Ofbeldi og valdníðsla

oeirdir.jpgHeimspekikennarar mínir í Háskóla Íslands héldu því forðum fram, að í mannlífinu stæði valið um skynsemi og ofbeldi. Skynsemin var sögð felast í frjálsri rannsókn og rökræðu, virðingu fyrir réttindum einstaklinga og hlýðni við lögin. Ofbeldið var hins vegar talið, þegar hnefum væri beitt í stað raka og níðst á fólki. Í janúar 2009 sáu Íslendingar, hversu stutt getur verið í ofbeldið. Æstur múgur réðst á Alþingishúsið, braut rúður, kveikti elda og veittist að lögregluþjónum. Kunnur Baugspenni sat ásamt öðrum óeirðaseggjum fyrir Geir H. Haarde, þá forsætisráðherra, barði bíl hans utan og ógnaði honum, afmyndaður af bræði. Er menningin aðeins þunn skán ofan á villimanninum, sem hverfur, þegar honum er klórað?

Samfylkingin hafði ekki siðferðilegt þrek til að rísa gegn ofbeldinu, heldur lét undan og rauf stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þótt hún kostaði því raunar til, að helsta baráttumálið, umsókn um Evrópusambandsaðild, væri tekið af dagskrá. Það kemur þó ekki eins á óvart og hitt, að ofan úr Háskóla Íslands skuli fáir sem engir verða til að gagnrýna ástandið. Öðru nær. Háskólamenn virðast sumir fagna því, að ríkisstjórn skuli hrakin frá völdum með ofbeldi, og hefur einn þeirra jafnvel tekið sæti í minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hefndarþorsti fremur en umbótavilji virðist vera leiðarljós nýju stjórnarinnar. Fyrsta verkið á að vera að reka Davíð Oddsson seðlabankastjóra fyrir engar sakir. Vissulega hefur verið deilt um peningastefnuna. En hún var mörkuð í samráði við ríkisstjórn hverju sinni, þar á meðal þá, sem Jóhanna Sigurðardóttir sat í. Kaup ríkisins í Glitni í október 2008 hafa einnig verið gagnrýnd. En þau voru gerð með samþykki þáverandi ríkisstjórnar, þar sem Jóhanna var ráðherra.

Á meðan Jóhanna Sigurðardóttir steinþagði, varaði Davíð Oddsson oft við örum vexti bankanna, jafnt í einkasamtölum við ráðamenn og opinberlega. Hann sagði til dæmis á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: „Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“

Davíð fékk hins vegar lítt að gert, vegna þess að með lagabreytingu 1998 var Fjármálaeftirlitið fært undan Seðlabankanum. Heimildir og skyldur til að fylgjast með viðskiptabönkunum hurfu nær allar. Eftir urðu smáverkefni eins og lausafjárskýrslur og gengisjafnaðarreglur.

Lýðskrumarar reyna að nýta sér, að þjóðin er ráðvillt eftir bankahrunið. Þeir eiga volduga bandamenn í þeim auðjöfrum, sem ráða flestum fjölmiðlum á Íslandi og hafa ásamt leigupennum sínum haldið uppi rógsherferð gegn Davíð í mörg ár, af því að hann vildi setja þeim eðlilegar skorður. En brottrekstur Davíðs væri fullkomin valdníðsla. Hugmyndin með sjálfstæðum seðlabanka er, að seðlabankastjórar fylgi rökstuddri sannfæringu fremur en geðþótta valdsmanna. Skynsemin á að ráða, ekki ofbeldið.

Morgunblaðið 7. febrúar 2009. (Mynd: Óli G. Þorsteinsson)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband