Alþingi götunnar og krossfestingar

I.

MagnusKjMagnús Kjartansson var ritstjóri Þjóðviljans 1947-1971, en einnig alþingismaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið. Hann hafði verið afbragðsnámsmaður í menntaskóla og lagði stund á verkfræði í Kaupmannahöfn fyrir stríð, hvarf frá því og stundaði síðan um skeið norrænunám í Kaupmannahöfn, Lundi og Stokkhólmi, en lauk ekki prófi. Hann þótti skömmóttur í skrifum, og kallaði dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra daglegan dálk hans í Þjóðviljanum „Meinhornið“. Magnús átti tvenn fleyg ummæli, og minntist Guðmundur Magnússon sagnfræðingur á önnur hér í vorhefti Þjóðmála: „Alþingi götunnar.“ Tildrög voru þau, að „hernámsandstæðingar“, sem svo nefndu sig, höfðu farið í göngu til að mótmæla dvöl varnarliðs á Miðnesheiði. Magnús birti um þetta leiðara í blað sitt 21. júní 1960 undir nafninu „Sigurgangan“, þar sem hann vék í lokin nokkrum orðum að ráðherrum og alþingismönnum þjóðarinnar: „Þegar þeir bregðast, ber fólkinu í landinu, alþingi götunnar, stjórnarráði heimilanna, að taka ákvarðanir sínar og tryggja með baráttu, að þær verði framkvæmdar.“ Skáletraði Magnús þessi orð til áhersluauka.

Morgunblaðið tók orð Magnúsar óstinnt upp. Birti það 14. júlí 1960 heldur ófagra mynd af áflogum kommúnista og nýfasista á Ítalíu og sagði í myndatexta: „Hér hefur „Alþingi götunnar“, sem ritstjóri Þjóðviljans vildi fá til valda hérlendis í ræðu sinni að „göngunni“ lokinni, greinilega látið nokkuð til sín taka.“ Dr. Bjarni Benediktsson vitnaði einnig í orð Magnúsar af nokkurri vanþóknun í „Reykjavíkurbréfi“ 24. júlí og oft eftir það. Magnús brá við og birti 9. ágúst heilan leiðara undir heitinu „Alþingi götunnar“ í Þjóðviljanum. Þar sagði hann meðal annars: „Alþingi götunnar er einföld og auðskilin umritun á orðinu lýðræði, því stjórnarfari að lýðurinn ráði.“ Morgunblaðið var að vonum ekki sammála. Í „Staksteinum“ daginn eftir sagði: „Með þessu áttu kommúnistar við, eins og glöggt kom fram hjá þeim, að lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum landsins yrði steypt af stóli og ofbeldi og einræði hafið til vegs.“

Leið nú að hausti. Nokkur styrr stóð um landhelgissamning við Breta, og notuðu „hernámsandstæðingar“ tækifærið til að vekja athygli á málstað sínum. Þegar þeir efndu til mótmælafundar fyrir utan Alþingishúsið við setningu Alþingis 10. október 1960, birti Morgunblaðið frétt undir fyrirsögninni „„Alþingi götunnar“ reynir að trufla þingstörf“. Daginn eftir fylgdi blaðið fréttinni eftir með leiðara um, að ofbeldismönnum yrði ekki leyft að trufla störf Alþingis. Magnús Kjartansson samdi enn einn leiðarann um málið í Þjóðviljanum 12. október 1960 og sagði í lokin: „Og því aðeins er hið kjörna Alþingi Íslendinga starfi sínu vaxið, að það hafi hið fyllsta samráð við alþingi götunnar, virði að fullu ákvarðanir alþýðu manna.“ Var oft eftir þetta vitnað í ummæli Magnúsar, ekki síst í Morgunblaðinu.

Ummæli Magnúsar má eflaust rekja til frægra orða sænska jafnaðarmannsins Zeths Höglund, sem uppi var frá 1884 til 1956. Höglund gerðist ungur róttækur, gekk í Jafnaðarmannaflokkinn 1904 og var kjörinn á þing 1914. Hann var rekinn úr flokknum snemma árs 1917 og stofnaði þá flokk vinstrisósíalista, sem síðar breyttist í kommúnistaflokk Svíþjóðar. Þegar rætt var um útfærslu kosningarréttar á þingi 5. júní 1917, beið mikill mannfjöldi fyrir utan þinghúsið. Höglund lauk ræðu sinni svo: „Leve gatans parlament!“ (Lifi alþingi götunnar!) Honum þótti kommúnistaflokkurinn hins vegar of hallur undir ráðstjórnina rússnesku, hraktist úr honum 1924 og gekk ásamt félaga sínum Fredrik Ström (sem kom nokkuð við sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar) aftur í Jafnaðarmannaflokkinn 1926. Höglund var borgarstjóri í Stokkhólmi 1940-1950. Dr. Benjamín Eiríksson, sem stundaði um skeið nám í Stokkhólmi, minnist á Höglund í endurminningum sínum, sem ég skráði 1996. Hann segir þar, að forystumenn Alþýðuflokksins hefðu átt að taka Héðni Valdimarssyni fagnandi 1939, þegar hann hraktist úr Sósíalistaflokknum, eins og sænskir jafnaðarmenn hefðu tekið Höglund og Ström.


II.


Hin ummæli Magnúsar Kjartanssonar, sem fleyg hafa orðið, birtust í Þjóðviljanum hálfu ári áður. Í árslok 1959 var gert uppskátt um svonefnt Olíufélagsmál, en tvö samvinnufyrirtæki, sem seldu olíu til varnarliðsins á Miðnesheiði, höfðu orðið uppvís að því að brjóta hinar ströngu reglur, sem þá giltu um gjaldeyrisskil og tollafgreiðslu. Haukur Hvannberg, forstjóri Hins íslenska steinolíuhlutafélags, hafði játað á sig sök, en Vilhjálmur Þór, sem hafði verið forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga, en síðan gerst bankastjóri Landsbankans, neitað aðild að málinu. Eftir nokkurra ára rannsókn og réttarhöld var Haukur dæmdur í fangelsi, en Vilhjálmur sýknaður, þar sem hugsanleg sök hans var talin fyrnd. Jón Pálmason alþingismaður orti landskunna vísu af þessu tilefni:

Vilhjálmur hlýtur vegleg laun,
valinn til æðstu ráða,
en Haukur er látinn á Litla-Hraun,
lagður inn fyrir báða.

Hefði sumt af því, sem Haukur var dæmdur fyrir, nú ekki verið saknæmt og því síður refsivert, til dæmis að geyma fé á erlendum bankareikningum.

Þjóðviljinn krafðist þess á forsíðu 20. desember 1959, að Vilhjálmur Þór viki úr bankastjórastarfi vegna Olíufélagsmálsins, og inni í blaðinu rifjaði Magnús Kjartansson upp, að Vilhjálmur hefði hlotið fjölda heiðursmerkja. Þetta væri til marks um, hversu mannkyninu hefði miðað í sókn til fullkomnunar: „Áður voru ræningjar festir á krossa; nú eru krossar festir á ræningja.“ Eru þetta sennilega frægustu orð Magnúsar.

Þau eru þó ekki eins frumleg og þau eru snjöll. Kveikjan að orðum Magnúsar kemur eflaust frá nafna hans Ásgeirssyni eða Þórbergi meistara Þórðarsyni. Magnús Ásgeirsson birti kvæðið „Krossfestingu“ í ljóðabókinni Síðkveldi, sem kom út 1923. Þar sagði í lokin:

Og víst er ei líkingin lítil,
þótt líti ég í henni brestinn.
Því Kristur var festur á krossinn,
en krossinn var festur á prestinn.

Þórbergur skrifaði í „Opnu bréfi til Árna Sigurðssonar“, sem dagsett var á Ísafirði 14. september 1925 og þáttur í miklum þrætum hans vegna Bréfs til Láru: „Kristur endaði sína á krossi. Þér endið ævi yðar með krossi.“

Sennilegast er, að Magnús Ásgeirsson og meistari Þórbergur sæki líkinguna báðir í smásögu eftir Jón Trausta, „Séra Keli.“ Þar segir frá séra Þorkeli, sem misst hafði hempuna sakir ofdrykkju og segir nokkur vel valin orð á fundi presta: „Sá, sem við þjónum allir og kennum okkur við, spurði ekki um launin, meðan hann dvaldi hér á jörðinni. Launin hans voru þyrnikóróna og húðstroka, og hann bar sinn kross — ekki á brjóstinu, eins og prófasturinn þarna, heldur á blóðugu bakinu og vanmegnaðist undir honum.“

Það er aukaatriði, hvort þeir Þórbergur Þórðarson og Magnús Ásgeirsson hafa sjálfir vitað af því, að þeir unnu úr hugmynd Jóns Trausta. Hitt skiptir meira máli, hvernig líkingin hefur á leið sinni náð fullkomnun, orðið meitlaðri, skýrari, snjallari. Magnús Kjartansson lagar hana síðan að eigin þörfum, svo að ádeilan á kirkjunnar menn hverfur. Hann beinir sjónum að ræningjunum tveimur, sem krossfestir voru með Kristi, og virðist raunar telja, að þeir hafi hlotið makleg málagjöld ólíkt Vilhjálmi Þór. En úr því að Magnús haslaði sér völl í Jórsölum forðum, er hollt að muna, að þar kaus Alþingi götunnar Barrabas, en ekki Krist.

Þjóðmál, vorhefti 2008.

Heimildir:
Eiríkur Jónsson, fyrrv. kennari. Munnlegar upplýsingar.
Guðmundur Magnússon: „Ákafafólk og opinberir fundir,“ Þjóðmál, vorhefti 2008.
Hannes H. Gissurarson: Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða. Bókafélagið, Reykjavík 1996.
Hannes H. Gissurarson: Kjarni málsins (óútgefið tilvitnanasafn).
Jón Trausti: Ritsafn, II. bindi. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, Reykjavík 1960.
Magnús Ásgeirsson: Ljóðasafn, I. bindi. Helgafell, Reykjavík 1975.
Morgunblaðið (aðgengilegt á Netinu, http://www.timarit.is).
Þjóðviljinn (aðgengilegur á Netinu, http://www.timarit.is).
Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. Mál og menning, Reykjavík 1975 (m. a. bréfið til Árna Sigurðssonar).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband