Nordau á Íslandi

portrait_of_max_nordau.jpgEinn furðulegasti kaflinn í hugmyndasögu áranna kringum aldamótin 1900 er um hina svokölluðu mannkynbóta- eða arfbótakenningu (eugenics), en samkvæmt einni útgáfu hennar varð að koma í veg fyrir, að vanhæfir einstaklingar fjölguðu sér. Einn mannkynbótafræðingurinn var ítalski læknirinn Cesare Lombroso, sem taldi glæpsemi arfgenga og reyndi að finna vísbendingar um, hvernig hún erfðist. Lærisveinn hans, ungverski læknirinn Max Nordau, sem var gyðingur eins og Lombroso (og hét upphaflega Simon Maximilian Südfeld), gaf 1892 út bókina Entartung (Kynspillingu). Þar las hann nokkrum kunnustu rithöfundum norðurálfunnar pistilinn, þar á meðal Henrik Ibsen, Oscar Wilde og Lev Tolstoj. Taldi hann þá úrkynjaða og verk þeirra sjúkleg. Var þessi bók umtöluð um skeið, þótt nú sé hún fallin í gleymsku.

Fram á miðjan aldur trúði Nordau því, að gyðingar gætu samlagast sambýlingum sínum, en eftir málarekstur gegn Alfred Dreyfus í Frakklandi 1894 og æsingar gegn gyðingum skipti hann um skoðun, gerðist einn helsti forystumaður síonista og gekk næstur Theodor Herzl. Kvað hann gyðinga verða að hætta við samlögun og stofna eigið ríki. Hann hugsaði sér það fyrst í Úganda, en síðan í Ísrael. Mælti hann fyrir „vöðvastæltum gyðingdómi“. Nordau fæddist í Pest (austurhluta Búdapest) 1849 og lést í París 1923.

Ungur sótti Nordau þjóðhátíðina á Íslandi 1874 og skrifaði um hana nokkrar greinar í ungversk og austurrísk blöð, og voru þær endurprentaðar í bókinni Vom Kreml zur Alhambra (Frá Kremlkasta til Alhambrahallar) 1880. Nordau var lítt hrifinn af Íslandi, kvað skárra að vera hundur í Pest en ferðamaður á Íslandi. Reykvíkingar væru seinlátir og ógreiðviknir. „Við höfum nú fullkomlega kynnst hinni víðfrægu gestrisni Íslendinga, og ég vil ráða hverjum manni, sem ætlar að ferðast eitthvað á Íslandi, til þess að hafa með sér tjöld, rúmföt og matvæli til þess að geta verið sem óháðastur góðvild Reykjavíkurbúa.“

Nordau taldi almenna deyfð einkenna þjóðina: „Það er einkennilegt fyrir andlega og efnalega vesalmennsku, hjálparleysi og svefn Íslendinga, að fiskveiðar Frakka við strendurnar eru þeim þyrnir í augum og mikið reiðiefni, en þeim dettur aldrei í hug að reyna að keppa við þá. Frakkar raka saman milljónum við Ísland, en landsbúar eru örsnauðir og rétta ekki út hendurnar eftir hinum ótæmandi auð sjávarins. Eftirkomendur hinna djörfustu og þolnustu sjófarenda allra tíma eru engir sjómenn. Þeir kunna hvorki að smíða báta, stýra né sigla.“ En lastið var á báða bóga. Matthías Jochumsson hitti Nordau og taldi hann hrokafullan og hégómagjarnan. Höfðu eflaust báðir eitthvað til síns máls.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. maí 2016.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband