúa breska fjármálaeftirlitsins, Michael Ainley og Melanie Beaman, sem voru að fylgja eftir óskum stofnunarinnar um færslu Icesave-reikninga Landsbankans úr útbúi bankans í Lundúnum í breskt dótturfélag bankans. Þannig yrðu reikningarnir í umsjá breska innstæðutryggingasjóðsins. Seðlabankastjórarnir kváðust vera sammála breska fjármálaeftirlitinu um að þetta væri nauðsynlegt.

Seðlabankastjórarnir þrír kvöddu síðar sama dag á sinn fund bankastjóra Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, og komu þar þeirri skoðun sinni á framfæri, eins og þeir höfðu áður gert, að færa yrði Icesave-reikningana hið bráðasta yfir í breskt dótturfélag. Davíð sagði umbúðalaust að ekki væri hægt að ætlast til þess af hinu smáa íslenska ríki að það tæki ábyrgð á Icesave-innstæðunum, enda stæðu engin lög til þess. „Þið getið sett Björgólf Guðmundsson á hausinn ef þið viljið,“ sagði hann, „og eruð sjálfsagt langt komnir með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja þjóðina á hausinn með þessum hætti.“

Um kvöldið buðu seðlabankastjórarnir einum af æðstu mönnum Alþjóðagreiðslubankans (BIS) í Basel, William R. White, í kvöldverð í Perlunni, en hann hafði verið að veiða hér lax. Talið barst, eins og við var að búast, að hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu sem geisað hafði allt frá því í ágúst 2007. White sagði Davíð: „Það er búið að ákveða að einn stór banki verði látinn fara á hausinn, það verða Lehman-bræður, og síðan eitt land, og það verðið þið.“ Davíð spurði: „Hvað ertu búinn að fá þér marga gin og tónik?“ White svaraði: „Bara einn.“ Lehman-bræður fóru í þrot 15. september sama ár, og íslensku bankarnir þrír hrundu dagana 6.-8. október.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband