18.2.2010 | 12:03
Davíð þarf engan spuna
Einhverjir hafa látið að því liggja, að í hugleiðingum mínum um rannsóknarnefnd Alþingis hafi ég verið að spinna fyrir Davíð Oddsson. Því fer fjarri. Ég tel, að nefndin þurfi einmitt að vanda sig, til þess að Baugspennarnir og önnur leiguþý útrásaraðalsins geti ekki ómerkt skýrslu hennar. Og rækileg rannsókn leiðir ekki alltaf til þess, að menn séu fundnir sekir. Stundum kemur í ljós, að þeir eru saklausir.
Davíð þarf engan spuna. Hann var eini maðurinn, sem varaði við, á meðan allir aðrir flöðruðu upp um útrásaraðalinn. Hann sagði þegar 19. nóvember 2003 í ræðu á Alþingi: Og reyndar er maður mjög hugsandi orðinn yfir því, svo maður komi því að hér, með hvaða hætti íslensku bankarnir, allir stærstu bankarnir, eru farnir að haga sér með afskiptum sínum og inngripum í íslenskt atvinnulíf. Þar eru menn komnir út á mjög hála braut, að mínu viti, og ég, sem hef trúað og stutt og verið stoltur af því að standa fyrir einkavæðingu á slíkum bönkum, tel jafnframt að það eigi að reyna að halda þessum bönkum að sínum verkefnum og þeir séu komnir langt út fyrir þau mörk sem þeir eiga að sinna og skyldum gagnvart almenningi í þeim efnum.
Davíð átti eflaust við það, hvernig bankarnir jusu fé í Jón Ásgeir Jóhannesson, uns hann skuldaði þeim samtals um eitt þúsund milljarða króna, án þess að hann þyrfti sjálfur að leggja fram nein veð ólíkt öðrum skuldunautum. Er það með ólíkindum. Í ræðu sinni á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007 gagnrýndi Davíð síðan einokun þá, sem Jón Ásgeir beitti sér fyrir, og benti á, að bankarnir væru komnir að ystu þolmörkum í þenslu. Hann minntist þar einnig á REI-málið, þegar útrásaraðallinn ætlaði með aðstoð Össurar Skarphéðinssonar að sölsa undir sig eignir Orkuveitu Reykjavíkur: Útrásarorðið er slíkt töframerki að jafnvel þegar menn virðast gera innrás í opinber fyrirtæki almennings, þá er innrásin kölluð útrás.
Enginn einn innlendur aðili ber beinlínis sök á bankahruninu. Enginn vildi það. Enginn hafði hag af því. Hver sá líka fyrir, að allar lánalínur til Íslands myndu lokast? Eða að Bretar myndu beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum bönkum? En til þess eru tvær ástæður, að Jón Ásgeir Jóhannesson ber allra manna mesta ábyrgð. Í fyrsta lagi stofnaði hann til miklu meiri skulda en hóflegt gat talist. Í öðru lagi beitti hann veldi sínu til að mynda hér það andrúmsloft óhófs og skefjalausrar auðmannadýrkunar, sem okkur varð að lokum dýrkeypt, en um það er meðferð Baugsmálsins í fjölmiðlum og fyrir dómi gleggsta dæmið.
Einhverjir kunna að segja, að Seðlabankinn hafi fyrir hrun ekki gætt fjármálalegs stöðugleika eins og hann eigi að gera að lögum. Því er til að svara, að Davíð varaði hvað eftir annað við, ekki aðeins opinberlega, heldur líka í einkasamtölum. Og af því að ég hlustaði á þau sum, get ég vottað, að hann dró hvergi af. Með þessum viðvörunum gegndi Davíð hlutverki sínu sem seðlabankastjóri. Eigi veldur sá, er varar.
Seðlabankinn reyndi einnig að halda uppi fjármálalegum stöðugleika með fyrirgreiðslu sinni við viðskiptabankana síðasta árið fyrir hrun, þegar lánalínur frá útlöndum voru flestar lokaðar. Það er hins vegar kaldhæðni, að sömu eftiráspekingarnir og áfellast bankann fyrir að hafa ekki gætt fjármálalegs stöðugleika deila líka á hann fyrir að hafa veitt viðskiptabönkunum fyrirgreiðslu!
Þessir eftiráspekingar hirða ekki um að geta þess, að reglur Seðlabankans um útlán til viðskiptabankanna voru jafnstrangar eða ívið strangari en reglur Evrópska seðlabankans og að vitaskuld féllu kröfur Seðlabankans á viðskiptabankana stórlega í verði eftir setningu neyðarlaganna. Þeir hirða ekki heldur um að geta þess, að það var Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með því, að viðskiptabankarnir veittu réttar upplýsingar um eignir sínar, afkomu og rekstrarhorfur, ekki Seðlabankinn.
Þeir stjórnmálamenn og embættismenn Fjármálaeftirlits og annarra stofnana, sem daufheyrðust við viðvörunum Davíðs, ætluðu sér áreiðanlega ekkert illt. Ég veit ekki betur en þeir séu allir góðir og gegnir einstaklingar. En Fjármálaeftirlitið hafði greinilega ekki burði til að veita viðskiptabönkunum hæfilegt aðhald. Og stjórnmálamennirnir heyrðu það hjá talsmönnunum bankanna, sem þeir vildu heyra, og hjá Davíð það, sem þeir vildu ekki heyra. Því fór sem fór.
(Myndin er af Baugsmönnum (þ. á m. Jóni Ásgeiri og viðskiptafélaga hans, Pálma í Fons) og íslenskum bankamönnum í Skíðaskála þeim í Courchel í Frakklandi, sem Jón Ásgeir kom sennilega undan úr þrotabúi Baugs. Þeir gera sér þar glaðan dag 2006 eða 2007.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook
17.2.2010 | 18:01
Falleg kveðja
Stefán Snævarr heimspekingur minntist nýlátins föður síns, Ármanns Snævarrs, fallega á bloggsíðu sinni. Sagðist hann ekki ætla að skrifa um hann væmna grein, heldur ganga til vinnu sinnar. Þannig yrði föður síns best minnst, því að hann hefði verið með afbrigðum vinnusamur maður.
Við andlátsfrétt Ármanns rifjaðist upp fyrir mér, að hann var einn þeirra 150 Íslendinga, sem ég gerði ásamt öðrum um viðtalsþætti fyrir Sjónvarpið undir hinu gamla og góða heiti Maður er nefndur. Þessir þættir voru nokkuð gagnrýndir á sínum tíma, meðal annars af tveimur sagnfræðingum í Háskóla Íslands, en mig grunar, að það hafi frekar verið vegna þess, hver átti hugmyndina að þeim en hvernig þeir voru.
Þátturinn um Ármann er ómetanleg heimild um mann, sem kenndi tveimur kynslóðum lögfræðinga og var um langt skeið rektor Háskóla Íslands. Þessi þáttur er til, þótt Ármann sé genginn.
Í rauninni hefði þurft að gera miklu fleiri slíka þætti. Ég skal hér til dæmis nefna þrjá menn, sem höfðu frá mörgu að segja, en gerðu það af einhverjum ástæðum aldrei í sjónvarpi, svo að heitið gæti:
Gunnar Thoroddsen reið sumarið 1930 í fylgd Jóns Þorlákssonar um landið og hélt fundi fyrir landskjörið. Gaman hefði verið að heyra hann lýsa því og mörgu öðru merkilegu, til dæmis þegar hann settist kornungur á þing 1934.
Þórarinn Þórarinsson ritstjóri var nákominn Jónasi Jónssyni frá Hriflu og öðrum svipmiklum forystumönnum Framsóknarflokksins um árabil og gjörþekkti innviði íslenskra stjórnmála. Hann fylgdist alla tíð vel með og var hafsjór af fróðleik.
Magnús Magnússon (Stormur) var lögfræðingur, blaðamaður og lífslistarmaður í Reykjavík á fjórða áratug og skrifaði skemmtilega palladóma um alþingismenn. Hann hafði yndi af því að segja sögur, en eflaust hafa margar þeirra farið með honum í gröfina.
Þættir um þessa þrjá menn og marga fleiri voru því miður aldrei gerðir. Hugsum okkur líka, hversu stórkostlegt hefði verið að eiga til á hljóðbandi eina eða tvær mínútur af upplestri Jónasar Hallgrímssonar, Jóhanns Sigurjónssonar, Einars Benediktssonar eða Hannesar Hafsteins! Eða jafnvel nokkrar sekúndar af þessum mönnum í lifandi mynd.
Í þáttum þeim, sem ég gerði fyrir Sjónvarpið um tuttugustu öldina, setti ég þá tvo stuttu búta, sem til eru af Hannesi Hafstein í mynd, annars vegar í þingmannaförinni 1906, hins vegar í konungskomunni 1907. Í þeim heimildarmyndum reyndust gömlu þættirnir Maður er nefndur ekki síður en nýju þættirnir, sem ég sá um, afar notadrjúgir.
(Ljósmynd Mbl. Golli.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook
16.2.2010 | 10:23
Rannsóknarnefnd Alþingis

Búast má við, að andmæli sumra verði rækileg, enda er mikið í húfi fyrir þá, sem athugasemdum sæta.
Karl segir: Er að undra þótt að manni læðist sá grunur, að nefndin sé þegar komin að sinni grátlegu niðurstöðu og hyggist lítið eða ekkert mark taka á því sem hinir tólf nafngreindu sakborningar hafa fram að færa? Einmitt af því að hún verður að standa við stóru orðin og framleiða hinar verstu fréttir?
Því er við orð Karls að bæta, að sjálf veitti nefndin sér tvisvar aukinn frest, þótt kveðið væri á um það í lögum, að hún skyldi skila skýrslu sinni 1. desember 2009: Fyrsti fresturinn var til 1. febrúar, annar fresturinn fram í mars. Ég fæ því ekki séð annað en nefndin hljóti að veita því fólki, sem fær að gera athugasemdir, frekari fresti, reynist þess þörf.
Miklu varðar í návíginu hér á Íslandi, að vandað sé til þessa verks. Það er til dæmis ekki heppilegt, að einn nefndarmaðurinn, Sigríður Benediktsdóttir, skyldi fyrir rannsóknina láta í ljós skoðanir á bankahruninu, sem voru nægilega sterkar og umdeilanlegar til þess, að samnefndarmenn hennar vildu láta hana víkja, þótt þeir hættu við það. Því síður er heppilegt, að tengdadóttir annars nefndarmannsins, Tryggva Gunnarssonar, skuli hafa verið einn helsti ráðamaður Fjármálaeftirlitsins.
Bankahrunið átti sér margar og flóknar skýringar. Ég hef áður bent á hinar mikilvægustu þeirra:
- Kerfisgalli í regluverki EES, þar sem leyfilegt starfssvæði banka var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. (Á þetta sama atriði hafa sífellt fleiri erlendir fræðimenn og álitsgjafar bent síðustu vikur.)
- Fautaskapur Breta með beitingu hryðjuverkalaganna, sem gerði að engu möguleika íslenskra stjórnvalda til að bjarga einhverju af hinum erlenda hluta bankakerfisins.
- Glannaskapur íslensku bankamannanna. Hvernig gat til dæmis ein fjölskylda, Baugsfjölskyldan, safnað þúsund milljarða króna skuldum í íslensku bönkunum? Hitt er annað mál, að stundum er lítill munur á dirfsku og fífldirfsku. Hvaða lög brutu til dæmis Landsbankamenn með því að stofna Icesave-reikningana?
- Andvaraleysi íslenskra stjórnvalda, sérstaklega Fjármálaeftirlitsins og stjórnmálamanna, sem sinntu ekki þrálátum viðvörunum Seðlabankans, en þær gátu eðli málsins fæstar komið fram opinberlega, heldur aðallega í einkasamtölum. En andvaraleysi er ekki refsivert að lögum, nema það sé vítavert og stórfellt gáleysi.
Nefndarmennirnir eru allir virtir sérfræðingar. Þeir mega ekki vera hræddir við að kveða upp úr það, ef þeir telja sig einhvers staðar finna sök, en þeir verða líka að gæta þess að halla ekki á neinn, svo að skýrsla þeirra fái staðið.
15.2.2010 | 11:38
Grein Lipietz
Ég get eins og Egill Helgason ekki annað en vitnað í hina ágætu grein Alains Lipietz í Morgunblaðinu í gær, þar sem fram kemur sú skoðun höfundar, að Íslendingar skuldi ekkert vegna Icesave-samninganna. Lipietz reifar skýrt aðalatriði málsins:
- Íslendingar fóru að fullu eftir reglum EES um innstæðutryggingar og stofnuðu tryggingarsjóð. Hann er ábyrgur fyrir innstæðum, ekki ríkissjóður.
- Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða að greiða eigendum innstæðna á Icesave-reikningum út kröfur þeirra upp að tilteknu hámarki. Þeir eiga engan lagalegan rétt á því, að Íslendingar endurgreiði þeim þetta.
- Bretar og Hollendingar geta ekki ætlast til þess, að íslenska þjóðin greiði skuldir, sem einkaaðilar stofnuðu til, ekki síst þegar þær skuldir myndu hugsanlega valda þjóðargjaldþroti.
Lipietz rekur ákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins um þetta mál:
Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum.
Kerfi gistiríkisins hefur rétt til þess að láta útibúin greiða framlag vegna bótagreiðslna og skal í því sambandi miðað við þá tryggingu sem kerfi heimaríkisins veitir. Til að auðvelda innheimtu slíks framlags hefur kerfi gistiríkisins rétt til að líta svo á að trygging þess takmarkist ætíð við þá tryggingu sem það veitir umfram trygginguna sem heimaríkið veitir, óháð því hvort heimaríkið greiði í reynd viðbótarbætur fyrir innlánið sem er ótiltækt á yfirráðasvæði gistiríkisins.
Í rauninni segir Lipietz ekki annað um Icesave-málið en Davíð Oddsson hefur lengi haldið fram, en grein hans er ekki verri fyrir það: An expert is somebody from out of town.
13.2.2010 | 15:55
Hvað segja Jón og Gauti?

Tveir ungir og hrokafullir hagfræðingar, sem vilja koma sér í mjúkinn hjá núverandi stjórnvöldum, reyndu á öndverðum vetri að beina athygli frá Icesave-skuldinni, sem stjórnvöld höfðu samið yfir Íslendinga, og að hinu mikla tapi Seðlabankans á útlánum til viðskiptabankanna í aðdraganda hrunsins. Töldu þeir Seðlabankann hafa tekið verri veð en völ hefði verið á, enda hefði helsti ráðamaður bankans ekki hagfræðipróf eins og þeir.
Þessir miklu prófskírteinamenn hirtu lítt um að geta þess, að reglur Seðlabankans um slík útlán voru hinar sömu eða ívið strangari en reglur Evrópska seðlabankans og að vitaskuld hlutu kröfur Seðlabankans á viðskiptabankana að falla stórkostlega í verði við neyðarlögin svonefndu í október 2008, en samkvæmt þeim fengu kröfur innstæðueigenda algeran forgang (og var það gert til að koma í veg fyrir áhlaup þeirra á bankana, sem hefði riðið hinum íslenska hluta þeirra að fullu).
Þessir tveir ungu hagfræðingar heita Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson. Jón vann sér það helst til frægðar fyrir bankahrun að segja, að engar áhyggjur þyrfti að hafa af bönkunum. Hann lagði jafnvel til, að Seðlabankinn rýmkaði reglur sínar um veðhæfar eignir í endurhverfum viðskiptum við sig! Gauti sagði eftir hrun, að Seðlabankinn hefði átt að taka veð í innlánum bankanna! (Þegar á þessa rökleysu var bent, breytti hann þessu þegjandi og hljóðalaust á bloggsíðu sinni í útlán.)
Í Morgunblaðinu í gær, 12. febrúar 2010, er fróðleg frétt um það, að fram á mitt sumar 2008 veitti Evrópski seðlabankinn íslensku viðskiptabönkunum lán, sem samtals námu um 880 milljörðum króna. Þótt eftir þetta hætti bankinn þessum lánveitingum, enda ekki á honum lagaskylda til að reyna að verja íslensku bankana falli eins og á Seðlabankanum, er talið, að tap hans af þessu verði verulegt.
Munu þeir Jón og Gauti nú ekki skrifa drjúgir í bragði greinar um það, að próflausir aular hljóti að hafa stjórnað Evrópska seðlabankanum? Eða Englandsbanka, sem notaði 1.700 þúsund milljarða íslenskra króna til að verja breska banka falli og hefur eflaust tapað talsverðum hluta af því fé?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.2.2010 kl. 01:45 | Slóð | Facebook
12.2.2010 | 15:31
Ráðherrarnir víki frá málinu
Bretar og Hollendingar setja það skilyrði fyrir nýjum samningum um Icesave, að Íslendingar komi sameinaðir fram út á við. Þetta er auðvitað eðlilegt sjónarmið.
En stjórnarandstaðan íslenska getur ekki fylkt sér þegjandi og hljóðalaust að baki núverandi ríkisstjórn. Þeir þrír ráðherrar, sem farið hafa með Icesave-málið, hafa allir reynst óhæfir. Þeir hafa misst traust.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er mállaus mannafæla. Hún treystir sér til dæmis ekki til að koma fram á blaðamannafundum erlendis. Hið skyndilega og furðulega leyfi hennar erlendis veitir enn eina vísbendinguna um, að hún valdi ekki starfi sínu.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hlýtur að sæta opinberri rannsókn vegna sölu á stofnfjárhlut sínum í Spron skömmu fyrir verðfall hans, en Össur var sem kunnugt er í góðum tengslum við ráðamenn Spron. Aðstoðarmaður hans er flæktur í alþjóðlegt hneykslismál, þótt hann neiti að svara blaðamönnum um það.
Steingrímur J. Sigfússon hefur stjórnað Icesave-málinu af dæmafáum hroka, en einnig vanþekkingu og fljótfærni, eins og Björn Bjarnason hefur rakið á bloggsíðu sinni. Steingrímur fól óreyndum og duglitlum mönnum að annast samningana við Breta og Hollendinga og hafði að engu ýmislegt, sem styrkti málstað Íslands.
Er ekki eðlilegast, að Ögmundur Jónasson, sem var þó sjálfum sér samkvæmur allan tímann, taki aftur sæti í ríkisstjórninni og fari með Icesave-málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar? Hlýtur stjórnarandstaðan ekki að krefjast þess, að þeir ráðherrar, sem óhæfir reyndust til að fara með málið, víki fyrir heiðarlegum manni eins og honum?
10.2.2010 | 21:25
Þrjár spurningar um Baugsfeðga
Allir eru sammála um það í orði kveðnu, að reglur eigi að vera gagnsæjar og mönnum skuli ekki mismunað að tilefnislausu. Mig langar þess vegna til að bera upp þrjár spurningar um Baugsfeðga annars vegar og Björgólfsfeðga hins vegar:
Baugsfeðgar þurftu ekki að ganga í persónulegar ábyrgðir fyrir lánum sínum úr íslensku bönkunum, eins og Jón Ásgeir Jóhannesson hreykir sér af opinberlega. Björgólfsfeðgar þurftu hins vegar að ganga í persónulegar ábyrgðir fyrir lánum sínum, og hefur Björgólfur eldri þess vegna misst allar eigur sínar. Hvers vegna gerðist þetta?
Bankar tóku fjölmiðla í eigu Björgólfsfeðga af þeim og seldu í opnu og gagnsæju útboði. Bankar leyfðu hins vegar Baugsfeðgum að halda fjölmiðlum sínum og flytja skuldir þeirra í önnur fyrirtæki. Baugsfeðgar stjórna enn fjölmiðlum sínum og nota þá miskunnarlaust gegn þeim, sem ekki sitja og standa eins og þeir vilja. Hvers vegna fengu þeir þetta?
Bankar hafa stefnt Björgólfi yngra og krafið hann um greiðslu ýmissa skulda þeirra feðga. Á sama tíma veita bankar Baugsfeðgum forkaupsrétt að fyrirtækjum sínum (Högum), en virðast ekki gera neinar ráðstafanir til að fá endurgreitt frá þeim, til dæmis með því að hafa upp á því fé, sem notað var í lystisnekkjur, einkaþotur og skrauthýsi. Hvers vegna var þetta látið eftir þeim?
Hvers vegna fá Baugsfeðgar miklu vægari meðferð en Björgólfsfeðgar? Nú hafði Jón Ásgeir við orð á sínum tíma, sem frægt er, þegar honum fannst forsætisráðherra þeirrar tíðar vera sér erfiður, að enginn maður stæðist 300 milljón króna mútur greiddar inn á erlendan bankareikning. Eiga orð hans enn við?
9.2.2010 | 10:15
Vofa kommúnismans
Sem kunnugt er, voru tvö helstu stefnumál núverandi vinstristjórnar í skattamálum 1) að hækka skatta og gera þá stighækkandi (fjölþrepa) og 2) að taka upp auðlinda- og umhverfisskatta.
Að baki síðarnefnda stefnumálinu er sú hugmynd, að gera eigi auðlindarentu upptæka, enda sé hún ekki sköpuð af mönnum, heldur náttúrunni sjálfri.
Þessi stefnumál eru bæði ættuð úr Kommúnistaávarpinu eftir þá Karl Marx og Friðrik Engels frá 1848, en Hið íslenska bókmenntafélag gaf það aftur út á dögunum í gamalli, en góðri þýðingu Sverris Kristjánssonar sagnfræðings.
Eftir að þeir Marx og Engels höfðu í ávarpinu farið hraðferð um söguna og afgreitt andstæðinga sína í röðum sósíalista með mælskubrögðum, töldu þeir upp þær ráðstafanir, sem kommúnistar þyrftu fyrst að gera eftir valdatöku sína.
Fyrsta ráðstöfunin var: Eignarnám á lóðum og lendum, en jarðrentan falli til þarfa ríkisins. Hér þarf aðeins að breyta smáræði: Eignarnám á kvótum, en sjávarrentan falli til þarfa ríkisins.
Önnur ráðstöfunin var: Háir og stighækkandi skattar.
Vofa kommúnismans gengur greinilega enn ljósum logum á Íslandi.
8.2.2010 | 18:34
Greining Kristrúnar Heimisdóttur
Ólíkt hafast þeir að, núverandi og fyrrverandi aðstoðarmenn utanríkisráðherra.
Kristján Guy Burgess, núverandi aðstoðarmaður ráðherrans (Össurar Skarphéðinssonar), er í felum. Hann vill þrátt fyrir fögur orð ríkisstjórnarinnar um gagnsæi í vinnubrögðum ekkert segja um hið alþjóðlega hneyksli, þegar honum tókst með aðstoð forseta Íslands að véla röskar 60 milljónir króna út úr Carnegie-stofnuninni í New York til að rannsaka bráðnun jökla á Himalajafjöllum. Í ljós kom, að spár þær, sem hann hafði notað, voru getgátur einar, og hefur Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem gerði þær að sínum í nýjustu áfangaskýrslu sinni 2007, orðið að ógilda þær og biðjast afsökunar.
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra (Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur), skrifar hins vegar skorinorða grein í Fréttablaðið í gær, þar sem hún viðurkennir, að samningamenn Íslands í Icesave-deilunni hafi gert stórkostleg mistök. Hún vitnar til dæmis í orð annars aðalsamningamannsins, Indriða H. Þorlákssonar, sem sagði, að Ísland hefði í raun tekið lán í október 2008. Þá ákváðu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands einhliða að greiða eigendum Icesave-reikninga í þessum löndum innstæður þeirra upp að tilteknu hámarki. Síðan hafa þessar ríkisstjórnir reynt að neyða íslenska skattgreiðendur til að greiða reikninginn fyrir þessar gjörðir.
Ísland tók ekkert lán hjá Bretum og Hollendingum í október 2008. Eins og okkar færustu lögfræðingar hafa bent á, er hvergi neinn bókstafur fyrir því í lögum eða alþjóðasamningum, að ríkissjóður Íslands þurfi að hlaupa undir bagga, ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (sem stofnaður var og rekinn samkvæmt reglum EES) getur ekki fullnægt skuldbindingum sínum.
Kristrún kemst að þeirri rökréttu niðurstöðu í grein sinni, að þjóðin verði að fella Icesave-samningana í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem fyrirhuguð er í marsbyrjun. Eftir það megi hefja nýjar samningaviðræður við Breta og Hollendinga. Hún minnir á það, sem sumir virðast hafa gleymt, að Ísland er fullvalda ríki, sem getur ekki látið bjóða sér hvað sem er. En þótt grein hennar sé áfellisdómur yfir Steingrími J. Sigfússyni, hittir hún ekki síður fyrir flokkssystkini hennar í Samfylkingunni, sem bera sömu ábyrgð á þessum samningum og Vinstri grænir. Munurinn var sá, að á þingi stóð Samfylkingin einhuga að samningunum, en Vinstri grænir klofnuðu.
Kjarni málsins er samt þessi: Því afdráttarlausari sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður, því skýrara verður umboð nýrra samningamanna.
7.2.2010 | 15:33
Furðuleg vinnubrögð Arion banka
Það er stórfurðulegt, að Arion banki skuli veita Baugsfeðgum forkaupsrétt á stórum hluta Haga eftir allt, sem á undan er gengið. Þegar bankastjóri Arion segir, að Jón Ásgeir Jóhannesson komi þar hvergi nærri, heldur aðeins Jóhannes Jónsson, faðir hans, hlýtur hann að tala um hug sér. Allir vita, að Jón Ásgeir stjórnar öllu, sem hann vill innan Baugsveldisins. Jóhannes gegnir hlutverki jólasveinsins og úthlutar glottandi úr pokasjóðum, sem Baugur sér aðeins um að innheimta í, en leggur ekkert í sjálfur.
Við skulum ekki gleyma því, að Jón Ásgeir Jóhannesson er sá Íslendingur, sem ber allra einstaklinga mesta ábyrgð á bankahruninu. Hann ýmist átti íslensku bankana eða hafði óeðlileg áhrif á þá, enda skuldaði hann þar þúsund milljarða, er yfir lauk. Þó er Jón Ásgeir dæmdur brotamaður, sem má þess vegna ekki sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Á maðurinn, sem þurrjós bankana, að fá aðstoð þeirra til að halda áfram? Halda áfram við hvað? Að þurrausa bankana?
Síðustu vikurnar hafa komið í ljós ýmsir gerningar Jóns Ásgeirs, sem eru ofar ímyndunarafli venjulegs fólks. Til dæmis hefur eitt leynifélag hans, sem ber það frumlega nafn Sólin skín, safnað átta milljarða króna skuldum við Glitni (sem hann átti talsverðan hlut í). Jón Ásgeir lét líka moka hátt í þrjátíu milljörðum króna úr Glitni í viðskiptafélaga sinn, Pálma í Fons, í aðdraganda og upphafi bankahrunsins, en Pálmi lagði einn milljarð króna inn á reikning Jóns Ásgeirs á sama tíma!
Hvað varð um allt féð, sem Jóni Ásgeiri tókst að svæla út úr íslenskum bönkunum, af sparireikningum grandlausra roskinna kvenna og annarra saklausra fórnarlamba sinna? Ekki hefur það allt farið í lystisnekkju hans, einkaþotu og skrauthýsi erlendis, sem Baugsmiðlarnir minnast nánast aldrei á. Sennilega hefur þorri þess runnið í hinar glannalegu fjárfestingar hans, þegar allt var keypt, sem auga á festi, og sjaldnast spurt um verð.
Auvirðilegast er þó, hvernig Jón Ásgeir sigar enn fjölmiðlum sínum af fullri hörku á þá fáu menn, sem þora að gagnrýna hann. Baugspennar eins og Jón Kaldal (sem Hallgrímur Helgason kallar raunar Jón Ásgeir Kaldal) skrifa enn níðgreinar um Davíð Oddsson, fullar af ósannindum, eins og sést á leiðara Fréttablaðsins í gær.
Björn Bjarnason bendir réttilega á það á bloggsíðu sinni í gær, að Arion banki hefur ekki haft þrek til að standa þessa óbilgjörnu fyrrverandi auðjöfra af sér. Auðvitað átti að gera hið sama og Landsbankinn í dæmi Árvakurs: Taka Haga að fullu og öllu úr höndum þessara manna og selja á frjálsum markaði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook