Fyrirlestur í Nýju Jórvík

Niall FergusonÉg flutti laugardaginn 7. mars 2009 fyrirlestur undir heitinu „The Strange Death of Liberal Iceland“ á sérstakri aukaráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Nýju Jórvík (New York) 5.-7. mars. Á meðal annarra fyrirlesara voru Nóbelsverðlaunahafarnir og hagfræðingarnir Gary Becker og Edmund Phelps, aðrir virtir hagfræðingar, til dæmis Harold Demsetz, sérfræðingur í eignarrétti og hegðun stjórfyrirtækja á markaði, Antonio Martino (sem einnig er fyrrverandi utanríkiráðherra og varnarmálaráðherra Ítalíu) og Anna Schwartz, sem var meðhöfundur Miltons Friedmans að hinni miklu peningamálasögu Bandaríkjanna, þar á meðal skarplegri greiningu á heimskreppunni, hinn heimskunni sagnfræðingur Niall Ferguson (en hann komst einna næst því að spá fyrir um hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu vegna sögulegra hliðstæðna), Martin Wolf, ritstjóri Financial Times, og Steve Forbes, útgefandi viðskiptatímaritsins Forbes og nokkrum sinnum forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum. Hér við hliðina er mynd af Ferguson, og hér að neðan eru glærur frá fyrirlestrinum. Ég leiddi þar rök að því, að bankahrunið íslenska hefði ekki síst orðið vegna kerfisgalla í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hefði bætt gráu ofan á svart með því að setja íslenska banka og yfirvöld á lista um hryðjuverkasamtök, og eftir það hefði okkur ekki verið viðreisnar von. Stjórnendur íslensku bankanna hefðu sennilega ekki verið betri né verri en stjórnendur erlendra banka (sem vissulega reyndust misjafnlega). Aðrir fyrirlesarar greindu aðallega frá þremur orsökum kreppunnar, lausatökum bandaríska seðlabankans í vaxtamálum, óskynsamlegum afskiptum ríkisins af húsnæðislánamarkaði (meðal annars með því að hvetja vanskilafók úr minnihlutahópum til að taka húsnæðislán) og nýjungum í fjármálatækni, þar á meðal skuldabréfavafningum, skortsölu og afleiðum, sem farið hafa úr böndum. Gerðu þeir margar fróðlegar tillögur um leiðir út úr vandanum, um leið og þeir viðurkenndu, að kapítalisminn er ætíð undirorpinn sveiflum, á eftir uppsveiflu kemur niðursveifla, á eftir þenslu samdráttur.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband