Hvað sagði Gunnar við Hitler?

gunnar_hittir_hitler_1a_lille_1172715.jpgStríð skall á í Norðurálfunni 1. september 1939, þegar Hitler réðst inn í Pólland, eftir að þeir Stalín höfðu skipt nokkrum löndum mið- og austurhluta álfunnar leynilega á milli sín með griðasáttmála. Stalín átti samkvæmt sáttmálanum að hreppa Finnland, og réðst hann á það 30. nóvember. Einn þeirra mörgu Íslendinga, sem hafði óskipta samúð með Finnum, var Gunnar Gunnarsson skáld, sem hrifist hafði ungur af Norðurlandahugsjóninni. Gunnar var líka vinveittur Þýskalandi, jafnvel eftir að nasistar höfðu tekið þar völd, þótt hann væri sjálfur enginn nasisti. Fundust honum Þjóðverjar bregðast Finnum á ögurstund.

Gunnar fór á vegum Norræna félagsins þýska í fræga fyrirlestraferð um Þýskaland vorið 1940 og átti þá fundi með Jósep Göbbels og Adolf Hitler. Tvennum sögum fer af tilgangi ferðarinnar, sem var hin mesta svaðilför á slíkum hættutímum. Þór Whitehead heldur því fram í bókinni Milli vonar og ótta, að Gunnar hafi ekki síst viljað tala máli Finna í Þýskalandi. Halldór Guðmundsson telur hins vegar í ritinu Skáldalífum, að ferð Gunnars hafi aðallega verið farin til að kynna bækur hans og afla fjár. Ævisöguritari Gunnars, Jón Yngvi Jóhannsson, greinir frá báðum þessum skoðunum og segist fyrst hafa aðhyllst skoðun Halldórs og síðan Þórs, en bendir þó ekki á nein gögn því til stuðnings.

Áreiðanleg heimild styður hins vegar frásögn Þórs. Hún er minningabók Jóns Krabbes, sendiráðsritara Íslands í Kaupmannahöfn, sem kom út 1959. Jón hitti Gunnar Gunnarsson í Kaupmannahöfn á heimleið frá Þýskalandi. Kvað hann Gunnar ekki hafa átt frumkvæði að því, að Hitler kallaði hann á sinn fund, heldur Norræna félagið þýska (bls. 132). Fundurinn hefði að mestu leyti verið eintal Hitlers, en Gunnar hefði sagt nokkur orð til styrktar Finnlandi, sem væri bugað af árás Stalíns. Þá hefði Hitler gripið heiftúðlega fram í og sagt, að hann hefði boðið Finnlandi griðasáttmála, en því verið hafnað. Jón sagði Gunnar sjálfan hafa sagt sér þetta um samtal þeirra Hitlers.

Þótt Finnar hefðu vissulega nýlega gengið til samninga við Rússa, þegar Gunnar hitti loks Hitler, breytir það engu um, að einkum hefur vakað fyrir Gunnari með Þýskalandsförinni að tala máli Finna við Þjóðverja, eins og Þór Whitehead heldur fram.
 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. september 2015. Myndin er af Gunnari Gunnarssyni að koma af fundi Hitlers í kanslarahöllinni í Berlín 20. mars 1940.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband