Hvernig skiptust skáld milli flokka?

Í föggum Bjarna Benediktssonar í Borgarskjalasafni er plagg, sem kunningi hans skrifaði í gamni um, hvar í flokki sextíu rithöfundar á landinu kynnu að standa í þingkosningunum 1953. Þá var þjóðin miklu fámennari og flokkaskipting afdráttarlausari en síðar tíðkaðist.

  1. Flestir rithöfundar voru taldir sjálfstæðismenn, átján, enda hafði höfundur plaggsins sennilega gleggstar upplýsingar um þá: Axel Thorsteinsson, Ármann Kr. Einarsson, Árni Óla, Davíð Stefánsson, Guðrún frá Lundi, Gunnar Gunnarsson (en við nafn hans stendur raunar „úfinn gegn öllum“), Halldór Sigurðsson (höfundarnafn: Gunnar Dal), Haraldur Á. Sigurðsson (höfundarnafn: Hans Klaufi), Helgi Hjörvar, Jakob Thorarensen, Jón Björnsson, Jón Thorarensen, Kristmann Guðmundsson, Margrét Jónsdóttir, Sigurður Grímsson, Sigurður Nordal, Tómas Guðmundsson og Þorsteinn Jónsson (höfundarnafn: Þórir Bergsson).
  2. Alþýðuflokksmenn voru samkvæmt listanum fimmtán: Bragi Sigurjónsson, Elínborg Lárusdóttir, Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum, Guðmundur Daníelsson, Guðmundur G. Hagalín, Helgi Sæmundsson, Jakob Jónsson, Jakob J. Smári, Óskar Aðalsteinn, Ragnheiður Jónsdóttir, Sigurður Einarsson í Holti, Sigurjón Jónsson, Stefán Júlíusson, Þórleifur Bjarnason og Þóroddur Guðmundsson frá Sandi.
  3. Fjórtán studdu að sögn Sósíalistaflokkinn: Elías Mar, Guðmundur Böðvarsson, Gunnar Benediktsson, Gunnar M. Magnúss, Halldór Helgason á Ásbjarnarstöðum, Halldór K. Laxness, Halldór Stefánsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján Bender, Magnús Ásgeirsson, Ólafur Jóh. Sigurðsson, Snorri Hjartarson, Stefán Jónsson og Þórbergur Þórðarson.
  4. Þjóðvarnarmenn voru átta: Agnar Þórðarson, Heiðrekur Guðmundsson, Jón Helgason ritstjóri (alnafni prófessorsins), Jón úr Vör, Kristján frá Djúpalæk, Sigurður Helgason, Steinn Steinarr og Þórunn Elfa Magnúsdóttir.
  5. Fæstir voru framsóknarmenn: Guðmundur Frímann, Guðmundur Ingi Kristjánsson, Guðrún Jónsdóttir frá Prestbakka, Indriði G. Þorsteinsson og Kári Tryggvason.

Þá vitum við það.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. október 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband