Athugasemd við bók Árna Bergmanns

herganga_kommu_769_nista.jpgÉg hafði ánægju af að lesa sjálfsævisögu Árna Bergmanns, sem kom út fyrir jólin. Hún er skrifuð í notalegum rabbtón, þótt hún lýsi miklum umbrotatímum, ekki aðeins í veröldinni, heldur líka í sál Árna, sem kemur ungur og sannfærður kommúnisti út til Ráðstjórnarríkjanna 1954 og verður vitni að sögulegu uppgjöri Khrústsjovs við Stalín 1956 og hlákunni í nokkur ár eftir það. Arnór Hannibalsson, skólabróðir hans í Moskvu, snerist gegn kommúnisma, og var honum útskúfað úr vinstri hreyfingunni. Árni hélt hins vegar áfram að starfa þar og gerir enn: Hann sat ásamt mörgum öðrum rosknum sósíalistum á hinum fræga fundi Sagnfræðingafélagsins um íslensku kommúnistahreyfinguna 23. nóvember 2011 og horfði ásökunaraugum á mig, þegar ég leyfði mér að benda framsögumönnum á alls kyns missagnir og rökvillur í máli þeirra. Þögnin frá bekknum, þar sem þeir Árni sátu saman, var þung, svo þung og þétt, að ég hefði líklega rekist á hana og hrasað, hefði ég gengið nær.

Árni minnist á einum stað í bókinni á mig. Hann heldur því þar fram, að málin séu ekki eins einföld og þeir Hannes H. Gissurarson og Þór Whitehead vilji vera láta í bókum sínum um íslenska kommúnista. Sagan, sem hann segir því til stuðnings, er, að hann hafi á stúdentsárunum í Moskvu hlustað á ýmsar raunasögur stúdenta frá Eystrasaltsríkjunum um kúgunina þar, fjöldabrottflutninga, ritskoðun, aftökur, pyndingar, virðingarleysi fyrir tungu og menningu þessara fámennu þjóða. Þeir Arnór Hannibalsson hafi hitt fulltrúa Sósíalistaflokksins á 20. flokksþingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna 1956, þá Kristin E. Andrésson, forstjóra Máls og menningar, og Eggert Þorbjarnarson, framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins, og rætt þetta við þá. Eggert hafi tekið því fjarri og vísað til hrifningarræðu eins fulltrúa frá Eystrasaltslöndunum á flokksþinginu. Kristinn hafi hins vegar sagt, að vel gæti verið eitthvað til í þessu hjá strákunum.

Þessi saga Árna sýnir hins vegar ýmislegt annað en hann vill vera láta. Í fyrsta lagi sýnir hún, að forystumönnum íslenskra kommúnista, eins og Kristni E. Andréssyni, var vel kunnugt um kúgunina í landinu. Kristinn var hins vegar ástríðufullur sálnaveiðari, sem vildi ekki styggja þessa ungu menn, heldur leiða þá á rétta braut, og sú braut var að styðja Ráðstjórnarríkin og fá á móti stuðning frá þeim. Fyrirtæki Kristins, Mál og menning, fékk nægan fjárstuðning frá Moskvu til að geta reist tvö stórhýsi í Reykjavík, Þingholtsstræti 27 og Laugaveg 18. Það fékk sams konar blóðpeninga frá Moskvu og ýmis þýsk fyrirtæki frá nasistum. (Gullið, kolin og timbrið, sem ráðstjórnin seldi til Vesturlanda, var unnið af vinnuþrælum.)

Í öðru lagi hvikaði Kristinn E. Andrésson aldrei opinberlega frá stuðningi við kommúnistaríkin í austri, þótt stundum hallaði hann sér frekar að Kínverjum en Rússum. Öll gagnrýni á kommúnistaríkin var fram til 1968 bönnuð í tímaritum og blöðum sósíalista, Tímariti Máls og menningar, Rétti og Þjóðviljanum. Arnór Hannibalsson fékk ekkert birt í þessum tímaritum og blöðum. (Árni segir í sjálfsævisögu sinni, að Arnór geti sjálfum sér um kennt: Hann hafi krafist þess, að forystumenn sósíalista gerðu yfirbót fyrir Stalínsþjónkun sína. En sú krafa kom ekki strax fram. Greinar Arnórs voru í fyrstu aðallega gagnrýni á stalínismann í Rússlandi.) Sigfús Daðason skáld, aðstoðarforstjóri Máls og menningar, samdi grein til að mótmæla innrás Rauða hersins í Tékkóslóvakíu 1968, en hún var aldrei birt. Magnús Kjartansson neitaði að birta ályktun, sem Gísli Gunnarsson og nokkrir aðrir Æskulýðsfylkingarmenn höfðu samþykkt 1966 til að mótmæla réttarhöldum yfir rithöfundum í Rússlandi, uns Gísli hótaði að senda hana til birtingar í Morgunblaðinu. Þá lét Magnús undan með ólund.

Í þriðja lagi er fróðlegt að lesa í skjölum í Moskvu, sem aðgangur var veittur að eftir fall kommúnismans, að Einar Olgeirsson beitti sér fyrir því, að Árni Bergmann yrði vorið 1959 fréttaritari Þjóðviljans í Moskvu. Fékk hann góð laun frá kommúnistaflokki Ráðstjórnarríkjanna og afnot af tveggja herbergja íbúð, sem var mikill munaður í Moskvu á þeirri tíð. Í leynibréfi til miðstjórnar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna kvað Einar Árna einmitt heppilegan í fréttaritarastarfið, vegna þess að hann gæti frætt íslenska lesendur „um Eystrasaltslöndin, þar sem berjast þarf gegn lygum afturhaldsaflanna“. Naut Árni þessara kjara í þrjú ár, uns hann sneri heim til Íslands 1962. Lesa má nánar um allt þetta í bók minni, Íslenskir kommúnistar 1918–1998.

Ég held þess vegna, að við Þór Whitehead höfum ekki einfaldað neitt flókið mál í bókum okkar um íslenska kommúnista og sósíalista. Málið var einmitt einfalt. Íslenskir kommúnistar og sósíalistar voru lengst af á mála hjá Kremlverjum. Þeir voru erindrekar erlends valds, sumir óðfúsir eins og Kristinn E. Andrésson og Einar Olgeirsson, aðrir ef til vill hálfnauðugir vegna framfærslu- og fjölskyldusjónarmiða.

Annað mál er, að skýra þarf sérstaklega, hvers vegna íslenskir sósíalistar nutu miklu meiri áhrifa en skoðanasystkin þeirra í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, þar sem flokkar kommúnista voru jaðarflokkar. En þegar ég bauðst til að reyna að skýra það í fyrirhugaðri fundaröð Sagnfræðingafélagsins vorið 2016 um fjöldahreyfingar á Íslandi, var boðinu synjað. Ég skyldi ekki fá að rjúfa hina þungu þögn, eins og í nóvember 2011. Ég skyldi vera í banni eins og Arnór Hannibalsson forðum. Eini munurinn er sá, að ekki var hægt að útskúfa mér, því að ég var aldrei í liðinu.

(Skopmyndin, sem hlýtur að vera eftir Halldór Pétursson, birtist í Morgunblaðinu 1956 og sýnir hergöngur kommúnista, fyrst Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason 1930, þegar þeir stofnuðu kommúnistaflokkinn, síðan Einar, Brynjólf og Kristin 1938, þegar þeir stofnuðu Sósíalistaflokkinn, og þá Einar og Kristin með grímur af Hannibal Valdimarssyni, þegar þeir stofnuðu með Hannibal Alþýðubandalagið 1956.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband