Hvað sagði ég í Pálsborg postula?

Þegar mér var boðið að halda fyrirlestur á ráðstefnu brasilískra frjálshyggjustúdenta í Pálsborg postula, São Paulo, 13. október 2018, valdi ég efnið: Norrænu leiðirnar. Í Rómönsku Ameríku er iðulega horft til Norðurlanda sem fyrirmynda. En velgengni þessara landa er ekki vegna jafnaðarstefnu, eins og sumir halda, heldur þrátt fyrir hana.

Skýrasta dæmið er Svíþjóð. Þar hafði myndast sterk frjálshyggjuhefð þegar á átjándu öld. Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hafði sett fram hugmyndina um sátt eiginhagsmuna og almannahagsmuna í krafti frjálsra viðskipta, áður en Adam Smith gaf henni frægt nafn, „ósýnilega höndina“. Einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía á nítjándu öld, Johan August Gripenstedt, beitti sér í ráðherratíð sinni 1848-1866 fyrir víðtækum umbótum í frelsisátt, og má rekja til þeirra samfellt hagvaxtarskeið í Svíþjóð í heila öld frá 1870. Nutu jafnaðarmenn góðs af, þegar þeir komust til valda á fjórða áratug tuttugustu aldar, og fóru gætilega í byrjun. Þeir vildu mjólka kúna í stað þess að slátra henni.

Upp úr 1970 hófu sænskir jafnaðarmenn hins vegar að ganga miklu lengra en áður í skattheimtu og opinberum afskiptum. Afleiðingarnar urðu, að verðmætasköpun stöðvaðist, frumkvöðlar fluttust úr landi og skatttekjur ríkisins jukust ekki lengur með aukinni skattheimtu. Kýrin var að hætta að mjólka. Um og eftir 1990 áttuðu Svíar sig almennt á þessu, líka jafnaðarmenn, og hafa þeir síðan verið að fikra sig varlega í átt að nýju jafnvægi, þar sem velferðarbætur eru áfram ríflegar, en skattar hóflegri en áður og sæmilegt svigrúm fyrir einkaframtak. Má því með nokkurri einföldun tala um þrjár sænskar leiðir, í anda frjálshyggju 1870-1970, jafnaðarstefnu 1970-1990 og málamiðlunar frá 1990.

Á öðrum Norðurlöndum varð líka til sterk frjálshyggjuhefð, eins og hin frjálslynda stjórnarskrá Norðmanna á Eiðsvöllum 1814 sýnir. Og uppi á Íslandi talaði Jón Sigurðsson með glöggum rökum fyrir atvinnufrelsi. Í fyrirlestri mínum í Pálsborg postula komst ég að þeirri niðurstöðu, að velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna þriggja þátta, öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta og víðtæks gagnkvæms trausts og samkenndar vegna samleitni þjóðanna, langrar sameiginlegrar sögu og rótgróinna borgaralegra siða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. október 2018.)


Heimurinn fer batnandi!

Ísland væri best allra landa, ef ekki væri fyrir veðrið og nöldrið. Líklega ætti dimmustu vetrarmánuðina að bæta við þriðja bölinu, sem okkur hrjáir, myrkrinu. En þá mætti minna á tvær nýlegar og læsilegar bækur frá Almenna bókafélaginu, Heimur batnandi fer eftir breska dýrafræðinginn og metsöluhöfundinn dr. Matt Ridley, sem situr í lávarðadeild breska þingsins, og Framfarir: Tíu ástæður til bjartsýni eftir sænska sagnfræðinginn og sjónvarpsmanninn Johan Norberg.

Ridley bendir á, að heimurinn fari ört batnandi, hvort sem litið sé á lífskjör, heilsufar og læsi eða margvíslegt minnkandi böl eins og ofbeldisglæpi og stríðsrekstur. Jörðin sé líka að grænka, minna land þurfi til matvælaframleiðslu, jafnframt því sem umhverfi manna hafi víðast verið að batna (með undantekningum eins og Kína). Einhver hlýnun jarðar hefur átt sér stað, og hún er að einhverju leyti af manna völdum, segir Ridley, en óvíst er, að hafa þurfi þungar áhyggjur af henni. Vandinn hafi verið stórlega ýktur.

Norberg vekur athygli á, að fátækt hafi víðast snarminnkað, ekki síst í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Tekjudreifing hafi einnig orðið jafnari í heiminum, aðallega við það að feikilegur fjöldi manns hafi með stórþjóðum eins og Kínverjum og Indverjum brotist til bjargálna. Það sé frekar fagnaðarefni en hitt, að menn hafi áhyggjur af ójafnri tekjudreifingu, því að áður fyrr hafi nánast allir verið jafnfátækir. Norberg bendir á hið sama og Ridley, að heilsufar hafi batnað stórkostlega, jafnframt því sem dregið hafi úr ofbeldi og stríðum fækkað. Nýmæli í vísindum og tækni geri mönnum líka kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum. Ridley og Norberg styðja báðir mál sitt traustum gögnum frá viðurkenndum alþjóðastofnunum.

Sjálfur nýtti ég mér verk þeirra í skýrslu fyrir hugveituna New Direction í Brussel árið 2017. Hún heitir „Green Capitalism“ og er aðgengileg á netinu. Nú um áramót er betra að kveikja ljós en bölva myrkrinu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. desember 2018.)


Rannsóknarskýrsla mín fyrir 2018

[Ég þarf að gera rannsóknarskýrslu fyrir Háskólann á hverju ári og fer hér eftir flokkun hans:]

 

Alþjóðleg ritrýnd útgáfa og innlend ritrýnd útgáfa með alþjóðlega skírskotun:

Totalitarianism in Europe: Three Case Studies. Brüssel: ACRE [Alliance of Conservatives and Reformists in Europe] 2018.

 

Ritgerðir í ritrýndum erlendum fræðitímaritum:

Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson, Econ Journal Watch, 15. árg. 3. hefti, bls. 322–350.

 

Greinar í ritrýndum íslenskum tímaritum:

Erlendir áhrifaþættir bankahrunsins 2008. Þjóðmál, 14. árg. 4. hefti 2018, 70–73.

 

Greinar í ráðstefnuritum:

Two Germans in Iceland: The Jewess who Became an Icelander and the Nazi who Became a communist. Totalitarianism, deportation and emigration. Edited by Peter Rendek. Copyediting by Gillian Purves. Proceedings of the International Conference 2016: Viljandi, Estonia, June 28-30, 2016.

 

Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu:

Lessons from the Icelandic bank collapse. Ráðstefna APEE, Association of Private Enterprise Education, Las Vegas 1.–5. apríl 2018.

HHG.Brussels.ACRE.2018

Green Capitalism. Erindi á umhverfisráðstefnu ACRE [Alliance of Conservatives and Reformists in Europe], Blue-Green Summit, í Brüssel 24. maí 2018.

IMG_0341

The Nordic Models. Fyrirlestur á ráðstefnu Atlas Network, European Liberty Forum, í Kaupmannahöfn 30. maí 2018.

Education for a Free Society. Erindi á ráðstefnu ACRE [Alliance of Conservatives and Reformists in Europe] í Bakú 9. júní 2018.

HHG.Tallinn.2018

A Spectre is Haunting Europe. Fyrirlestur á ráðstefnu Estonian Institute of Historical Memory 23. ágúst 2018.

The Nordic Countries: Prosperity Despite Redistribution. Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu Students for Liberty, Brazil, São Paulo 13. október 2018.

Making them Heard: Voices of the Victims. Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu, The Dark Side of the Moon: Dealing with the Totalitarian Past – Confrontations and Reflections, í Ljubljana 14. nóvember 2018.

 

Erindi á fræðilegu málþingi, málstofu eða fundi fyrir faghópa:

Frjálshyggjurnar eru jafnmargar frjálshyggjumönnunum. Erindi á leiðtoganámskeiði Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema og Students for Liberty í Kópavogi 13. janúar 2018.

Líftaug landsins. Erindi á ráðstefnu Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands um utanríkisviðskipti Íslendinga frá öndverðu 16. janúar 2018.

Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir. Erindi á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála 26. apríl 2018.

HHG.Kópavogur.17.11.2018

Bankahrunið 2008. Erindi á morgunfundi Sjálfstæðisfélags Kópavogs 17. nóvember 2018.

 

Ritstjóri bókar:

Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Höfundar Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson. Formáli og skýringar eftir Hannes H. Gissurarson. Reykjavík: Almenna bókafélagið 2018.

 

Skýrslur:

HHG.Bjarni

Foreign Factors in the 2008 Icelandic Bank Collapse. Skýrsla fyrir fjármálaráðuneytið. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands 2018.

Why Conservatives Should Support the Free Market. Brüssel: New Direction, 2018.

Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists. Brüssel: New Direction, 2018.

 

Fræðsluefni fyrir almenning. Blaðagreinar:

Því var bjargað sem bjargað varð: Davíð Oddsson og bankahrunið 2008. Morgunblaðið 17. janúar 2018.

Beiting hryðjuverkalaganna var Bretum til minnkunar. Morgunblaðið 26. september 2018.

Íslendingum var neitað um aðstoð, sem aðrir fengu. Morgunblaðið 27. september 2018.

Viðbrögð stjórnvalda við bankahruninu voru skynsamleg. Morgunblaðið 28. september 2018.

Framkoma sumra granna var siðferðilega ámælisverð. Morgunblaðið 29. september 2018.

Að fengnu fullveldi: Ísland eða Sovét-Ísland? Morgunblaðið 1. desember 2018.

 

Fræðsluefni fyrir almenning. Fróðleiksmolar:

Bókabrennur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2018.

Trump, Long og Jónas frá Hriflu. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. janúar 2018.

Líftaug landsins. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2018.

Andmælti Davíð, en trúði honum samt. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2018.

Spurning drottningar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. febrúar 2018.

Hún líka. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2018.

Sartre og Gerlach á Íslandi. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2018.

Hann kaus frelsið. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2018.

Þrír hugsjónamenn gegn alræði. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. mars 2018.

Böðullinn drepur alltaf tvisvar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. mars 2018.

Hádegisverður í Stellenbosch. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. mars 2018.

Heimsókn Øverlands. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. mars 2018.

Hvað segi ég í Las Vegas? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. mars 2018.

Málið okkar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.

Grafir án krossa. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. apríl 2018.

Þrjár örlagasögur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. apríl 2018.

Skrafað um Laxness. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. apríl 2018.

Marx 200 ára. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. maí 2018.

Þokkafull risadýr. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. maí 2018.

Hvað segi ég í Brüssel? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. maí 2018.

Hvað segi ég í Kaupmannahöfn? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. maí 2018.

Skerfur Íslendinga. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júní 2018.

Jordan Peterson. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. júní 2018.

Hvað sagði ég í Bakú? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. júní 2018.

Stolt þarf ekki að vera hroki. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júní 2018.

Hvað er þjóð? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. júní 2018.

Knattspyrnuleikur eða dagheimili? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júlí 2018.

Napóleonshatturinn og Hannes Hafstein. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júlí 2018.

Söguskýringar prófessors. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júlí 2018.

Þarf prófessorinn að kynnast sjálfum sér? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. júlí 2018.

Fyrir réttum tíu árum. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018.

Engin vanræksla. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. ágúst 2018.

Hlátrasköllin voru vart þögnuð. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. ágúst 2018.

Hvað sagði ég í Tallinn? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. ágúst 2018.

Leynifundur hjá Hrunmangarafélaginu. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. september 2018.

Gylfi veit sínu viti. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. september 2018.

Þórbergur um nasistasöng. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. september 2018.

Villan í „leiðréttingu“ Soffíu Auðar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. september 2008.

„Hollenska minnisblaðið.“ Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. september 2018.

Bankahrunið: Svartur svanur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. október 2018.

„Ein stór sósíalistahjörð.“ Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. október 2018.

Hvað sagði ég á Stóru hundaeyju? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. október 2018.

Hvað sagði ég í Pálsborg postula? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. október 2018.

Í köldu stríði. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. nóvember 2018.

11. nóvember 1918. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.

Hvað sagði ég í Ljúbljana? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. nóvember 2018.

Prag 1948. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. nóvember 2018.

Hvað hugsuðu þeir 1. desember 1918? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Vegurinn og þokan. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2018.

Þingmönnum útskúfað 1939. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. desember 2018.

Hrópleg þögn. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. desember 2018.

Heimur batnandi fer! Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. desember 2018.

 


Hrópleg þögn

Rómverski mælskugarpurinn Cicero sagði: „Cum tacent clamant.“ Með þögninni er hrópað. Og fræg eru þau ummæli dr. Björns Sigfússonar háskólabókavarðar í formála Ljósvetninga sögu, að þögnin væri fróðleg, þó að henni mætti ekki treysta um hvert einstakt atriði. Ýmis dæmi eru til á Íslandi um þögn, sem er í senn hrópleg og fróðleg.

Eitt er af íslenskum marxistum. Einhverjir þeirra hljóta að hafa vitað, að Marx og Engels minntust nokkrum sinnum á Íslendinga. Marx segir frá því í bréfi til Engels 1855, þegar hann gerði gys að hreintungustefnu Íslendinga í samtali við Bruno Bauer. Og Engels fer hinum verstu orðum um Íslendinga í bréfi til Marx 1846: Þeir „tala alveg sömu tungu og þessir subbulegu víkingar frá anno 900, súpa lýsi, búa í jarðhýsum og þrífast ekki nema loftið lykti af úldnum fiski.“ Hvorugt bréfið er birt í Úrvalsritum Marx og Engels, sem komu út hjá Heimskringlu í tveimur bindum 1968. Höfðu bæði bréfin þó birst í heildarútgáfu verka Marx og Engels hjá Dietz í Austur-Berlín.

Annað dæmi er af Hermanni Jónassyni og Bandaríkjamönnum. Í skeyti frá ræðismanni Bandaríkjanna á Íslandi 23. júní 1941 segir: „Forsætisráðherra óskar eftir því, að engir negrar verði í hersveitinni, sem send verður hingað.“ Þessar setningar voru felldar niður úr útgáfu Bandaríkjastjórnar 1959 á skjölum um utanríkismál, en án úrfellingarmerkis, og komst prófessor Þór Whitehead að þessu með því að skoða frumskjalið. Skiljanlegt var, að Bandaríkjastjórn skyldi ekki endurprenta orð Hermanns, en óneitanlega hefði mátt sýna það með úrfellingarmerki.

Þriðja dæmið er af Halldóri K. Laxness. Þegar Stalín gerði griðasáttmála við Hitler 1939, snerist Laxness á svipstundu frá fyrri andstöðu við nasismann og sagði, að nú væri Hitler orðinn „spakur seppi“. Hann snerist aftur 1941, eftir að Hitler rauf sáttmálann og réðst á Rússland, og skrifaði greinina „Vopnið í Ráðstjórnarríkjunum“ í ritið 25 ára ráðstjórn 1942. Þar lofaði hann vígbúnað Stalíns: „Ríki sem hefur þá lífsköllun að bera fram til sigurs dýrmætustu hugsjón mannkynsins, er aldrei ofvel vopnum búið gegn óvinum mannkynsins.“ Laxness endurprentaði aldrei þessa grein ólíkt flestum öðrum skrifum sínum. Sennilega hefur honum fundist hún rekast á friðarhjal það, sem hann og aðrir stalínistar iðkuðu eftir stríð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. desember 2018.)


Tilboðið sem Sagnfræðingafélagið hafnaði

Til gamans birti ég hér nýleg bréfaskipti mín og Sagnfræðingafélagsins. Það hafði sent út svofellt boð um hádegisfyrirlestra:

Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir tillögum að erindum fyrir hádegisfyrirlestraröð félagsins í Þjóðminjasafninu á vormisseri 2019. Í haust féll merkilegur dómur í Hæstarétti Íslands þegar fimm sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða voru sýknaðir eftir endurupptöku málsins. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er líklega þekktasta dómsmál íslenskrar réttarsögu á 20. öld og hefur ítrekað orðið uppspretta umræðna í íslensku samfélagi um sekt, sakleysi og sannleiksgildi játninga, rannsóknir, fangelsanir og framgang réttvísinnar. Af þessu tilefni verða hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins á vormisseri 2019 helgaðir hinni margslungnu sögu réttarfars og refsinga. Tekið er við tillögum til 1. desember.

Ég sendi 1. nóvember 2018 inn eftirfarandi tillögu um erindi undir heitinu „Þrír dómar yfir mér: Greining og gagnrýni“:

Ég hef hlotið þrjá dóma. Hinn fyrsti var fyrir að reka ólöglega útvarpsstöð í verkfalli opinberra starfsmanna haustið 1984, og höfðaði ríkissaksóknari það mál að áeggjan stjórnar BSRB. Annar var útivistardómur, kveðinn upp í Bretlandi fyrir meiðyrði í garð íslensks fjáraflamanns, sem áttu að hafa fallið á ráðstefnu blaðamanna á Íslandi 1999. Hinn þriðji var dómur fyrir að brjóta gegn höfundarrétti Halldórs Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, sem kom út haustið 2003. Tveir síðari dómarnir voru í einkamálum og refsing í öllum þremur málunum ákveðin sekt, en málareksturinn úti í Bretlandi kostaði mig um 25 milljónir króna, þótt mér tækist að ógilda dóminn yfir mér þar. Allir eru þessir dómar fróðlegir. Eflaust var fyrsti dómurinn eftir bókstaf laganna, en var hann eftir anda þeirra? Var annar dómurinn til marks um það, að auðmenn geti valið sér vettvang fyrir meiðyrðamál í Bretlandi, því að meiðyrðalöggjöf er þar strangari og málarekstur kostnaðarsamari en víðast annars staðar (libel tourism)? Með hvaða rökum breytti Hæstiréttur sýknudómi Héraðsdóms í Laxness-málinu? Var þar einhver skaði fullsannaður? Þótt enginn sé dómari í eigin sök, getur verið gagnlegt að hlusta á röksemdir og gögn í gömlum málum, og hyggst ég leggja fram ýmislegt nýtt um þessa dóma. Íslenskir og breskir dómarar eru ekki fremur óskeikulir en páfinn í Róm.

Ég fékk 12. desember eftirfarandi svar:

Stjórn Sagnfræðingafélagsins hefur farið yfir innsendar tillögur fyrir hádegisfyrirlestraröðina á vormisseri 2019. Færri komast að en vildu og því miður var tillaga þín ekki samþykkt í þetta sinn. Bestu kveðjur, Kristín Svava

Auðvitað verður enginn héraðsbrestur, þótt þessu tilboði hafi verið hafnað. En ég held samt, að erindið hefði getað orðið í senn skemmtilegt og fróðlegt.


Þingmönnum útskúfað 1939

Af sérstöku tilefni var rifjað upp á dögunum að eftir árás Rauða hersins á Finnland í árslok 1939 var þingmönnum Sósíalistaflokksins útskúfað því að þeir neituðu ólíkt öðrum þingmönnum að fordæma árásina og mæltu henni jafnvel bót. Virtu aðrir þingmenn þá ekki viðlits og gengu út þegar þeir héldu ræður. Þorri almennings og þingmanna hafði ríka samúð með smáþjóðinni sem átti hendur sínar að verja. Í leynilegum viðauka við griðasáttmála þeirra Stalíns og Hitlers í ágúst 1939 hafði verið kveðið á um skiptingu Mið- og Austur-Evrópu á milli þeirra og féll Finnland í hlut Stalíns. Í Sósíalistaflokknum höfðu kommúnistar hollir Stalín tögl og hagldir.

Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins og þingmaður hans, andmælti því í leiðara Þjóðviljans 6. febrúar 1940 að Finnar væru frændþjóð okkar Íslendinga. „Finnar eru eins fjarskyldir okkur og Kongo-negrar,“ skrifaði hann.

Brynjólfur Bjarnason, þingmaður Sósíalistaflokksins, smíðaði háðsyrðið „Finnagaldur“ um samúð þorra íslensku þjóðarinnar með Finnum og skrifaði grein í 1. hefti tímaritsins Réttar 1940 undir þeirri fyrirsögn. Þar sagði hann meðal annars: „Flestir munu nú hafa áttað til fulls á því, að þessi styrjöld var ekki stríð milli Finnlands og Rússlands út af fyrir sig, heldur var hér um að ræða styrjöld milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna, sem voru að búa sig undir árás á Rússland og notuðu finnsku hvítliðana sem verkfæri. Atburðirnir hafa síðan sannað, svo sem best verður á kosið, að Sovétlýðveldin áttu í varnarstríði, sem þeim bar skylda til að heyja fyrir land sitt og hinn alþjóðlega sósíalisma.“

Þrátt fyrir þessa frumlegu kenningu Brynjólfs börðust Finnar einir og óstuddir gegn hinu rússneska ofurefli, en urðu loks um miðjan mars 1940 að leita samninga. Eftir að þetta spurðist til Íslands fór Hermann Jónasson forsætisráðherra óvirðulegum orðum um þingmenn Sósíalistaflokksins í einum hliðarsal Alþingis. Vatt Brynjólfur Bjarnason sér þá að honum og kvað hann landsfrægan fyrir heimsku og ósannsögli. Hermann sneri sér hvatskeytlega að Brynjólfi og laust hann kinnhesti með flötum lófa. Þegar Brynjólfur kvartaði við þingforseta, svaraði Hermann því til að það væri íslenskur siður að löðrunga óprúttna orðastráka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. desember 2018.)


Vegurinn og þokan

Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera notar snjalla líkingu til að lýsa vegferð okkar. Á veginum sjáum við sæmilega það, sem er framundan og nálægt okkur, viðmælendur okkar og ef til vill eitt til tvö hundruð metrum lengra. Það, sem fjær er, sést að vísu ekki í myrkri, heldur þoku. En þegar við horfum um öxl, sjáum við allt miklu skýrar þar. Þar er engin þoka. Kundera notar þessa líkingu til að brýna það fyrir okkur að dæma menn liðinna ára ekki of hart, ef þeir hafa ekki séð umhverfi sitt eins skýrt og við sjáum það.

Mér finnst líking Kunderas eiga vel við um íslenska bankahrunið 2008. Menn voru ekki vissir um, hvort bankakerfið væri sjálfbært eða ekki. Sumir fræðimenn, til dæmis Richard Portes og Frederic Mishkin að ógleymdum sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, töldu, að svo væri. Aðrir, svo sem Robert Aliber og Willem Buiter, voru annarrar skoðunar. Allir sáu þeir umhverfið í þoku, þótt sumir þeirra römbuðu á rétta spá. Sigurinn á marga feður, en ósigurinn er munaðarlaus. En ein af ástæðunum til þess, að bankakerfið féll um koll, var auðvitað, að nógu margir fóru að trúa því, að það myndi gera það, og þá rættist spáin af sjálfri sér.

Ég er á hinn bóginn ekki viss um, að líking Kunderas eigi við, þar sem hann notar hana sjálfur: að ekki eigi að fordæma þá, sem veittu alræðisstjórn kommúnista lið. Þeir, sem það gerðu hér á Íslandi, vissu mæta vel, hvernig stjórnarfarið var í kommúnistaríkjunum. Frá upphafi birti Morgunblaðið nákvæmar fréttir af kúguninni og eymdinni þar eystra, meðal annars þegar árið 1924 í greinaflokki Antons Karlgrens, prófessors í slavneskum fræðum í Kaupmannahafnarháskóla.

Sagan af flökkubörnunum sýnir það best. Morgunblaðið flutti oft fréttir af því á öndverðum fjórða áratug, að hópar hungraðra flökkubarna færu um Rússland og betluðu eða stælu sér til matar. Í ferðabókinni Í austurvegi 1932 hélt Laxness því fram, að þau væru horfin. En í Skáldatíma 1963 játaði Laxness, að hann hefðu oft séð þau á ferðum sínum: „Ég sá þessa aumíngja bera fyrir oft og mörgum sinnum, einkum í úthverfum, fáförulum almenníngsgörðum eða meðfram járnbrautarteinum.“ Flökkubörnin voru ekki falin í neinni þoku. En þá héldu sumir, að kommúnisminn myndi sigra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2018.)


Hvað hugsuðu þeir 1. desember 1918?

Fullveldi_HerdubreidÍ dag gefur Almenna bókafélagið út ræðusafnið Til varnar vestrænni menningu í tilefni 100 ára fullveldis. Þrjú þeirra skálda, sem eiga þar ræður, sóttu Menntaskólann í Reykjavík veturinn 1918-1919, stóðu í Bakarabrekkunni 1. desember 1918 og horfðu á, þegar ríkisfáninn íslenski var í fyrsta sinn dreginn að hún, en um leið dundi við 21 fallbyssuskot frá dönsku varðskipi í ytri höfninni til heiðurs hinu nýja ríki.

Davíð Stefánsson minntist umræðna um sambandsmálið í baðstofunni heima í Fagraskógi nokkrum mánuðum áður: „Hver átti að ráða hér ríkjum? Íslendingar sjálfir. Þeir höfðu helgað sér landið með blóði og sveita og þúsund ára erfðum. Um það voru allir sammála, og aldrei heyrði ég rödd þjóðarinnar í þessu máli skýrari en hjá bændunum í Fagraskógarbaðstofunni.“

Tómas Guðmundsson sá roskið fólk vikna: „Enn finnst mér sem ég hafi þarna, í fyrsta og síðasta sinn á ævinni, staðið frammi fyrir þjóð, sem komin var um langan veg út úr nótt og dauða, hafði þolað ofurmannlegar raunir, en lifað af vegna þess, að hún hafði alla tíð varðveitt vonina um þennan dag í hjarta sínu.“

Guðmundur G. Hagalín hugsaði: „Hvort mundi ekki standa þarna á stjórnarráðsblettinum ósýnileg fylking – ekki aðeins frækinna foringja, heldur og hins óbreytta liðs, vaðmálsklæddra bænda og sjómanna í skinnstökkum, manna, sem þorað höfðu „Guði að treysta, hlekki hrista, hlýða réttu, góðs að bíða,“ þá er gæfa þessarar þjóðar virtist „lút og lítilsigld“, þegar danskir höndlarar voru hjér ærið dreissugir og dönsk stjórnarvöld eygðu ekki einu sinni í ljótum draumi þá stund, sem dönsk fallstykki dunuðu til heiðurs alíslenskum fána?“

Fullveldið markaði miklu frekar aldaskil en lýðveldisstofnunin 1944. Til varð nýtt ríki 1918 og öðlaðist viðurkenningu annarra ríkja, en líklega er ekki ofsagt, að 1944 væri aðeins skipt um embættisheiti þjóðhöfðingjans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2018.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband