Skýringin á velgengni íslenskra kommúnista

einarolgeirssonulbricht_copy.jpgSkafti Ingimarsson er eini vinstri sinnaði sagnfræðingurinn, sem gagnrýnt hefur málefnalega bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998, þótt sú gagnrýni sé aðallega fólgin í því að tilkynna mér, að ég hefði átt að skrifa bók um það, hvers vegna íslenskum kommúnistum vegnaði betur í kosningum en skoðanasystkinum þeirra í grannríkjunum, en ekki um hitt, að þeir hefðu verið nátengdir ofbeldisstjórnum kommúnistaríkja. En vissulega er ráðgáta, að íslenska kommúnistahreyfingin varð miklu öflugri en hliðstæðar hreyfingar á Bretlandi og í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ég hygg ekki, að verkalýðsbarátta íslenskra kommúnista sé skýringin, því að jafnaðarmenn ekki síður en kommúnistar stunduðu verkalýðsbaráttu í öllum þessum löndum. Þjóðfrelsisbarátta íslenskra kommúnista er ekki heldur skýringin á sókn þeirra 1937–1942, því að þá stunduðu þeir ekki slíka þjóðfrelsisbaráttu að ráði, þótt ef til vill hafi áköf andstaða þeirra við Bandaríkjamenn í Kalda stríðinu auðveldað þeim að halda þá velli þrátt fyrir fylgispektina við Kremlverja.

Eðlilegasti samanburðurinn er ekki við Bretland eða skandinavísku löndin þrjú, heldur við Finnland. Þar nutu kommúnistar eftir stríð svipaðs fylgis og á Íslandi, um 20% atkvæða, og þar bauð ekki fram sérstakur kommúnistaflokkur, heldur Lýðræðisbandalag, þar sem kommúnistar höfðu tögl og hagldir. Og hvað var líkt með Íslandi og Finnlandi og ólíkt með þessum löndum og hinum fjórum, Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi? Aðallega þrennt: Ísland og Finnland höfðu löngum verið undir yfirráðum annarra ríkja, hagkerfi þessara tveggja landa var í upphafi nútímastjórnmála skemmra á veg komið en á Bretlandi og í Skandinavíu og borgaralegt skipulag veikara. Með borgaralegu skipulagi á ég við hið þéttriðna net siða og venju, sem myndast á löngum tíma, kynslóð fram af kynslóð. Bretar og skandinavísku þjóðirnar þrjár stóðu á gömlum merg. Löghlýðni var þar rótgróin. Þar hafði almenningi smám saman lærst að stjórna sér sjálfum.

Byltingarseggir geta vænst miklu betri árangurs í tiltölulega nýjum ríkjum, þar sem örar breytingar hafa orðið og los er á fólki. Þessi skýringartilgáta styrkist af því að skoða önnur lönd Vestur-Evrópu, þar sem kommúnistar hafa notið verulegs fylgis, til dæmis Þýskaland milli stríða og Ítalíu eftir stríð. Þetta voru ný ríki með takmarkaða sjálfstjórnarhefð, eins og Ísland og Finnland. Frakkland kynni að þykja undantekning, en skýringin á talsverðu fylgi kommúnista þar er líklega svipaðs eðlis: vegna stjórnarbyltingarinnar 1789 höfðu stjórnmál þar aldrei komist í sömu föstu skorður og á Bretlandi og í skandínavísku löndunum þremur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. ágúst 2015. Myndin efst er af formanni Sósíalistaflokksins, Einari Olgeirssyni (lengst t. v. í öftustu röð), syngja Nallann með öðrum kommúnistaforingjum í Berlín 1957. Níkíta Khrústsjov er 2. frá v. í fremstu röð og Walter Ulbricht 3. frá v. Erich Mielke, forstöðumaður Stasi, hins illræmda öryggismálaráðuneytis Austur-Þýskalands, stendur lengst t. h. í þriðju röð. Frá Bundesarchiv 183 57000 0183.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband