Er stórsagan dauð?

Fimmtudaginn 1. október sat ég fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar um notkun Sturlungu í samtíðardeilum. Hann endursagði þar það, sem hann kallaði endurskoðun stórsögunnar íslensku (grand narrative) á vegum „fræðasamfélagsins“: Hér hafi verið sældartími á þjóðveldisöld, sundrung og svik höfðingja hafi selt landið undir erlendan konung, þjóðin hafi síðan vaknað til vitundar um sjálfa sig, krafist sjálfstæðis og fengið eftir mikla baráttu, en eftir það hafi henni vegnað vel.

Guðni taldi allt þetta hafa verið dregið í efa eða jafnvel hrakið af sagnfræðingum okkar daga. Við hafi tekið margar smásögur, en um leið hafi samband sögunnar við stjórnmál og almenningsálit rofnað. Ég held að vísu, að stórsöguna þurfi að endurskoða, en á annan veg en Guðni telur (eða hefur eftir starfssystkinum sínum):

  • Þjóðveldið var enginn sældartími, en það var þó að mörgu leyti skárra en skipulagið á sama tíma í Evrópu, þar sem konungar kvöddu saman fjölmenna heri og börðust í blóðugum stríðum. Stofnanir Þjóðveldisins voru merkilegar tilraunir til réttarvörslu í höndum einkaaðila (goðorðin) og samtryggingar (hrepparnir), eins og David Friedman, Birgir Þór Runólfsson og Þráinn Eggertsson hafa sýnt fram á.
  • Það var alls ekki óumflýjanlegt, að Íslendingar játuðust undir Noregskonung 1262. Ekki gengu Svisslendingar á hönd Habsborgurum þrátt fyrir margar tilraunir Habsborgaranna til þess. Vilhjálmur frá Sabína hafði ekki rétt fyrir sér um það, að eitthvert náttúrulögmál segði Íslendingum að lúta konungum.
  • Hin raunverulegu mistök eða svik voru ef til vill ekki 1262, því að samningurinn við Noregskonung var um margt viðunandi. (Landið hélt áfram að stjórna sér sjálft furðulengi eftir það, þótt skattur væri goldinn til konungs. Hann stóð hins vegar illa við sinn hluta samningsins.) Hin raunverulegu mistök eða svik voru 1490, þegar landeigendastéttin sammæltist við konung um það, að landbúnaður yrði eini lögleyfði atvinnuvegur á Íslandi með Píningsdómi (og síðan bættist við einokunin danska). Enskum og þýskum kaupmönnum var smám saman bægt frá landinu, og það einangraðist og lokaðist inni í fátæktargildru.
  • Danska einokunarverslunin var í raun innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, sem heimtur var af fiskveiðum: Fiskur var með konunglegum tilskipunum verðlagður langt undir heimsmarkaðsverði, en landbúnaðarafurðir langt yfir því verði. Um þetta hafa þeir Gísli Gunnarsson og Þráinn Eggertsson skrifað margt merkilegt.
  • Íslendingum vegnar betur, þegar þeir stjórna sér sjálfir, en þegar aðrir stjórna þeim, eins og sagan sýnir. Ástæðan er einföld. Þeir eru kunnugri eigin högum en aðrir eru, hvort sem þeir eru í kansellíinu í Kaupmannahöfn eða skrifstofu Evrópusambandsins í Brüssel. Við erum um margt sérstæð þjóð, sem aðrir skilja illa.
  • Það er rétt, að fornmenn þekktu ekki þjóðarhugtakið, eins og það mótaðist á 19. öld. En þeir vissu vel af sjálfum sér sem Íslendingum, allt frá því að Sighvatur Þórðarson orti um íslensk augu og Íslendingar gerðu fyrsta milliríkjasamninginn við Norðmenn snemma á elleftu öld. Nánast frá öndverðu var til íslensk sjálfsvitund og samvitund: Við vorum aldrei Norðmenn, og við viljum ekki fremur en Grímur Thomsen læra belgísku.

Það þarf nýja stórsögu handa Íslendingum, ekki andlausa neðanmálsfræðinga nema auðvitað í neðanmálsgreinum. Það þarf lifandi skilning í stað dauðrar heilafylli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband