Finnagaldur Jóns Ólafssonar

Í bókinni Appelsínum frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson heimspeking, sem út kom 2012, berst talið að Vetrarstríðinu (bls. 285). „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrrnefndu réðust yfir landamærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Karelíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finnland varð sjálfstætt ríki.“

Hér er flest rangt. Finnland varð í fyrsta lagi ekki sjálfstætt 1918, heldur 6. desember 1917, og viðurkenndu Kremlverjar sjálfstæði þess strax 18. desember það ár. Borgarastríð var háð í landinu á útmánuðum 1918, en í Tartu 1920 sömdu Finnar við Kremlverja um landamæri ríkjanna.

Engin rússnesk svæði (önnur en Petsamo við Íshaf) höfðu í öðru lagi fallið í skaut Finna við fullt sjálfstæði. Kremlverjar viðurkenndu í Tartu-samningnum 1920 að langmestu leyti landamærin frá 1809, þegar Finnland gekk undan Svíum og varð stórhertogadæmi, sem laut Rússakeisara. Rússar höfðu þá skilað Finnlandi aftur svæðum í Kirjálalandi (Karelíu), sem þeir höfðu unnið á öndverðri átjándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finnlandi nema tímabilið 1721–1809.

Í griðasáttmála Hitlers og Stalíns í Moskvu 23. ágúst 1939 var hins vegar samþykkt, að Finnland væri á áhrifasvæði Stalíns. Í samningaumleitunum skömmu fyrir Vetrarstríðið höfðu Finnar boðist til að afhenda Rússum svæði í Kirjálalandi, en vísað á bug kröfum Stalíns um herstöðvar í landinu, eins og hann hafði fengið í Eystrasaltslöndum.

Tilgangur Stalíns með Vetrarstríðinu 1939–1940 var ekki að endurheimta nein rússnesk svæði, heldur leggja undir sig Finnland. Ella hefði hann ekki stofnað í stríðsbyrjun leppstjórn finnskra kommúnista í Terijoki. Hún átti að taka völd eftir sigur Rauða hersins. En Finnar vörðust ofureflinu allir sem einn, hraustlega mjög, auk þess sem Stalín óttaðist, að Bretar og Frakkar myndu veita þeim aðstoð. Hertaka Finnlands reyndist of dýr og áhættusöm. Þess vegna ákvað Stalín að leysa leppstjórnina í Terijoki upp, semja vorið 1940 frið í Vetrarstríðinu og fá þau svæði í Kirjálalandi, sem hann taldi sér hernaðarlega mikilvæg. Ella hefði hann farið eins með Finnland og Eystrasaltsríkin: Fyrst var krafist herstöðva, löndin síðan hertekin og þau loks neydd inn í Ráðstjórnarríkin.

Jón Ólafsson má vitaskuld segja söguna frá rússnesku sjónarmiði og skeyta ekki um hið finnska. En hann verður að fara rétt með staðreyndir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. nóvember 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband