Hvað er þjóð?

Í snarpri gagnrýni á þjóðarhugtakið viðurkenndi ensk-austurríski heimspekingurinn Karl R. Popper, að líklega kæmust Íslendingar næst því allra heilda að kallast þjóð: Þeir töluðu sömu tungu, væru nær allir af sama uppruna og í sama trúfélagi, deildu einni sögu og byggju á afmörkuðu svæði. Því er ekki að furða, að þjóðerniskennd sé sterkari hér á landi en víðast annars staðar í Evrópu, þar sem landamæri hafa verið á reiki og mála- og menningarsvæði fara alls ekki saman við ríki. Til dæmis er töluð sænska á Álandseyjum, þótt þær séu hluti af Finnlandi. Þýska er töluð í Þýskalandi, Austurríki og mörgum kantónum í Sviss og jafnvel í Suður-Týrol, sem er hluti af Ítalíu. Í Belgíu mæla sumir á flæmsku (sem er nánast hollenska) og aðrir á frönsku, auk þess sem margir eru vitaskuld tvítyngdir. Katalónska er ekki sama málið og sú spænska, sem kennd er í skólum og oft kölluð kastilíska.

Vorið 1882 gerði franski rithöfundurinn Ernest Renan fræga tilraun til að skilgreina þjóðina í fyrirlestri í París, „Qu’est-ce qu’une nation?“ Hvað er þjóð? Hann benti á öll þau tormerki, sem væru á að nota tungu, trú, kynþátt eða landsvæði til þess að afmarka þjóðir, og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri viljinn til að vera ein þjóð, sem gerði heild að þjóð. Þessi vilji styddist í senn við minningar úr fortíðinni og markmið til framtíðar. Menn væru samt sem áður frjálsir að þjóð sinni. Kysi einhver þjóð að slíta sig frá annarri, þá ætti henni að vera það heimilt. Og hver maður gæti líka valið. Til þess að hann kynni vel við land sitt, yrði það að vera viðkunnanlegt. Þjóðin væri því „dagleg atkvæðagreiðsla“. Renan benti líka á, að stundum styddist viljinn til að vera þjóð ekki síður við gleymsku en minningar. Þjóðir hefðu iðulega orðið til við ofbeldi og yfirgang. Þjóðarsagan, sem kennd væri í skólum, væri því stundum hálfsögð, jafnvel fölsuð.

Hér er sérstaða Íslendinga aftur merkileg. Við deilum ekki aðeins tungu, trú, kynþætti, landsvæði og sögu, heldur höfum við engu að gleyma. Við höfum aldrei beitt neina aðra þjóð yfirgangi, þótt ef til vill hafi okkur frekar brostið til þess afl en áhuga. Og á íslensku er til fallegt orð um það, sem Renan taldi viljann til að vera ein þjóð. Það er „sálufélag“. Eins og fjósamaðurinn á Hólum átti forðum sálufélag með Sæmundi fróða, eigum við sálufélag með Agli Skallagrímssyni, Snorra Sturlusyni, Jónasi Hallgrímssyni, Laxness, Björk og íslenska landsliðinu í knattspyrnu 2018. Íslenska þjóðin stækkar af íslensku afreksfólki, án þess að aðrar þjóðir smækki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. júní 2018.)


Svör við spurningum blaðamanna

Blaðamenn á Fréttablaðinu og Stundinni hafa nýlega haft samband og spurt, hvað liði skýrslunni fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, sem ég hef verið að semja. Svar mitt er þetta:

Ég samdi drög að rækilegri skýrslu á tilsettum tíma, en hún var allt of löng, 600 bls., auk þess sem ýmislegt átti eftir að birtast, sem ég vissi um. Þess vegna stytti ég skýrsluna niður í 320 bls. og beið eftir ýmsum frekari heimildum. Ég hef síðan fengist við það, ekki síst að áeggjan Félagsvísindastofnunar, að stytta skýrsluna verulega, auk þess sem ég hef borið ýmis atriði undir fólk, sem getið er í skýrslunni, og unnið úr athugasemdum þess. Von er á henni á næstunni. Ég gerði grein fyrir nokkrum helstu niðurstöðum úr henni á fundi Sagnfræðingafélagsins 17. október 2017, og eru glærur mínar aðgengilegar og raunar einnig upptaka af fundinum á heimasíðu Sagnfræðingafélagsins.

 

 


Stolt þarf ekki að vera hroki

Þótt enskan sé auðug að orðum, enda samruni tveggja mála, engilsaxnesku og frönsku, á hún aðeins eitt og sama orðið, „pride“, um tvö hugtök, sem íslenskan hefur eins og vera ber um tvö orð, stolt og hroka. Þess vegna er sagt á ensku, að „pride“ sé ein af höfuðsyndunum sjö. Íslendingar myndu ekki segja það um stolt, sem hefur jákvæðan blæ, þótt þeir myndu vissulega telja hroka vera synd.

Ég minnist á þetta vegna þess, að íslenska þjóðin fylltist stolti vegna frábærs árangurs landsliðsins í knattspyrnu síðustu tvö árin. Íslendingar eru fámennasta þjóð, sem keppt hefur til úrslita í heimsmótinu í knattspyrnu. En hvers vegna fylltumst „við“ stolti? Vegna þess, að okkur finnst við eiga eitthvað örlítið í sigurgöngu íslenska landsliðsins. Þótt liðsmennirnir, þjálfararnir og aðrir hlutaðeigendur hafi vissulega unnið sigrana, en ekki við hin, deilum við öll með þeim einhverju sérstöku, kunnuglegu og dýrmætu, þótt það sé ekki beinlínis áþreifanlegt: Þjóðerni.

Spekingar fræða okkur á því, að þjóðernisvitund sé mannasetning frá nítjándu öld. Hvað sem öðrum líður, á það ekki við um Íslendinga. Við höfum frá öndverðu verið sérstök þjóð. Snemma á elleftu öld var Sighvatur Þórðarson skáld staddur í Svíþjóð, og hafði kona ein orð á því, að hann væri svarteygur ólíkt mörgum Svíum. Orti þá Sighvatur, að hin íslensku augu sín hefðu vísað sér langt um „brattan stíg“. Enn kvað hann, að hann hefði gengið „á fornar brautir“, sem ókunnar væru viðmælandanum. Um svipað leyti, árið 1033, gerðu Íslendingar fyrsta alþjóðasamning sinn, og var hann við Noregskonung.

Spekingar vara okkur líka við hroka. En stolt er ekki hroki og þjóðrækni ekki þjóðremba. Um eitt minnir lífið á knattspyrnuleik: Stundum hittum við í mark og stundum fram hjá, öðru hvorum megin. Fyrir bankahrunið 2008 gætti nokkurs hroka með sumum Íslendingum, en eftir það virtust sumir vilja miða fram hjá markinu hinum megin og gera minna úr þjóðinni en efni standa til. Við hittum í mark með því að vera þjóðræknir heimsborgarar, stolt af þjóð okkar án lítilsvirðingar við aðra, hvorki hrokagikkir né undirlægjur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júní 2018.)


Hvað sagði ég í Bakú?

Ég tók þátt í ráðstefnu Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, í Bakú í Aserbaídsjan 8.-9. júní 2018, og lék mér forvitni á að heimsækja landið, sem liggur við Kaspíahaf og er auðugt að olíu. Bersýnilega er einhverju af olíutekjunum varið í innviði, sem eru mjög nútímalegir. Þótt gamli borgarhlutinn í Bakú sé vel varðveittur, rísa glæsilegir skýjakljúfar umhverfis hann. Lýðræði í landinu er ekki hafið yfir gagnrýni, en orðið hafa þar örar framfarir og Aserbaídsjan er það múslimaríki, sem virðist hafa mestan áhuga á góðum samskiptum við Vesturlönd. Landið stendur á mörkum Evrópu og Asíu og hefur verið óralengi í byggð. Það á í hörðum deilum við grannríkið Armeníu um héraðið Nagorno-Karabak, sem liggur í Aserbaídsjan, en er að nokkru leyti byggt Armenum. Aserar tala mál, sem er svo líkt tyrknesku að þeir eiga ekki í neinum erfiðleikum með að tala við Tyrki.

Á málstofu um menntamál benti ég á, að menntun væri ekki hið sama og skólaganga og að það væri ekkert náttúrulögmál, að ríki ræki skóla, þótt það yrði að sjá um, að allir nytu skólagöngu. Í barna- og unglingaskólum ætti aðallega að kenna þau vinnubrögð, sem að gagni kæmu í lífsbaráttunni, lestur, skrift, reikning og færni í meðferð gagna, og þau gildi, sem sameinuðu þjóðina, þjóðtunguna og þjóðarsöguna. Þegar lengra kæmi, ætti líka að leggja áherslu á þá almennu menntun, sem Þjóðverjar kalla „Bildung“ og felst í þekkingu á öðrum tímum og öðrum stöðum. Þekking væri vissulega eftirsóknarverð í sjálfri sér og ekki aðeins vegna notagildis. Vísindin væru frjáls samkeppni hugmynda.

Ég lét í ljós áhyggjur af þróuninni í vestrænum háskólum, þar sem vinstri sinnar hefðu víða náð undirtökum og vildu breyta þessari frjálsu samkeppni hugmynda í skipulagða hugmyndaframleiðslu gegn kapítalisma og „feðraveldi“ undir merkjum pólitísks rétttrúnaðar. Allir ættu að skilgreinast af hópum og vera einhvers konar fórnarlömb. Ekki væri minnst á þann möguleika, að einstaklingarnir öxluðu sjálfir ábyrgð á gerðum sínum og kenndu ekki öðrum um, ef illa færi, jafnframt því sem þeir nytu þess sjálfir (en ekki skattheimtumenn), þegar betur færi.

Ég taldi skóla verða að koma til skila tveimur merkilegum uppgötvunum Adams Smiths: Eins gróði þarf ekki að vera annars tap, og atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.


Jordan Peterson

Eftir komuna til Íslands í júní 2018 getur kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson tekið sér í munn orð Sesars: Ég kom, sá og sigraði. Hann fyllti stóran samkomusal í Hörpu tvisvar, þótt aðgangseyrir væri hár, og bók hans rokselst, Tólf lífsreglur: Mótefni við glundroða, sem Almenna bókafélagið gaf út í tilefni heimsóknarinnar. Boðskapur Petersons er svipaður og í tveimur kverum, sem framgjarnir íslenskir unglingar lásu á nítjándu öld, Auðnuveginum eftir William Mathews og Hjálpaðu þér sjálfur eftir Samuel Smiles: Menn verða að herða upp hugann og leggja á brattann. Minna máli skiptir, að þeir hrasi, en að þeir standi á fætur aftur. Þeir mega ekki hugsa um sjálfa sig sem fórnarlömb, heldur smiði eigin gæfu. Öfund er löstur, en hugrekki og vinnusemi dygðir.

Hvað veldur hinum ótrúlega áhuga á boðskap Petersons? Ein ástæðan er, að hann nýtir sér út í hörgul nýja miðla, Youtube og Twitter. Hann er gagnorður og sléttmáll, og honum fipast hvergi, er harðskeyttir viðmælendur sækja að. Í öðru lagi deila miklu fleiri með honum skoðunum en mæla fyrir þeim opinberlega. Langflestir menntamenn eru vinstri sinnaðir: Gáfaðir hægri menn gerast verkfræðingar, læknar eða atvinnurekendur, gáfaðir vinstri menn kennarar eða blaðamenn.

Þriðja ástæðan er, að vinstri sinnaðir menntamenn hafa nú miklu meiri völd í skólum og fjölmiðlum en áður, og þeir nota þau til að þagga niður í raunverulegri gagnrýni. Í huga þeirra eru vísindin ekki frjáls samkeppni hugmynda, heldur barátta, aðallega gegn kapítalismanum, en líka gegn „karlaveldinu“. Eins og Peterson bendir á, eru til dæmis eðlilegar skýringar til á því, að tekjumunur mælist milli kynjanna. Fólk hefur tilhneigingu til að raða sér í ólík störf eftir framtíðaráætlunum sínum, og það er niðurstaðan úr þessari röðun, þessu vali kynjanna, sem mælist í kjarakönnunum. En á Íslandi og annars staðar hefur risið upp jafnréttisiðnaður, sem kennir „karlaveldinu“ um þessa mælinganiðurstöðu. Jafnframt hefur skólakerfið verið lagað að áhugamálum róttækra kvenfrelsissinna, svo að tápmiklir piltar finna þar litla fótfestu. Nú er aðeins þriðjungur þeirra, sem brautskrást úr Háskóla Íslands, karlkyns.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. júní 2018.)


Skerfur Íslendinga

34011447_10156141567047420_2496130487290953728_n.jpgÍsland er fámennt, hrjóstrugt lítið land á hjara veraldar. Líklega var fyrsta byggðin hér eins konar flóttamannabúðir, eftir að Haraldur hárfagri og aðrir ráðamenn hröktu sjóræningja út af Norðursjó. Engu að síður hafa Íslendingar í sinni ellefu hundruð ára sögu lagt skerf til heimsmenningarinnar og hann jafnvel fimmfaldan, eins og ég benti á í fyrirlestri í Kaupmannahöfn á dögunum.

Eitt er Þjóðveldið frá 930 til 1262. Íslendingar lutu lögum, en bjuggu ekki við ríkisvald, svo að réttarvarsla var í höndum einstaklinga. Mörg verkefni, sem nú eru ætluð ríkinu, voru þá leyst hugvitssamlega.

Annað er Íslendinga sögur. Bókmenntagildi þeirra hefur líklega verið ofmetið, en þær eru engu að síður stórkostlegar heimildir um leit þjóðar að jafnvægi, úrlausn átaka í ríkisvaldslausu landi.

Hið þriðja er fundur Ameríku, þótt Óskar Wilde hafi raunar sagt, að Íslendingar hafi verið svo skynsamir að týna henni aftur.

Hið fjórða er kvótakerfið í sjávarútvegi, en það er í senn arðbært og sjálfbært. Aðrar þjóðir búa margar við offjárfestingu í sjávarútvegi og ofveiði. Þar eru fiskveiðar reknar með tapi og njóta opinberra styrkja. Nú er verið að taka upp kvótakerfi eins og hið íslenska um heim allan.

Hið fimmta er að gera innstæður að forgangskröfum í bú banka, eins og hér var gert með neyðarlögunum 6. október 2008. Með slíkri reglu minnka stórlega líkur á áhlaupum á banka og upphlaupum á götum úti, svo að ríkisábyrgð á innstæðum í því skyni að róa sparifjáreigendur verður óþörf. Evrópusambandið tók regluna upp árið 2014, sex árum á eftir Íslandi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júní 2018.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband