Landsdómsmálið

Landsdómurinn íslenski er sniðinn eftir danska ríkisréttinum, en frægt varð mál Eriks Ninn-Hansens dómsmálaráðherra í okkar gamla sambandslandi. Hann hafði gefið embættismönnum munnleg fyrirmæli um að stinga undir stól umsóknum flóttamanna frá Srí Lanka um að fá fjölskyldur sínar til sín. Eftir að hæstaréttardómari hafði samið langa skýrslu um málið sagði danska stjórnin af sér og fólksþingið höfðaði mál gegn Ninn-Hansen. Ríkisrétturinn sakfelldi hann og dæmdi í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Ninn-Hansen skaut málinu til Mannréttindadómstólsins í Strassborg með þeim rökum að ákæran og úrskurðurinn hefðu verið stjórnmálalegs eðlis. Vísaði dómstóllinn málinu frá. Nýleg niðurstaða Mannréttindadómstólsins í málinu gegn Geir H. Haarde þarf því ekki að koma á óvart. Dómararnir í Strassborg telja að sérstakur dómstóll um ráðherraábyrgð þurfi ekki að fela í sér mannréttindabrot.

Margt annað er þó ólíkt með málum Ninn-Hansens og Geirs. Í fyrsta lagi braut Geir ekki af sér á neinn hátt. Ninn-Hansen gaf hins vegar beinlínis fyrirmæli um að ekki skyldi farið að lögum.

Í öðru lagi var Geir sýknaður af öllum þeim ákæruatriðum sem naumur meirihluti Alþingis sótti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann var hins vegar sakfelldur fyrir það smávægilega ákæruatriði, sem bættist við í meðförum þingsins og kom vart fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að hann hefði ekki tekið vanda bankanna á dagskrá ríkisstjórnarfunda. Var honum ekki gerð refsing fyrir þetta atriði og var kostnaður greiddur úr ríkissjóði.

Í þriðja lagi er ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald. Hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki. Það hefði því átt að vera bankamálaráðherrann, Björgvin G. Sigurðsson, sem hefði átt að biðja um umræður á ríkisstjórnarfundi um vanda bankanna. Formaður flokks bankamálaráðherrans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hélt hins vegar skipulega upplýsingum frá honum um þennan vanda, enda afgreiddi hún þær sem „reiðilestur eins manns“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. nóvember 2017.)


Banki í glerhúsi

Einn áhrifamesti gagnrýnandi íslensku bankanna fyrir bankahrun var Danske Bank. Vorið 2006 sagði hann upp öllum viðskiptum við þá og rauf þannig meira en aldargömul viðskiptatengsl. Jafnframt birti hann skýrslu, þar sem spáð var bankakreppu (en ekki bankahruni). Næstu tvö ár tók Danske Bank ásamt vogunarsjóðum þátt í veðmálum gegn íslensku bönkunum, eftir því sem næst verður komist. Og Danske Bank átti sinn þátt í að hleypa bankahruninu af stað, þegar hann neitaði skyndilega að taka þátt í sölu norska Glitnis, eins og ráð hafði verið fyrir gert.

En voru ráðamenn Danske Bank ekki í glerhúsi, þegar þeir grýttu Íslendinga? Í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-9 riðaði Danske Bank til falls, ekki síst vegna örs vaxtar og glannalegra fjárfestinga á Írlandi, og hefði fallið, hefði danski seðlabankinn ekki bjargað honum með Bandaríkjadölum, sem fengust í bandaríska seðlabankanum. Raunar var aðaleigandi bankans líka aðalviðskiptavinur hans, skipafélagið A. P. Møller og sjóðir á þess vegum.

Nú hefur ýmislegt komið í ljós um bankann í rannsókn ötuls blaðamannahóps á Berlingske. Svo virðist sem starfsfólk bankans í útbúi hans í Eistlandi hafi aðstoðað rússneska glæpamenn og einræðisherrann í Aserbaídsjan við að skjóta fúlgum fjár undan. Bankinn hefur einnig flækst inn í svokallað Magnítskíj-mál, en Sergej Magnítskíj lést í rússnesku fangelsi eftir að hafa ljóstrað upp um stórfelld skattsvik áhrifamikilla manna í Rússlandi. Sagði bandaríski fjárfestirinn Bill Browder þá sögu á fjölsóttum fyrirlestri í hátíðasal Háskólans 20. nóvember 2015 og í bók sinni, Eftirlýstur, sem Almenna bókafélagið gaf út við það tækifæri.

Nú þegar Danske Bank og aðrir vestrænir stórbankar, sem bjargað var af almannafé í fjármálakreppunni, hafa orðið uppvísir að peningaþvætti, hagræðingu vaxta, margvíslegum blekkingum og jafnvel samstarfi við hryðjuverkasamtök og hryðjuverkaríki, er ef til vill kominn tími til að meta íslensku bankana af sanngirni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. nóvember 2017.)


100 ár – 100 milljónir

Í dag, 7. nóvember 2017, eru heil öld liðin frá byltingu bolsévíka, eins og kommúnistar kölluðu sig í Rússlandi. Þennan dag fyrir hundrað árum rændu Lenín og liðsmenn hans völdum af kjörinni lýðræðisstjórn. Í hönd fór sigurför kommúnista um heim allan, en samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2009, týndu 100 milljónir manna lífi af þeirra völdum: Flestir voru sveltir í hel, aðallega í Úkraínu 1932–1933 og Kína 1958–1961, aðrir skotnir, hengdir eða barðir til bana. Sumum var drekkt og lífið murkað úr öðrum í pyndingaklefum eða vinnubúðum. Þótt þessi róttæka hreyfing, sem hóf göngu sína fyrir hundrað árum, yrði smám saman að andlausri stofnun, snerust stjórnmáladeilur um allan heim, líka á Íslandi, löngum um kommúnismann, allt fram til þess að Berlínarmúrinn hrundi 1989. En hvers vegna krafðist kommúnisminn svo margra fórnarlamba? Er alræði óhjákvæmilegt í sameignarkerfi? Hvað getum við lært af þessum ósköpum, sem riðu yfir tuttugustu öld? 

Lenín engu skárri en Stalín

Frá upphafi einkenndist bylting bolsévíka af takmarkalausu ofbeldi. Lenín og liðsmenn hans var ráðnir í að láta ekki fara eins fyrir sér og frönsku byltingarmönnunum á átjándu öld, sem sundruðust, bliknuðu og gáfust loks upp. Á tveimur mánuðum haustið 1918 tók leyniþjónusta bolsévíka, Tsjekan, af lífi um 10–15 þúsund manns. Til samanburðar má nefna, að undir stjórn keisaranna árin 1825–1917 voru dauðadómar kveðnir upp af dómstólum, þar á meðal herdómstólum, samtals 6.323, þar af 1.310 árið 1906, eftir uppreisn árið áður. Mörgum dauðadómum var þá ekki fullnægt. Eðlismunur var því frekar en stigsmunur á stjórn kommúnista og rússnesku keisaranna. Upplýsingar úr skjalasöfnum, sem opnuðust um skeið eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna, sýna, að Lenín var síst mildari en eftirmaður hans Stalín. Á meðan hann hafði völd, streymdu frá honum fyrirskipanir í allar áttir um að sýna andstæðingum bolsévíka hvergi vægð. Aðalsmenn, embættismenn og klerkar voru kallaðir „fyrrverandi fólk“, og þeir, sem ekki voru drepnir eða fangelsaðir, voru sviptir réttindum. Nú var reynt að endurskapa allt skipulagið eftir hugmyndum Marx og Engels, afnema einkaeignarrétt og frjáls viðskipti. Stalín tók upp þráðinn frá Lenín og hóf víðtækan áætlunarbúskap, neyddi bændur af jörðum sínum og inn í samyrkjubú, þótt það kostaði stórfellda hungursneyð í Úkraínu. Jafnframt handtók hann smám saman alla helstu keppinauta sína um völd innan kommúnistaflokksins og neyddi suma þeirra til að játa á sig hinar fáránlegustu sakir í sýndarréttarhöldum.

Stalín og Hitler hleyptu í sameiningu af stað seinni heimsstyrjöld, þegar þeir skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu með svokölluðum griðasáttmála í ágúst 1939. Stalín lét myrða blómann af pólska hernum og flutti tugþúsundir manna úr fyrri valdastétt Eystrasaltsríkjanna á gripavögnum í vinnubúðir norðan heimsskautsbaugs. Bandalagi alræðisherranna tveggja lauk ekki, fyrr en Hitler réðst á Rússland sumarið 1941. Stalín varð þá skyndilega bandamaður Vesturveldanna og hernam eftir stríð mestalla Mið- og Austur-Evrópu. Leppstjórnir kommúnista hrifsuðu þar völd, og uppreisnir voru miskunnarlaust barðar niður. Í Kína sigraði Maó í borgarastríði 1949 og kom á enn verri ógnarstjórn en Stalín í Rússlandi. Talið er, að rösklega fjörutíu milljónir manna hafi soltið í hel, þegar Maó ætlaði árin 1958–1961 að taka stökkið mikla úr ríki nauðsynjarinnar í ríki frelsisins, eins og marxistar orðuðu það.

Vesturveldin höfðu veitt hraustlegt viðnám, þegar kommúnistar hugðust leggja undir sig Suður-Kóreu sumarið 1950, en smám saman dró úr varnarvilja þeirra. Tókst kommúnistum að leggja undir sig Kúbu 1959 og Suður-Víetnam, Laos og Kambódíu 1975. Hið eina, sem hélt kommúnistum í skefjum í Evrópu, var hinn öflugi her Bandaríkjanna, vopnaður kjarnorku- og vetnissprengjum. En að lokum rættist sú spá, sem austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hafði sett fram þegar árið 1920, að við víðtækan áætlunarbúskap væri ekki hægt að nýta saman vitneskju, þekkingu og kunnáttu ólíkra einstaklinga, svo að sameignarkerfi væri dæmt til að dragast aftur úr hinu frjálsa hagkerfi. Kommúnistar höfðu réttlætt ofbeldi sitt með því, að brjóta yrði egg til að geta bakað eggjaköku. Menn sáu brotnu eggin. En hvar var eggjakakan? Þegar einarðir leiðtogar náði kjöri í Bretlandi og Bandaríkjunum, Margrét Thatcher og Ronald Reagan, voru dagar heimskommúnismans taldir. Berlínarmúrinn hrundi 1989, og Ráðstjórnarríkin liðu undir lok 1991.

Undirrótin í hugmyndum Marx og Engels

Halldór Laxness sagði mér eitt sinn, að hann hefði horfið frá kommúnisma, þegar honum hefði orðið ljóst, að tatarakaninn sæti enn í Kreml. Þótt skoðun hans væri skemmtilega orðuð, er hún hæpin. Stefna Leníns og Stalíns var í rökréttu framhaldi af hugmyndum Marx og Engels, ekki frávik frá þeim. Í ritum hinna þýsku frumkvöðla leynir ofbeldishugarfarið og ofstækið sér ekki. Í Nýja Rínarblaðinu 7. nóvember 1848 sagði Marx fólk óðum vera að sannfærast um, að aðeins dygði eitt ráð til að stytta blóðugar fæðingarhríðir nýs skipulags, „ógnarstjórn byltingarinnar“. Í sama blaði 13. janúar 1849 sagði Engels,  að sumar smá- og jaðarþjóðir væru ekkert annað en botnfall (Volkerabfälle). Nefndi hann sérstaklega Kelta í Skotlandi, Bretóna í Frakklandi, Baska á Spáni og suður-slavneskar þjóðir. „Í næstu heimsstyrjöld munu ekki aðeins afturhaldsstéttir og konungsættir hverfa af yfirborði jarðar, heldur líka afturhaldsþjóðir í heild sinni. Og það eru framfarir.“ Sérstaklega fyrirlitu Marx og Engels Íslendinga. Í samtali við Bruno Bauer 12. desember 1855 hæddist Marx að tilraunum Íslendinga til að tala eigið mál, og í bréfi frá því í desember 1846 skrifaði Engels, að Íslendingar byggju í jarðhýsum, sypi lýsi og þrífust ekki, nema loftið lyktaði af úldnum fiski. „Ég hef oftsinnis freistast til þess að vera stoltur af því að vera þó ekki Dani, hvað þá Íslendingur, heldur bara Þjóðverji.“ Þótt íslenskir marxistar þykist vel lesnir, hafa þeir lítt haldið slíkum ummælum meistara sinna á lofti.

Það er engin tilviljun, að kommúnismi hefur alls staðar verið framkvæmdur með takmarkalausu ofbeldi. Þegar reynt er að endurskapa allt skipulagið eftir kenningum úr kollinum á einhverjum spekingum, afnema einkaeignarrétt og frjáls viðskipti, verður til stórkostlegt vald, og það er líklegt til að lenda að lokum í höndum þeirra, sem grimmastir eru og blygðunarlausastir. Sumir marxistar vissu raunar af þessari hættu. „Í landi, þar sem stjórnin á öll atvinnutækin, bíður stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði,“ skrifaði Trotskíj, eftir að Stalín hafði tekið upp áætlunarbúskap. Og í gagnrýni sinni á lenínismann benti Rósa Lúxembúrg á, að frelsið væri alltaf frelsi andófsmannsins. Þau Trotskíj og Lúxembúrg horfðu hins vegar fram hjá því, að í einkaeignarrétti og frjálsum viðskiptum felst sú valddreifing, sem tryggir frelsið. Því síður virtust þau skilja rök austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks fyrir því, að sameignarstefna væri ætíð „leiðin til ánauðar“: Þegar stjórna átti atvinnulífinu með áætlunum að ofan, varð of flókið að taka tillit til sérþarfa einstaklinganna , svo að annaðhvort urðu kommúnistar að gefast upp á áætlunarbúskapnum eða reyna að fækka þessum sérþörfum og einfalda þær með því að taka í sínar hendur öll mótunaröfl mannssálarinnar. Til þess að geta skipulagt atvinnulífið urðu þeir að skipuleggja mennina, enda sagði Stalín, að rithöfundar væru „verkfræðingar sálarinnar“. Kúgunin og einhæfingin er eðlisnauðsyn kerfisins.

Kommúnistahreyfingin íslenska

Hin stórfellda tilraun Leníns og liðsmanna hans til að endurskapa allt skipulagið vakti sömu athygli á Íslandi og annars staðar. Morgunblaðið fylgdist grannt með málum þar eystra. Það þýddi til dæmis á þriðja áratug greinaflokka um kúgun bolsévíka í Rússlandi eftir Anton Karlgren, sem var sænskur sérfræðingur í slavneskum fræðum. Á öndverðum fjórða áratug birti það líka frásagnir eftir breska blaðamanninn Malcolm Muggeridge um hungursneyðina í Úkraínu. En Lenín og Stalín áttu sér líka dygga lærisveina á Íslandi. Brynjólfur Bjarnason og Hendrik S. Ottósson voru fulltrúar á öðru heimsþingi Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, í Moskvu 1920 og heyrðu þar Lenín útlista hernaðargildi Íslands í hugsanlegu stríði á Norður-Atlantshafi. Fyrst störfuðu íslenskir marx-lenínistar innan Alþýðuflokksins, en í samráði við Kremlverja stofnuðu þeir kommúnistaflokk 1930, og varð Brynjólfur formaður hans. Flokkurinn var í nánum tengslum við bróðurflokk sinn í Rússlandi, og sóttu að minnsta kosti tuttugu íslenskir kommúnistar leynilegar þjálfunarbúðir í Moskvu árin 1929–1938. Skjöl í rússneskum söfnum sýna, að íslenskir kommúnistar þáðu ekki aðeins ráð, heldur líka fjárstuðning frá Moskvu. Þegar Komintern lét það boð út ganga, að kommúnistar skyldu reyna að sameinast vinstri sinnuðum jafnaðarmönnum, tókst íslenskum kommúnistum að fá í bandalag við sig ýmsa Alþýðuflokksmenn, og haustið 1938 var Sósíalistaflokkurinn stofnaður. „Við leggjum kommúnistaflokkinn aldrei niður öðru vísi en sem herbragð,“ sagði Einar Olgeirsson hins vegar í einkasamtali, en hann var formaður Sósíalistaflokksins 1939–1968.

Sósíalistaflokkurinn studdi Kremlverja dyggilega og fylgdi línunni frá Moskvu með óverulegum undantekningum. Leiðtogar hans voru tíðir gestir austan járntjalds, og flokkurinn þáði verulegan fjárstuðning frá Rússlandi. Tókst honum að koma sér upp fjórum stórhýsum í Reykjavík, við Skólavörðustíg 19, Tjarnargötu 20, Laugaveg 18 og Þingholtsstræti 27. Ekki verður þó sagt, að fræðilegur marxismi hafi verið sterkasta hlið þeirra Brynjólfs Bjarnasonar, sem á efri árum aðhylltist andatrú, og Einars Olgeirssonar, sem gældi við rómantíska þjóðernisstefnu. Þegar sótt var að sósíalistum í Kalda stríðinu, fengu þeir á ný í lið með sér vinstri sinnaða jafnaðarmenn og buðu fram undir nafni Alþýðubandalagsins frá 1956. Á sjöunda áratug var Alþýðubandalaginu breytt í stjórnmálaflokk, og gömlu stalínistarnir misstu tökin á því. Tengslin við Rússland og Kína rofnuðu, en Alþýðubandalagsmenn héldu nokkru sambandi áfram við kommúnista í Rúmeníu og Júgóslavíu og á Kúbu. Við endalok Ráðstjórnarríkjanna 1991 hvarf úr sögunni einn helsti klofningsþáttur hinnar íslensku vinstri hreyfingar, og Alþýðubandalagið var lagt niður 1998. Síðasta verk forystusveitar þess, þar á meðal Svavars Gestssonar, var að þiggja heimboð kúbverska kommúnistaflokksins þá um haustið. Hugðust Íslendingarnir ganga á fund Fidels Castros, en hann kærði sig ekki um að hitta þá. Má því segja með orðum skáldsins, að sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar hafi lokið með snökti frekar en gný.

Vofa kommúnismans

Nasistar Hitlers töpuðu seinni heimsstyrjöldinni, og eftir hana voru ódæði þeirra afhjúpuð í réttarhöldunum í Nürnberg. Nasismi er hvarvetna talinn glæpsamlegur. Kommúnisminn hefur ekki sætt sömu meðferð, þótt eitt hundrað milljónir manna hafi fallið af völdum hans, allt frá því að Lenín og liðsmenn hans rændu völdum í Rússlandi 7. nóvember 1917. Nú standa þó aðeins eftir tvö opinber kommúnistaríki, Kúba og Norður-Kórea. Báðum löndum er stjórnað af fjölskyldum, Castro-bræðrum á Kúbu og Kim-fjölskyldunni í Norður-Kóreu. Einnig þrífst enn eins konar lýðskrums-kommúnismi í Venesúelu. En þótt hinn harðskeytti heimskommúnismi fyrri tíðar sé vissulega dauður, lifa enn ýmsar hugmyndir hans. Víða er horft fram hjá helsta lærdómnum, sem draga má af hinni dapurlegu sögu hans, að eina ráðið til að tryggja frelsið felst í valddreifingu í krafti einkaeignarréttar og frjálsra viðskipta. Vofa kommúnismans gengur enn ljósum logum um Evrópu, ekki síst í háskólum.

(Grein í Morgunblaðinu 7. nóvember 2017.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband