Ábyrgðin á óeirðunum 2008–9

Heimspekingar hafa síðustu áratugi smíðað sér kenningar um samábyrgð hópa. Ég nefndi hér í síðustu viku greiningu eins þeirra, Davids Millers, á götuóeirðum, en hann telur, að í þeim verði til slík samábyrgð, sem ráðist af þátttöku, en þurfi ekki að fara saman við einstök verk eða fyrirætlanir. Varpaði ég fram þeirri spurningu, hvort samkennarar mínir í Háskólanum, Gylfi Magnússon og Þorvaldur Gylfason, hefðu með þátttöku sinni í götuóeirðunum hér 2008–9 öðlast samkvæmt greiningu Millers einhverja ábyrgð á þeim, þótt þátttaka þeirra hefði einskorðast við hvatningar til þjóðarinnar á útifundum um að losa sig við stjórnvöld.

Nú hefur ungur heimspekingur, Sævar Finnbogason, sem hefur skrifað ritgerðir um samábyrgð Íslendinga á Icesave-málinu, andmælt mér á Netinu. Helsta röksemd hans er, að ekki hafi þá verið um eiginlegar götuóeirðir að ræða. Mótmælin hafi farið friðsamlega fram og þeir Gylfi og Þorvaldur hvergi hvatt til ofbeldis. En Sævar hefur ekki rétt fyrir sér um það, að þetta hafi aðeins verið mótmælaaðgerðir og ekki götuóeirðir, eins og sést af fróðlegri bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings, Búsáhaldabyltingunni. Þetta voru alvarlegustu götuóeirðir Íslandssögunnar, og mátti litlu muna, að lögreglan biði lægri hlut fyrir óeirðaseggjunum. Afleiðingarnar voru líka fordæmalausar: Í fyrsta skipti hrökklaðist ríkisstjórn frá á Íslandi sakir óeirða.

Sævar svarar því ekki beint, sem Miller rökstyður, að allir þátttakendur í götuóeirðum kunni að bera ábyrgð á þeim. Fyrirætlanir og verk þeirra Gylfa og Þorvaldar skipta samkvæmt því hugsanlega ekki eins miklu máli og sjálf þátttaka þeirra í því ferli, sem leiddi til óeirðanna. Sævar nefnir ekki heldur þá játningu Harðar Torfasonar, sem var í forsvari mótmælaaðgerðanna 2008–9, að búsáhaldabyltingin svokallaða hefði verið skipulögð „á bak við tjöldin“. Hver gerði það? Hver kostaði mótmælaaðgerðirnar, sem urðu að götuóeirðum, meðal annars að tilraun til að ráðast inn í Seðlabankahúsið 1. desember 2008? Hver réð því, að aðgerðirnar beindust aðallega að þremur bankastjórum Seðlabankans, sem höfðu fyrstir varað við útþenslu bankanna og síðan gert sitt besta til að tryggja hag þjóðarinnar í bankahruninu miðju? Af hverju beindust þær ekki frekar að manninum, sem hafði tæmt bankana og reynt í krafti fjölmiðlaveldis að stjórna Íslandi, á meðan hann var sjálfur á fleygiferð um heiminn, ýmist á einkaþotu sinni eða lystisnekkju?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júlí 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband