Ísland skilið eftir

FYRIR rösku ári var Ísland talið fyrirmyndarríki. Eftir sextán ára umbætur í anda frjálshyggju var það eitt af tíu ríkustu og frjálsustu löndum í heimi. Skipulag fiskveiða var hagkvæmt, ólíkt því sem gerist í flestum öðrum löndum, og lífeyrissjóðir feikiöflugir. Víðtækar skattalækkanir höfðu skilað hagvexti og auknum skatttekjum. Um leið voru ríkisfyrirtæki seld fyrir hátt í tvö hundruð milljarða króna svo að ríkið gat greitt upp mestallar skuldir sínar. Hinir nýju einkabankar blómstruðu. Tekjuskipting var tiltölulega jöfn og fátækt mældist ein hin minnsta í Evrópu. Ísland naut eins og önnur Norðurlönd festu í stjórnarfari, lýðræðis og réttaröryggis.

Snögg umskipti urðu fyrstu vikuna í október 2008. Viðskiptabankarnir þrír komust í þrot. Ríkið tók við hinni innlendu starfsemi þeirra, en óvíst er hvað verður um hina erlendu. Krónan hríðféll og viðskipti við útlönd stöðvuðust að kalla enda varð nær ógerlegt að færa fé til og frá landinu. Hvers vegna skall hin alþjóðlega lánsfjárkreppa svo harkalega á Íslandi? Eitt svar og ekki fráleitt er að íslensku bankarnir hafi verið of stórir fyrir hagkerfið. Umsvif þeirra námu meira en tífaldri landsframleiðslu, svo að seðlabankinn íslenski hafði ekki bolmagn til að vera þrautavaralánveitandi þeirra. Eftir á að hyggja hefði fjármálaeftirlitið íslenska sennilega átt að sjá til þess að bankarnir minnkuðu verulega við sig.

Eflaust hafa einhverjir bankamenn íslenskir farið heldur geyst. En önnur hlið er á málinu. Ísland gerðist 1994 aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, sem er sameiginlegur markaður með Evrópusambandinu, Noregi og Liechtenstein. Hugmyndin var sú að innan EES skipti ekki máli hvar fyrirtæki væri valinn staður. Það gæti rekið starfsemi sína hvar sem væri á svæðinu ef það fylgdi réttum reglum. Íslensku bankarnir tóku þetta alvarlega og hófu starfsemi í öðrum Evrópulöndum eftir settum reglum. Þeir voru vel reknir, ágengir og nýttu nýjustu tækni, svo að þeir gátu stundum boðið betri kjör en keppinautarnir og ollu þeim sennilega ósjaldan gremju.

Þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa hófst 2007 áttu íslensku bankarnir fyrir skuldum. Þeir höfðu ekki í fórum sínum nein undirmálslán. En þeir sáu fram á greiðsluvandræði. Þegar Seðlabankinn reyndi að fá lánalínur frá evrópskum seðlabönkum, fékk hann nær alls staðar afsvar. Nú skipti skyndilega máli hvar fyrirtæki væri valinn staður. Þegar ljóst varð á fjármálamörkuðum að þrautavaralánveitendur á Íslandi væru veikir fyrir hlaut áhlaup á bankana að koma fyrr eða síðar.

Þrátt fyrir allt hefðu einn eða tveir íslensku bankanna ef til vill staðið kreppuna af sér ef breski forsætisráðherrann, Gordon Brown, hefði ekki 8. október notað lög um hryðjuverkavarnir til að taka í sínar hendur starfsemi Kaupþings og Landsbankans í Bretlandi. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn voru um skeið skráð á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtök við hlið al-Qaida og talibana. Þessar aðgerðir Breta gerðu vitanlega illt miklu verra. Bankarnir féllu og viðskipti við útlönd stöðvuðust. Ekki þarf að koma á óvart að bankar séu tregir til að færa fé til og frá „hryðjuverkasamtökum“.

Brown réttlætti hinar harkalegu aðgerðir sínar með því að íslenska ríkið ætlaði ekki að virða skuldbindingar við breska innstæðueigendur. Þetta var tilefnislaust. Ráðamenn höfðu hvað eftir annað sagt opinberlega að allar lagalegar skuldbindingar við innstæðueigendur á Evrópska efnahagssvæðinu yrðu virtar. Tryggingarsjóður bankainnstæðna, sem er sjálfstæð stofnun og sett upp eftir evrópskum reglum, tryggir innstæður upp að röskum 20 þúsund evrum. Ef sjóðurinn getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, hvílir engin lagaskylda samkvæmt EES-samningnum á íslenska ríkinu til að koma honum til aðstoðar.

Brown ýjaði líka að því að mikið fé hefði verið fært frá Bretlandi til Íslands síðustu starfsdagana bankanna. Væntanlega leiðir rannsókn málsins í ljós, hvað hæft er í því. En fróðlegt er í því ljósi, að síðustu starfsdaga Lehman Brothers í september voru átta milljarðar Bandaríkjadala færðir frá bækistöð þeirra í Bretlandi vestur til Bandaríkjanna. Þó voru hvorki fjármálaráðuneyti né seðlabanki Bandaríkjanna sett á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtök.

Eftir að Brown hafði lagt að velli tvo af þremur íslensku bankanna notaði hann þá staðreynd að Lundúnir eru alþjóðleg fjármálamiðstöð, og ítök Breta í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu til að heimta að Íslendingar gengju miklu lengra en Tryggingarsjóður bankainnstæðna er skuldbundinn til að gera samkvæmt reglum EES. Forsætisráðherrann óttaðist að sjóðurinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og neyddi seint á sunnudag íslenska ríkið til að taka á sig allar skuldbindingar sjóðsins til tryggingar innstæðum útlendinga. Þetta kann að leggja tíu milljarða Bandaríkjadala skuldabyrði á þær 310 þúsund sálir, sem byggja Ísland, allt að 100% af landsframleiðslu.

Evrópsku seðlabankarnir, sem neituðu að hlaupa undir bagga með hinum íslenska, þegar á reyndi, gerðu sér sennilega ekki grein fyrir að tjónið af því takmarkaðist ekki við Ísland. Því síður skildi Gordon Brown væntanlega að hrun íslensku bankanna skaðaði breska innstæðueigendur miklu meira en hitt, að hann hefði haldið ró sinni og leitað lausna í samráði við Íslendinga.

Ekki er að furða að Íslendingum finnist evrópskar vinaþjóðir hafa snúið við þeim baki.

Grein þessi birtist á ensku í Wall Street Journal hinn 18. nóvember sl.og í íslensku í Morgunblaðinu 20. nóvember.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband