Stórkostleg handvömm Más Guðmundssonar

Már Guðmundsson var hagfræðingur Seðlabankans framan af þeim tíma, þegar ég sat í bankaráðinu, 2001–2009. Okkur kom vel saman, og ég hafði þá ekki nema gott eitt um hann að segja. Hann er gáfaður maður og vel að sér. Mér fannst hann alltaf efnislegur. Mjög var hins vegar raunalegt, hvernig ráðningu hans sem seðlabankastjóra bar að árið 2009: Jóhanna Sigurðardóttir samdi um hana við hann í laumi, á meðan tveir gegnir og rosknir sjálfstæðismenn voru gabbaðir til að vera í einhvers konar valnefnd um bankastjórastöðuna. Síðan hefur þrennt gerst, sem hvert um sig verður að teljast stórkostleg handvömm Más.

Hann höfðaði mál gegn bankanum vegna þess, að hann taldi sig ekki fá þau laun, sem honum bar samkvæmt samningnum við Jóhönnu. Þetta var auðvitað dómgreindarbrestur, ekki síst skömmu eftir bankahrun, þegar fjöldi fólks hafði misst vinnuna og mörg heimili voru að sligast undan skuldum. En Már bætti gráu ofan á svart með því að láta greiða sér eigin málskostnað (auk þess kostnaðar, sem bankinn bar af málarekstrinum)! Nam kostnaður bankans af þessu 7,4 milljónum króna. Þetta var annaðhvort ólöglegt eða nálægt því að vera ólöglegt. Breytir engu um málið, að þáverandi formaður bankaráðsins kaus að taka á sig sökina. Már tók fullan þátt í þessum ljóta eftirleik með því einu að þiggja greiðsluna.

Már fór mjög illa með veðið, sem Seðlabankinn hafði undir forystu þeirra Davíðs Oddssonar, Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar tekið í FIH banka gegn neyðarláni til Kaupþings, en vilji ríkisstjórnarinnar var að veita Kaupþingi þetta lán, og töldu bankastjórarnir þrír ekki stætt á öðru en fara eftir vilja hennar, enda var gjaldeyrisforðinn að miklu leyti lán, sem ríkissjóður hafði tekið. Már samdi við danska fjárfesta um, að þeir keyptu bankann, en þeir greiddu aðeins út lítinn hluta kaupverðsins. Frá afgangi kaupverðsins átti að draga tap á umsömdum tíma, og gerðu kaupendur bankans sér lítið fyrir og hlóðu öllu hugsanlegu tapi á þann tíma, sem samið hafði verið um. Eigið fé bankans er hins vegar lítt skert, og hefur Seðlabankinn tapað um sextíu milljörðum króna á þessu, en kaupendurnir, danskir auðjöfrar og lífeyrissjóðir, grætt nær þrefalt kaupverðið.

Framganga Más gagnvart Samherja á Akureyri, einhverju myndarlegasta fyrirtæki landsins, er síðan sérstakur kapítuli. Óðinn í Viðskiptablaðinu hefur greint það mál rækilega, sérstaklega margvísleg brot á eðlilegum rannsóknarreglum og réttarsjónarmiðum. Niðurstaða Óðins er: „Málið kallar á ýmsar aðgerðir innan Seðlabankans og að gripið verði til þeirra hið fyrsta. Rannsókn þarf að fara fram á því hvernig Kastljósi Ríkisútvarpsins var ljóst að húsleit ætti að fara fram áður. Fara þarf yfir starfsferla gjaldeyriseftirlitsins og þá röð ákvarðana sem leiddu til þess að starfsmenn Samherja hafa setið undir grun um lögbrot án þess að saksóknari telji sig geta sannað slíka sekt, sem og þær ákvarðanir sem lágu að baki Aserta-málinu, þar sem fjórir saklausir menn voru dregnir í gegnum svaðið að ósekju. Seðlabankinn og stjórnendur hans þurfa að axla ábyrgð á því sem gert hefur verið í stað þess að flýja þessa ábyrgð í sjónvarpsviðtölum.“

Sæti ég enn í bankaráði Seðlabankans, þá myndi ég svo sannarlega taka þessi þrjú mál upp þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband