Voru neyðarlögin eignaupptaka?

Í Icesave-deilunni fullyrti Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor (í Fréttablaðinu 9. apríl 2011), að neyðarlögin frá 6. október 2008 hefðu falið í sér mismunun milli innlendra og erlendra innstæðueigenda. Það var rangt: Kröfum allra innstæðueigenda var samkvæmt lögunum veittur forgangur fram yfir aðrar kröfur. Ef um mismunun var að ræða, þá var hún milli innstæðueigenda annars vegar og skuldabréfaeigenda hins vegar.

Nokkrir skuldabréfaeigendur höfðuðu einmitt mál gegn slitastjórn Landsbankans til að fella þennan forgang úr gildi. Hæstiréttur úrskurðaði hins vegar í október 2011, að neyðarlögin stæðust stjórnarskrá. Þótt flestir Íslendingar hafi þá sennilega andað léttar, hefði rökstuðningur réttarins mátt vera skýrari. Í sératkvæði taldi Jón Steinar Gunnlaugsson um að ræða afturvirka eignaupptöku hjá afmörkuðum hópi, sem væri óheimil samkvæmt stjórnarskrá. Samkvæmt nýrri bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar voru um tíu milljarðar evra í raun færðir með neyðarlögunum frá skuldabréfaeigendum til innstæðueigenda.

Rök Jóns Steinars eru einföld og skýr, og þeim þarf að svara. En til er svar við þeim, sem heilagur Tómas af Akvínas setti fram í Summa Theologica, II. bók, II. hluta, Spurningu 67, grein 7. „Ekkert kemur í veg fyrir, að aðgerð hafi tvennar afleiðingar, þar sem aðeins önnur var ætlunarverk og hin ekki.“ Þetta er í kaþólskri heimspeki kallað lögmálið um tvennar afleiðingar. Til dæmis kann tilraun til að bjarga lífi þungaðrar konu fyrirsjáanlega að valda fósturláti, en sú afleiðing var ekki ætlunarverk og aðgerðin þess vegna ekki nauðsynlega fordæmanleg af þeirri ástæðu.

Ætlunin með neyðarlögunum var ekki að taka upp fé annarra kröfuhafa og færa til sparifjáreigenda, heldur að afstýra upplausn á Íslandi við hrun bankanna, jafnvel neyðarástandi. Samkvæmt lögmálinu um tvennar afleiðingar voru neyðarlögin því ekki óréttmæt eignaupptaka, þótt fyrirsjáanlega leiddi af þeim, að fé færðist milli hópa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2017.)


Átakanleg saga kvenhetju

Fyrir nokkrum árum kom út á íslensku læsileg bók, Engan þarf að öfunda, eftir bandarísku blaðakonuna Barböru Demick, en þar segir frá örlögum nokkurra einstaklinga frá Norður-Kóreu.

Nú hefur Almenna bókafélagið gefið út aðra bók um Norður-Kóreu, ekki síðri, Með lífið að veði, eftir Yeonmi Park, sem er aðeins 24 ára, fædd í október 1993. Foreldrar Park voru tiltölulega vel stæð eftir því, sem gerðist í Norður-Kóreu, uns hungursneyð skall þar á um miðjan tíunda áratug og fólk varð að bjarga sér sjálft. Talið er, að mörg hundruð þúsund manns hafi þá soltið í hel. Faðir Park hóf svartamarkaðsbrask til að hafa í og á fjölskyldu sína, en var sendur í þrælabúðir. Móðir hennar var líka um skeið fangelsuð.

Þær mæðgur ákváðu vorið 2007 að flýja norður til Kína. En smyglararnir, sem fengnir voru til að koma þeim yfir landamærin, stunduðu mansal. Strax og til Kína kom, var móður Park nauðgað og síðar henni sjálfri, og báðar voru þær seldar í nauðungarhjónabönd. Maðurinn, sem tók Park að sér, lagði ást á hana, en fór misjafnlega með hana. Þær mæðgur gáfust ekki upp, og tókst þeim í febrúar 2009 að komast til Mongólíu eftir margra sólarhringa gang í fimbulkulda yfir Góbí-eyðimörkina. Þar beið þeirra óvissa, sem lauk með því, að suður-kóresk stjórnvöld fengu þær afhentar. Lýsing Park á vandanum við að verða skyndilega frjáls og þurfa að velja og hafna er ekki síður forvitnileg en á kúguninni í Norður-Kóreu og hremmingum í Kína og Mongólíu.

Park hafði ekki notið skólagöngu í mörg ár, en hún vann það upp með kappsemi samfara góðum gáfum, lærði ensku og öðlaðist sjálfstraust. Hún sló í gegn í alþjóðlegum sjónvarpsþætti haustið 2014, og á tveimur dögum horfðu 50 milljónir manna á ræðu hennar á Youtube. Bók hennar kom út á ensku haustið 2015, og stundar hún nú háskólanám í Bandaríkjunum, jafnframt því sem hún vekur ötullega athygli á mannréttindabrotum í Norður-Kóreu.

Er ekki samlíðunin uppspretta hins æðsta söngs? Samlíðunin með þeim Ástu Sóllilju og Yeonmi Park á jörðinni?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júní 2017.)


Kammerherrann fær fyrir kampavíni

Um skeið höfðu sumir íslenskir fjölmiðlar mikinn áhuga á tapi Seðlabankans af 500 milljón evra neyðarláni til Kaupþings, sem veitt var í miðju bankahruninu, 6. október 2008. Þegar í ljós kom, að Már Guðmundsson var ábyrgur fyrir tapinu, ekki Davíð Oddsson, misstu þessir fjölmiðlar skyndilega áhuga á málinu.

Fyrir neyðarláninu, sem veitt var eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar, tók Seðlabankinn, sem þá var undir forystu Davíðs, allsherjarveð í FIH-banka í Danmörku, sem þá var í eigu Kaupþings. Eftir fall Kaupþings leysti Seðlabankinn til sín veðið. Þegar Már var orðinn seðlabankastjóri, ákvað hann haustið 2010 að selja FIH-bankann hópi danskra fjárfesta fyrir 5 milljarða danskra króna, þá 670 milljónir evra. Á meðal kaupenda voru hinn öflugi ATP lífeyrissjóður og auðmennirnir Christian Dyvig og Fritz Schur kammerherra, en hann er vinur og ferðafélagi Hinriks drottningarmanns.

Sá hængur var á, að aðeins skyldu greiddir út 1,9 milljarðar (255 milljónir evra), en frá eftirstöðvum skyldi draga bókfært tap FIH banka til ársloka 2014. Hinir nýju eigendur flýttu sér að færa allt tap á þetta tímabil. Jafnframt veitti danska ríkið þeim öflugan stuðning. Það framlengdi lánalínu til bankans, tók við áhættusömum fasteignalánum hans og veitti ATP lífeyrissjóðnum sérstaka undanþágu til að eiga meira en helming í bankanum.

Dyvig, Schur og aðrir eigendur lokuðu bankanum í nokkrum áföngum, en sitja eftir með eigið fé hans, sem er nú metið á um fjóra milljarða danskra króna, 60 milljarða íslenskra króna. Seðlabankinn virðist ekkert geta fengið af þessu mikla fé. Hann tapar mörgum tugum milljarða.

Nú hafa Dyvig og Schur fengið nýjan glaðning, sem farið hefur fram hjá íslenskum fjölmiðlum. Þeir unnu 15. september 2016 mál fyrir Evrópudómstólnum um það, að stuðningur danska ríkisins við þá hefði ekki verið óeðlilegur, svo að þeir fá endurgreiddar 310 milljónir danskra króna (nú um 4,6 milljarðar íslenskra króna), sem framkvæmdastjórn ESB hafði áður krafið þá um fyrir stuðninginn. Schur kammerherra á því fyrir kampavíni í veislum með konungsfjölskyldunni, og í dönskum hallarsölum hlýtur að glymja hlátur yfir sauðunum uppi á Íslandi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júní 2017.)


Íslenska blóðið ólgar

Í síðustu viku sagði ég hér frá því, að ég rakst á íslenskulegt nafn, þegar ég skoðaði lista um 100 ríkustu menn Danmerkur árið 2015. Það var dánarbú Haldors Topsøes efnaverkfræðings. Ég lagðist í grúsk og komst að því, að Haldor var afkomandi Halldórs Thorgrímsens sýslumanns og Finns Jónssonar biskups. Langamma hans var dóttir Halldórs sýslumanns, Sigríður Thorgrímsen. Nú hefur Baldur Símonarson efnafræðingur sent mér frekari fróðleik um þennan auðjöfur með íslenskt blóð í æðum.

Danska verkfræðingafélagið sæmdi Haldor Topsøe nafnbótinni „verkfræðingur aldarinnar“ árið 1999. Fyrirtæki hans, samnefnt honum, framleiðir kísil í hálfleiðara í tölvum og símum og útbýr efnahvata (katalysatora), sem eru notaðir í áburðarframleiðslu. Fyrirtækið er enn í eigu fjölskyldunnar, og er sonur Haldors, Henrik, forstjóri. Svo einkennilega vill til, að daginn eftir að pistill minn um Haldor Topsøe birtist, var dagskrá um þennan merka frumkvöðul í danska sjónvarpinu, TV2.

Ég benti líka á það, að hinn kunni danski rithöfundur á 19. öld, Vilhelm Topsøe, ritstjóri Dagbladet og skáldsagnahöfundur, brautryðjandi í raunsæisbókmenntum, var afabróðir auðjöfursins. En annar afkomandi Halldórs Thorgrímsens og Finns Jónssonar er líka danskur rithöfundur, Vilhelm Topsøe yngri, sem hefur gefið út nokkrar skáldsögur. Baldur Símonarson rifjar upp, að hann er kvæntur söngkonunni Elisabeth Meyer-Topsøe, sem hefur nokkrum sinnum haldið tónleika á Íslandi og einnig kennt ýmsum Íslendingum söng. Er hún aðallega kunn fyrir hlutverk sín í söngleikjum Wagners.

Í Morgunblaðinu birtist 10. september 1995 viðtal við þau hjón, skömmu áður en Elisabeth hélt hér fyrst tónleika. Maður hennar kvaðst þá vera enn áhugasamari en hún um Ísland. „Langamma hans var íslensk, og hann segir afkomendurna vera ákaflega stolta af íslensku ætterni sínu, auk þess sem þeir noti það til að skýra skaphita sinn. Þegar þeim renni í skap, álíti þeir, að íslenska blóðið í þeim ólgi.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júlí 2017.)


Auðjöfur af íslenskum ættum

Í rannsóknum mínum á bankahruninu 2008 rakst ég á það, að danski fjáraflamaðurinn Christian Dyvig rataði árið 2015 á lista um 100 ríkustu Danina vegna gróða síns af kaupum á FIH-banka. Ég tók þá eftir því, að á sama lista var dánarbú Haldors Topsøes og raunar í tíunda sæti með 7,2 milljarða danskra króna eign (um 110 milljarðar íslenskra króna). Fornafnið hljómaði kunnuglega, og eftir nokkurt grúsk komst ég að því, að þessi danski auðjöfur var íslenskur að langfeðgatali.

Haldor Topsøe fæddist 1913, gerðist efnaverkfræðingur og stofnaði fyrirtæki 1940, sem ber heiti hans og stendur enn framarlega í efnaiðnaði á alþjóðavettvangi. Hann lést 2013, skömmu áður en hann hefði orðið hundrað ára. Faðir hans var Flemming Topsøe liðsforingi, en afi hans Haldor Topsøe, kunnur danskur efnafræðingur og félagi í danska Vísindafélaginu. Móðir Haldors eldra var hálf-íslensk, Sigríður Thorgrímsen. Hún var dóttir Halldórs Thorgrímsens, sem fæddist byltingarárið 1789, lærði lög í Danmörku og var sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1814–1818, en dæmdur frá embætti. Hann var síðar rekinn úr skrifarastarfi og lést í umkomuleysi í Laugarnesi 1846. Halldór var sonur Guðmundar dómkirkjuprests Þorgrímssonar og og konu hans Sigríðar Halldórsdóttur prófasts Finnssonar biskups.

Eftir að Halldór Thorgrímsen missti embætti, sendi hann konu sína og dóttur til Danmerkur. Sigríður giftist Søren Christian Topsøe, sem var bæjarfógeti í smábænum Skelskør á Suðvestur-Sjálandi. Annar sonur þeirra Sigríðar var Vilhelm Topsøe, ritstjóri hægra blaðsins Dagbladet í Kaupmannahöfn og kunnur rithöfundur í Danmörku. Sigríður var raunar líka langamma prófessors Peters Bredsdorffs, sem gerði aðalskipulag Reykjavíkur 1962.

Haldor Topsøe kom til Íslands 1951, rannsakaði nýtingu jarðvarma á Íslandi og skrifaði um það skýrslu. En árið sem hann lést, 2013, kom út bók samnefnd honum eftir danska blaðamanninn Thomas Larsen. Í viðtali við bókarhöfund kvað Topsøe afa sinn og nafna hafa talið, að Topsøe-ættin hefði notið sterkra íslenskra erfðavísa (gena). Haldor eldri hefði verið stoltur af því að geta rakið ættir sínar til Gunnlaugs Ormstungu og Egils Skallagrímssonar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. júní 2017.)


Ábyrgðin á óeirðunum 2008–9

Heimspekingar hafa síðustu áratugi smíðað sér kenningar um samábyrgð hópa. Ég nefndi hér í síðustu viku greiningu eins þeirra, Davids Millers, á götuóeirðum, en hann telur, að í þeim verði til slík samábyrgð, sem ráðist af þátttöku, en þurfi ekki að fara saman við einstök verk eða fyrirætlanir. Varpaði ég fram þeirri spurningu, hvort samkennarar mínir í Háskólanum, Gylfi Magnússon og Þorvaldur Gylfason, hefðu með þátttöku sinni í götuóeirðunum hér 2008–9 öðlast samkvæmt greiningu Millers einhverja ábyrgð á þeim, þótt þátttaka þeirra hefði einskorðast við hvatningar til þjóðarinnar á útifundum um að losa sig við stjórnvöld.

Nú hefur ungur heimspekingur, Sævar Finnbogason, sem hefur skrifað ritgerðir um samábyrgð Íslendinga á Icesave-málinu, andmælt mér á Netinu. Helsta röksemd hans er, að ekki hafi þá verið um eiginlegar götuóeirðir að ræða. Mótmælin hafi farið friðsamlega fram og þeir Gylfi og Þorvaldur hvergi hvatt til ofbeldis. En Sævar hefur ekki rétt fyrir sér um það, að þetta hafi aðeins verið mótmælaaðgerðir og ekki götuóeirðir, eins og sést af fróðlegri bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings, Búsáhaldabyltingunni. Þetta voru alvarlegustu götuóeirðir Íslandssögunnar, og mátti litlu muna, að lögreglan biði lægri hlut fyrir óeirðaseggjunum. Afleiðingarnar voru líka fordæmalausar: Í fyrsta skipti hrökklaðist ríkisstjórn frá á Íslandi sakir óeirða.

Sævar svarar því ekki beint, sem Miller rökstyður, að allir þátttakendur í götuóeirðum kunni að bera ábyrgð á þeim. Fyrirætlanir og verk þeirra Gylfa og Þorvaldar skipta samkvæmt því hugsanlega ekki eins miklu máli og sjálf þátttaka þeirra í því ferli, sem leiddi til óeirðanna. Sævar nefnir ekki heldur þá játningu Harðar Torfasonar, sem var í forsvari mótmælaaðgerðanna 2008–9, að búsáhaldabyltingin svokallaða hefði verið skipulögð „á bak við tjöldin“. Hver gerði það? Hver kostaði mótmælaaðgerðirnar, sem urðu að götuóeirðum, meðal annars að tilraun til að ráðast inn í Seðlabankahúsið 1. desember 2008? Hver réð því, að aðgerðirnar beindust aðallega að þremur bankastjórum Seðlabankans, sem höfðu fyrstir varað við útþenslu bankanna og síðan gert sitt besta til að tryggja hag þjóðarinnar í bankahruninu miðju? Af hverju beindust þær ekki frekar að manninum, sem hafði tæmt bankana og reynt í krafti fjölmiðlaveldis að stjórna Íslandi, á meðan hann var sjálfur á fleygiferð um heiminn, ýmist á einkaþotu sinni eða lystisnekkju?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júlí 2017.)


Ábyrgð og samábyrgð

Í athyglisverðri bók, sem kom út árið 2007, veltir gamall kennari minn í Oxford-háskóla, David Miller, fyrir sér hugtökunum þjóðarábyrgð og hnattrænu réttlæti. Eitt dæmi hans er af götuóeirðum (National Responsibility and Global Justice, bls. 114–115). Sumir óeirðaseggir veita lögreglumönnum áverka, aðrir valda tjóni á verðmætum. Enn aðrir eru óvirkari, eggja menn áfram, leggja sitt af mörkum til þess, að uppnám myndist og ótti grípi um sig.

Miller telur, að ábyrgð hvers og eins á leikslokum fari auðvitað að miklu leyti eftir verkum þeirra. En í sjálfum óeirðunum verður til eitthvað annað og meira, segir hann. Þar skipta fyrirætlanir manna í upphafi og verk þeirra ef til vill ekki eins miklu máli og þátttaka þeirra í atburðarás, sem leiðir af sér áverka lögreglumanna, tjón á verðmætum, ógnun við góða allsherjarreglu. Þar verður til samábyrgð allra þátttakenda, að sumu leyti óháð fyrirætlunum þeirra og einstökum verkum.

Mér varð hugsað til greiningar Millers, þegar ég rifjaði upp götuóeirðirnar á Ísland frá því um miðjan október 2008 og fram í janúarlok 2009, en þeim lauk snögglega, eftir að vinstri stjórn var mynduð. Bera þeir, sem hvöttu aðra áfram í ræðum á útifundum, til dæmis háskólakennararnir Þorvaldur Gylfason og Gylfi Magnússon, ekki einhverja ábyrgð á áverkum og eignatjóni vegna óeirðanna? Fróðlegt væri að heyra skoðun íslenskra siðfræðinga á því. Ekki væri verra að fá útskýringar Harðar Torfasonar (sem átti þá snaran þátt í því að skipuleggja mótmælaaðgerðir) á því, við hann átti í viðtali við Morgunblaðið um mótmælafund einn haustið 2010: „Það er alveg greinilegt að þessu er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin.“ Á bak við tjöldin? Er hér ekki komið rannsóknarverkefni fyrir samtökin Gagnsæi?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2017.)


Samábyrgð Íslendinga eða Breta?

Í Icesave-deilunni héldu þau Þorvaldur Gylfason, Stefán Ólafsson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason því fram, að Íslendingar væru allir samábyrgir um Icesave-reikningana og yrðu þess vegna að bera kostnaðinn af þeim (en hann var þá metinn á um 15-30% af landsframleiðslu, meira en Finnar greiddu Rússum í skaðabætur eftir stríðið 1941-1944). Ungur heimspekingur, Sævar Finnbogason, skrifaði 2015 meistaraprófsritgerð undir handleiðslu Vilhjálms, þar sem hann reyndi að styðja þessa skoðun rökum kunnra heimspekinga um þjóðarábyrgð, þar á meðal míns gamla kennara Davids Millers.

Tvær ástæður voru þó til þess, að Sævari hlaut að mistakast. Í fyrsta lagi lá ábyrgð einkaaðila ljós fyrir og var tæmandi. Þetta voru viðskipti Landsbankans, sem þurfti lausafé að láni, og erlendra fjárgæslumanna, sem girntust háa vexti bankans. Það var þessara aðila og eftir atvikum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að bera áhættuna af viðskiptunum, ekki annarra. Í öðru lagi var ekki um neitt tjón hinna erlendu fjárgæslumanna að ræða, því að með neyðarlögunum 6. október 2008 var kröfum þeirra og allra annarra innstæðueigenda á bankana veittur forgangur, og hafa þær nú allar verið greiddar.

Ekki var því um neina samábyrgð Íslendinga á Icesave-reikningunum að ræða. Hinu má velta fyrir sér, hvort skilyrði Millers og annarra heimspekinga fyrir þjóðarábyrgð eigi við um Breta sakir fautaskapar þeirra við Íslendinga í bankahruninu. Þá lokaði stjórn Verkamannaflokksins tveimur breskum bönkum, KSF og Heritable, en bjargaði öllum öðrum breskum bönkum. Lokun KSF leiddi beint til falls Kaupþings. Uppgjör hefur nú sýnt, að KSF og Heritable voru báðir traustir bankar, og ekkert fannst misjafnt í rekstri þeirra. Eini glæpur þeirra var að vera í eigu Íslendinga. Enn fremur beitti Verkamannaflokksstjórnin að nauðsynjalausu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum og birti jafnvel um hríð nöfn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og Landsbankans á lista um hryðjuverkasamtök á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins.

Hefði Sævar Finnbogason ekki heldur átt að hugleiða samábyrgð Breta á þessari hrottalegu framkomu við fámenna, vopnlausa, vinveitta nágrannaþjóð?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2017.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband