Gömul mynd

17.11 Hayek.GeirHaarde.1980Fyrir tilviljun rakst ég á ljósmynd af okkur Geir H. Haarde að sýna Friedrich A. von Hayek Þingvelli í apríl 1980. Birti ég hana á Snjáldru (Facebook) og lét þess getið, að Geir hefði verið forsætisráðherra 2006–2009, en ranglega dreginn fyrir Landsdóm vegna bankahrunsins 2008. Gísli Tryggvason lögmaður andmælti mér með þeim orðum, að Landsdómur hefði fundið Geir brotlegan við ákvæði í stjórnarskrá (17. gr.) um, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Þetta varð tilefni til þess, að ég rifjaði upp dóminn.

Íslenska stjórnarskráin er sniðin eftir hinni dönsku, en þetta ákvæði er ekki í hinni dönsku. Það var sett inn í stjórnarskrá hins nýstofnaða íslenska konungsríkis 1920 af sérstakri ástæðu. Ríkisráðsfundir voru haldnir með konungi einu sinni eða tvisvar á ári, og bar þar ráðherra upp lög og önnur málefni. En frá 1917 höfðu ráðherrar verið fleiri en einn, þótt aðeins einn ráðherra færi venjulega á konungsfund. Tryggja þurfti, að aðrir ráðherrar hefðu komið að afgreiðslu þeirra mála, sem sá bar upp. Þetta ákvæði var ekki fellt út, þegar Ísland varð lýðveldi 1944, enda voru þá ekki gerðar aðrar efnisbreytingar á stjórnarskránni en þær, sem leiddu af lýðveldisstofnuninni.

Forsætisráðherra var því eftir lýðveldisstofnun ekki skylt að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni í sama skilningi og undir konungsstjórn, þegar vissa varð að vera um, að aðrir ráðherrar stæðu að málum, sem hann bar einn undir konung. Honum var aðeins skylt að verða við óskum annarra ráðherra um ráðherrafundi. Sakfelling meiri hluta Landsdóms var reist á næsta augljósri mistúlkun þessa ákvæðis, eins og minni hlutinn benti á í sératkvæði.

Það, sem meira er: Ég tel, að Geir sem forsætisráðherra hafi beinlínis verið skylt að halda EKKI ráðherrafundi um yfirvofandi bankahrun. Þann sama dag og hann hefði gert það, hefðu bankarnir hrunið. Þegar öðrum forsætisráðherra var tilkynnt vorið 2003, að varnarliðið væri á förum, var vandlega um það þagað og reynt í kyrrþey að leysa málið, og tókst það um skeið.

Geir var ranglega dreginn fyrir Landsdóm. Nær hefði verið að hrósa honum sem fjármálaráðherra 1998–2005 fyrir traustan fjárhag ríkissjóðs og fyrir að hafa ásamt seðlabankastjórunum þremur og eftirmanni sínum í embætti fjármálaráðherra með neyðarlögunum 2008 lágmarkað fjárskuldbindingar ríkissjóðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júlí 2020.)


Hljótt um tvö verk Bjarna

BjarniBenediktssonÞess var minnst í gær, að hálf öld er liðin frá andláti Bjarna Benediktssonar. Hér vil ég vekja athygli á tveimur verkum Bjarna, sem hljótt hefur verið um, en varða bæði hið erfiða viðfangsefni, sem hann og samtímamenn hans stóðu frammi fyrir, að reisa og treysta íslenskt ríki, eftir að okkar fámenna þjóð fékk fullveldi 1. desember 1918, en líklega urðu þá einhver mestu tímamót í Íslandssögunni.

Um miðjan mars 1949 var Bjarni utanríkisráðherra og staddur í Washington til að kynna sér Atlantshafssáttmálann, sem þá var í undirbúningi. Íslendingar höfðu eytt öllum sínum gjaldeyrisforða úr stríðinu í nýsköpunina, og höfðu verið tekin upp ströng innflutnings- og gjaldeyrishöft. Bjarni velti eins og fleiri forystumenn Sjálfstæðisflokksins fyrir sér, hvort einhverjar leiðir væru færar til að auka viðskiptafrelsi. Honum var bent á, að í Washington-borg starfaði hálærður íslenskur hagfræðingur, dr. Benjamín Eiríksson. Hann gerði boð eftir Benjamín, og sátu þeir lengi dags á herbergi Bjarna á gistihúsi, og útlistaði þar Benjamín, hvernig mynda mætti jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Að ráði Bjarna var Benjamín síðan kallaður heim, og hann samdi ásamt Ólafi Björnssyni prófessor rækilega áætlun um afnám hafta, sem hrundið var í framkvæmd í tveimur áföngum árin 1950 og 1960. Voru það heillaspor.

Bjarni var jafnframt dómsmálaráðherra, og hafði hann sett Sigurjón Sigurðsson lögfræðing lögreglustjóra í Reykjavík í ágúst 1947 og skipað hann í embættið í febrúar 1948, aðeins rösklega 32 ára að aldri. Hinn ungi lögreglustjóri reyndist röggsamur embættismaður, með afbrigðum þagmælskur og gætinn, enda fréttist aldrei neitt af lögreglunni undir hans stjórn. Tekið var með festu á því, þegar kommúnistar ætluðu að hleypa upp þingfundi 30. mars 1949 og koma í veg fyrir afgreiðslu tillögu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en eftir það gátu þeir ekki gert sér vonir um að hrifsa hér völd með ofbeldi.

Ríki á það sameiginlegt með traustu virki, að það þarf ekki aðeins að vera rammlega hlaðið, heldur líka vel mannað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. júlí 2020.)


Ný aðför að Snorra Sturlusyni

2.1 Snorri_sturluson_1930Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson skrifar 2. júlí 2020 færslu á Snjáldru, Facebook, um nýlegt myndband frá Knattspyrnusambandi Íslands: „Mér finnst nú heldur mikið í lagt í nýju KSÍ-auglýsingunni að láta líf þjóðarinnar í þúsund ár snúast um að verjast grimmum innrásarherjum, og nota til þess heilaspunann úr Snorra Sturlusyni um ófreskjur sem magnaðar voru að hans sögn upp gegn útsendara Haraldar Gormssonar, og urðu svo löngu síðar að táknmyndum landsfjórðunganna undir heitinu „landvættir“. Þetta er í grundvallaratriðum röng sýn.“

Hér toga tröllin í Brüssel rithöfundinum orð úr tungu. Sagan af landvættunum í Heimskringlu er ein haglegasta smíði Snorra og hefur djúpa merkingu. Snorri hefur sagt Hákoni konungi og Skúla jarli hana í fyrri Noregsför sinni 1218–1220, en þá varð hann að telja þá af því að senda herskip til Íslands í því skyni að hefna fyrir norska kaupmenn, sem leiknir höfðu verið grátt. Snorri gerði þetta að sið skálda, óbeint, með sögu, alveg eins og Sighvatur Þórðarson hafði (einmitt að sögn Snorra) ort Bersöglismál til að vanda um fyrir Magnúsi konungi Ólafssyni án þess að móðga hann.

Saga Snorra hefst á því, að Haraldur blátönn Danakonungur slær eign sinni á íslenskt skip, og þeir taka í lög á móti, að yrkja skuli um hann eina níðvísu fyrir hvert nef á landinu. Konungur reiðist og sendir njósnara til Íslands í því skyni að undirbúa herför. Sendiboðinn sér landvættirnar og skilar því til konungs, að landið sé lítt árennilegt. Auðvitað var Snorri að segja þeim Hákoni og Skúla tvennt: Geri þeir innrás, eins og þeir höfðu í huga, þá muni Íslendingar nota það vopn, sem þeir kunnu best að beita, orðið. Skæð sé skálda hefnd. Og erfitt væri að halda landinu gegn andstöðu íbúanna, en landvættirnar eru í sögunni fulltrúar þeirra.

Skúli og Hákon skildu það, sem Snorri var óbeint að segja þeim, og hættu við herför til Íslands. Það er hins vegar ótrúlegt að sjá íslenskan rithöfund höggva á þennan hátt til Snorra. Eigi skal höggva.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. júlí 2020.)


Frelsi Loka ekki síður en Þórs

Almannaveitur upplýsinga, eins og óhætt er að kalla Facebook, Twitter og Amazon, eru teknar upp á því að ritskoða fólk, vegna þess að það er talið hafa fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir, þótt ekki sé að vísu alltaf full samkvæmni í þeirri ritskoðun. Full ástæða er til að spyrna við fótum. Frelsið er líka frelsi til að hafa fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Um þetta orti gamli Grundtvig:

Frihed lad være vort Løsen i Nord,
Frihed for Loke saavel som for Thor.
 
Frelsið sé lausnin í Norðri: frelsi Loka ekki síður en Þórs. Loki var sem kunnugt er blendið goð, slægviturt, en illgjarnt. Þór var hins vegar hreinn ás og beinn.
 
screen_shot_2017-07-26_at_14_21_44_1332292
 
Til dæmis hefur einn samkennari minn, Þorvaldur Gylfason, látið að því liggja á Facebook, að þeir Richard Nixon og George H. W. Bush hafi verið viðriðnir morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta.
 
screen_shot_2017-07-26_at_14_22_13_1332293
Hann hefur á sama vettvangi sagt hæpið, að Stórhýsið 7 World Trade Center við Tvíburaturnana í New York hafi hrunið vegna elda í hryðjuverkaárásinni 11. september 2001, en ýmsar samsæriskenningar eru á kreiki um, að það hafi verið sprengt upp. Ég tel þessar kenningar fráleitar, en frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að halda þeim fram.
screen_shot_2018-03-24_at_13_37_24_1332291

Þorvaldur hefur enn fremur skrifað á Facebook: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.“ Auðvitað er þessi samlíking hans ógeðfelld og til þess fallin að gera lítið úr hinni hræðilegu Helför. En frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að komast ósmekklega að orði.

Við bönnum ekki áfengið út af rónanum, þótt við ráðum hann vitanlega ekki til að afgreiða í vínbúð. Og við tökum ekki málfrelsið af fólki, þótt sumir láti í ljós fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Við erum ekki að samþykkja þessar skoðanir með því að umbera þær eða þola. Virða ber frelsi Loka ekki síður en Þórs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júní 2020.)


Stofnanaklíkur

Í Aldarsögu Háskóla Íslands er kafli eftir Guðmund Hálfdanarson prófessor um dósentsmálið 1937. Ráðherra skipaði Sigurð Einarsson dósent í guðfræði, þótt dómnefnd hefði mælt með öðrum. Hafði ráðherrann sent einum virtasta guðfræðingi Norðurlanda úrlausnir allra umsækjenda og sá talið Sigurð bera af og raunar einan hæfan. Kveður Guðmundur ekkert benda til, að sérfræðingurinn hafi vitað, hvaða umsækjandi átti hvaða úrlausn. Líklega hefur dómnefnd verið vilhöll, enda var vitað fyrir, að hún vildi ekki Sigurð. Hér virðist ráðherra hafa leiðrétt ranglæti.

Liðu nú rösk fimmtíu ár. Lektorsmálið 1988 snerist um það, að þrír menn sóttu um stöðu í stjórnmálafræði. Einn hafði lokið doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla, en hvorugur hinna hafði lokið slíku prófi. Formaður dómnefndar var Svanur Kristjánsson, en vitað var fyrir, að hann vildi alls ekki doktorinn frá Oxford. Mælti dómnefnd Svans með öðrum umsækjanda og taldi þann, sem lokið hafði doktorsprófi, aðeins hæfan að hluta. Ráðherra þótti þetta undarlegt og óskaði eftir greinargerðum frá tveimur kennurum doktorsins, kunnum fræðimönnum á alþjóðavettvangi, og sendu þeir báðir álitsgerðir um, að vitanlega væri hann hæfur til að gegna slíkri lektorsstöðu, og var hann að bragði skipaður. Mér er málið skylt, þar eð ég átti í hlut, en hér virðist ráðherra hafa leiðrétt ranglæti Svans. Hinir umsækjendurnir tveir kærðu skipunina til Umboðsmanns Alþingis, en hann vísaði málatilbúnaði þeirra á bug.

Þegar ég settist í stöðu mína, varð ég þess var, að Svanur beitti öllum ráðum til að troða konu sinni í kennslu í stjórnmálafræði. Var hún nálægt því að vera í fullu starfi án auglýsingar. Þegar loks var tekið á þessu og starf auglýst, sem hún fékk síðan ekki, lagði Svanur fæð á þá, sem að því stóðu, og hætti að heilsa þeim. Ég horfði hissa á úr fjarlægð.

Lærdómurinn er, að til eru stofnanaklíkur ekki síður en stjórnmálaklíkur, og þær velja ekki alltaf hæfustu mennina. Fjórða dæmið er nýtt. Sænskur maður lét af ritstjórastarfi norræns tímarits. Það var verkefni norrænu fjármálaráðherranna að velja í sameiningu eftirmann hans. En Svíinn hafði samband við íslenskan klíkubróður, Þorvald Gylfason, og virðist hafa lofað honum starfinu. Þegar ekki varð úr því, brást Þorvaldur ókvæða við, en hann hefur þann sið að kalla menn nasista, ef þeir klappa ekki fyrir klíku hans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júní 2020.)


Þrælahald í sögu og samtíð

Adam Smith taldi þrælahald óhagkvæmt með þeim einföldu rökum, að þræll væri miklu meira virði sem frjáls maður, því að þá hefði hann hag af því að finna og þroska hæfileika sína í stað þess að leyna þeim fyrir eiganda sínum. Þetta vissi Snorri Sturluson líka og færði í letur söguna af Erlingi Skjálgssyni, sem gaf þrælum sínum tækifæri til að rækta landskika, hirða afraksturinn af þeim og kaupa sér fyrir hann frelsi. „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Auðvitað nálgast nútímamenn vandann öðru vísi. Þrælahald er ekki aðeins óhagkvæmt, heldur líka ósiðlegt, á móti Guðs og manna lögum. Það varð að afnema. Hitt er annað mál, að það getur kostað sitt að bæta úr böli. Adam Smith rifjaði upp, að kvekarar í Bandaríkjunum hefðu gefið þrælum sínum frelsi, en það benti til þess, sagði hann, að þrælarnir hefðu ekki verið mjög margir. Menn eru því betri sem gæðin kosta þá minna.

Miklu var fórnað til að afnema þrælahald í Bandaríkjunum. Borgarastríðið 1861–1865 kostaði 700 þúsund mannslíf, og eftir það lágu Suðurríkin í rústum, eins og lýst er í skáldsögu Margrétar Mitchells, Á hverfanda hveli. Beiskja þeirra, sem töpuðu stríðinu, kom niður á þeldökku fólki, sem var í heila öld neitað um full mannréttindi. Brasilíumenn fóru aðra leið. Þeir afnámu þrælahald í áföngum. Fyrst var sala þræla bönnuð, síðan var öllum börnum þræla veitt frelsi, þá var öllum þrælum yfir sextugt veitt frelsi, og loks var þrælahald bannað með lögum árið 1888, en þá var ekki nema fjórðungur þeldökks fólks enn ánauðugt. Bretar fóru enn aðra leið. Þeir bönnuðu þrælahald á öllum yfirráðasvæðum sínum árið 1833, en greiddu eigendum bætur.

Við getum engu breytt um það, sem orðið er, en í löndum múslima tíðkast enn sums staðar þrælahald. Þar er verðugt viðfangsefni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júní 2020.)


Mældu rétt! Mæltu rétt!

Þegar Skúli Magnússon var búðardrengur hjá einokunarkaupmanninum danska og mældi út vöru, kallaði kaupmaður jafnan: Mældu rétt, strákur! Hann átti við hið öfuga, að Skúli skyldi halla á viðskiptavinina, ekki mæla rétt.

Þeir, sem nota vildarorð í umræðum, fara að ráði danska kaupmannsins. Þeir útvega sér forgjöf. Þeir neita að mæla rétt. Þeir reyna að halla á viðmælendur sína.

Eitt vildarorðið er „gjafakvóti“, sem þeir auðlindaskattsmenn hafa um aflaheimildir á Íslandsmiðum. Orðið er ranglega hugsað. Gjöf er verðmætur hlutur, sem skiptir um hendur. Slík gjöf fer frá einum til annars. Kvótinn er hins vegar réttur til að veiða, og þegar sýnt varð um 1980, að takmarka þyrfti tölu þeirra, sem nýtt gátu takmörkuð gæði hafsins, var eðlilegast að fá þeim, sem þegar voru að veiðum, þennan rétt. Þeim var ekki fengið annað en þeir höfðu þegar notið. Sú regla var hins vegar tekin upp um aðra, að þeir yrðu að kaupa sér kvóta til að geta stundað veiðar.

Annað vildarorð er „ójöfnuður“ um ójafna tekjudreifingu. Orðið „ójöfnuður“ hefur verið til í íslenskri tungu frá öndverðu og merkt rangsleitni og yfirgang. Menn voru ójafnaðarmenn, ef þeir neyttu aflsmunar. Orðið hefur því neikvæða merkingu. Þegar Stefán Ólafsson, Sigrún Ólafsdóttir og aðrir spekingar uppi í háskóla nota þetta vildarorð, eru þau að útvega sér forgjöf, lauma kröfunni um tekjujöfnun inn í umræður. Menn sætta sig illa við ójöfnuð, en þeir viðurkenna margir, að ójöfn tekjudreifing sé eðlileg afleiðing af frjálsum markaðsviðskiptum.

Við þá auðlindaskattsmenn og þau Stefán og Sigrúnu ætti því að segja: „Mæltu rétt!“ Því er við að bæta, að þriðja orðið er stundum notað sem vildarorð, til að stimpla menn, „nýfrjálshyggja.“ En í raun og veru er enginn neikvæður blær á orðinu sjálfu, og því ættu frjálshyggjumenn að taka það upp. Í frjálshyggju Hayeks og Friedmans er vissulega margt nýtt og ferskt, brakandi ferskt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júní 2020.)


Þrðji frumburðurinn

Í frjálsum löndum leyfist okkur að hafa skoðanir, en rökfræðin bannar okkur þó að lenda í mótsögn við okkur sjálf. Þriðji frumburður móður er ekki til, aðeins frumburðurinn eða þriðja barnið. Á Íslandi eru þrjár mótsagnir algengar í stjórnmálaumræðum.

1. Sumir segjast vera jafnaðarmenn, en berjast gegn tekjuskerðingu bóta, til dæmis barnabóta eða ellilífeyris frá ríkinu. En auðvitað er slík skerðing tilraun til að skammta það fé skynsamlega, sem til skiptanna er, láta það renna til þeirra, sem þurfa á því að halda, ekki annarra. Maður, sem nýtur ríflegs lífeyris úr lífeyrissjóði starfsgreinar sinnar eða af einkasparnaði, þarf ekki þann opinbera grunnlífeyri, sem fólk á lífeyrisaldri nýtur, hafi það ekki aðrar tekjur. Menn geta deilt um, við hversu háar tekjur á að hefja skerðingu, en varla um sjálfa regluna: að skammta opinbera aðstoð eftir þörf, en ekki óháð tekjum.

2. Sumir vilja leggja niður krónuna, taka upp evru, en afnema verðtryggingu. En efnahagsleg áhrif af því að taka upp evru í öllum viðskiptum væru svipuð og af því að taka upp verðtryggða krónu í öllum viðskiptum. Við gætum þá engu breytt um peningamagn í umferð. Gjaldmiðillinn væri á föstu og óbreytanlegu verði. Nú eru á Íslandi notaðir tveir gjaldmiðlar, venjuleg króna í hversdagslegum viðskiptum og verðtryggð króna í langtímaviðskiptum. Kosturinn við hina fyrri er, að hana má fella í verði, þegar það er nauðsynlegt. Kosturinn við hina síðari er, að hana er ekki hægt að fella í verði. Hún er stöðug, heldur gildi sínu, hvað sem á bjátar. Lánardrottnar (oftast lífeyrissjóðir og því vinnandi fólk) fá fé sitt til baka.

3. Sumir þykjast vera frjálshyggjumenn, en berjast fyrir auðlindaskatti og jafnvel fyrir því að taka kvóta af útgerðarmönnum. En frjálshyggja hvílir á tveimur stoðum, einkaeignarrétti og viðskiptafrelsi. Einkaeignarrétturinn er hagkvæmur, af því að menn fara betur með eigið fé en annarra og vegna þess að ágreiningur leysist þá af sjálfum sér: menn fara hver með sína eign og þurfa ekki að eyða tíma í þrætur um, hvernig eigi að fara með sameign. Sjaldan grær gras í almenningsgötu. En hvernig geta menn verið hlynntir einkaeign á nýtingarrétti beitarlands og laxveiðiár og ekki einkaeign á nýtingarrétti fiskistofns? Hvers vegna vilja þeir breyta útgerðarmönnum í leiguliða ríkisins og útvega misvitrum stjórnmálamönnum nýjan tekjustofn til að þræta um?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. maí 2020.)


Gleymdi maðurinn

15.1 Photo_of_William_Graham_SumnerÞegar menn keppast við að leggja á ráðin um aukin ríkisútgjöld, að því er virðist umhugsunarlaust, er ekki úr vegi að rifja upp frægan fyrirlestur, sem bandaríski félagsfræðingurinn William Graham Sumner hélt í febrúar 1883 um „gleymda manninn“. Sumner bendir þar á, hversu hlutdræg athyglisgáfa okkar er. Hið nýja og óvænta er fréttnæmt, annað ekki. Hann nefnir sjálfur gulu og berkla, en nýlegra dæmi er uppnámið yfir veirufaraldri, sem kostað hefur 323 þúsund mannslíf á fjórum mánuðum og er víðast í rénun. Á hverju ári látast 1,6 milljón úr sykursýki, 1,3 milljón úr berklum og ein milljón úr eyðni.

Sumner segir: Í hvert sinn sem eitthvert kemur fyrir X, talar A um það við B, og B stingur upp á löggjöf X til aðstoðar. Þessi löggjöf felur ætíð í sér fyrirmæli um, hvað C eigi að gera fyrir X eða einstöku sinnum hvað A, B og C eigi að gera fyrir X. Sumner bendir á, að vandinn sé enginn, ef A og B ákveði sjálfir að aðstoða X, þótt sennilega væri hægara að gera það beint en með löggjöf. En Sumner beinir athygli að C: Hann er gleymdi maðurinn, hið óþekkta fórnarlamb, sem á að bera kostnaðinn af því, þegar bæta skal böl annarra.

Flestir umbótamenn vilja taka fé af sumum og afhenda öðrum. Nú telur Sumner, að stundum kunni það að eiga rétt á sér. (Ég tel til dæmis einhverja samtryggingu gegn drepsóttum og náttúruhamförum réttlætanlega.) En Sumner brýnir fyrir okkur að gleyma aldrei C, hinum venjulega manni, sem gengur til vinnu sinnar á hverjum degi, sér um sig og sína eftir megni, sækist ekki eftir embættum og kemst ekki í blöðin nema þegar hann gengur í hjónaband eða gefur upp öndina. Hann er föðurlandsvinur, en skiptir sér ekki af stjórnmálum og greiðir atkvæði á fjögurra ára fresti. Þá láta stjórnmálamenn dátt að honum. En þess í milli gleyma þeir honum. Þeir koma sér saman um alls konar opinberar aðgerðir, en ætlast alltaf til þess, að hann beri kostnaðinn. Og ekki er síður ástæða til þess árið 2020 að minna á gleymda manninn en árið 1883.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. maí 2020.)


Þveræingar og Nefjólfssynir

Allt frá árinu 1024 hefur mátt skipta Íslendingum í Þveræinga og Nefjólfssyni. Þetta ár sendi Ólafur digri Noregskonungur íslenskan hirðmann sinn, Þórarin Nefjólfsson, til landsins í því skyni að auka hér ítök sín. Mælti Þórarinn fagurlega um kosti konungs á Alþingi. Einar Þveræingur svaraði því til, að Ólafur digri kynni að vera kostum prýddur. Hitt vissu menn þó, að konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því best að hafa engan konung. Íslendingar skyldu vera vinir konungs, ekki þegnar.

Snorri Sturluson, sem færði þessa ræðu í letur, var með henni að segja hug sinn. Hann vildi ekki gangast undir yfirráð Noregskonungs, en halda þó vináttu við Norðmenn. Eins sagði Jón Þorláksson í minningarorðum um Hannes Hafstein, að stefna hans í utanríkismálum hefði verið að afla þjóðinni þess fyllsta sjálfstæðis, sem farið gæti saman við gott samstarf við Dani, ekki síst um fjárfestingar á Íslandi. Þeir Snorri, Hannes og Jón voru allir Þveræingar.

Í sjálfstæðisbaráttunni bar lítt á Nefjólfssonum. En upp úr 1930 kom til sögu hópur, sem talaði um Stalín af sömu hrifningu og Þórarinn forðum um Ólaf digra, enda hafði hópurinn þegið gull úr hendi hins austræna harðstjóra eins og Þórarinn mála forðum af konungi. Þeir Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson áttu tíðar ferðir í sendiráð Ráðstjórnarríkjanna við Túngötu til að sækja fé, sem raunar virðist ekki hafa skilað sér í fjárhirslur flokks þeirra, blaðs eða bókafélags. Þeir voru sannkallaðir Nefjólfssynir.

Í Icesave-deilunni 2008–2013 mátti greina sömu skiptingu. Við Þveræingar vildum virða allar skuldbindingar Íslendinga við erlendar þjóðir, en töldum íslensku þjóðina ekki þurfa að taka ábyrgð á viðskiptum einkaaðila erlendis. Þótt kostað hefði stórfé, vildu Nefjólfssynir, þar á meðal flestir samkennarar mínir, hins vegar ólmir þóknast ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins, sem hafði farið fram af óbilgirni í garð Íslendinga. Sem betur fer sigruðum við Þveræingar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. maí 2020.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband