Viðtal í Grapevine

hannesholmsteinngforsida.jpgÉg var í viðtali 29. ágúst 2009 við blaðið Grapevine, sem gefið er út á ensku í Reykjavík, aðallega fyrir ferðamenn og útlendinga á Íslandi. Þar sagði ég hið sama og oft áður, að bankahrunið haustið 2008 mætti rekja til 1) hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu (en hún orsakaðist ekki síst af misráðnum ríkisafskiptum í Bandaríkjunum), 2) kerfisgalla í EES-samningnum, vegna þess að rekstrarsvæði banka var annað en baktryggingarsvæði þeirra, 3) fautaskapar Breta, sem settu Seðlabankann íslenska, fjármálaráðuneytið og Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök, við hlið Talíbana og Al-Kaída, 4) glannaskapar íslenskra bankamanna, sem lánuðu Baugsfeðgum og klíkubræðrum þeirra í einkaþotunum og á lystisnekkjunum ógrynni fjár, mestallt án veða. Íslendingar virðast ekki vilja ræða neitt nema hið síðasta, en ég rakti það atriði til þess aðhaldsleysis og agaleysis, sem hér var frá 2004, þegar dómstólar, fjölmiðlar og heilu stjórnmálaflokkarnir (aðallega þó Samfylkingin) að forsetaembættinu ógleymdu virtust syngja undir með auðjöfrunum. Þetta gerðist, eftir að Golíat sigraði Davíð í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið, sem var um leið barátta um fjölræði eða fámennisstjórn, lýðræði eða auðmannastjórn (plútókratíu, sem Platón varaði við). Ég minnti hins vegar á það, sem ég hef oft sagt áður, að framtakssamir auðmenn eru hverri þjóð lyftistöng. Auðurinn er góður þjónn og vondur húsbóndi. Ég sagði einnig, að fráleitt væri af Íslendingum að viðurkenna einhverja greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninganna svonefndu. Sem betur fer greiddu sjálfstæðismenn á þingi ekki atkvæði með Iceslave-samningnum, þótt sjálfur hefði ég kosið, að þeir hefðu greitt atkvæði á móti honum eins og framsóknarmenn.

(Ljósmyndina tók Baldur Kristjánsson, einn af bestu ljósmyndurum okkar, í fornbókasölu Braga Kristjónssonar á Hverfisgötu, en bak við mig ti hægri má greina ljósmynd af mér frá því á menntaskólaárunum (1968–1972), þar sem ég held ræðu á fundi í Framtíðinni, og bókina Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kemur opinberlega út mánudaginn 31. ágúst.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband