7.11.2015 | 10:18
Gamall Grænfriðungur talar um loftslagsmál
4.11.2015 | 22:38
Sköpunargleði í stað sníkjulífs
Ég greini og gagnrýni siðferðilega vörn Ayns Rands fyrir kapítalismanum í fyrirlestri fimmtudaginn 5. nóvember kl. 16.30 í Odda í Háskóla Íslands, stofu O-101. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Rand er áhrifamesti kvenheimspekingur allra tíma, og hafa bækur hennar selst í þrjátíu milljónum eintaka. Þrjár skáldsögur hennar hafa komið út á íslensku, Kíra Argúnova, Uppsprettan og Undirstaðan.
Ég spyr: Hver er munurinn á sjálfselsku og ágirnd? Er samanburður Rands á afburðamönnum og afætum eðlilegur? Hvaða íslensku frumkvöðlar svara best til lýsingar Rands á skapandi einstaklingum? Þarf ást ætíð að vera verðskulduð, eins og Rand heldur fram? Er ekki til neitt, sem heitir mannleg samábyrgð? Hver er munurinn á málsvörn Rands fyrir kapítalismanum og hagfræðinganna Hayeks og Friedmans?
Hér er brot úr málsvörn Rands fyrir sjálfstæðum einstaklingum (og flytur hana Gary Cooper):
4.11.2015 | 19:34
Kynþáttaandúð eða útlendingahræðsla?
Hermanni Jónassyni, forsætisráðherra 19341942, hefur stundum verið brugðið um kynþáttaandúð. Tvennt er þá nefnt. Hingað hafði gyðingurinn Hans Rottberger flúið undan Hitler ásamt fjölskyldu sinni. Haustið 1937 átti að vísa fjölskyldunni úr landi. Rottberger leitaði í öngum sínum til danska sendiráðsins. Tók sendiráðsfulltrúinn Carl A. C. Brun málið upp við Hermann Jónasson í kvöldverði. Hermann var hinn vingjarnlegasti og lofaði að framlengja dvalarleyfi fjölskyldunnar í nokkra mánuði, en tók þó fram, eins og Brun færði í dagbók sína 17. nóvember 1937, að það væri grundvallarregla, að Ísland hefði alltaf verið hreint norrænt land, laust við gyðinga, og að þeir sem komnir væru til landsins skyldu aftur hverfa á brott.
Hitt dæmið hef ég rætt um áður. Það er setning í skeyti frá Bertil Kuniholm, ræðismanni Bandaríkjanna á Íslandi, til utanríkisráðuneytisins í Washington-borg 1. júlí 1941, þegar herverndarsamningurinn var undirbúinn: Forsætisráðherrann óskar eftir því, að engir negrar verði í sveitinni, sem skipað verður niður hér. Þessi setning var felld úr opinberri útgáfu bandarískra skjala um utanríkismál, án úrfellingarmerkis.
Líklega er rétt, sem Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur segir, að afstaða Hermanns var frekar til marks um almenna útlendingahræðslu Íslendinga en sérstaka kynþáttaandúð Hermanns sjálfs. Íslendingar höfðu búið hér einir í þúsund ár, að heita mátti. Stolt þeirra af fornum menningararfi blandaðist ótta um, að þessi fámenna þjóð týndi sjálfri sér, og sá ótti ummyndaðist iðulega í útlendingahræðslu, ekki síst gagnvart hópum, sem voru sérstakir um trú, háttalag eða hörundslit. Hermanni hefur líklega gengið það eitt til að forðast árekstra. Hann hefur eins og flestir Íslendingar verið vinsamlegur nærstöddu fólki, en litið á fjarstatt fólk sem nafnarunur í skjölum.
Þessi afstaða var þjóðinni þó ekki til sóma. Trúarbrögð eða hörundslitur eiga ekki að ráða því, hvaða útlendingar séu hér velkomnir, þótt með því sé ekki sagt, að allir útlendingar skuli vera hér velkomnir, til dæmis síbrotamenn, smitberar eða áreitnir öfgamenn. Ætíð er fengur að duglegu, sjálfbjarga fólki, og enn á það við, sem skáldið orti, að hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. október 2015. Myndin er fengin af bloggi Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings af kvöldverðarboðinu, sem getið er hér að ofan. Hermann er merktur 1, Brun 2 og Thor Thors 3, en hann mælti síðar á þingi Sameinuðu þjóðanna fyrir aðild Ísraels.)
29.10.2015 | 06:54
Kroner og Hitler
Þór Whitehead segir frá því í bókinni Ófriði í aðsigi, þegar Íslendingar björguðu gyðingafjölskyldu undan nasistum. Dr. Karl Kroner var frægur taugalæknir í Berlín. Kona hans, Irmgard Liebich, sem einnig var læknir, var áhugasöm um íslenska menningu, og þau hjón höfðu reynst Íslendingum í Berlín vel. Kroner var handtekinn eftir Kristalnóttina 10. nóvember 1938, en þá gengu nasistar berserksgang gegn gyðingum. Helgi P. Briem, fulltrúi Íslands í danska sendiráðinu í Berlín, sneri sér til kunningja síns, háttsetts nasista, bað Kroner griða og kvaðst geta komið honum til Íslands.
Eftir talsvert þóf slepptu nasistar Kroner lausum, en gáfu honum aðeins sólarhrings frest til að hypja sig úr landi. Tókst Helga með erfiðismunum að losa sæti í flugvél til Kaupmannahafnar og fylgdi Kroner út að vélinni. Kona Kroners og sonur þeirra komust síðar til Íslands. Fyrstu árin á Íslandi gat Kroner ekki starfað löglega sem læknir, því að lækningaleyfi voru bundin við ríkisborgararétt, en 1944 samþykkti Alþingi sérstaka undanþágu fyrir hann. Hann og fjölskylda hans fluttust þó skömmu síðar til Bandaríkjanna, en þau hjón báru ætíð hlýjan hug til Íslands, og voru jarðneskar leifar þeirra látnar að ósk þeirra í íslenska mold.
Hitt vita færri Íslendingar, að leyniþjónusta bandaríska flotans yfirheyrði Kroner hér á Íslandi árið 1943 vegna vitneskju, sem hann kynni að búa yfir um heilsufar Adolfs Hitlers. Seint í fyrri heimsstyrjöld starfaði Kroner á hersjúkrahúsinu Pasewalk í Pommern. Þá var sendur þangað liðþjálfi, sem talinn var hafa blindast af sinnepsgasi á vígstöðvunum. Hann hét Adolf Hitler. Sérfræðingur á sjúkrahúsinu, Edmund Forster, komst að sögn Kroners að þeirri niðurstöðu, að Hitler hefði ekki blindast í raun og veru, heldur fengið taugaáfall. Hann væri ekki blindur, jafnvel þótt hann tryði því sjálfur. Ekki leið á löngu, uns Hitler hafði fengið aftur fulla sjón.
Skýrsla leyniþjónustunnar um samtalið við Kroner hefur orðið uppspretta nokkurra nýlegra rita um sálarlíf Hitlers, en flest virðist þar vera getgátur einar. Hitt er annað mál, að eflaust hefur Hitler ekki kært sig um, að neinn vissi af sjúkdómsgreiningu Forsters, sem lést haustið 1933. Var hin opinbera ástæða talin sjálfsvíg, en Kroner kvaðst í samtalinu við leyniþjónustumenn telja, að nasistar hefðu myrt hann. Mál þetta og margt annað í æsku Hitlers er rakið skilmerkilega í bók eftir breska sagnfræðinginn Thomas Weber, Fyrsta stríð Hitlers (Hitlers First War), sem kom út hjá Oxford University Press 2010.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. október 2015. Myndin er af Karli Kroner og tekin í fyrri heimsstyrjöld.)
28.10.2015 | 19:32
Deilt um Jóhönnu við Einar Kárason
Einar Kárason skrifaði pistil um Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég gat ekki stillt mig um að gera athugasemd, enda blöskrar mér, ef á að gera þennan mistæka, þröngsýna og lítilsiglda stjórnmálamann, sem vissi ekki einu sinni, hvar Jón Sigurðsson var fæddur, að einhverri þjóðhetju:
Jóhanna gat ekkert í ríkisstjórn sem almennur ráðherra annað en heimtað og hótað eins og allir samstarfsmenn hennar geta borið vitni um. Og þegar hin stóra stund rann upp og hún átti að veita þjóðinni leiðsögn út úr erfiðleikum, brást hún í raun og veru. Hún hóf hefndaraðgerðir gegn gömlum andstæðingum, sem þó höfðu aldrei lagt illt til hennar ólíkt flokkssystkinum hennar, hrakti einn úr Seðlabankanum og lét höfða Landsdómsmál gegn öðrum (mál sem hún gat hæglega stöðvað). Hún gaf kröfuhöfum bankana á silfurfati, sló aðeins skjaldborg um heimili þeirra Más Guðmundssonar og Einars Karls Haraldssonar, en einskis alþýðufólks, og reyndi að keyra Icesave-samning, sem hefði fært okkur í skuldafjötra, óséðan í gegnum þingið. Hún lét upp úr þurru og að nauðsynjalausu kjósa stjórnlagaþing, en kosningin var dæmd ógild, og þá skipaði hún sama fólkið á samkundu, sem kom saman og söng á hverjum degi og breytti öllu í skrípaleik. Hún hafði engan skilning á möguleikum og takmörkunum stjórnmálanna, á list þeirra. Hún hélt ekki heldur á neinn hátt málstað Íslendinga á lofti gagnvart útlendingum, þegar helst þurfti á því að halda, heldur sat stúrin og þögul úti í horni. Hún beindi aldrei þeirri frekju sinni, sem samstarfsfólk hennar þekkti svo vel, að útlendingum. Þar var hvorki heimtað né hótað, heldur aðeins látið undan. Það þarf ekki að bæta við, að hún kom jafnan leiðinlega fram við undirmenn sína, heilsaði þeim varla, hvað þá meira. Þessi þingmannsdóttir (faðir hennar var háskólamenntaður maður, þingmaður Alþýðuflokksins og forstjóri Tryggingastofnunar) var af valdastétt Alþýðuflokksins, og fyrir slíku fólki var alþýðan aðeins orð til að nota í ræðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.11.2015 kl. 07:53 | Slóð | Facebook
28.10.2015 | 17:46
Hugleiðingar að loknum landsfundi
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2015 tókst mjög vel. Formaður flokksins og varaformaður, þau Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, eru mjög frambærileg og geðþekk, skynsöm og hófsöm. Kraftur er í nýjum ritara, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, og vonandi sýnir kjör hennar ungu fólki, að það er velkomið í Sjálfstæðisflokkinn. Þar á ungt hæfileikafólk líka heima: Á mestu ríður, að það fái tækifæri til að njóta sín, rækta hæfileika sína og koma þeim í verð, og það tekst aðeins í rúmgóðu skipulagi frjálsra viðskipta. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur þeirra, sem eru ríkir, heldur flokkur þeirra, sem vilja verða ríkir eða að minnsta kosti bjargálna og sjálfstæðir. Hann er flokkur möguleikanna.
Ungt fólk virðist þó almennt hafa minni áhuga á stjórnmálum en þeir, sem eldri eru, hugsanlega vegna þess að lífsháskinn hefur verið tekinn frá því. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að verjast yfirgangi Jónasar Jónssonar frá Hriflu og manna hans, og síðan ógnuðu kommúnistar því borgaralega skipulagi frelsis og fjölgunar tækifæra, sem flokkurinn studdi. Kalda stríðið var háð í fullri alvöru. Eftir fall kommúnismans tók við vaxtarskeið, sem lauk snögglega í fjármálakreppunni 20072009, en hún hafði víðtækar afleiðingar hér á landi. Nú er aftur komið góðæri, og margir telja það fyrirhafnarlaust, sjálfsagt. En svo er ekki. Berjast verður fyrir frelsinu, fyrir hagsmunum skattgreiðenda og neytenda, á hverjum degi.
Ég geri hér aðeins athugasemd við eina samþykkt landsfundarins. Þeir, sem vilja skoða upptöku erlendrar myntar til að tryggja stöðugleika í peningamálum, virðast fæstir hafa hugsað út í það, að við tókum einmitt upp aðra mynt fyrir nokkrum áratugum: Á Íslandi eru notaðir tveir gjaldmiðlar, óverðtryggð króna í venjulegum viðskiptum og verðtryggð króna í langtímaviðskiptum. Afleiðingin af því að taka upp erlendan gjaldmiðil, til dæmis Bandaríkjadal eða evru, væri svipuð og af því að nota verðtryggða krónu í öllum viðskiptum. Þá væri til dæmis ekki hægt að lækka laun og annan tilkostnað fyrirtækja óbeint með verðbólgu og falli venjulegu krónunnar, heldur yrðu launþegar annaðhvort að sætta sig við launalækkun eða hér yrði verulegt atvinnuleysi (eins og er í ESB-löndunum, þar sem allt að helmingur ungs fólks er atvinnulaus).
Annar gjaldmiðill er því enginn töfrastafur. Skuldugt fólk verður áfram skuldugt, hvort sem skuldirnar eru skráðar í krónum eða evrum. Og vextir verða ekki lágir í landi, þar sem jafnmikil eftirspurn er eftir lánsfé og á Íslandi, auk þess sem þrálátur óstöðugleiki (eins og verið hefur á Íslandi) veldur óvissu, sem endurspeglast í því, að lánveitendur krefjast hærri vaxta en ella.
26.10.2015 | 08:33
Ólafur Thors og Macmillan
Þegar viðreisnarstjórnin var mynduð í árslok 1959, erfði hún það verkefni að afla viðurkenningar Breta á útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur. Sunnudaginn 25. september 1960 kom Harold Macmillan, forsætisráðherra Breta, við á Keflavíkurflugvelli á vesturleið og snæddi hádegisverð með Ólafi Thors forsætisráðherra. Fór vel á með þeim, og skömmu síðar tókust samningar milli þjóðanna tveggja.
Macmillan minntist Ólafs Thors hins vegar með lítilsvirðingu í endurminningum sínum. Hann nefndi hann ekki með nafni, en kvað hann hafa útskýrt í löngu máli hættuna af kommúnistum: Íslenski forsætisráðherrann var geðfelldur gamall náungi, en bersýnilega veikburða maður í veikri aðstöðu. Ólafur var raunar aðeins tveimur árum eldri en Macmillan. En hinn sléttmáli, sjálfsöruggi Breti, sem borinn var til auðs, menntaður í Eton og Oxford og kvæntur hertogadóttur, hafði ekki haft fyrir því að kynna sér aðstæður hér.Bretland hafði á að skipa öflugum her og þrautþjálfuðu lögregluliði. Þar voru stóru flokkarnir tveir sammála um utanríkisstefnuna og áhrif kommúnista hverfandi. Hið fámenna íslenska ríki hafði hins vegar sjálft engum her á að skipa. Hér starfaði öflug kommúnistahreyfing. Alls hlutu 23 íslenskir kommúnistar þjálfun í vopnaburði, götubardögum og óeirðum í Moskvu árin 19291938. Kommúnistar höfðu yfirbugað Reykjavíkurlögregluna í götuóeirðum 9. nóvember 1932. Þeir höfðu veist að Ólafi Thors og öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins 1946 vegna Keflavíkursamningsins. Þeir höfðu ráðist á Alþingishúsið 30. mars 1949, þegar þar var rætt um aðild að Atlantshafsbandalaginu, þótt lögreglan gæti hrundið þeirri árás með aðstoð varaliðs. Ég hef síðan lagt fram útreikninga um, hversu mikils fjárstuðnings íslenskir kommúnistar nutu frá Moskvu. Nam hann árin 19551970 um hálfum milljarði króna á núvirði.
Ólafur Thors var ekki veikburða maður í veikri aðstöðu. Hann var lífsreyndur maður í erfiðri aðstöðu. Vegna hygginda hans og hugrekkis varð þessi erfiða aðstaða ekki óbærileg.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. október 2015. Á myndinni sést Ólafur, lengst t. h., með Hermanni Jónassyni og Einari Olgeirssyni í veislu 1956, þegar dönsku konungshjónin komu í opinbera heimsókn. Hermann keppti við Ólaf um forsætisráðherrastólinn og var reiðubúinn að leggja varnarsamstarfið í sölurnar fyrir hann, og Einar gekk erinda Ráðstjórnarríkjanna á Íslandi og fékk til þess stórfé, allt að 30 milljónum króna á ári.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:37 | Slóð | Facebook
23.10.2015 | 11:39
Á fyrirlestri gegn kapítalisma
Ég fór á fyrirlestur í dag, sem Félags- og mannfræðideild Háskóla Íslands efndi til og var furðulegur frekar en fróðlegur. Hann flutti prófessor í félagsfræði í Wisconsin-háskóla í Madison, Erik Olin Wright, um, hvernig ætti að vera andstæðingur kapítalismans á okkar dögum. Wright tilkynnti áheyrendum í byrjun, að hann væri aðallega kominn til Íslands til að tala yfir landsfundi Vinstri grænna. Hann sagði síðan, að kapítalisminn ylli stórkostlegum skaða. Fjórar leiðir væru til að vinna gegn honum: að mölva hann, beisla, yfirgefa eða veikja (erode). Fyrsta leiðin hefði ekki gefist vel á 20. öld, en hinar þrjár leiðirnar væru allar færar og jafnvel allar í einu. Taldi hann samvinnufélög verkamanna, almenningsbókasöfn og Wikipediu góð dæmi um andkapítaliska hegðun. Tryggja ætti öllum lágmarkstekjur án nokkurra skilyrða, og þá myndu andkapítalísk samtök og fyrirtæki blómgast og dafna.
Ég hugsaði margt, á meðan ég hlustaði á boðskapinn. Af hverju hafa samvinnufélög verkamanna þá ekki sigrað í samkeppninni við einkafyrirtæki? Hverjir eiga að framleiða bækurnar, sem lánaðar eru út á almenningsbókasöfnum? Hefði Wikipedia verið möguleg án þess kapítalisma, sem skapaði Netið og tómstundir fólks til að skrifa og lesa á Wikipediu?
Þegar ég stóð hins vegar upp og kvaddi mér hljóðs, gerði ég tímans vegna aðeins eina athugasemd og bar fram eina spurningu. Athugasemdin var, að Wright hefði nefnt, að kapítalisminn ylli meðal annars skaða á umhverfinu. Nú væri Wright væntanlega sammála mér um, að kapítalismi fæli í sér einkaeign á framleiðslutækjum, þar á meðal auðlindum. Leiða mætti sterk rök að því, að umhverfisspjöll væru vegna þess, að ekki væri eignarréttur á auðlindum. Menn menga það, sem enginn á og enginn gætir því. Þeir menga ekki það, sem aðrir eiga, því að þá lenda þeir í vandræðum. Vernd krefst verndara; umhverfisvernd krefst umhverfisverndara.
Spurning mín var, hvort ekki mætti líta á kapítalismann sem kerfi til að velja. Ef menn vildu sósíalisma, samkennd, jafna tekjudreifingu og svo framvegis, þá gætu þeir stofnað til byggða innan kapítalismans, þar sem þetta væri iðkað. Gott dæmi væri kibbutzinn í Ísrael, samyrkjubú. Um 6% landsmanna kysu að búa þar. Það væri góð mæling á andkapítalisma. Hvers vegna þyrftu andstæðingar kapítalismans að neyða þessu vali sínu á þau 94%, sem vildu frekar kapítalisma?
Svör Wrights voru umhugsunarefni. Hann sagði, að kapítalismi væri ekki aðeins einkaeign á framleiðslutækjunum, heldur líka vald fjármagnseigenda. Í heimi, þar sem menn gætu ekki valdið öðrum kostnaði (utanaðkomandi kostnaði eða externalities), væri auðvitað ekki um umhverfisspjöll að ræða, en kapítalistar vildu menga, því að það væri ódýrt fyrir þá.
Wright virtist ekki skilja, að stuðningsmenn kapítalismans, að minnsta kosti við frjálshyggjumenn, eru ekki hlynntir því, að menn valdi öðrum kostnaði með gerðum sínum. Aðalatriðið er að minnka slíkan kostnað eða gera að engu. Menn skiptist á vöru eða þjónustu, án þess að aðrir gjaldi þess eða skaðist á því. Hann virtist ekki heldur skilja, að vald fjármagnseigenda er sáralítið í samanburði við vald ríkisins og annarra aðila, sem beita ofbeldi. Fjármagnseigendurnir þurfa að ávaxta fjármagn sitt, og til þess þurfa þeir að vaka og sofa yfir þörfum neytenda, tækniþróun og tíðaranda, hlaupa hraðar en keppinautarnir.
Eini hugsuðurinn, sem Wright vitnaði í, var Marx, og vitnaði hann oft í hann. Ég dreg eina ályktun af þessum furðulega fyrirlestri:
Vofa kommúnismans gengur ljósum logum en ekki yfir Evrópu, heldur aðeins yfir vestrænum háskólum.
22.10.2015 | 15:50
Brella Nixons á Bessastöðum
Í bókinni Umrótsárum (Years of Upheaval) 1982 rifjar Henry Kissinger upp heimsókn þeirra Richards Nixons Bandaríkjaforseta til Íslands vorið 1973 í því skyni að sitja fund með Frakklandsforseta (bls. 172): Fyrst urðum við að hitta leiðtoga þessa harðbýla lands grýttra freðmýra og hrikalegra fjalla. Þar býr aðdáunarverð þjóð við endalausa dagsbirtu á sumrin, en myrkur á veturna, og dregur björg af ófúsri jörð og úr miskunnarlausum sæ.
Kissinger kvað íslensku ráðherrana hafa verið með allan hugann við þáverandi þorskastríð. Íslendingarnir hefðu hótað hernaði gegn Bretum, lokun herstöðvarinnar í Keflavík og úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Nixon hefði reynt að sefa Íslendingana. Kissinger sagðist hafa orðið forviða á að heyra fulltrúa 200 þúsund manna smáþjóðar hóta hernaði gegn Bretaveldi, en ekki síður á bandarískum ráðamönnum fyrir að reyna að tala um fyrir þeim (bls. 173). Mér varð hugsað til aldargamalla ummæla Bismarcks um, að ósvífni væri styrkleiki hinna veikburða, en veikleiki hinna sterku væri sjálfstakmarkanir.
Eftir að bók Kissingers kom út, vísaði Ólafur Jóhannesson því aðspurður á bug í DV, að ráðherrar hefðu hótað úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu á fundinum, sem fór fram á skrifstofu forseta Íslands í Stjórnarráðinu miðvikudaginn 30. maí. En heimildir, sem síðar birtust, taka af öll tvímæli um þetta. Samkvæmt fundargerð á ríkisstjórnarfundi 4. júní kvaðst Ólafur hafa sagt Nixon, að aðgerðaleysi Bandaríkjanna í þorskastríðinu kynni að orsaka endurskoðun á afstöðu Íslendinga til Atlantshafsbandalagsins. Til er og fundargerð í skjölum bandaríska utanríkisráðuneytisins, þar sem hið sama kemur fram.
Forseti Íslands hélt hinum tignu gestum kvöldverð á Bessastöðum fimmtudaginn 31. maí. Þar mismælti Nixon sig og bað gesti að skála fyrir Írlandi, ekki Íslandi, eins og Wilhelm Wessman veitingastjóri hefur sagt frá. Eftir matinn stóðu menn upp og fengu sér kaffi. Þá vatt Lúðvík Jósepsson sér að forsetanum og vildi enn tala um landhelgismálið. Nixon varð önugur og órólegur og lét allt í einu kaffibolla sinn falla á gólfið, þar sem hann brotnaði í þúsund mola. Þannig losnaði hann við Lúðvík.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. október 2015. Myndin er frá NARA.)
21.10.2015 | 20:13
Rögnvaldur gegn umhverfisverndarofstæki
Hér er fyrirlesturinn, sem Rögnvaldur Hannesson, einn kunnasti vísindamaður Íslendinga erlendis, hélt á ráðstefnu honum til heiðurs 8. október 2015. Rögnvaldur hefur gefið út um hundrað vísindalegar ritgerðir og sex bækur og er prófessor emeritus í auðlindahagfræði í Viðskiptaháskólanum í Björgvin. Í fyrirlestrinum færði hann rök gegn rétttrúnaðinum um umhverfismál: