Neyðarlögin og stjórnarskráin

Þeir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa báðir lagt orð í belg um síðasta fróðleiksmola minn, þar sem ég notaði lögmál heilags Tómasar af Akvínas um tvennar afleiðingar til að rökstyðja neyðarlögin íslensku frá 6. október 2008. Með þeim var sparifjáreigendum veittur forgangur fram yfir aðra kröfuhafa í bú fjármálastofnana. Þetta fól í sér, að um 10 milljarðar evra færðust í raun frá handhöfum skuldabréfa til sparifjáreigenda. Ég benti á, að ætlun löggjafans var ekki að færa fé milli hópa, heldur að tryggja stöðugleika, afstýra neyðarástandi, eins og hefði myndast, hefðu sparifjáreigendur óttast um fé sitt. Þess vegna brytu neyðarlögin ekki í bág við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Löggjafinn hafði vafalaust rétt fyrir sér um, að tryggja þyrfti stöðugleika, afstýra neyðarástandi. Sú röksemd ein og sér nægði til þess, að hann hlaut að hafa rúmar heimildir. Ekki var um afturvirka eignaupptöku að ræða, því að lögin voru um uppgjör búa, sem framundan kynnu að vera. (Hefði Rússalánið til dæmis orðið að veruleika, þá hefðu bankarnir hugsanlega staðist, og þá hefði ef til vill ekki reynt á lögin.) Minna má á, að launakröfur hafa forgang í venjulegum þrotabúum.

Stundum eru aðgerðir nauðsynlegar vegna þjóðarhagsmuna, þótt einhverjir hópar verði illa úti. Við útfærslu fiskveiðilögsögunnar misstu tugir þúsunda breskra sjómanna aðgang að Íslandsmiðum, sem þeir höfðu haft allt frá 1412. Við urðum þá að taka lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar fram yfir atvinnuhagsmuni breskra sjómanna.

Aðalatriðið er, að ekki verður séð, hvernig hægt hefði verið að ganga skemmra en gert var með neyðarlögunum til að ná sama árangri. Hitt er annað mál, að mikilvægara var í þágu stöðugleika að róa innlenda sparifjáreigendur en erlenda skuldabréfaeigendur, sem hefðu líka átt að hafa betri skilyrði en aðrir til að meta áhættu. Þegar upp var staðið voru skuldabréfaeigendur eflaust líka betur settir en ella við það, að neyðarástandi var afstýrt. Það hefði ekki verið þeim í hag, að íslenska hagkerfið hefði hrunið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. ágúst 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband