Sögðu Billinn og Sillinn ósatt?

_skuly_769_sfulltru_769_ar_komintern1920.jpgTveir kornungir Íslendingar sóttu annað heimsþing Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, í Moskvu sumarið 1920: Brynjólfur Bjarnason (kallaður Billinn í vinahóp) og Hendrik Siemsen Ottósson (Sillinn). Þingfulltrúar ætluðu sér ekkert smáræði: Þeir hugðust steypa stjórnum Vesturlanda á sama hátt og Lenín hafði haustið 1917 bylt lýðræðisstjórninni í Rússlandi, sem tekið hafði þá um vorið við af keisaranum.

Báðir áttu þeir Brynjólfur og Hendrik eftir að segja frá þinginu, Hendrik í bókinni Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands 1948, Brynjólfur í ræðum og viðtölum á gamals aldri. Báðir sögðust þeir hafa verið fulltrúar á þinginu, og kvað Hendrik þá hafa haft atkvæðisrétt og greitt atkvæði með ströngum inntökuskilyrðum í Alþjóðasambandið, sem þingið samþykkti. Eftir erindi Hendriks um kommúnisma á Íslandi hefði Lenín bent á aukið hernaðarlegt mikilvægi Íslands á Norður-Atlantshafi vegna flugvéla og kafbáta.

Í umsögn í tímaritinu Herðubreið sumarið 2012 um bók mína um kommúnistahreyfinguna íslensku vísar Pétur Tyrfingsson því á bug, að þeir Brynjólfur og Hendrik hefðu verið þingfulltrúar. Með ýmsum tilvísunum í gögn Kominterns hrakti ég það í næsta hefti Herðubreiðar og hefði ekki haft frekari áhyggjur af málinu, hefði ég ekki séð nýlega, að Jón Ólafsson heimspekingur tekur upp skoðun Péturs gagnrýnislaust í bókinni Appelsínum frá Abkazíu (bls. 383).

Rétt er, að Brynjólfur og Hendrik voru ekki á opinberum skrám um þingfulltrúa. En sumir þeir, sem voru sannanlega fulltrúar, voru þar ekki heldur, og sú skýring getur verið á þessu, að þeir félagar komu seint á þingið, enda hafði þingseta þeirra verið ákveðin í skyndingu.

Ýmis rök eru hins vegar fyrir því, að þeir Brynjólfur og Hendrik hafi sagt satt um setu sína á þinginu. Til dæmis sjást þeir á ljósmynd í bók eftir Willi Münzenberg 1930, og undir stendur „Die Jugend-Delegierten an 2. Kongress der Kommunistischen Internationale“, Ungir fulltrúar á 2. þingi Kominterns. Í annan stað segir í sögu Alþjóðasambands ungra kommúnista 1929 eftir Alfred Kurella (bls. 106), að framkvæmdastjórn sambandsins hafi sett sig í samband við „fulltrúana frá Íslandi“. Í þriðja lagi sést á gögnum þingsins, að Hendrik Ottósson var vissulega fenginn til að halda erindi fyrir framkvæmdastjórn Kominterns um Ísland.

Tvenn rök eru hugsanlega fyrir því að hafna frásögn Brynjólfs og Hendriks. Önnur eru, að þeir finnast ekki á opinberum skrám um þingfulltrúa. Hæpið er þó að meta þá staðreynd mikilvægari skýlausum vitnisburði þeirra tveggja og öðrum gögnum um, að þeir hafi verið taldir fulltrúar. Hin eru, að þeir voru kommúnistar, en slíkir menn séu kunnir að ósannsögli. Þau rök eru auðvitað sterkari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. september 2015. Myndin er af ungum fulltrúum á 2. þingi Kominterns, og standa Hendrik Ottósson og Brynjólfur Bjarnason efst til hægri. Willi Münzenberg, sem var leiðtogi Alþjóðasambands ungra kommúnista og einn helsti áróðursmeistari þeirra, situr fjórði frá hægri. Hann kom Halldóri Laxness til Rússlands 1932. Stalín lét myrða Münzenberg í skógi í Frakklandi 1940. Nánar er sagt frá örlögum fólksins á myndinni í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband