Ólafur Ragnar, já! Baldur, nei!

Ólafur Ragnar Grímsson hefur rétt fyrir sér um það, að hryðjuverkin úti í Evrópu verða áreiðanlega til þess, að við hugsum okkar gang. Við hljótum að herða útlendingaeftirlit og landamæravörslu og efla lögregluna. Í því eru ekki fólgin nein mannréttindabrot, heldur mannréttindavernd. Við eigum umfram allt skyldur við okkur sjálf. Við, börn okkar, foreldrar, ættingjar og vinir, viljum ekki eiga það á hættu, þegar við fáum okkur kaffi og kökur í kaffihúsum í Reykjavík eða á Akureyri, að hópur öfgamúslima, sem laumast hafi til landsins, ryðjist skyndilega inn, öllum að óvörum, taki upp vélbyssur sínar og skjóti fjölda fólks til dauðs, svo að blóðið fljóti.

Ólafur Ragnar er óhræddur við að segja það, sem er rétt, að nú er bráð og mikil hætta af öfgamúslimum. Með því er að sjálfsögðu ekki felldur neinn dómur yfir múslimum almennt. Þeir eru eflaust upp til hópa sómafólk, eins og langflestir jarðarbúar. Hinu er ekki að leyna, að íslam er í eðli sínu herskárri trú en til dæmis kristnin, af þeirri einföldu ástæðu, að Múhameð var í senn hermaður og spámaður, en Kristur var spámaður og ekki hermaður. Múhameð fór með her og lagði undir sig lönd. Kristur sagði, að sitt ríki væri ekki af þessum heimi, og hann spurði: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?“

Baldur Þórhallsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og Jean Monnet-prófessor í Háskóla Íslands, gerir hins vegar athugasemdir við ummæli Ólafs Ragnars. Þessar athugasemdir hans eru því miður ekki sóttar í raunhæft mat á aðstæðum. Baldur segir til dæmis: „Forsetinn notar ekki voðaverkin til [að] hugga og stuðla að samstöðu þjóðarinnar heldur hagar orðum sínum á þann hátt að þau sundra og ala á tortryggni í garð múslima.“ Hugga? Það þarf ekki að hugga íslensku þjóðina, því að hún varð ekki fyrir árásinni, heldur franska þjóðin, og þótt við hljótum að láta í ljós samúð með henni, er það líklega ekki á okkar færi að hugga hana. Sundra? Ummæli forsetans sundra ekki þjóðinni, því að hún er sameinuð um vestræn gildi (með örfáum undantekningum): Hér eru sárafáir múslimar og líklega (vonandi) engir öfgamúslimar. Þorri þjóðarinnar er kristinn. Við erum vestræn þjóð, ekki Arabar. Og Ólafur Ragnar ól ekki á neinni tortryggni gegn múslimum með því að benda á hættuna af öfgamúslimum, enda blasir hún við.

Það voru öfgamúslimar, sem frömdu hryðjuverkin í París, ekki vestrænar þjóðir. Og það eru öfgamúslimar, sem bera ábyrgð á þeim, ekki vestrænar þjóðir.

Baldur Þórhallsson notar tækifærið til missmekklegra hugleiðinga um hvatir Ólafs Ragnars Grímssonar til að segja það, sem hann sagði. En það eru ekki allir að ganga einhverra sérstakra erinda. Stundum eru menn aðeins að segja það, sem þeim býr í brjósti, um leið og þeir leyfa sér að skírskota til eigin reynslu. Ólafur Ragnar nýtur langrar reynslu sinnar og víðtækrar þekkingar á alþjóðastjórnmálum, þótt ekki hafi ég alltaf verið honum sammála. En um málflutning Baldurs er það að segja, að hvergi á barnaskapur og hrekkleysi síður við en í alþjóðastjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband