Rannsókn ASÍ á skattbyrði og tekjudreifingu

Nýbirt rannsókn ASÍ á skattbyrði sýnir, að hún hafi aukist helst hjá tekjulægsta hópnum. Ástæðan er sú, segja ASÍ-menn, að persónuafsláttur hefur ekki hækkað í samræmi við laun. Það er út af fyrir sig rétt, en segir ekki alla söguna. Um þetta deildum við Stefán Ólafsson prófessor á sínum tíma. Ég taldi, að persónuafsláttur ætti ekki að hækka í samræmi við laun, því að þá greiddu menn ætíð sama hlutfall af tekjum sínum í skatt óháð því, hvort þær hækkuðu, en auðvitað ættu þeir að taka þátt í sameiginlegum byrðum þjóðarinnar, þegar og ef laun þeirra hækkuðu.

Ástæðan til þess, að skattbyrði tekjulægsta hópsins hefur þyngst, er, að hann er orðinn aflögufærari en áður. Þetta er svipað og þegar fyrirtæki greiðir engan skat, þegar það græðir ekkert, en greiðir tekjuskatt, um leið og það fer að græða. Skattbyrði þess hefur þyngst, en það er fagnaðarefni, til marks um betri afkomu. Raunar er persónuafsláttur hér miklu hærri en á öðrum Norðurlöndum og í öðrum grannríkjum. Ég tel eðlilegast, að allir taki þátt í að greiða fyrir þjónustu ríkisins, en sumir séu ekki skattfrjálsir og geti síðan greitt atkvæði með því að þyngja skattbyrði á aðra, eins og Vinstri grænir virðast vilja. Um allt þetta má raunar lesa nánar í bók minni um skattamál, sem til er á Netinu.


Vinir í raun

Íslenska spakmælið „Sá er vinur, er í raun reynist“ er sömu merkingar og enska spakmælið „A friend in need is a friend indeed“. Hvort tveggja má rekja til orða rómverska skáldsins Quintusar Enniusar, sem uppi var 239–169 f. Kr.: „Amicus certus in re incerta cernitur.“

Þetta á við um þá sjö þingmenn neðri málstofu breska þingsins, sem skrifuðu undir bókun um Ísland frá Austin Mitchell 13. október 2008, fimm dögum eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum og settu þá á sama lista á heimasíðu fjármálaráðuneytis síns og Al-Kaída, Talíbana og Norður-Kóreu. Mitchell var þingmaður Grimsby fyrir Verkamannaflokkinn og kunnur Íslandsvinur.

Ekki virðist hafa verið sagt frá þessari bókun í íslenskum fjölmiðlum, en í henni var harmað, að breska ríkisstjórnin leitaðist ekki við að hjálpa gamalli vinaþjóð í erfiðleikum. Íslendingar væru góðir viðskiptavinir Breta, hefðu fjárfest verulega í Bretlandi og ættu betra skilið.

Þrír aðrir þingmenn Verkamannaflokksins skrifuðu undir bókunina, Ann Cryer, Neil Gerrard og Alan Simpson. Þeir töldust allir til vinstri vængs Verkamannaflokksins og veittu iðulega umdeildum málum stuðning.

Tveir þingmenn Íhaldsflokksins skrifuðu undir, Peter Bottomley og David Wilshire. Þeir voru báðir kunnir fyrir að lúta lítt flokksaga og töldust til hægri vængs flokksins. Eiginkona Bottomleys, Virginia, sat líka á þingi fyrir Íhaldsflokkinn og var um skeið ráðherra.

Enn fremur skrifuðu Elfyn Llwyd frá Velska þjóðarflokknum og Angus MacNeil frá Skoska þjóðarflokknum undir bókunina. Árið 2016 var óspart hneykslast á því í breskum blöðum, að MacNeil hefði nýtt tækifæri, sem þarlendum þingmönnum gefst á að læra erlend mál á kostnað þingsins, til að nema íslensku. Var þetta talinn hinn mesti óþarfi. Kjördæmi MacNeils er Ytri Suðureyjar, eins og þær heita á íslensku (Outer Hebrides), en þar talar meiri hluti íbúa gelísku.  

Sorglegt er til þess að vita, að aðeins skyldu átta breskir þingmenn af 650 standa að bókuninni og sumir ef til vill frekar sakir andófseðlis en vináttu við Ísland. Hvað sem því líður, ætti okkur að vera ljúft ekki síður en skylt að halda nöfnum Mitchells og hinna þingmannanna sjö á lofti.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017.)


Minningin um fórnarlömbin

RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt,Yeonmi Park heldur ásamt Almenna bókafélaginu og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fund í samkomusal Veraldar, húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, í hádeginu föstudaginn 25. ágúst, þar sem Yeonmi Park, höfundur bókarinnar Með lífið að veði, segir frá lífi sínu í Norður-Kóreu, síðasta kommúnistaríkinu.

Park er aðeins 24 ára, en hún flúði fyrir tíu árum frá Norður-Kóreu með móður sinni. Bók hennar hefur verið þýdd á fjölda mála og verið efst á metsölulistum hérlendis. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnir höfundinn, og Vera Knútsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, stjórnar umræðum að erindi Parks loknu.

Fundurinn er kl. 12:05–13:15. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, á meðan húsrúm leyfir.


Útvarpsviðtal við mig: Styttur og minnismerki

Ég var nú í morgun í viðtali á Bylgjunni um það, hvenær á að fjarlægja styttur og minnismerki og hvenær ekki. Ég rifjaði upp, að eftir stríð voru allar styttur fjarlægðar af nasistum, Hitler, Göring og Göbbels, á fyrrverandi yfirráðasvæði þeirra. Margar styttur hefðu verið fjarlægðar af Lenín, Stalín og öðrum kúgurum í Austur-Evrópu eftir fall kommúnismans, en ekki allar, og væri ég einmitt í starfshópi Platform of European Memory and Conscience um að láta fjarlægja síðustu minnismerkin um kommúnistaleiðtogana.

Hvar ætti að draga mörkin? var ég spurður. Svarið er einfalt. Menn eiga ekki að heiðra níðinga, sem dæmdir hafa verið eða hefðu verið fyrir glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og glæpi gegn friðnum, en þessir glæpir voru skilgreindir í Nürnberg-réttarhöldunum eftir stríð. Það merkir, að styttur og myndir til heiðurs Hitler, Göring, Göbbels, Lenín, Stalín, Maó, Pol Pot og Castro eiga ekki rétt á sér í frjálsum menningarlöndum. Þessa fjöldamorðingja á ekki að heiðra. Líklega týndu um 100 milljónir manna lífi sökum kommúnismans, og ekki þarf að minna á Helför gyðinga.

http://www.vb.is/media/cache/7f/49/7f497f9dd8735e1f5fd8483c3d168a1a.jpg

Ég kvað hins vegar ýmsar aðrar myndir og styttur þátt í menningararfi okkar, hvað sem liði ólíkum skoðunum á viðfangsefnunum Til dæmis hefði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir látið það verða sitt fyrsta verk að fjarlægja úr Höfða hið fræga málverk af Bjarna Benediktssyni, sem vakti á sínum tíma yfir þeim Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov. Með því hefði hún sýnt sögunni óvirðingu. Það væri hins vegar eins óviðkunnanlegt að sjá brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni, fyrsta og eina formanni kommúnistaflokks Íslands, við hátíðasal Háskóla Íslands og það hefði verið að sjá brjóstmynd af einhverjum formanni nasistaflokks þar. Brynjólfur hefði haft sáralítil tengsl við Háskólann og í rauninni jafnfráleitt að skreyta anddyri Háskólans með brjóstmynd af honum og að veita gömlum nasista heiðursdoktorsnafnbót, svo að nógu ólíklegt dæmi sé tekið.

Ég taldi herforingja Suðurríkjanna ekki stríðsglæpamenn í sama skilningi og nasista og kommúnista á 20. öld. Robert Lee hefði að vísu átt þræla, en það hefðu Washington og Jefferson líka átt. Þess vegna ætti að fara varlega í að fjarlægja minnismerki um þessa herforingja. Suðurríkin hefðu tapað borgarastríðinu, en herforingjar þeirra hefðu ekki verið verri menn en starfsbræður þeirra úr Norðurríkjunum, eftir því sem ég best vissi. Raunar hefði gott orð farið af Lee.

Ekki vannst tími til að ræða fleiri dæmi, en yfir Arnarhóli gnæfir stytta af Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum, en hann átti þræla, sem frægt er. Að lokum barst talið að Trump Bandaríkjaforseta. Ég kvað eina skýringuna á furðumiklum stuðningi við hann vera, að gjá væri að myndast milli háskóla, opinberra stofnana og fjölmiðla annars vegar og alþýðufólks hins vegar. Í háskólum og öðrum stofnunum væri reynt að þagga niður ýmsar skoðanir. Þetta væru orðin vígi jaðarfólks (svipað og gerðist í Icesave-deilunni á Íslandi, þegar fulltrúar 98% landsmanna áttu sér aðeins þrjár eða fjórar raddir í Háskólanum, auk þess sem ótrúlega hátt hlutfall háskólakennara styður jaðarflokk, Samfylkinguna, sem aðeins hlaut 5,7% í síðustu þingkosningum).

Trum hefði til dæmis nærst á útlendingaandúð. Sjálfur væri ég hlynntur meginreglunni um frjálsan innflutning fólks, en andvígur innflutningi þeirra, sem aðeins koma til að njóta velferðarbóta eða til að reyna að neyða okkur til að taka upp siði öfgamúslima. Ég hef enga samúð með því fólki. Við ættum tvímælalaust að herða landamæraeftirlit okkar og taka upp sömu ströngu reglur og Norðmenn.


Ný syndaaflausn

Þegar ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins lokaði að nauðsynjalausu breskum bönkum í eigu Íslendinga haustið 2008, setti hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki, greiddi tafarlaust út Icesave-innstæður í Landsbankanum (í stað þess að veita ársfrest til þess, eins og reglur leyfðu) og krafðist þess síðan, að íslenska ríkið endurgreiddi hinu breska alla upphæðina með vöxtum, vildi hópur menntamanna fara að kröfum þeirra. Þau Þorvaldur Gylfason, Stefán Ólafsson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason töldu okkur Íslendinga samsek Landsbankanum og þess vegna öll samábyrg um skuldbindingar hans. Hefði verið farið að vilja þeirra, hefði vaxtakostnaðurinn einn numið um 200 milljörðum króna.

Þessi hugmynd um nauðsynlega yfirbót er ekki ný. Líklega hafa engir tveir viðburðir greypst eins í huga þjóðarinnar og Tyrkjaránið 1627 og bankahrunið 2008. Íslendingar vissu í bæði skiptin, að þeir voru hjálparvana, en héldu um leið, að þeir ættu ekki aðra óvini en eld og ís. Þess vegna voru þeir þrumu lostnir. Strax eftir Tyrkjaránið töldu skáld og aðrir menntamenn, að það „hefði ekki verið annað en refsing og reiðidómur guðs fyrir ljótan lifnað manna hér á landi“, eins og Jón Þorkelsson skrifaði í inngangi að safnriti sínu um ránið. Lærdómurinn, sem af þessu mætti draga, væri að iðka góða siði og sækja betur kirkjur, sagði Arngrímur lærði. Einnig þyrfti að refsa óbótamönnum harðar, kvað Guðmundur Erlendsson í Ræningjarímum.

Vilhjálmur Árnason og aðrir spekingar, sem skrifað hafa um bankahrunið, sleppa að vísu öllu guðsorði, en virðast telja hrunið hafa verið refsingu fyrir ágirnd og óhóf bankamanna, sem þjóðin öll hafi tekið þátt í og sé því samsek þeim um. 200 milljarðarnir, sem Icesave-samningarnir hefðu kostað þjóðina, væru nauðsynleg yfirbót. Með þeim fengi hún syndaaflausn. Lærdómurinn, sem af þessu megi draga, sé að iðka góða siði og sækja betur heimspekifyrirlestra Vilhjálms og félaga. Einnig þurfi að refsa óbótamönnum harðar, eins og Þorvaldur Gylfason skrifar vikulega í blað það, sem Jón Ásgeir Jóhannesson gefur enn út og dreifir ókeypis til landsmanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. ágúst 2017.)


Bernanke um Ísland

Áhugi sumra fræðimanna á bankahruninu 2008 virðist einskorðast við að leita uppi innlenda sökudólga og gera að þeim hróp, ekki reyna að skýra hina flóknu atburðarás. Til dæmis voru minningar örlagavaldsins Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Breta, ekki einu sinni til á Þjóðarbókhlöðunni, fyrr en ég gerði ráðstafanir til að útvega þær. Margt er þar misjafnt sagt um Ísland. Annað dæmi er, að minningar Bens Bernankes, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Hugur til verka (The Courage to Act), eru enn ekki til á Þjóðarbókhlöðunni, og skrifar hann þar þó um Ísland.

Bernanke segir (bls. 349): „Sum lítil lönd með stóra banka voru þess vanmegna að halda áfram ein síns liðs. Til dæmis var Ísland með sína 300 þúsund íbúa bækistöð þriggja stórra banka, og teygði starfsemi þeirra sig til annarra Norðurlanda, Bretlands og Hollands. Í öndverðum október höfðu allir þrír bankarnir fallið, svo að hluthafar (aðallega innlendir) og skuldabréfaeigendur (aðallega erlendir) misstu allt sitt. Við höfðum eins og Evrópski seðlabankinn og Englandsbanki hafnað beiðni Íslands um gjaldeyrisskiptasamninga. Íslenskar og bandarískar fjármálastofnanir voru í litlum tengslum, og vandi bankanna var hvort sem er of stór til þess, að hann yrði leystur með gjaldeyrisskiptasamningum.“

Að vísu misstu skuldabréfaeigendur ekki allt sitt. Talsvert fékkst upp í kröfur þeirra. En sú ábending Bernankes, að lítil tengsl hefðu verið milli íslenskra og bandarískra fjármálastofnana, vekur upp þá spurningu, hvers vegna evrópskir seðlabankar vildu þá ekki veita hinum íslenska aðgang að lausafé. Mikil tengsl voru milli íslenskra og evrópskra fjármálastofnana. Hvað sem því líður, var vandinn ekki of stór á bandarískan mælikvarða: Ef þriggja milljarða dala samningur hefði ekki dugað, þá hefði átt að gera tíu milljarða dala samning. Á meðan Ísland var hernaðarlega mikilvægt, hefðu Bandaríkjamenn ekki hikað við: Eftir stríð fékk Ísland tvöfalt meiri Marshall-aðstoð á mann en Holland, sem þá lá í rústum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. ágúst 2017.)


Neyðarlögin og stjórnarskráin

Þeir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa báðir lagt orð í belg um síðasta fróðleiksmola minn, þar sem ég notaði lögmál heilags Tómasar af Akvínas um tvennar afleiðingar til að rökstyðja neyðarlögin íslensku frá 6. október 2008. Með þeim var sparifjáreigendum veittur forgangur fram yfir aðra kröfuhafa í bú fjármálastofnana. Þetta fól í sér, að um 10 milljarðar evra færðust í raun frá handhöfum skuldabréfa til sparifjáreigenda. Ég benti á, að ætlun löggjafans var ekki að færa fé milli hópa, heldur að tryggja stöðugleika, afstýra neyðarástandi, eins og hefði myndast, hefðu sparifjáreigendur óttast um fé sitt. Þess vegna brytu neyðarlögin ekki í bág við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Löggjafinn hafði vafalaust rétt fyrir sér um, að tryggja þyrfti stöðugleika, afstýra neyðarástandi. Sú röksemd ein og sér nægði til þess, að hann hlaut að hafa rúmar heimildir. Ekki var um afturvirka eignaupptöku að ræða, því að lögin voru um uppgjör búa, sem framundan kynnu að vera. (Hefði Rússalánið til dæmis orðið að veruleika, þá hefðu bankarnir hugsanlega staðist, og þá hefði ef til vill ekki reynt á lögin.) Minna má á, að launakröfur hafa forgang í venjulegum þrotabúum.

Stundum eru aðgerðir nauðsynlegar vegna þjóðarhagsmuna, þótt einhverjir hópar verði illa úti. Við útfærslu fiskveiðilögsögunnar misstu tugir þúsunda breskra sjómanna aðgang að Íslandsmiðum, sem þeir höfðu haft allt frá 1412. Við urðum þá að taka lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar fram yfir atvinnuhagsmuni breskra sjómanna.

Aðalatriðið er, að ekki verður séð, hvernig hægt hefði verið að ganga skemmra en gert var með neyðarlögunum til að ná sama árangri. Hitt er annað mál, að mikilvægara var í þágu stöðugleika að róa innlenda sparifjáreigendur en erlenda skuldabréfaeigendur, sem hefðu líka átt að hafa betri skilyrði en aðrir til að meta áhættu. Þegar upp var staðið voru skuldabréfaeigendur eflaust líka betur settir en ella við það, að neyðarástandi var afstýrt. Það hefði ekki verið þeim í hag, að íslenska hagkerfið hefði hrunið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. ágúst 2017.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband