Útgerðarmenn: Þjóðhetjur, ekki þjóðníðingar

skaftareldar_stor_310113.jpgFyrstu þúsund ár Íslandssögunnar voru stríð við eld og ís. Þjóðin varð að lifa af kostarýru landi, og í hverju eldgosi lögðust einhverjar byggðir í eyði. Hafís rak iðulega að landi með vorinu, kældi andrúmsloft, teppti siglingar og lokaði miðum. Fámenn landeigendastétt réð lögum og lofum: Um 90% jarða voru setnar fátækum leiguliðum í lok sautjándu aldar. Hinn erlendi konungur hafði sammælst um það við landeigendastéttina að halda sjávarútvegi niðri. Þetta var gert með ýmsum ráðum. Allt frá 1490 var útlendingum bannað að hafa hér vetursetu, en það kom í veg fyrir erlenda fjárfestingu í fiskveiðum og myndun sjávarþorpa. Með vistarbandinu var verkafólki meinað að fara úr sveitum. Einokunarverslunin danska 1602–1787 var eins konar innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, sem lagður var á sjávarútveg og færður til landbúnaðar: Í verðskrám konungs um íslenskan varning voru sjávarafurðir verðlagðar langt undir heimsmarkaðsverði, en landbúnaðarafurðir langt yfir því, en það jafngilti auðvitað millifærslu frá sjávarútvegi.

Í Móðuharðindunum 1783–1785 hrundi þetta óhagkvæma skipulag. Einokunarverslunin var lögð niður, þótt fullt verslunarfrelsi fengist ekki fyrr en 1855. Smám saman efldist sjávarútvegur. Árið 1876 var síðasta árið, þegar meira var flutt út af landbúnaðarafurðum en sjávarafurðum. Tíu árum síðar var Landsbankinn stofnaður, og fjármagn tók að hlaðast upp í landinu. Skútuöld gekk í garð, en áður höfðu Íslendingar sótt sjóinn á opnum árabátum. Sjávarþorp mynduðust, og framtakssamir einstaklingar eins og Ásgeir Ásgeirsson á Ísafirði og Pétur Thorsteinsson á Bíldudal veittu fjölda manns vinnu. Áður hafði fátækt fólk fallið úr hungri.

thorjensen.jpgFramfarir urðu enn örari á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, þegar vélbátar og togarar komu til sögu. Thor Jensen, sem fluttist hingað frá Danmörku, kvæntist íslenskri konu, skaut hér rótum og hefur verið kallaður síðasti landnámsmaðurinn, stofnaði 1912 togarafélagið Kveldúlf, sem var lengi eitt myndarlegasta fyrirtæki landsins. Þegar samningur, sem Danir höfðu gert við Breta um þriggja mílna landhelgi, rann út 1951, beitti sonur Thors Jensens, Ólafur Thors, sem þá var sjávarútvegsráðherra, sér fyrir fyrstu útfærslu landhelginnar. Fengu Íslendingar að lokum 200 mílna efnahagslögsögu viðurkennda. Nú þurftu Íslendingar ekki lengur að heyja stríð við eld og ís, heldur sóttu gull í greipar Ægis.

Eftir að Íslendingar öðluðust full yfirráð yfir Íslandsmiðum, rákust þeir hins vegar á þá staðreynd, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til sóunar. Þeir voru reynslunni ríkari, eftir að síldin brást vegna ofveiði árin 1967–1968. Þegar síldveiðar hófust aftur 1975, var kvótum úthlutað, og þeir urðu framseljanlegir fjórum áður síðar. Sambærilegt kerfi var tekið upp í botnfiskveiðum 1984, og var kvótum í upphafi úthlutað eftir aflareynslu til að raska sem minnst högum þeirra, sem þegar stunduðu veiðar. Með frjálsu framsali hafa þeir lent í höndum þeirra, sem best kunna með þá að fara. Íslenskir útgerðarmenn reyndust vandanum vaxnir. Hér eru fiskveiðar arðbærar, en víðast annars staðar reknar með tapi. Nú reynir fámenn menntamannastétt að níða niður sjávarútveg eins og fámenn landeigendastétt fyrri alda gerði. En útgerðarmenn eru ekki þjóðníðingar, eins og háværir öfundarmenn halda fram, heldur þjóðhetjur. Allir græða á því, að þeir græði.

kvotakerfid.jpg

(Kjallari í DV 25. ágúst 2015. Aðalheimildir: Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland (Örn og Örlygur, Reykjavík 1987; Þráinn Eggertsson: Hvers vegna sultu Íslendingar? í Háskalegum hagkerfum (Hið ísl. bókmennafélag, Reykjavík 2007); Hannes H. Gissurarson: Overfishing: The Icelandic Solution (Institute of Economic Affairs, London, 2000. Myndin af Skaftáreldum eftir Ásgrím Jónsson, myndin af skuttogara af vef Lagastofnunar Háskóla Íslands.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband